Hvað merkir „maður“?

Í fornu máli vísar orðið maður fyrst og fremst til karlmanna þótt vissulega séu ýmis dæmi um að konur felist í fleirtölunni menn. Í Ögmundar þætti dytts segir t.d. „Var Freyr jafnan fátalaður við aðra menn en konu sína“, í Þórðar sögu hreðu segir „Fátt hafði hann manna hjá sér utan konu sína“, í Fóstbræðra sögu segir „Þar var ekki inni manna nema konur einar“, í Þorsteins þætti uxafóts segir „Um daginn eftir er þeir voru úti staddir sáu þeir þrettán menn á skóginum og var eitt kona í“, og í Eyrbyggja sögu segir „Fóru menn þá upp á hlaðann, bæði karlar og konur“. En slík dæmi eru ekki mörg.

Eintalan maður getur líka vísað til konu þegar tilgreina þarf einn úr hópi sem hefur verið nefndur. Í Heiðarvíga sögu segir „Nú þykist hann eigi vita víst hvort kona er hinn þriðji maðurinn er hvítt er til höfuðsins að sjá“ og í Heimskringlu segir „Kona var hinn þriðji maður er þannug hafði sótt af Svíþjóðu austan“. Fyrir utan þetta eru þess fá dæmi að eintalan vísi til konu. Það er sláandi að í þau tæp 500 skipti sem persóna er kynnt til sögu með maður hét X eða maður er nefndur X er ævinlega um karlmann að ræða. Konur eru kynntar með kona hét X eða kona er nefnd X, en þau dæmi eru bara kringum 20 – þetta eru karlabókmenntir.

Stundum er því haldið fram að notkun orðsins maður í beinni andstöðu við kona sé tiltölulega nýtilkomin en það er ekki rétt. Slík dæmi eru vissulega fá í fornsögum en í Sturlungu segir þó t.d. „Þá var beitt útgöngu konum og þeim mönnum er eigi voru sakar við“. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 eru nokkur dæmi, m.a. „hann gjörði það að vera skyldi maður og kona“, „skírðust bæði menn og konur“, o.fl. Fáein dæmi eru síðan frá 17. öld og allmörg frá 18. öld, t.d. úr verkum Eggerts Ólafssonar sem segir t.d. í brúðkaupssiðabók sinni: „jafnan sitji hér tvennt til samans, maður  og kona“. Á 19. öld verður þetta svo mjög algengt.

Það er ljóst að þrátt fyrir að orðið maður hafi vitaskuld líka almenna merkingu tengist það karlmönnum mjög nánum böndum. Í því ljósi ætti ekki að þurfa að koma á óvart að margar konur og kynsegin fólk tengi sig ekki við það orð eða samsetningar af því. Það er líka löng hefð fyrir starfsheitum þar sem orð sem endar á -maður er notað um karlmenn en orð sem endar á -kona um konur. Í bændasamfélaginu var skýr munur á vinnumönnum og vinnukonum, kaupamönnum og kaupakonum. Þegar farið var að stofna verkalýðsfélög voru karlarnir í verkamannafélögum, konurnar í verkakvennafélögum. Svo mætti lengi telja.

Vitanlega er líka fjöldi starfsheita sem enda á -maður notaður um bæði karla og konur. Oft stafar það af því að framan af gegndu einungis karlmenn þessum störfum – voru alþingismenn, iðnaðarmenn, stýrimenn, flugmenn og svo mætti lengi telja. Þegar konur fóru að sinna þessum störfum var starfsheitið orðið fast í málinu og breyttist ekki – öfugt við það sem gerðist þegar karlar fóru að sinna hefðbundnum kvennastörfum. Þeir voru þá ekki hjúkrunarkonur eða flugfreyjur, heldur hjúkrunarmenn og flugþjónar, og þeir fáu karlmenn sem hafa fengist við að taka á móti börnum voru nefndir ljósfeður – ekki ljósmæður.

Það hefur verið amast við því að orð sem enda á -fólk séu notuð í stað orða með -maður. Það er samt löng hefð fyrir því að tala um verkafólk og verslunarfólk, og þótt orðin iðnaðarfólk og sjófólk hljómi kannski ókunnuglega eru þau bæði síðan á 19. öld og voru nokkuð notuð þá. Það eru yfir 600 dæmi um björgunarfólk á tímarit.is, þau elstu nærri 90 ára gömul, og nærri 2000 dæmi um hestafólk, þau elstu meira en 60 ára gömul. Á 19. öld og langt fram eftir þeirri 20. var iðulega talað um landsfólk. Auðvitað er ekkert að þessum orðum – þetta eru rétt mynduð íslensk orð. Við erum kannski ekki vön þeim – en við getum vanist þeim.

Í Fréttablaðinu í gær er haft eftir Guðrúnu Þórhallsdóttur: „Það væri algerlega rangt að gefa út íslenska orðabók þar sem orð sem enda á -maður væru eingöngu sögð vísa til karla. Það væri einfaldlega ekki í samræmi við íslensku og þar væru lesandanum gefnar rangar upplýsingar.“ Þetta er vitanlega rétt – orðabækur eiga að vera lýsandi, ekki stýrandi. En eins og ég hef oft sagt er það ekki uppruni, orðabókaskýringar, eða fyrirmæli sem ákvarðar merkingu orða. Orð hafa þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim. Ef málsamfélagið er ósátt við þau orð sem eru í notkun kemur það með ný orð. Þannig hefur það alltaf verið – og þannig á það að vera.