sitthvor

Fornöfnin hvor og sinn tengjast oft nánum böndum, eru eiginlega eitt tvíyrt fornafn þar sem hvor sambeygist orðinu sem það vísar til en sinn sambeygist orðinu sem það stendur með. Stundum er greint á milli tvenns konar merkingar sambandsins eftir því í hvaða röð orðin standa. Þegar hvor er á undan er talað um eignarmerkingu – „Fóru þá hvorir til skipa sinna“ segir í Heimskringlu. Sé sinn á undan er talað um dreifimerkingu eða deilimerkingu – „Gestur Oddleifsson fór vestan af Barðaströnd og Þorkell Súrsson á sínu skipi hvor þeirra“ segir í Gísla sögu. Í fyrra tilvikinu eiga menn þau skip sem um er að ræða, en í seinna tilvikinu er ekki vísað til eignarhalds, heldur aðeins átt við að þeir fóru ekki á sama skipi.

Þessi greinarmunur er oftast gerður í fornu máli. Í nútímamáli er munurinn líklega flestum málnotendum framandi og báðar raðirnar notaðar í báðum merkingum. Einnig kemur fyrir að hlutverkum sé víxlað þannig að sinn sambeygist orðinu sem það vísar til en hvor orðinu sem það stendur með. Í kverinu Gætum tungunnar segir: „Ekki mun talið rangt að segja: Þeir fóru sinn í hvora áttina. En best færi: Þeir fóru í sína áttina hvor.“ Í Málfarsbankanum segir: „Orðin hvor og sinn eiga ekki að beygjast saman. Bræðurnir komu hvor á sínum bílnum (ekki: „bræðurnir komu á sitthvorum bílnum“). Börnin hlupu sitt í hvora áttina (ekki: „börnin hlupu í sitthvora áttina“).“

Eins og þessi dæmi benda til renna fornöfnin iðulega saman í eitt – sitthvor. Þessi samruni er mjög algengur – hátt í fimm þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1914. Dæmum fer þó ekki að fjölga að ráði fyrr en eftir 1980, og í Risamálheildinni eru rúm fimm þúsund dæmi. Þegar fornöfnin renna saman í eitt orð er algengast að aðeins seinni hlutinn beygist og hvorugkynsmyndin sitt sé notuð í fyrri hlutanum – þeir / þær / þau eiga sitthvorn bílinn. En einnig er til að fyrri hlutinn taki kynbeygingu – þeir eiga sinnhvorn bílinn / þær eiga sínhvorn bílinn. Þetta er þó mjög sjaldgæft, og dæmum um sinnhvor og sínhvor virðist fara fækkandi – eru tæp 5% af heildinni á tímarit.is en innan við 1% í Risamálheildinni.

En fleiri tilbrigði má finna af þessu sambandi eins og sjá má af næstelsta dæminu um sitthvor sem er úr Iðunni 1919, í grein eftir Ágúst H. Bjarnason prófessor: „En persónugervingar þessir voru svo ólíkir af því, að sitthvort heilakerfið starfaði í sitt hvort sinnið og sitt með hverjum hætti.“ Þarna eru báðir hlutar sambandsins tvíteknir og annar stendur þar sem sinn ætti að vera en hinn þar sem hvor ætti að vera  – hefðbundið mál væri sitt heilakerfið stafaði í hvort sinnið. Nokkur dæmi eru um þetta í Risamálheildinni, t.d. „Halldór segir það vera sérstakt að sitthvor ráðherrann sé með sitthvora stefnuna en þó í sömu ríkisstjórninni“.

Þótt myndin sitthvor njóti ekki fullrar viðurkenningar hefur hún komist inn í orðabækur og kennslubækur – fyrst í bók Jóns Hilmars Jónssonar, Islandsk grammatikk for utlendinger, árið 1984 þar sem hún er nefnd án nokkurra athugasemda. Í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 eru myndirnar sinnhvor, sínhvor og sitthvor þrjár sjálfstæðar flettur – sú fyrstnefnda merkt sem óformlegt mál en hinar sem mál sem nýtur ekki fullrar viðurkenningar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er aðeins sitthvor gefið og sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. En í ljósi aldurs og tíðni orðsins sitthvor er kominn tími til að viðurkenna það að fullu sem eðlilegt og rétt mál.