Fyrir löngu síðan

Atviksorðið síðan er iðulega notað með forsetningunni fyrir í ýmsum samböndum sem vísa til tíma – fyrir löngu síðan, fyrir mörgum árum síðan, fyrir tveimur dögum síðan o.s.frv. Þessi sambönd eru gömul í málinu – hafa tíðkast a.m.k. síðan á 18. öld. Þrátt fyrir það er oft amast við þeim og Málfarsbankinn segir t.d.: „Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.“ Ástæðan fyrir andstöðu við við síðan í þessum samböndum er sögð sú að það sé komið úr dönsku, t.d. for mange år siden, og „óíslenzkulegt“ og því „ekki nothæft orðalag í vönduðu íslenzku máli“.

Langt er síðan farið var að amast við þessu. Jón Þórarinsson segir í Skólablaðinu 1909: „Fyrir skömmu, fyrir löngu, fyrir öndverðu o.s.frv. – er íslenska, góð og gild. En nú er farið að segja: fyrir skömmu síðan, fyrir löngu síðan; og þá að líkindum: fyrir öndverðu síðan. Þetta er Danska eða Dönsku-sletta. Kennararnir eru að basla við að þvo hana af móðurmálinu okkar og í heimahúsum er varað við þessu mállýti; en hinn lærði Doktor, Jón Þorkelsson segir í ræðu á þjóðminningardegi Reykvíkinga: »Fyrir frekum mannsaldri síðan var allur þorri húsa hjer svartur fyrir tjöru, og bærinn yfrleitt ófagur.« Þetta Danska »síðan« skartar illa innan um fornyrðin og þá ómenguðu íslensku, sem Doktornum annars er svo töm.“

Þessi notkun síðan kemur ekki fyrir í fornu máli og það er örugglega rétt að hún er komin úr dönsku, en hún er samt skiljanleg og eðlileg út frá öðrum íslenskum orðasamböndum. Við segjum það er langt síðan, það eru mörg ár síðan o.s.frv., og þar er ekki hægt að sleppa síðan. Aldrei er amast við slíkum samböndum svo að ég viti, þrátt fyrir að þau komi ekki heldur fyrir í fornu máli, og þrátt fyrir að þau eigi sér einnig hliðstæður í dönsku – det er længe siden, det er mange år siden o.s.frv. Vissulega má til sanns vegar færa að síðan sé „óþarft“ í samböndum með fyrir, en það er óskaplega varasamt að tala um „óþörf“ orð. Orðið síðan er auðvitað rammíslenskt, og áðurnefnd sambönd með því hafa fyrir löngu síðan unnið sér hefð.

Hvorki danskur uppruni né meint „þarfleysi“ orðsins breytir neinu um það. Á tímarit.is er á áttunda þúsund dæma um fyrir löngu síðan og 32 þúsund dæmi um fyrir x árum síðan. Það væri fráleitt að ætla sér að útrýma þessum samböndum úr málinu. Vitanlega er líka hægt að sleppa síðan, og oft gert, og vitanlega getur sumum fundist fara betur á því (hvort sem það er upprunaleg máltilfinning eða runnið frá því sem fólki hefur verið kennt). En aðalatriðið er að það eru engin rök fyrir því að fyrir löngu, fyrir fjórum árum o.s.frv. sé á einhvern hátt réttara eða vandaðra mál en fyrir löngu síðan, fyrir fjórum árum síðan o.s.frv. Hvort tveggja er góð og gild íslenska og hefur verið það lengi.