Fyrir löngu síðan

Notkun orðsins síðan með forsetningunni fyrir í ýmsum samböndum sem vísa til tíma er vel þekkt umfjöllunarefni í málfarsumræðu og tekin fyrir í Málfarsbankanum þar sem segir: „Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.“ Auk þessa er oft amast við síðan í þessum samböndum á þeim forsendum að sú notkun sé komin úr dönsku og sé þess vegna „ekki nothæft orðalag í vönduðu íslenzku máli“.

Það er sjálfsagt rétt að þessi notkun síðan sé komin úr dönsku, en það sama má segja um mikinn fjölda orða og orðasambanda í málinu. Ef ætti að útrýma því öllu yrði málið æði miklu fátæklegra. Vissulega má halda því fram að síðan sé „óþarft“ í áðurnefndum samböndum. En það er óskaplega varasamt að tala um „óþörf“ orð. Það má til dæmis segja að sé „óþarft“ í samtengingum eins og því að, þó að og svo að – það er alveg jafn skýrt að segja bara því, þó og svo. Samt segir í Málfarsbankanum: „Aftur á móti eiga tengingarnar: því að, þó að, svo að ávallt vel við og hafa verið taldar vandaðra mál en „því“, „þó“, „svo“.“

Orðið síðan er auðvitað rammíslenskt, og áðurnefnd sambönd með því hafa verið algeng í málinu a.m.k. síðan á 18. öld og hafa því fyrir löngu síðan unnið sér hefð. Hvorki danskur uppruni né meint „þarfleysi“ orðsins breytir neinu um það. Vitanlega er líka hægt að sleppa síðan, og vitanlega getur sumum fundist fara betur á því (hvort sem það er upprunaleg máltilfinning eða runnið frá því sem fólki hefur verið kennt). En aðalatriðið er að það er algerlega fráleitt að halda því fram að fyrir löngu, fyrir fjórum árum o.s.frv. sé á einhvern hátt réttara eða vandaðra mál en fyrir löngu síðan, fyrir fjórum árum síðan o.s.frv. Fyrir slíku eru engin rök.