Beljur

Árið 1965 byrjaði Mjólkursamlag KEA með nýjar 10 lítra mjólkurumbúðir. Þetta voru plastpokar með þartilgerðum krana og pappakassi utan um. Umbúðirnar voru kallaðar mjólkurkassar og voru fljótlega teknar upp hjá fleiri mjólkursamlögum, t.d. í Skagafirði 1967. Þegar ég kom í MA haustið 1971 drukku flestir í mötuneyti heimavistarinnar mjólk með mat og á afgreiðsluborðinu stóðu mjólkurkassar í röðum (og voru óspart nýttir til að hrekkja busa sem ekki kunnu á þessa tegund mjólkurumbúða, en það er önnur saga).


Þarna lærði ég að kalla mjólkurkassana beljur sem lá auðvitað beint við. Ég veit ekki hvort þetta heiti var upprunnið þarna í mötuneytinu en það gæti svo sem vel verið – a.m.k. hafði ég aldrei heyrt það í Skagafirði. Allnokkrum árum seinna var farið að selja léttvín í svipuðum umbúðum. Kassarnir eru að vísu minni og kranarnir svolítið öðruvísi en í grundvallaratriðum er þetta sama sýstem. Það er þess vegna engin furða að belju-heitið hafi færst yfir á kassavínið. Elsta dæmi um kassavín á tímarit.is er frá 1992, en dæmi um beljuvín og belju af rauðvíni eru frá 1996 (með „belju“ í gæsalöppum).

Ég get svo sem ekki fullyrt að þetta sé uppruni þess að tala um belju af víni og beljuvín en mér finnst það langlíklegast. Sé sú tilgáta rétt er þetta skemmtilegt dæmi um það hvernig fullkomlega gagnsæ og eðlileg orðmyndun og orðanotkun þróast og verður ógagnsæ – og óskiljanleg ef maður þekkir ekki söguna. Ef mjólkurkassarnir hefðu aldrei verið til, og verið kallaðir beljur, er óvíst og raunar ólíklegt að nokkrum hefði dottið í hug að taka belju-nafnið upp fyrir kassavín. En vegna þess að fólk mundi eftir mjólkurkössunum og líkindin voru augljós lá þetta heiti beint við.