Málfarsleg sjálfhverfni

Íslensk málsaga spannar a.m.k. þúsund ár – og jafnvel allt að sex þúsund ef við miðum við rekjanlega sögu allt aftur til indóevrópska frummálsins. Allan þann tíma hefur málið verið að breytast – stundum mikið og stundum minna, en aldrei staðnað. En við horfum venjulega á tungumálið gegnum örlítinn glugga sem sjaldnast nær yfir meira en svona 15-20 ár, frá upphafi máltöku okkar og til fullorðinsára. Hugmyndir okkar um hvernig íslenskan , og eigi að vera, miðast að mestu leyti við hvernig málið var í umhverfi okkar – eða hvernig okkur var kennt að það ætti að vera – á þessum tíma.

Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt og er ekki bundið við Ísland – svona er þetta víðast hvar. Það er ekki við því að búast að venjulegir málnotendur þekki öll tilbrigði málsins í tíma og rúmi. En það er hætta á að þessi litli gluggi geri okkur þröngsýn og lítt umburðarlynd gagnvart margs kyns tilbrigðum og breytileika í máli, bæði nýjungum sem eru að koma upp og einnig eldri tilbrigðum sem við höfum ekki alist upp við, eða okkur hefur verið kennt að séu röng. Það er slæmt, því að málið nærist á fjölbreytni og nýsköpun. Það verður að fá svigrúm til að breytast – annars koðnar það niður.

Þess vegna er svo mikilvægt að við ræktum með okkur umburðarlyndi gagnvart ýmsum tilbrigðum í máli, gagnvart annars konar íslensku en þeirri sem við ólumst upp við. Það þýðir ekki að við eigum að breyta máli okkar sjálfra til samræmis við ný tilbrigði. Það þýðir ekki heldur að við megum ekki láta ýmsar nýjungar í máli pirra okkur. Það þýðir ekki heldur að við megum ekki vekja athygli á því þegar brugðið er út af málhefð. En það þýðir að við þurfum að átta okkur á því að við eigum íslenskuna öll saman, líka unga fólkið og þau sem eru að læra málið, og okkar íslenska er ekki betri eða réttari en annarra. Íslenska er alls konar.