Að nota og notast við

Hér hefur oftsinnis verið rætt um merkingarbreytingu sem hefur orðið á sambandinu notast við um áhald, aðferð o.fl. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'gera sér að góðu að brúka e-ð (lélegt eða óheppilegt)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er notast við <áhaldið> skýrt 'nota áhaldið (sem heldur lakari kost)'. Aftur á móti er sögnin nota hlutlaus – með notkun hennar er ekki tekin afstaða til þess hversu heppilegt viðkomandi áhald eða aðferð er. En þetta hefur verið að breytast og notast við er nú oft notað í hlutlausri merkingu. Það er óheppilegt vegna þess að oft getur komið sér vel að geta gert þann greinarmun sem var á nota og notast við, og þetta getur oft valdið misskilningi hjá þeim sem hafa alist upp við hefðbundna merkingu notast við.

Það er erfitt að negla nákvæmlega niður hvenær merking notast við fór að breytast, m.a. vegna þess að samhengið dugir ekki alltaf til að sýna ótvírætt hver hugur mælanda eða höfundar er til þess sem um er rætt. Í Morgunblaðinu 2020 segir t.d.: „Hugmyndin var sú fyrst maður var að fara að brugga fyrir norðan að notast við einhverja norðlenska vöru.“ Hefur sambandið notast við hlutlausa merkingu þarna, eða þýðir þetta að norðlenska varan sé talinn síðri kostur en annað? Það er kannski ekki trúlegt. Stundum er þó augljóst að um hlutlausa merkingu er að ræða, eins og í Fréttablaðinu 2020: „Eingöngu er notast við fyrsta flokks efni bæði innan og utandyra.“ Varla er ástæða til að ætla að notkun fyrsta flokks efnis sé eitthvert neyðarbrauð.

Lausleg athugun bendir til þess að notkun sambandsins notast við fari að breytast á níunda áratugnum – þá fara að sjást stöku dæmi þar sem sambandið virðist ekki hafa neina neikvæða vísun. Þessi dæmi eru þó fá framan af, en frá því um aldamót virðist verulegur hluti dæma um notast við hafa hlutlausa merkingu. Forsendan fyrir því að þetta gat breyst er sú sem að framan greinir, þ.e. oft er ekki hægt að átta sig á þeirri merkingu sem notandi sambandsins leggur í það og því hægt að skilja það á annan hátt en lagt var upp með. En þetta er bara forsenda fyrir því að breytingin gat átt sér stað, ekki skýring á því hvers vegna hún varð í raun og veru. Ástæðuna kann ég ekki að skýra – en þótt þetta sé óheppilegt verður því varla snúið við héðan af.

Tóft og tótt

Hér hefur í dag skapast umræða um framburð orðsins tóft sem einnig má skrifa tótt samkvæmt Íslenskri stafsetningarorðabók. Málfarsbankinn segir líka „Bæði er til orðið tóft og tótt. Hið fyrra er líklega eldra“ og í Íslenskri orðsifjabók segir að í nútímamáli „þekkist orðmyndin tótt (tt samlögun úr ft)“. Þetta er sem sé upphaflega sama orðið en myndin tótt hefur þó að nokkru öðlast sjálfstætt líf, sem sjá má af því að hún fær oft myndina tættur í nefnifalli og þolfalli fleirtölu þótt tóft alltaf tóftir. Sú fleirtala kemur m.a. fyrir í elstu þekktu dæmum um þessa mynd orðsins, frá því um eða fyrir 1700: „ítem er þar í Sandfellslandi tættur nokkurar, sem kirkja skyldi staðið hafa“ og „þar hefur til forna verið staður og sjást enn nú hæglega tætturnar“.

Fram til 1900 eru tæplega 550 dæmi um tóft og aðrar myndir með ft á tímarit.is en litlu færri, rúmlega 500, um tótt og aðrar myndir með tt. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er myndin tóft gefin og hljóðrituð [touht, toufˑt], þ.e. tótt er talið aðalframburðurinn og það er því ljóst að rithátturinn tóft táknar ekki að orðið hafi verið borið fram með ft. Myndin tóft er hins vegar ekki skýrð heldur vísað á tótt sem er því talin aðalritmyndin og sú mynd er eingöngu hljóðrituð [touht]. Í samsetningunni tótta(r)brot er eingöngu gefinn rithátturinn með tt og framburður með ft ekki nefndur. Það er því ljóst að fyrir hundrað árum var framburðurinn tótt yfirgnæfandi og ekki verður séð að nokkur landshlutamunur hafi verið á framburði.

En fyrir hundrað árum þegar meginhluti þjóðarinnar bjó í sveit þekkti fólk tóftir yfirleitt af eigin raun. Orðið hefur því verið algengt í talmáli og fólk kynnst því þar. Þetta er auðvitað gerbreytt og viðbúið að stór hluti þeirra sem þekkja orðið á annað borð hafi fyrst kynnst því á prenti, þar sem myndir með ft hafa verið mun algengari á síðustu hundrað árum. Samfara aukinni stafsetningarkennslu veldur þetta því að búast má við því að áhrif ritháttarins á framburðinn séu miklu meiri en fyrir hundrað árum og því er trúlega mun algengara en áður að þarna sé borið fram ft. Það kom líka fram í umræðu um þetta að mörg þeirra sem tóku þátt í henni telja sig bera fram tóft með ft, og þekkja það úr umhverfi sínu og vera alin upp við það.

Það er vissulega vel hugsanlegt, en hins vegar er alþekkt að fólk er mjög ótraust heimild um sinn eigin framburð, einkum ef það hefur ekki lært neina hljóðfræði. Stafsetningin hefur mjög oft áhrif á það hvernig fólk telur framburð sinn vera. Samlögunin ft > tt er eðlileg og algeng í sumum orðum eins og aftan sem oft verður attan í framburði þótt sú samlögun komi sjaldan fram í stafsetningu (nema helst í orðinu attaníossi sem er dæmigert talmálsorð). Vitanlega get ég ekkert fullyrt um framburð fólks sem ég þekki ekki og hvorki get né vil rengja þau sem telja sig bera fram ft en mig grunar samt að sum þeirra beri fram tótt án þess að gera sér grein fyrir því. Hvað sem því líður er skemmtilegt að velta fyrir sér þessum tilbrigðum.

Utankjörfundur og utandeild

Í dag sá ég í færslu á Facebook: „Fór í dag á utankjörfund að kjósa nýjan forseta!“ Það minnti mig á að einu sinni skrifaði ég um orðið utankjörfundur sem er stórundarlegt orð ef út í það er farið. Orðið er stytting á utankjörfundaratkvæðagreiðsla sem merkir 'atkvæðagreiðsla utan kjörfundar' og utankjörfundur er því „órökrétt“ – þetta er einmitt alls ekki kjörfundur. Til að átta sig betur á þessu er nauðsynlegt að skoða aðrar margliða samsetningar með utan- sem fyrsta lið, sem eru fjölmargar í málinu – utanborðsmótor, utanbókarlærdómur, utanbæjarmaður, utanflokksfólk, utangarðsmaður, utanhússmálning, utanlandsflug, utanlegsfóstur, utanríkismál, utanskólanemandi, utanvegaakstur, utanþingsstjórn og margar fleiri.

Meginskilin í orðunum eru ekki á eftir utan-, heldur á eftir næsta lið – ekki utan-borðsmótor heldur utanborðs-mótor ('mótor utan borðs'), ekki utan-hússmálning heldur utanhúss-málning ('málning til nota utan húss'), ekki utan-skólanemandi heldur utanskóla-nemandi ('nemandi utan skóla') o.s.frv. Í Ritreglum segir: „Valfrjálst er hvort nokkur orð eða orðasambönd með atviksorði og nafnorði í eignarfalli eru rituð í einu eða tveimur orðum. Ef orðasambandið er hluti af frekari samsetningu eru öll orðin ávallt rituð sem ein heild.“ Sem dæmi eru m.a. tekin samböndin utan borðs, utan húss og utan skóla sem einnig má rita utanborðs, utanhúss og utanskóla – en utanborðsmótor, utanhússmálning og utanskólanemandi eru rituð í einu orði.

Þarna er vissulega verið að tala um stafsetningu en ég held að hún falli að máltilfinningu fólks – við getum skynjað utan + nafnorð í eignarfalli ýmist sem eitt orð eða tvö en þegar annað nafnorð kemur á eftir skynjum við þetta sem eina heild. Þótt utanborðsmótor, utanhússmálning, utanskólanemandi o.s.frv. líti út eins og dæmigerðar eignarfallssamsetningar getur fyrri hlutinn, utan- + nafnorð, yfirleitt ekki verið sjálfstætt nafnorð. Orðin *utanborð, *utanbók, *utanbær, *utanflokkur, *utangarður, *utanhús, *utanland, *utanleg, *utanríki, *utanskóli, *utanvegur og *utanþing eru ekki til. Ef litið er á utan + nafnorð sem eitt orð í dæmum eins og utanborðs, utanhúss og utanskóla hljóta þetta að vera atviksorð, og þannig eru þau greind í orðabókum.

Samt sem áður er það auðvitað þannig að orð eins og utanborðsmótor, utanhússmálning og utanskólanemandi líta út eins og dæmigerðar samsetningar sjálfstæðra orða og þess vegna væri ekkert undarlegt ef málnotendur skynjuðu þau þannig og færu að nota fyrri hlutann sem nafnorð. Það er einmitt það sem hefur gerst með samsetninguna utankjörfundaratkvæðagreiðsla sem er a.m.k. 90 ára gamalt – þar er fyrri liðurinn, utankjörfundar-, skynjaður sem nafnorð í eignarfalli og farið með hann sem slíkan. Þannig verður orðið utankjörfundur til – elsta dæmi um það er í fyrirsögn í Fréttablaðinu 2002: „Utankjörfundur: Ríflega 1.900 manns hafa kosið.“ Ljóst er að orðið er notað í sömu merkingu og utankjörfundaratkvæðagreiðsla.

Þótt slík endurtúlkun fyrri liðarins í samsetningum af þessu tagi sé ekki algeng er þetta ekki einsdæmi. Í knattspyrnu og fleiri greinum hefur lengi verið talað um utandeildarlið, þ.e. lið sem tekur ekki þátt í deildarkeppni í viðkomandi íþróttagrein – elstu dæmi um það orð eru fimmtíu ára gömul. Um 1990 var svo farið að skipuleggja sérstaka keppni fyrir þessi lið sem eðlilega hét utandeildarkeppni, og upp úr því fara að sjást dæmi um orðið utandeild. Í DV 1992 er fyrirsögnin „Úrslit í utandeild karla“. Í Íþróttablaðinu 1994 segir: „Liðin í neðri deildunum eru alltaf að styrkjast og utandeildin hefur að mörgu leyti tekið skussastimpilinn af 4. deildinni.“ Orðið er nú mjög algengt – hátt í tvö þúsund dæmi eru um utandeild í Risamálheildinni.

Rétt eins og utankjörfundur er upphaflega stytting á utankjörfundaratkvæðagreiðsla og hefur sömu merkingu er utandeild upphaflega stytting á utandeildarkeppni og hefur sömu merkingu. Sameiginlegt þessum orðum er að þau hefðu varla orðið til nema á þennan hátt – engum hefði dottið í hug að búa til samsetningarnar utan+kjörfundur og utan+deild „frá grunni“ ef svo má segja og þau eru í raun óskiljanleg nema út frá þessum uppruna. En um leið og þau komast í einhverja notkun hættir uppruninn að skipta máli og við hugsum ekkert út í hann – þetta eru þá bara eins og hver önnur orð sem lifa sínu sjálfstæða lífi, óháð upprunanum. Hvorugt orðið hefur þó komist í orðabækur en þetta eru gagnleg orð sem eiga fullt erindi í málinu.

Hópun

Í dag var hér spurt hvað fólki fyndist um orði hópun sem notað var í íþróttafréttum í Ríkisútvarpinu í hádeginu – sagt var „UEFA vill með þessu minnka hópun að dómurum“ – þ.e. þegar leikmenn hópast að dómara meðan á leik stendur, yfirleitt til að koma á framfæri mótmælum við einhverjar ákvarðanir hans. Nafnorðið hópun er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en er hins vegar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og skýrt þar 'Opdyngen, Sammenhoben' – dynge op merkir 'hrúga upp, safna saman' og Sammenhobning merkir 'samsöfnun'. Auk þess er orðið að finna í Tölvuorðasafninu og íðorðasafninu Hugbúnaðarþýðingar í Íðorðabankanum sem þýðingu á enska orðinu grouping.

Elsta dæmi um orðið hópun er í Frey 1931: „Hópun fólksins í kaupstaðina hefir orðið of ör.“ Annað dæmi frá sama ári er í Lögréttu: „Að hætta að lána út á fiskinn í sjónum, svo að það þurfi ekki lengur að stuðla að hópun fólks við sjávarsíðuna.“ Í Skutli 1941 segir: „Um hópun þurra staðreynda hefir höfundurinn sýnt smekkvísi og hófsemi.“ Í Morgunblaðinu 1964 segir: „Þetta verður auðveldast að útskýra með því að taka sem dæmi hin nánu tengsl milli mikillar hópunar síldarinnar og mikils sjávarshita.“ Í Náttúrufræðingnum 1988 segir: „Árið 1983 benti Kristján á að þessi hópun sprungna og gosstöðva í ákveðnar reinar hefði komið fram á korti Guðmundar G. Bárðarsonar.“ Á tímarit.is má finna tæplega tuttugu dæmi um orðið, þar af eitt frá þessri öld.

Notkun orðsins virðist ekki fara vaxandi – dæmin um það í Risamálheildinni eru aðeins fjögur, öll af samfélagsmiðlum. Dæmin eru svo fá, dreifð yfir svo langan tíma, og svo fjölbreytt, að litlar líkur eru á að einn notandi hafi orðið eftir öðrum. Mun líklegra er að það hafi í raun verið „búið til“ margsinnis – notendur hafi þurft á orði með ákveðna merkingu að halda og búið slíkt orð til á staðnum. Viðskeytið -un sem bætt er við stofn sagnar og táknar 'það að gera' það sem í sögninni felst er eitt frjóasta viðskeyti málsins. Það er jafnframt yfirleitt fullkomlega gangsætt, þannig að ef við heyrum eða sjáum nýtt orð myndað með því erum við yfirleitt ekki í neinum vafa um merkingu þess, svo framarlega sem við þekkjum sögnina sem það er myndað af.

Þess vegna geri ég ráð fyrir að öllum sem heyrðu íþróttafréttirnar í hádeginu hafi strax verið ljóst hvað hópun merkti þar, enda þótt fæst hafi sennilega þekkt orðið áður. Það er hins vegar athyglisvert að í skrifaðri gerð fréttarinnar á vef Ríkisútvarpsins er orðið hópun ekki notað –  samsvarandi setning er þar: „UEFA ætlar að gera tilraun til að taka á hópamyndum og mótmælum við dómara á EM í Þýskalandi í sumar.“ Nú er svo sem algengt að skrifuð gerð fréttar sé frábrugðin þeirri sem er lesin upp, en hugsanlega hefur yfirlesari komist í skrifuðu gerðina og fundist hópun of framandi orð. Mér finnst hópamyndun raunar ekki merkja alveg það sama og hópun sem mér finnst ágætis orð sem sjálfsagt er að nota þegar við á – t.d. þarna.

Þúsund pistlar

Eins og sjá má á heimasíðu minni er þetta þúsundasti pistill minn síðan ég fór að skrifa reglulega um íslenskt mál á Facebook fyrir tæpum fimm árum, í byrjun ágúst 2019. Fyrsta árið birtust pistlarnir í Málvöndunarþættinum en í byrjun ágúst 2020 stofnaði ég hópinn Málspjall og þar hafa pistlarnir flestir birst síðan – og eldri pistlar úr Málvöndunarþættinum hafa verið endurbirtir þar. Þeir eru einnig allir birtir á heimasíðu minni, eirikur.hi.is. Hver pistill er frá 250 til þúsund orð að lengd, en langflestir eru á bilinu 500-750 orð. Samtals eru þeir núna orðnir um 540 þúsund orð, sem jafngildir u.þ.b. átta bókum af svipaðri lengd og bók mín Alls konar íslenska sem kom út vorið 2022 og er unnin upp úr pistlum frá fyrstu tveimur árunum.

Undir viðfangsefni hópsins Málspjall fellur hvaðeina sem varðar íslenskt mál, málfræði, málfar og málnotkun, og í samræmi við það er efni pistlanna mjög fjölbreytt. Þeir fjalla um stöðu íslenskunnar, íslenska málstefnu, aðgerðir stjórnvalda í málefnum íslenskunnar, „rétt“ mál og „rangt“, enskunotkun á Íslandi, íslensku sem annað mál, kynhlutleysi í máli, kynsegin mál, orðræðugreiningu, lesskilning og ýmislegt fleira. Langflestir fjalla þó um málfarsleg atriði – uppruna, aldur, eðli, útbreiðslu og tíðni ýmissa atriða og tilbrigða í íslenskum framburði, beygingum, setningagerð, merkingu, orðfæri, orðasamböndum o.fl. Þótt ég leggi vissulega oft mat á þau málfarsatriði sem um ræðir er meginmarkmið pistlanna að fræða, ekki dæma.

Samfélagsmiðill eins og Facebook er vissulega ekki að öllu leyti heppilegur vettvangur fyrir langa og stundum strembna pistla af þessu tagi sem tekur nokkurn tíma að lesa og átta sig á, og ég veit svo sem ekkert hversu mikið pistlarnir eru lesnir þótt ég fái vissulega stundum ýmis viðbrögð við þeim. Ef pistlarnir verða einhverjum öðrum til gagns eða skemmtunar er það auðvitað ánægjulegt, og ég fæ stundum þakkir og hvatningu sem mér þykir mjög vænt um. En þetta er ekkert aðalatriði fyrir mér – ég er fyrst og fremst að þessu sjálfum mér til skemmtunar og fróðleiks og finnst ég hafa lært gífurlega mikið síðan ég byrjaði á pistlaskrifunum. Ég stefni allavega að því að halda áfram enn um hríð – engar líkur eru á því að viðfangsefni þrjóti í bráð.

Spikk og span

Orðasambandið spikk og span í merkingunni 'tandurhreint' er þekkt í íslensku en virðist ekki vera mjög gamalt í málinu. Í morgun sagðist hópverji hafa heyrt spick and span í amerískum þætti og hefði komið það á óvart þar sem hann hefði alltaf talið að það væri gömul dönskusletta. Elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er þrjátíu ára gamalt, í DV 1993: „Ofræstikonurnar sjá um að halda býtibúrunum spikk og span.“ Annað dæmi er úr Morgunblaðinu sama ár: „Það gengur allt svo vel hjá honum og stelpunum; allt „spikk og span“ og fullt af aga.“ Um aldamótin fara svo að sjást fleiri dæmi, og þá var líka stofnuð bílaþvottastöð undir heitinu Spikk & Span. Notkunin fer vaxandi – alls eru rúm 90 dæmi um orði á tímarit.is en rúm 300 í Risamálheildinni.

Það er ekki vafi á því að spikk og span er komið af enska sambandinu spick and span sem merkir í nútímamáli 'mjög snyrtilegt, hreint og vel hirt' og er komið af spick-and-span-new í 16. aldar ensku. Orðið spick er það sama og spike í nútímaensku, 'nagli', og span-new er komið af spánnýr í norrænu sem merkir upphaflega 'nýr eins og viðarspónn, rjúkandi, angandi eins og hefilspónn'. Sambandið spick-and-span-new sem kann að hafa orðið til fyrir áhrif frá spiksplinter nieuw í hollensku merkti því bókstaflega 'eins og nýsmíðað skip úr nöglum og timbri' en styttist síðan í spick-and-span og fékk merkinguna 'tandurhreint'. Líkingin er skiljanleg – ný tréskip voru ljós, hrein og snyrtileg en dökknuðu fljótt og létu á sjá.

En ekki er ólíklegt að notkun sambandsins spikk og span í íslensku megi m.a. rekja til ræstidufts með nafninu Spic and Span sem var framleitt í Bandaríkjunum frá 1933 og selt á Íslandi a.m.k. frá 1959. Í auglýsingu í Íslendingi það ár segir: „Ameríska hreinsiefnið SPIC AND SPAN til gólfþvotta og hreingerninga. Ekkert skrúbb. Ekkert skol. Engin þurrkun. Þér þurfið aðeins að blautvinda klútinn eða þvegilinn og strjúka einu sinni yfir og öll óhreinindi strjúkast af á svipstundu.“ Í auglýsingu í Morgunblaðinu 1960 segir: „Húsmóðirin hefir ávallt kviðið fyrir vorhreingerningunum en nú verða þær léttur leikur með Spic and Span.“ Þetta töfraefni var mikið auglýst fram til 1964 en virðist þá hafa horfið af markaðnum en orðið eftir í tungumálinu.

Háir skaflar – eða djúpir?

Í Málvöndunarþættinum var vitnað í fyrirsögnina „Snjóskaflarnir allt að fjögurra metra djúpir“ á mbl.is og sagt „Hefði frekar notað hversu skaflarnir væru háir.“ Hér er við hæfi að vitna í greinina „Um þýðingarleysi“ sem Þorgeir Þorgeirson skrifaði í Tímariti Máls og menningar 1984: „Þó get ég ekki stilt mig um að nefna skemtilegt dæmi (sem einnig sannar hvað orðabókin getur verið tvíeggja vopn í þessu stríði). Frummál: (du) opsluges af en höj snedrive, verður í fyrsta uppkasti: (þú) ert gleyptur af háum snjóskafli. Þetta er lemstrað. Hvað er að? Vangaveltur og stunur, göngutúr niðrað Tjörn og loksins kemur það. Íslenskur snjóskafl er ekki hár heldur djúpur!!! Og setningin er flutt yfir svolátandi: (þú) sekkur í djúpan skafl sem gleypir þig.“

Þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Á tímarit.is eru talsvert fleiri dæmi um hár (snjó)skafl en djúpur (snjó)skafl, og í Risamálheildinni eru dæmin með hár meira en þrisvar sinnum fleiri en dæmin með djúpur, þannig að hár virðist vera aðalorðið og sækja á í þessu sambandi öfugt við það sem Þorgeir sagði. En þótt merkingin virðist svipuð er ekki alltaf hægt að skipta öðru orðinu út fyrir hitt vegna þess að þau endurspegla oft mismunandi sjónarhorn. Skaflinn er djúpur ef horft er á hann lóðrétt, ofan frá, t.d. ef maður sekkur í hann eins og í dæmi Þorgeirs. En hann er hár ef horft er á hann lárétt, t.d. ef staðið er við hlið hans. Íslenskur snjóskafl getur þess vegna verið bæði hár og djúpur, eða ýmist hár eða djúpur, eftir því hvernig á það er litið.

Þessi mismunandi sjónarhorn má sjá í textum frá ýmsum tímum. Í Ársriti hins íslenzka kvenfélags 1899 segir: „piltarnir í skóla þessum höfðu fleygt skólastjóranum á höfuðið út um gluggann og ofan í djúpan snjóskafl.“ Í Dýravininum 1909 segir: „Hann gróf sig í fönn í djúpum skafli.“ Í Morgunblaðinu 1956 segir: „Í svo sem tuttugu metra fjarlægð frá þeim tók skíðamaðurinn heljarmikið stökk, stakkst á höfuðið í djúpan snjóskafla og hvarf sjónum þeirra.“ Í Norðanfara 1873 segir: „Snjórinn er sagður hafa fokið saman í 15 feta háa skafla eða meira.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Hér eru nú stiku háir snjóskaflar á aðalgötum miðbæjarins.“ Í Jólablaðinu 1930 segir: „Stormurinn hefur hlaðið snjónum í háa skafla hér og þar.“

Hitt er annað mál að óvíst er að málnotendur geri alltaf þennan mun eða átti sig á honum, og oft getur sjónarhornið líka verið á hvorn veginn sem er. Í umræddri frétt mbl.is segir: „Búið er að stinga í gegnum skaflana á heiðinni, sem margir hverjir eru allt að fjögurra metra djúpir, að því er fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar“ – en þar segir hins vegar: „Búið er að stinga í gegnum skaflana sem margir hverjir eru allt að fjögurra metra háir“ (feitletrun mín). Hvort tveggja getur átt rétt á sér – það má segja að áður en farið er að moka séu skaflarnir djúpir því að þá er eingöngu horft á þá lóðrétt, en þegar búið er að moka göng í gegnum skaflana má tala um þá sem háa því að þá er hægt að vísa í stálið sitt hvoru megin við snjógöngin.

Fólk að fornu og nýju

Orðið fólk hefur verið algengt í málinu alla tíð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'manneskjur' og 'fjölskylda, skyldmenni' (sbr. fólkið mitt) en upphafleg merking þess „er efalítið 'lýður, almenningur, mannfjöldi'“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Orðið hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum samsetningum – í safni Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP) eru taldar um níutíu samsetningar með -fólk sem seinni lið. Margar þeirra eru algengar enn í dag, s.s. alþýðufólk, heimafólk, heimilisfólk, hirðfólk, kvenfólk, landsfólk, mannfólk, smáfólk, vinnufólk, þjónustufólk, ættfólk – en aðrar sjaldgæfar eða horfnar úr málinu, s.s. fátækisfólk, hoffólk, hreinlífisfólk, karlafólk, karlmannafólk, leiðangursfólk, leikfólk, staðarfólk, ölmusufólk o.fl.

Í meirihluta tilvika eru einnig til samsvarandi samsetningar með seinni hlutann -maður og slíkar samsetningar eru vissulega margfalt fleiri – hátt í 1300 taldar í ONP. Oft kemur sami fyrri liður fyrir bæði með -fólk og -menn án þess að skýr merkingarmunur sé á orðunum og stöku sinnum eru lesbrigði í handritum þannig að -fólk er notað í einu handriti en -menn á sama stað í öðru handriti sama texta. Þó er hugsanlegt að -fólk sé fremur notað þegar ljóst á að vera að vísað sé til bæði karla og kvenna. Þannig eru fleiri dæmi um land(s)fólk en landsmenn, og einnig eru allmörg dæmi um hoffólk, staðarfólk, sóknarfólk o.fl. Einnig koma fyrir nokkur þjóðaheiti með -fólk Noregsfólk, Danalandsfólk, Frankaríkisfólk, Ísraelsfólk, Egyptalandsfólk og Afríkafólk.

Engin þessara þjóðaheita eru notuð í nútímamáli – meirihluti þjóða- og íbúaheita í málinu endar á -maður/-menn en á seinustu árum er farið að nota orð eins og Palestínufólk (sem reyndar kemur fyrst fyrir 1958) og Úkraínufólk við hliðina á Palestínumenn og Úkraínumenn. Þetta tengist sennilega persónulegri reynslu af fólkinu. Árið 2008 kom hingað hópur flóttafólks frá Palestínu, einkum konur og börn, og mörgum virðist hafa fundist óeðlilegt að tala um það fólk sem Palestínumenn. Sama er að segja um Úkraínufólk en það orð kom upp þegar flóttafólk fór að koma frá Úkraínu 2022. Orðið Rómafólk var nýlega tekið upp um þjóðflokk sem áður var kallaður Sígaunar – nær aldrei er talað um Rómamenn, en eintalan Rómamaður er notuð.

Ástæðan fyrir aukinni notkun samsetninga með -fólk á seinni árum er án efa sú að notkun orðsins -maður og samsetninga af því í vísun til allra kynja samræmist illa máltilfinningu mjög margra. Þetta er engin „misskilin jafnréttisbarátta“ heldur er hægt að sýna fram á það með skoðun á textum frá síðustu öld og fram á þennan dag að mjög oft eru notaðar aðrar leiðir en samsetningar með -maður til að vísa til kvenna. Í stað Bandaríkjamaðurinn X er stundum notað Bandaríkjakonan X en þó miklu fremur bandaríska konan X eða hin bandaríska X – í samsvarandi vísun til karlmanna er í yfirgnæfandi meirihluta tilvika notað Bandaríkjamaðurinn X. Þetta er tæpast hægt að túlka öðruvísi en svo að fólki finnist Bandaríkjamaður vísa til karls.

Þótt samsetningar með -fólk hafi tíðkast síðan í fornu máli eru þær vissulega oft nýrri eða sjaldgæfari en orð með -maður og það þarf að venjast þeim – en það þýðir ekki að þær séu verri íslenska, eða tilvist slíkra orða við hlið samsetninga með -maður sé einhver ógn við íslenskuna. Þvert á móti – það auðgar málið og getur gert texta líflegri ef völ er á fleiri en einu orði í sömu merkingu. Því hefur verið haldið fram að til samræmis við Palestínufólk og Úkraínufólk hljóti að verða að tala um Bandaríkjafólk, Kanadafólk, Norðfólk o.s.frv. En ekkert kallar á samræmi í þessu, enda fullt af ósamræmi fyrir í slíkum orðum. Orðin Bandaríkjamaður, Kanadamaður og Norðmaður eru miklu rótgrónari í málinu og erfiðara að koma nýjum orðum á framfæri.

Eins og hér hefur verið rökstutt er andstaða við samsetningar með -fólk ekki byggð á málfræðilegum forsendum og í henni gætir alls konar misskilnings. Ég sá því t.d. haldið fram á Facebook um daginn að orðið mannfólk væri dönskusletta. En Heimskringla Snorra Sturlusonar hefst á orðunum „Kringla heimsins, sú er mannfólkið byggir, er mjög vogskorin“ og þótt mál okkar væri kallað dönsk tunga á sínum tíma, og mandfolk sé vissulega til í dönsku – reyndar í merkingunni 'karlmenn' – er hæpið að saka Snorra um að hafa verið að sletta dönsku. Mér finnst sjálfsagt að nota tiltækar samsetningar með -fólk við hlið orða með -menn, og búa til nýjar – jafnvel Norðfólk ef því er að skipta þótt sennilega ætti það erfitt uppdráttar.

Ég fíla svo vel að vera Frónari

Hér var í dag spurt um hvenær tökusögnin fíla hefði orðið algeng í íslensku. Elsta dæmi sem þekkt er um hana í íslenskum texta er í Sunnanfara 1898: „Hvernig fílarðu? (þ.e. hvernig líðr þér?).“ Í Eimreiðinni 1901 segir: „Fílarðu ekki illa eftir trippið að norðan?“  Í Voröld 1919 segir, undir fyrirsögninni „Vesturheimska“: „Eg fílaði illa þennan morgun eftir að eg dressaði og fór þess vegna út fyrir vok.“ Í vesturheimska gamanblaðinu Fonnið 1921 segir: „Nú eru margir dagar síðan en ennþá getur maður fílað stinkinn.“ Í Speglinum 1928 segir: „En hvernig fílar þú?“ Í þessum dæmum er fíla ekki notuð á sama hátt og venjulega í nútímamáli, heldur merkir hún hér 'líða'. Í öllum tilvikum er líka verið að hæðast að enskuskotnu máli.

Sama máli gegnir um flest elstu dæmin þar sem sögnin er notuð eins og í nútímamáli en smátt og smátt er farið að nota fíla eins og hverja aðra enskuslettu, án sérstaks háðs. Í Lesbók Morgunblaðsins 1937 segir: „sumir „fíla sig svo illa til sjós“, eins og ungfrú ein tók til orða í heimspekilegri borðræðu um eðli og upptök sjóveikinnar.“ Í Fálkanum 1940 segir: „Og jeg sem fíla mig svo rosasjabbí eftir pimpiríið í gærkveldi.“ Í Heimilisritinu 1944 segir: „Ó, ég fíla mig svo vel hjá þér, elsku Kobbi.“ Í Þjóðviljanum 1954 segir: „Hvernig fílarðu þig í svona djammi?“ Þessi notkun sagnarinnar virðist hafa farið smátt og smátt vaxandi á sjötta áratugnum, ef marka má það sem Árni Böðvarsson segir um hana í Þjóðviljanum 1959:

„Eitt hinna leiðari tökuorða sem orðið hafa allföst í íslenzku á síðari árum í ákveðnum hópi fólks og þá fyrir ensk áhrif, er sögnin að fíla sig, í samböndum eins og „Hvernig fílarðu þig? hann fílar sig vel í þessu“. […] [O]rð eins og þetta er engin íslenzka og getur aldrei orðið. Það veldur málspjöllum, en fyllir ekkert opið skarð í málinu, því að íslenzk tunga á næg orð til að nota í þess stað. Orð af þessu tagi eru innbyrt í talmál nútímans af fólki sem hefur næsta litla þjóðerniskennd um tungu sína og finnst fínt að sletta ensku. Sízt ber að lasta kunnáttu í erlendum málum, en hins vegar mun þeim tamara að sletta útlendum orðum af þessu tagi sem kunna ekki nema hrafl í málinu og jafnvel vitlaust það litla sem þeir hafa nasasjón af.“

Dæmum um fíla fór þó enn fjölgandi og allt annað viðhorf kemur fram í grein um málfar unglinga á „Slagsíðunni“ í Morgunblaðinu árið 1974: „Um hugtök tilfinningalegs eðlis eru notuð hin ýmsu orð svo sem fílingur og að fíla hitt og þetta. Dæmi: „Ég fíla þessa grúppu,“ eða „hann var í ofsa fíling þarna um kvöldið“. Þetta hugtak er eitt af mörgum, sem erfitt er að snara í íslenzku án þess að merking raskist. Tilfinning nær því ekki nógu vel, því að ef maður „fílar einhverja grúppu“ þýðir það í raun eitthvað annað og meira en bara það að hafa tilfinningu fyrir viðkomandi hljómsveit. Ég verða að játa, að mér er ekki kunnugt um neitt orð í íslenzkri tungu, sem nota mætti með góðu móti, þegar talað er um að „fíla eitthvað“.“

Þessu andmælti reyndar Kristinn R. Ólafsson í Morgunblaðinu skömmu síðar: „Tilefni þessa bréfs míns er það, að skrifari greinarinnar kvaðst ekki þekkja neitt íslenskt orð, sem næði til fulls merkingu enska orðsins „feeling“. Langar mig því að benda honum á orðið þel, sem ég tel, að nái merkingunni fullkomlega. Það var geggjað þel í þessu; klístrað þel uppum alla veggi. Að fíla sig heitir því að þela sig eða þelast.“ Hvað sem fólki kann að finnast um þessa tillögu sló hún ekki í gegn, en notkun sagnarinnar fíla hélt áfram að aukast, og tók stökk um 1980 og sérstaklega þó upp úr 2000. Nú er þetta ein af algengari sögnum málsins og í Risamálheildinni eru hátt í áttatíu þúsund dæmi um hana – vissulega öll nema fimm þúsund af samfélagsmiðlum.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fíla skýrð 'líka (e-ð) vel, hafa dálæti á (e-u)' og merkt „óformlegt“, og í Íslenskri orðabók er hún merkt „slangur“. Þótt sögnin sé vissulega upphaflega komin úr ensku hefur hún slitið sig frá enskum uppruna á ýmsan hátt – hvorki fíla sig fíla þetta samsvarar nokkrum enskum orðasamböndum. Bent hefur verið á að føle sig til í dönsku og því gætu hugsanlega verið einhver áhrif þaðan, en það samband samsvarar þó ekki fíla sig nema að litlu leyti, merkir fremur 'finnast maður vera'. Sögnin fíla fellur fullkomlega að málinu ekki síður en príla, stíla, tvíla, víla o.fl. Út frá aldri sagnarinnar, tíðni, útbreiðslu, merkingu og gagnsemi finnst mér einboðið að viðurkenna hana sem fullgilt íslenskt orð.

Tilgangslaus umræða – ræðum það sem skiptir máli

Ég held að það sé fullreynt í þessum hópi að ræða kynhlutlaust mál. Sú umræða skilar engu nema leiðindum. Ég hef verið hikandi við að eyða hér innleggjum og athugasemdum um þetta efni vegna þess að ég hef verið sakaður um að leyfa ekki annað en það sem samræmist mínum skoðunum. Það er rangt – hér leyfist málefnaleg umræða og rökstuddar skoðanir um hvaðeina sem varðar tungumálið. En þessi umræða fer strax út í eitthvað annað. Eins og ég hef oft sagt get ég vel skilið andstöðu við breytingar í átt til kynhlutlauss máls, og fyrir henni má færa málefnaleg rök. En því miður er megnið af því sem hér er skrifað gegn kynhlutlausu máli – með nokkrum heiðarlegum undantekningum – ómálefnalegt og útúrsnúningur.

Ég verð hins vegar að segja að málflutningur þeirra sem styðja breytingar í átt til kynhlutlauss máls, eða hafa skilning á þeim, er yfirleitt mun málefnalegri, þótt á því séu vissulega undantekningar líka. Ég hef sjálfur skrifað hér á sjötta tug pistla um þetta málefni þar sem ég hef reynt að ræða og útskýra ástæður og eðli breytinganna án þess að vera með einhvern sérstakan áróður fyrir þeim og mun halda því áfram, enda er einn megintilgangur þessa hóps að birta fræðandi pistla um tungumálið frá ýmsum hliðum. Málefnalegir pistlar annarra, sem byggjast á rannsóknum og rökum, verða að sjálfsögðu einnig leyfilegir, en að öðru leyti frábið ég mér fyrirspurnir, athugasemdir og umkvartanir um kynhlutlaust mál.

Það er nefnilega svo margt annað mikilvægara sem við þurfum að ræða: „Mér finnst svo sorglegt að fólk skuli eyða svona mikilli orku og púðri í áhyggjur yfir þessum saklausu blæbrigðum og smekksatriðum málsins, þegar íslenskan er í raunverulegum lífsháska út af miklu stærri og alvarlegri hlutum. Það þarf að gera svo stóran skurk í íslenskukennslu, bæði fyrir innfædda og aðflutta, útgáfu á íslensku, textun, túlkun, þýðingum og talsetningu, og því að gera fleirum kleift að lifa á því að hugsa og skrifa á íslensku. Þess í stað fer allur krafturinn í að fjargviðrast yfir því að sumt af yngra fólkinu, sem þykir vænt um málið og reynir að nota það vel, skuli beita því þannig að það falli að þeirra heimsmynd og hugmyndum.“

Þetta skrifaði Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður, í umræðu um þessi mál á síðu Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar, og ég leyfi mér að taka það upp hér vegna þess að þetta er svo mikilvægt. Fólk getur haft mismunandi skoðanir á breytingum í átt að kynhlutlausu máli en þær verða ekki til þess að drepa íslenskuna og leiða ekki til hnignunar hennar. Þvert á móti – þær sýna áhuga fólks á málinu. Ég vitna áfram í Sigríði sem segist þó hafa „frekar íhaldssama máltilfinningu“: „Og mér finnst bara dásamlegt að fólki þyki nógu vænt um íslenskuna og hafi svo mikla trú á henni að það vilji þróa hana áfram. Íslenskan er rúmgóð og örlát, hér er nóg pláss fyrir bæði menn og fólk, þá og þau.“