Göngum yfir brúnna

Iðulega eru gerðar athugasemdir við breyttan framburð orðmynda eins og ána, brúna, frúna, klóna, kúna, slána, spána, tána, þrána (þolfall eintölu með greini af á/ær, brú, frú, kló, kýr, slá, spá, , þrá), skóna (þolfall fleirtölu með greini af skór) og fleiri orðmynda með n á eftir á, ó eða ú. Þessar orðmyndir eru oft bornar fram með stuttu sérhljóði í stað langs, eins og n-ið væri tvíritað – sagt fara yfir ánna, hlusta á spánna, missa trúnna, fara í skónna o.s.frv. Stundum er því haldið fram að þetta sé nýleg breyting en svo er ekki.

Elsta dæmið sem ég hef fundið á tímarit.is og bendir til þessa framburðar er úr Vikunni 1930: „Sérstaklega eru það búðarlokur og aðrir uppskafningar, sem móttækilegastir eru fyrir trúnna á íhaldið“ og í Verkamanninum 1939 segir „Heill hópur kvenna tók trúnna hjá Jesús.“ Slæðingur af dæmum er frá fimmta áratugnum; í Morgunblaðinu 1944 stendur „var ekki hægt að ferja mjólk yfir ánna í gær“, í Þjóðviljanum 1947 segir „En þótt menn hafi yfirleitt verið ánægðir með útvarpsdagskránna 1. maí“, í Morgunblaðinu 1948 „Við brúnna tók á móti honum fyrsti stýrimaður“ o.s.frv. (feitletrun mín).

Eftir þetta fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og sambærilegar myndir af fleiri orðum koma fram. Myndirnar á tímarit.is verða samt aldrei mjög margar, enda eru flestir textar þar væntanlega prófarkalesnir. Í ljósi þess hversu mörg dæmi hafa þó sloppið gegnum síuna má ætla að sá framburður sem þessi ritháttur ber vott um sé a.m.k. hátt í hundrað ára gamall og hafi lengi verið nokkuð útbreiddur. Fjöldi dæma sem Google finnur á netinu um flestar áðurnefndra ritmynda bendir líka til verulegrar útbreiðslu framburðarins.

Þessar framburðarmyndir hafa líka lengi verið til umræðu í málfarsþáttum. Gísli Jónsson víkur t.d. nokkrum sinnum að þeim í þætti sínum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu, m.a. 1985, 1986 og 2001 þegar hann sagði: „Einkennilegt hversu fólk hneigist til að tvöfalda n á milli á, ó, ú annars vegar og a hins vegar.“ Ari Páll Kristinsson fjallaði um þær í Tungutaki 1993 og sagði: „Mig langar að minnast hér á málvillu sem er orðin nokkuð algeng, að hafa stutt sérhljóð í stað langs við tilteknar aðstæður í orðum á borð við brú, á, slá, , kló, spá o.s.frv.“ Það er því ljóst að þessi framburður hefur verið vel þekktur um áratuga skeið.

Þótt ég geti ekki fullyrt neitt um hvað valdi þessari breytingu má nefna tvennt sem gæti skipt máli. Annars vegar eru áhrif frá þágufallinu – í kvenkynsorðunum er þar alltaf stutt sérhljóð (ánni, brúnni, frúnni, klónni, kúnni, slánni, spánni, tánni, þránni). Þótt ólíklegra sé mætti einnig hugsa sér áhrif frá eignarfalli fleirtölu, en þolfallsmyndirnar falla saman við það í framburði ef sérhljóðið styttist. Í þolfallsmyndinni skónna er ekki um að ræða áhrif frá þágufallinu skónum, því að þar er langt sérhljóð, en hugsanlega frá eignarfalli fleirtölu skónna.

Hitt atriðið er hljóðfræðilegs eðlis. Það er þekkt í málsögunni að samhljóð í endingu lengdist á eftir sérhljóðunum á, ó og ú. Venjuleg hvorugkynsending lýsingarorða er -t, eins og í stór-t, væn-t, gul-t, tóm-t; en t-ið tvöfaldast (og verður aðblásið) í há-tt, mjó-tt, trú-tt. Einnig hefur -r lengst við svipaðar aðstæður í beygingu lýsingarorða; við fáum há-rri en ekki hári, mjó-rri en ekki mjóri, trú-rri en ekki trúri. Þetta eru að vísu ævafornar breytingar en þó er freistandi að spyrja hvort framburðarbreytingu þeirra orða sem hér um ræðir megi hugsanlega rekja til hliðstæðra áhrifa þessara sömu hljóða.

Það má vissulega beita ýmsum rökum gegn þessari breytingu. Eitt er það að hún rýfur tengslin milli lauss og viðskeytts greinis. Í þeim lausa er langt sérhljóð og eitt n í þolfalli eintölu kvenkyns og þolfalli fleirtölu karlkyns – myndin er hina í báðum tilvikum. En þótt viðskeyttur greinir sé vissulega kominn af lausum greini sögulega séð eru þau tengsl löngu orðin laus í reipunum og beygingarlegir og setningafræðilegir eiginleikar þessara tveggja tegunda greinis ólíkir á ýmsan hátt. Mér finnst þetta því ekki sterk rök gegn breytingunni.

Annað sem ég hef séð nefnt er hætta á ruglingi vegna þess að umræddar myndir falli í framburði saman við eignarfall fleirtölu sömu orða, eins og hér er áður nefnt. Þetta eru þó ákaflega léttvæg rök. Samfall í beygingarkerfinu er gífurlega mikið án þess að við veitum því athygli hversdagslega eða það trufli okkur á nokkurn hátt. Öll aukaföll veikra karlkynsorða í eintölu eru eins (hani – hana – hana – hana), sama gildir um veik kvenkynsorð (hæna – hænu – hænu – hænu), öll föll veikra hvorugkynsorða í eintölu eru eins (hjarta – hjarta – hjarta – hjarta), o.s.frv. Það samfall sem umrædd breyting myndi valda er því dropi í hafið og veldur engum vandkvæðum.

Mörgum finnst umræddar myndir ljótar – sem er nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að allt eru þetta framburðarmyndir sem eru viðurkenndar í málinu, bara sem aðrar beygingarmyndir en hér er um að ræða. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að fólk eigi í raun og veru við að því finnist þessar myndir fara illa í öðru samhengi en þeim er ætlað. Flest kunnum við best við málið eins og við lærðum það – eða eins og við lærðum að það ætti að vera – og ömumst þess vegna við breytingum sem okkur finnst óþarfar. Það er fullkomlega eðlileg tilfinning og ég þykist því vita – og skil vel – að mörgum falli ályktunarorð mín ekki vel í geð.

Hvort fólk vill taka þennan framburð í sátt er að sjálfsögðu mál hvers og eins, en miðað við viðurkennda skilgreiningu, „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“, sé ég ekki hvernig hægt er að telja hann rangan. Í ljósi þess að framburðurinn á sér aldarlanga sögu, er mjög útbreiddur, er hliðstæður breytingum sem áður hafa orðið í málinu og eru fullkomlega viðurkenndar, og veldur engum ruglingi, þá tel ég hann engin alvarleg málspjöll og finnst orku þeirra sem bera hag íslenskunnar fyrir brjósti betur varið í annað en baráttu gegn honum.

Appelsínugul viðvörun

Eitt vinsælasta tilefni nöldurs og tuðs í Málvöndunarþættinum á Facebook er lýsingarorðið appelsínugulur. Talað er um að þetta sé leiðindaorð, barnamál, tökuþýðing, fáránlegt orð, óþjált og asnalegt, o.s.frv. Í staðinn eigi að nota rauðgulur – það sé hið rétta heiti á þessum lit. Um þetta getur fólk skrifað aftur og aftur endalaust, undir merkjum málvöndunar.

Ég ólst upp við orðið rauðgulur, enda sáust appelsínur aldrei á mínu bernskuheimili nema á jólunum og á mörkunum að maður vissi hvernig þær væru á litinn. En orðið appelsínugulur er samt mun eldra – kemur fyrst fyrir svo að vitað sé árið 1916 og er því orðið meira en aldargamalt. Síðan á fjórða áratugnum hafa orðin tvö verið notuð hlið við hlið, rauðgulur þó mun algengara framan af. En frá því um 1980 hefur appelsínugulur verið mun algengara eins og tölur af tímarit.is sýna.


Vitanlega er appelsínugulur íslenskt orð. Það er ekki tökuorð og ekki heldur tökuþýðing þótt vissulega sé líkingin við lit appelsínu fengin erlendis frá (væntanlega úr dönsku frekar en ensku). Þetta er íslensk nýmyndun sem á sér hundrað ára hefð í málinu og margar kynslóðir hafa alist upp við. Að gera það brottrækt úr íslensku væri fullkomlega fráleitt.

Auðvitað getur fólk haft málefnalegar ástæður fyrir því að kjósa rauðgulur fremur en appelsínugulur, s.s. að fyrrnefnda orðið sé eldra. Það er líka þremur atkvæðum styttra og því þjálla í meðförum. Þar að auki finnst ýmsum það fallegra og ekkert við það að athuga. En að agnúast út í appelsínugulur á ekkert skylt við málvöndun.

Af kæröstum og kærustum

Á Vísi má í dag finna fyrirsögnina Auðveldar kæröstum og kærustum utan Schengen að koma til landsins. Ég sé að fólk hefur eitthvað verið að hnýta í myndina kæröstum en það er ástæðulaust – þetta er alveg eðlileg beygingarmynd þótt hún sé vissulega sjaldgæf. Í karlkynsorðum með tvíkvæðan stofn, sem hafa a í öðru atkvæði, breytist það oftast í u á undan endingu þágufalls fleirtölu, -um, sbr. kennari – kennurum. En stundum kemur þó ö þarna en ekki u, sbr. Ítali – Ítölum, og stundum koma fram tvímyndir, önnur með u og hin með ö – af Búlgari er til bæði Búlgurum og Búlgörum.

Í þessu tilviki er um að ræða tvö orð, karlkynsorðið kærasti og kvenkynsorðið kærasta. Stofn þeirra er sá sami, og eðlilegasta mynd þágufalls fleirtölu væri þess vegna sú sama, kærustum. En auðvitað er ekki hægt að segja Auðveldar kærustum og kærustum utan Schengen að koma til landsins. Vissulega væri hægt að hafa fyrirsögnina bara Auðveldar kærustum utan Schengen að koma til landsins en ég hef á tilfinningunni að flestir myndu skilja kærustum aðeins sem kvenkyn í því tilviki. Þess vegna er gripið til sjaldgæfari beygingarmyndar af karlkynsorðinu, og það er í góðu lagi.

Landamæri Íslands

Eftir að opnað var fyrir ferðir til landsins fyrir fáum vikum hefur orðið landamæri og samsetningar af því, ekki síst landamæraskimun, verið áberandi í fréttum. Sagt er að fólk fari í skimun á landamærum við komuna til landsins, smit hafi greinst á landamærum, o.s.frv. Ekki eru allir ánægðir með þessa notkun orðsins og benda á að í orðabókum sé það skilgreint sem 'mörk milli tveggja ríkja' eða 'staður þar sem tvö lönd mætast'. Vegna þess að Ísland er eyja geti það ekki átt sér nein landamæri.

Orðið landamæri er gamalt – kemur fyrir í fornu máli en þá og allt fram á 19. öld iðulega í eintölu. Þótt það merki vissulega oft 'mörk milli tveggja ríkja/landa' er ljóst að bæði að fornu og nýju getur það líka merkt 'ytri mörk tiltekins lands/ríkis' – án þess að tiltekið sé hvað er hinum megin við mörkin. Þannig er t.d. hægt að tala um þýsku landamærin í merkingunni 'ytri mörk Þýskalands', án þess að tiltaka öll lönd sem liggja að Þýskalandi.

Ísland liggur augljóslega ekki að neinu öðru landi, en hins vegar á það sér vitaskuld ytri mörk þótt e.t.v. megi deila um hvort þau séu í fjöruborði eða við 12 mílna landhelgislínu. Á tímarit.is má líka finna allt að 100 ára gömul dæmi um landamæri Íslands og í Lagasafninu er fjöldi dæma um að landamæri í þessari merkingu eigi við Ísland. Þegar flugfarþegar lenda á Keflavíkurflugvelli eru þeir því komnir inn fyrir landamæri Íslands.

Fyrir daga flugsamgangna komst fólk ekki inn í land nema fara yfir ytri mörk þess þar sem þau voru dregin, hvort sem var á landi eða í fjöruborði. Nú er þetta breytt – þótt flugvellir séu oft fjarri landamærum er fyrst þar hægt að ná til farþega eftir að þeir koma inn fyrir landamærin. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að tala um að skimun á landmærum, landamæraskimun, landamæraeftirlit o.s.frv. fari fram þar. Það þýðir ekki að landamæri Íslands séu í Leifsstöð.

Samtengdir tvíburar

Í Fréttablaðinu var nýlega sagt frá því að „elstu samtengdu tvíburar heims“ væru látnir. Í Málvöndunarþættinum á Facebook spratt af þessu umræða um hvort ekki ætti fremur að segja samvaxnir tvíburar en samtengdir. Á móti var bent á að í Íðorðabankanum er enska heitið sem um er að ræða, conjoined twins, þýtt sem samtengdir tvíburar. Sú þýðing er komin úr Íðorðasafni lækna og varla hægt að hafna henni, þótt orðalagið samvaxnir tvíburar sé vissulega í betra samræmi við íslenska málhefð. Á tímarit.is er aðeins eitt dæmi um samtengdir tvíburar, frá 2001. Aftur á móti eru yfir 250 dæmi um orðalagið samvaxnir tvíburar, það elsta frá lokum 19. aldar. Það er því löng og rík hefð fyrir því orðalagi.

Ástæða þess að þetta orðalag er ekki notað í Íðorðasafni lækna er væntanlega sú að það hefur ekki þótt nógu nákvæmt frá fræðilegu sjónarmiði. Samtengdir tvíburar eru strangt tekið ekki samvaxnir. Ástæðan fyrir því að þeir eru samtengdir er sú að okfruma (frjóvgað egg) hefur ekki skipt sér ekki fullkomlega. Það er því ekki um það að ræða að tvíburarnir hafi „vaxið saman“ eins og orðið samvaxnir gefur í skyn. Þess vegna hefur þótt eðlilegra að nota orðið samtengdir sem er hlutlausara.

En hvað á blaðamaður að gera þegar þarf að þýða frétt um conjoined twins? Það er ekkert sérlega oft talað um samvaxna tvíbura (miklu oftar um síamstvíbura) þannig að það er vel hugsanlegt að blaðamaðurinn þekki ekki íslenska málhefð hvað þetta varðar. Hann flettir þá kannski upp á conjoined twins í Íðorðabankanum og fær upp samtengdir tvíburar, og notar það í þýðingunni. En það getur líka verið að blaðamaðurinn þekki orðalagið samvaxnir tvíburar en fletti þessu samt upp til öryggis og meti það svo að ábyggilegustu þýðinguna hljóti að vera að finna í Íðorðasafni lækna sem þar að auki er birt á vegum Árnastofnunar.

Þetta er áhugavert dæmi um árekstur almenns máls og fagmáls. Í almennu máli er hefð fyrir því að tala um samvaxna tvíbura, en í fagmálinu er talað um samtengda tvíbura. Það má svo velta því fyrir sér hvorn kostinn sé eðlilegra að velja í blaðafrétt. Hvort er mikilvægara að fylgja hefð almenns máls eða nota orð úr fagmáli sem er fræðilega „réttara“? Hvað sem öðru líður hlýtur hvort tveggja að teljast rétt mál.

Hroðvirkni er óafsakanleg

Eins og oft hefur komið fram vil ég fara mjög varlega í að gera athugasemdir við málfar fólks og finnst það oftast hreinn dónaskapur. En fólk sem hefur skrif að atvinnu verður að vanda sig - það er engin ástæða til að afsaka hroðvirkni. Mér blöskraði þegar ég las þessa frétt – sérstaklega vegna rangra þýðinga úr dönsku en sitthvað er líka við íslenskuna að athuga. Hér er farið yfir það helsta:

  • „Handboltastjarnan Mikkel Hansen, leikmaður PSG í Frakklandi og danska landsliðsins, er orðinn stúdent en hann fékk hvítu húfuna um helgina.“ Í frétt BT sem virðist vera helsta heimildin stendur hins vegar „For lørdag fik han sat den blå hue på hovedet“. Húfan er sem sé blá en ekki hvít.
  • „Þá er það möguleiki að setja húfuna á síðasta stúdentinn frá Vestskoven í Albertslund.“ Á dönskunni er þetta „Så blev der mulighed for at sætte huen på årets sidste hhx-student“. Þó að "mulighed" geti vissulega þýtt 'möguleiki' væri 'tækifæri' réttari þýðing þarna. Og þetta er ekki „síðasti stúdentinn“ heldur „síðasti stúdent ársins“.
  • „Mjög öflugt að ráða við fjölskylduna, handboltann og prófin“. Á dönsku: „virkeligt stærkt at klare både familie, håndbold og eksamen“. „Mjög öflugt“ er vond þýðing á „virkelig stærkt“ – eðlilegt væri 'vel af sér vikið'. Og „ráða við“ er vond þýðing á „klare“ – eðlilegt væri 'geta sinnt' eða eitthvað slíkt.
  • „Eftir að húfan fór á loft keyrði Hansen frá skólanum í hvítum jeppa sem var skreyttur með bæði fánum og greni“. Á dönsku: „Efter huen kom på plads, blev Mikkel Hansen kørt afsted i en hvid Jeep, der var pyntet med både flag og grene“. Undarlegt að segja „húfan fór á loft“, Hansen keyrði ekki frá skólanum heldur var honum ekið, og bíllinn var ekki skreyttur með greni, heldur greinum.
  • „stúdentar í Danmörku keyra þannig um götur bæjarins í rútu eftir að húfan fari á loft“. Ég veit ekki hvaðan rútan kemur – í frétt BT er talað um „studentervogn“ en vissulega kann þetta að vera úr annarri heimild. En þarna er aftur talað um að „húfan fari á loft“ sem er undarlegt, og a.m.k. ætti að nota framsöguháttinn fer en ekki viðtengingarháttinn fari.
  • „Þetta er svo sætt. Þetta er svo vel gert. Hann fær þetta sérstaklega í dag. Hann var í skólanum hjá okkur en þegar hann flutti hefur þetta verið á netinu.“ Danska orðið sejt þýðir ekki 'sætt'. Og „þegar hann flutti hefur þetta verið á netinu“ gengur ekki upp, þótt það standi „da han flyttede“ á dönsku – verður að vera 'eftir að hann flutti'.
  • „Að verða stúdent er ekki það eina góða sem hefur komið fyrir Danann á árinu því hann gifti sig unnustu sinni, Stephanie Gundelach, í maí.“ Sambandið koma fyrir er notað um eitthvað sem maður hefur ekki vald á og er því rangt þarna. Eðlilegra væri líka að nota giftist en gifti sig.

Eigðu góðan dag

Iðulega hefur verið amast við orðalaginu Eigðu góðan dag sem oft er notað í kveðjuskyni, t.d. í verslunum og öðrum þjónustufyrirtækjum. Meginástæðan fyrir því að mörgum er í nöp við þetta orðalag er sögð sú að það sé komið úr ensku þar sem oft er sagt Have a nice day við svipaðar aðstæður. Þótt enska orðasambandið sé trúlega fyrirmyndin er varla hægt að segja að um hráa þýðingu sé að ræða vegna þess að sögnin er önnur. Reyndar hefur verið bent á að kveðjan „Haf góðan dag, herra“ kemur fyrir í Stúfs þætti.

Það má hins vegar finna aðra ástæðu fyrir því að telja sambandið eigðu góðan dag ekki falla vel að íslensku. Myndin eigðu er boðháttur, og sá háttur er yfirleitt notaður til að gefa einhvers konar skipanir, fyrirmæli eða vinsamleg tilmæli. En til að eitthvert vit sé í því að gefa skipun þarf sá sem henni er beint til að hafa einhverja möguleika á að verða við henni. Með öðrum orðum – skipunin þarf að fela í sér eitthvað það sem er eða gæti verið á valdi þess sem hún beinist að. Þannig er það auðvitað með sagnir sem fela í sér einhvern verknað eða athöfn – við getum sagt Réttu mér saltið, Hjálpaðu mömmu þinni, Komdu snemma heim o.s.frv.

En öðru máli gegnir með sagnir sem tákna skynjun eða tilfinningu, vegna þess að þar er um að ræða eitthvað sem við höfum yfirleitt ekki stjórn á. Slíkar sagnir er yfirleitt ekki hægt að nota í boðhætti og í staðinn er oft notaður viðtengingarháttur til að láta í ljósi tilmæli eða ósk. Jónas kvað „Dreymi þig ljósið“, ekki *dreymdu ljósið. Reyndar bætist það við að flestar þessara sagna taka aukafallsfrumlag þannig að -ðu/-du/-tu í boðhættinum sem er komið af nefnifallsmynd annarrar persónufornafnsins þú á ekki við – ef hægt væri að nota dreyma í boðhætti ætti myndin fremur að vera *dreymdig.

Það sama gildir um sögnina eiga. Boðhátturinn eigðu er vissulega notaður, en yfirleitt við sérstakar aðstæður. Við getum t.d. sagt eigðu þetta elskan við barn um leið og við réttum því pening eða einhverja aðra gjöf. Við getum líka sagt eigðu þetta áfram þegar við viljum ráða viðmælanda frá því að losa sig við einhverja eign. En að þeim aðstæðum slepptum er tæpast hægt að gefa manni fyrirmæli um að eiga eitthvað. Þess vegna er eigðu góðan dag ekki í samræmi við íslenska málhefð – eigirðu góðan dag eða megir þú eiga góðan dag væri það hins vegar.

Í eigðu góðan dag er boðhátturinn notaður til að tjá ósk fremur en skipun eða tilmæli, en það er svo sem ekki alltaf langt þar á milli. Þótt ég kunni ekki sérlega vel við þetta samband þjónar það ákveðnum tilgangi og ekki augljóst hvað gæti komið í staðinn. Ég býst við að það sé orðið fast í málinu og það taki því ekki að berjast gegn því héðan af, en það verður hver að eiga við sig.

Smit

Nafnorðið smit hefur heyrst æði oft undanfarna mánuði. Í orðabókum er merking þess sögð vera ‚það þegar sjúkdómur (sýklar) berst frá einum einstaklingi til annars‘. Samkvæmt orðabókum er þetta eintöluorð, og Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gefur enga fleirtölubeygingu. Á tímarit.is má þó finna dæmi um fleirtölu orðsins frá síðustu áratugum, en þau eru örfá.

En í fréttum síðustu mánaða er mjög algengt að smit sé notað í fleirtölu – sagt að smitum hafi fjölgað, tvö smit hafi greinst í gær o.s.frv. Þetta tengist greinilega merkingarbreytingu orðsins. Í stað þess að það vísi til ferlisins, eins og orðabókarskilgreiningarnar gera, vísar það nú til útkomunnar úr ferlinu. Þar með verður ekkert óeðlilegt að nota orðið í fleirtölu.

Þegar fleirtala kemur upp hjá orðum sem áður hafa eingöngu verið notuð í eintölu heyrist venjulega hljóð úr horni hjá málvöndunarmönnum, en ég hef ekki séð neinar athugasemdir við þessa breyttu hegðan orðsins smit. Kannski hefur enginn áttað sig á því að orðið var ekki notað í fleirtölu til skamms tíma – en kannski er þetta merki um aukið umburðarlyndi gagnvart eðlilegri málþróun. Það er óskandi.

Notum ekki íslensku gegn fólki

Ég skrifaði nýlega pistil þar sem ég hvatti fólk til að tala íslensku við útlendinga sem eru að læra málið í stað þess að skipta strax yfir í ensku eins og Íslendingum er gjarnt þegar viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. En ég var svo bláeygur að ég hafði ekki hugsað út í að þetta er ekki endilega bara óþolinmæði og hugsunarleysi, heldur stundum notað á meðvitaðan hátt til að gera lítið úr fólki og gefa því til kynna að það eigi ekki heima hér, eins og kemur fram í viðtali við Miriam Petru Ómarsdóttur Awad í mbl.is í dag:

„„[…] það skipt­ir í raun ekki máli hversu vel þú tal­ar ís­lensku, það er samt fullt af fólki sem mun samt koma fram við þig eins og þú sért ekki Íslend­ing­ur. Birt­ing­ar­mynd­ir for­dóma eru mis­jafn­ar en úti­lok­un og nei­kvæðar at­huga­semd­ir eru hluti þeirra,“ seg­ir Miriam.

„Eitt af því sem ýtir und­ir til­finn­ing­ar um úti­lok­un er til dæm­is þegar fólk er í sí­fellu ávarpað á ensku jafn­vel þó það svari á ís­lensku eða hafi jafn­vel byrjað sam­talið á ís­lensku. Marg­ar höfðu lent í því, og ég hef sjálft mikið lent í því, að fólk tal­ar ensku við mig að fyrra bragði.

Það er samt alltaf verið að segja að út­lend­ing­ar þurfi bara að læra ís­lensku og að við verðum að vera opn­ari fyr­ir því að fólk tali ís­lensku með hreim, sem er al­veg rétt, en það er samt bara þannig að ef þú lít­ur út á ein­hvern hátt þá lít­ur fólk á þig sem út­lend­ing.““

Það er alvarlegt mál þegar íslenskan er notuð á þennan hátt. Við megum aldrei nota íslenskuna eða takmarkaða íslenskukunnáttu til að mismuna fólki. Það er vanvirðing við fólkið sem þetta bitnar á – og ekki síður vanvirðing við íslenskuna.

En þótt það sé sjálfsagt að leitast við að tala íslensku við útlendinga á það ekki alltaf við, eins og Alondra Silva Muñoz bendir á í viðtali í mbl.is í gær þegar hún er spurð hvað sé það erfiðasta við að vera inn­flytj­andi á Íslandi:

„„Ég held að það sé að finna jafn­vægi hvað varðar tungu­málið. Tungu­málið get­ur verið eitt­hvað sem úti­lok­ar þig og læt­ur þér líða eins og þér sé út­hýst en það get­ur líka verið eitt­hvað sem fólk deil­ir með þér til þess að láta þér líða vel og vald­efla þig.“

Hún seg­ir að marg­ir meini mjög vel þegar þeir tala ís­lensku við inn­flytj­end­ur og það geti látið þeim líða vel.

„En í viss­um aðstæðum viltu kannski ekki tala ís­lensku vegna þess að þú vilt ekki að neins kon­ar mis­skiln­ing­ur eigi sér stað. Til dæm­is inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins eða á mik­il­væg­um fundi í vinn­unni.““

Það er skiljanlegt að fólk óttist misskilning við slíkar aðstæður og vilji því forðast að nota tungumál sem það talar ekki reiprennandi. En hin hliðin á málinu er auðvitað sú að viðmælendurnir hugsa eins – vilja nota tungumál þar sem þeir eru á heimavelli við aðstæður þar sem misskilningur má ekki verða. Vandinn er hins vegar sá að tungumálið sem lágmarkar hættu á misskilningi er ekki það sama hjá báðum aðilum.

Það er engin einföld lausn til á þessu. Í heilbrigðiskerfinu er fólk auðvitað að sækja sér nauðsynlega þjónustu og á rétt á að komið sé til móts við það eins og hægt er. Þetta er flóknara í samskiptum á vinnustað – þar er um að ræða hlutverk sem fólk velur sér og það á ekki sömu kröfu á því að geta talað annað tungumál en opinbert mál landsins.

Mál af þessu tagi verður að vera hægt að leysa án þess að íslenskan sé alltaf víkjandi, en jafnframt án þess að brotið sé á rétti fólks eða það haft afskipt. Og það á að vera hægt, ef hafðar eru í heiðri grundvallarreglur í mannlegum samskiptum – umburðarlyndi, tillitssemi, sveigjanleiki, og virðing fyrir öðru fólki.

Enska í strætó

Ég fer í strætó einu sinni á ári - þegar ég þarf að fara með bílinn minn í tékk upp í óbyggðir. Í hvert skipti ergi ég mig yfir því að í vögnunum er texti á ensku án þess að samsvarandi texti sé líka á íslensku. Ekki bara einhver texti, heldur texti sem varðar öryggisatriði og mikilvægt er því að allir skilji.


Ég hef a.m.k. tvisvar skrifað upplýsingafulltrúa Strætó um þetta og hann hefur lofað bót og betrun en það virðist ekki hafa gengið eftir. Ég sé líka ekki betur en þetta sé andstætt málstefnu Reykjavíkurborgar (ég veit að Strætó er ekki borgarfyrirtæki en borgin er langstærsti eigandinn og það væri eðlilegt að málstefnan gilti þar).

Ekki segja að þetta sé ástæðulaust nöldur því að allir skilji ensku. Í fyrsta lagi er það ekki rétt - það skilja ekki allir ensku. En í öðru lagi snýst málið ekki um það, heldur um stöðu málsins í samfélaginu. „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi“ auglýsti bæjarfógetinn árið 1848.