Leiðir

Í umræðu um starfsheiti hér í gær var vitnað í grein á Vísi þar sem var talið óheppilegt að nota orðið leiðtogi í starfsheitum, sem þýðingu á lead, eins og eitthvað hefur borið á. Rökin voru þau að leiðtogi væri „einstaklingur en ekki starfsheiti“ og auk þess skildi fólk orðið á mismunandi hátt. Ég benti á að vitanlega væri möguleiki að taka orð sem til eru í málinu og gefa þeim ný hlutverk, eins og hefði t.d. verið gert með orðin formaður og forseti. Ég var samt ekki beinlínis að leggja þetta til, og vissulega tæki tíma að venja fólk við nýtt hlutverk orðsins. Breyting af þessu tagi er ekki heldur alveg einföld eða óumdeild. Illugi Jökulsson segir t.d. á Facebook-síðu sinni: „Það er dónaskapur af einhverjum fyrirtækjum eða stofnunum eða auglýsingastofum að ætla sér að ræna merkingu orðsins.“

Ég legg til að orðið leiðir verði tekið upp í þessari merkingu. Það er að finna í Íslenskri orðabók í merkingunni 'leiðið efni' og í sömu merkingu í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem það er skýrt með orðinu leiðari sem er venjulega orðið um þetta fyrirbæri. Í Ritmálssafni Árnastofnunar er vísað í eitt dæmi um orðið, í þýðingu séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá á Messíasi eftir Klopstock. Þar segir í ávarpinu „Til frelsarans“, sem er aftan við bækurnar 20: „logann lét ek mér / til leiðirs kjörinn, / leyptrar hátt á leið / ljóss-glóð undan.“ Ég sé ekki betur en leiðir (sem er þarna beygt eins og gert var um aldir) hafi þarna merkinguna 'foringi, leiðtogi'. En vegna þess að þetta er ekki orð sem við erum vön er hægt að taka það upp í starfsheitum. Það er stutt, lýsandi og lipurt í samsetningum.

Ósvaraðar spurningar

Í gær sá ég á vefmiðli frétt með fyrirsögninni „Önnur þáttaröð af Svörtu söndum væntanleg: „Ennþá margar ósvaraðar spurningar““. Í fréttinni stóð: „Fyrir þá sem horfðu á seríu eitt, þá voru margar ósvaraðar spurningar sem eru í raun og veru að fara vera viðfangsefni seríu tvö.“ Þegar ég leit aftur á fréttina nokkru síðar var búið að breyta bæði fyrirsögninni og fréttatextanum. Fyrirsögnin er nú „Önnur þáttaröð af Svörtu söndum væntanleg: „Mörgum spurningum enn ósvarað““ (þótt upphaflega fyrirsögnin sjáist enn í slóðinni á fréttina) og í fréttinni segir: „Fyrir þá sem horfðu á seríu eitt, þá er mörgum spurningum enn ósvarað sem eru í raun og veru að fara vera viðfangsefni seríu tvö.“ Hvað var athugavert við fyrra orðalag?

Sögnin svara tekur með sér andlag í þágufalli – ég svaraði spurningunum. Þegar setningum með þágufallsandlagi er snúið í þolmynd helst þágufallið venjulega – spurningunum var svarað. Sama gildir um eignarfallsandlög – þau halda falli sínu í þolmynd eins og sést á ég spurði engra spurningaengra spurninga var spurt. En þolfallsandlög verða að nefnifallsfrumlögum í þolmynd – þolmyndin af hundurinn beit hana er hún var bitin, ekki *hana var bitið (þolfallið helst vissulega í „nýju þolmyndinni“ en þá á eftir sögninni – það var bitið hana). Í upphaflegri gerð áðurnefndrar fréttar hagaði þágufallsandlagið sér því eins og dæmigerð þolfallsandlög – varð að nefnifallsfrumlagi í þolmynd.

Þetta er vissulega ekki einsdæmi. Ég hef áður skrifað um dæmi eins og lagðir bílar, þar sem hinn upphaflegi lýsingarháttur þátíðar verður að lýsingarorði, eins og í hliðið var lokað, ég var boðinn í mat o.fl. Þá er ekki lengur um að ræða þolmynd sem lýsir athöfn eða verknaði, heldur germynd sem lýsir ástandi – óspurðar spurningar er þá sams konar dæmi og áhugaverðar spurningar. Fjöldi hliðstæðna er til í málinu. Við tölum t.d. um ólokin verkefni, lítið ekinn bíl, ólokaðar dyr o.s.frv. þótt sagnirnar ljúka, aka og loka taki allar þágufallsandlög og því mætti búast við verkefninu var lokið, bílnum var ekið, dyrunum var lokað. Þær setningar eru vitanlega til líka, en hafa aðra merkingu – tákna athöfn, ekki ástand.

Hvers vegna var þá verið að breyta ósvaraðar spurningar í spurningum enn ósvarað í áðurnefndri frétt? Væntanlega hafa verið gerðar athugasemdir við fyrrnefnda orðalagið og vissulega er það ekki algengt, en þó fjarri því að vera nýjung. Á tímarit.is eru tæp 200 dæmi um ósvöruð spurning, flest yngri en 1980 en allnokkur þó eldri, það elsta í Ísafold 1882 – „En með eintómum ósvöruðum spurningum upplýsir hann ekki málið nægilega“. Í Ritmálssafni Árnastofnunar er dæmi úr bréfi frá Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara 1858 – „Eg hefi fengið bréf frá þér, þrjú, og eru enn öll ósvöruð“. Með hliðsjón af fjölda dæma, aldri og augljósum hliðstæðum er engin ástæða til annars en telja ósvaraðar spurningar gott og gilt mál.

Er nóg að tala ensku við umönnunarstörf?

Eina pólitíkin sem á heima í Facebook-hópnum Málspjall er málpólitík. Þótt við höfum hvert og eitt okkar skoðanir á pólitískum ágreiningsmálum svo sem einkarekstri eiga slík mál ekki erindi þangað inn – nema þau komi íslenskunni beinlínis við. Þannig er um þessa grein. Í henni er nefnilega vakin athygli á því að á öldrunardeild Landspítalans á Vífilsstöðum er flest starfsfólk útlent – en það talar íslensku. „Landspítalinn ræður þetta fólk því aðeins í vinnu að það skilji sjúklingana og þeir skilji það. Allt annað væri glundroði. Gremja á einum stað, farsi á öðrum, enda byggja flestir gamanleikir á endalausri röð fáránlegra atvika, þar sem allir misskilja alla. Landspítalinn hefur því kostað íslenskunám erlendra starfsmanna sinna.“

En nú hefur ríkisstjórnin falið einkafyrirtæki að reka Vífilsstaði, og þetta fyrirtæki auglýsti eftir starfsfólki um helgina. Í lýsingu á kröfum til þeirra sem eiga að veita almenna umönnun og aðhlynningu stendur: „Góð íslenskukunnátta og/eða enskukunnátta, skrifuð og töluð.“ Það eru sem sé ekki gerðar kröfur um íslenskukunnáttu fólks í umönnunarstörfum – enskukunnátta dugir. Þó er ljóst að fólkið sem á að sinna er flest komið um eða yfir áttrætt, uppalið áður en enskukunnátta varð almenn á Íslandi og skilur iðulega lítið sem ekkert í ensku. Það er auðvelt – en ekki skemmtilegt – að ímynda sér ýmiss konar mistök, vandræði og þjáningar sem geta hlotist af því að gagnkvæman skilning skorti.

Hér var nýlega tekið undir orð forsætisráðherra um að það væri „menningarlegt stórslys“ ef íslenskan hyrfi. En það er ekki nóg að vera með stórar yfirlýsingar – þeim þarf að fylgja eftir með aðgerðum. Í þessu tilviki eru aðgerðir ríkisstjórnar undir forystu þessa sama forsætisráðherra að vinna beinlínis gegn íslenskunni, þótt það hvarfli ekki að mér að það sé með ráðum gert. En þegar ríkið gerir samninga af þessu tagi við einkafyrirtæki væri auðvitað hægt, ef vilji væri fyrir hendi, að setja inn í samningana skilyrði um að fyrirtækin sæju starfsfólki fyrir ókeypis íslenskukennslu á vinnutíma, og fólk yrði ekki ráðið til umönnunarstarfa nema það talaði íslensku. Mér finnst það vera sjálfsögð krafa.

Búum til íslensk starfsheiti í stað enskra

Í Vísi í dag er haldið áfram fróðlegri umfjöllun um starfsheiti – á íslensku og ensku. Fyrirsögn greinarinnar er „Íslenskan stundum hamlandi: „Leiðtogi er einstaklingur en ekki starfsheiti““. Þarna kemur fram sá varhugaverði misskilningur sem virðist vera töluvert útbreiddur að enska sé á einhvern hátt liprari og meira lýsandi en íslenska – ensk starfsheiti lýsi því nákvæmlega hvað í starfinu felst en erfitt sé eða útilokað að búa til íslenskar samsvaranir þeirra. Það er einfaldlega rangt. Þessi misskilningur stafar af því að fólk lærir ensku starfsheitin sem heild, og hvað í þeim felst, án þess að pæla í merkingu einstakra hluta þeirra. Merking starfsheitisins er nefnilega alls ekki summa af merkingu orðanna sem mynda það.

Þegar á að finna íslenskar samsvaranir finnst mörgum hins vegar að ekki sé hægt að nota tiltekin íslensk orð vegna þess að fólk hafi mismunandi skilning á þeim, og aðrar merkingar þeirra flækist fyrir. Undirliggjandi er þá sú hugmynd að þannig sé þetta ekki í ensku – þar sé merking orða skýr og ótvíræð. Viðmælandi Vísis segir: „Með leiðtoganum sem starfsheiti erum við hins vegar að taka orð sem kemur úr enskunni; orðið Lead. Í enskum starfsheitum er merking orðsins að leiða og mentora. Sem er ekkert endilega sá skilningur sem allt fólk hefur á íslenska orðinu leiðtogi.“ En lead á sér auðvitað fjölmörg merkingartilbrigði í ensku og við þurfum að læra hvaða merking á við í hverju sambandi.

„Í dag vitum við öll hvað forstjóri gerir, framkvæmdastjóri og svo framvegis. En það eru að koma inn orð eins og leiðtogi sem fólk er ekki að upplifa og skilja á sama hátt.“ Hér má benda á að forstjóri er gamalt orð í málinu en í fornmáli var það ekki starfsheiti – það var einhvers konar ráðamaður, leiðtogi. „Var hann forstjóri fyrir liði og landvörn“ segir í Egils sögu, og í Flóamanna sögu segir „Þorgrímur var góður forstjóri héraðsins“. Einnig má nefna orðið forseti sem í upphafi var alls ekki starfsheiti eða hlutverksheiti af neinu tagi, heldur nafn eins af Ásum. Þessum orðum hafa hins vegar verið gefin ný hlutverk sem við höfum vanist. Sama væri auðvitað hægt að gera með önnur orð, eins og leiðtogi.

Viðmælandi Vísis segir einnig: „Já íslenskan getur verið hamlandi. Oft vantar okkur hreinlega fleiri orð. Fyrir vikið eru til starfsheiti þar sem íslenskan nær ekki að lýsa starfinu eins vel og enska starfsheitið […]. Orðið „Learning“ er gott dæmi um slíkt orð og lýsandi í enskum starfsheitum, án þess að þau störf komi starfi fræðslustjóra hér nokkuð við.“ Það má taka undir að okkur vanti fleiri orð, og sjálfsagt er fræðslustjóri ekki alltaf heppilegt orð – en það táknar ekki að útilokað sé að finna íslenskt orð í stað learning í starfsheitum. Og þótt learning þyki „lýsandi í enskum starfsheitum“ þýðir það ekki að orðið hafi sömu merkingu í öllum enskum starfsheitum þar sem það kemur fyrir.

„Það sama má segja um starfsheitið Global Engagement & Culture Manager sem byggir á að efla helgun, drifkraft, ástríðu og byggja upp menningu, en er erfitt að þýða yfir í íslenskt starfsheiti.“ Ég skil ensku þokkalega og þykist vita hvað orðin global, engagement, culture og manager merkja – og merkingu þeirra er líka hægt að fletta upp í orðabókum. En ég er samt engu nær um verksvið þeirra sem eru Global Engagement & Culture Managers – og ég sé ekki að það sé hægt að lesa lýsinguna „efla helgun, drifkraft, ástríðu og byggja upp menningu“ ótvírætt út úr orðunum. Málið er að við þurfum að læra heildarmerkingu svona sambanda – rétt eins og við þyrftum að gera ef þau væru íslenskuð. En það gleymist.

Í lok greinarinnar spyr blaðakona Vísis: „Þurfum við þá mögulega að hugsa oftar út fyrir boxið: Ekki um þýðingar heldur hvert hlutverk viðkomandi er og búa þá jafnvel til ný heiti sem við skiljum öll eins sbr. fyrirliði?“ Og viðmælandinn svarar: „Þetta gæti verið áhugavert verkefni fyrir aðila eins og félag Mannauðsfólks á Íslandi eða Samtök atvinnulífsins. Að skoða hvort mögulegt sé að gefa út einhverjar leiðbeinandi upplýsingar.“ Þetta er einmitt málið, held ég. Það er misskilningur að reyna að elta ensku starfsheitin orð fyrir orð. Við þurfum að búa til íslensk starfsheiti á íslenskum forsendum og nota þau, þannig að fólk venjist þeim. Samtök atvinnulífsins segjast vilja styrkja íslenskuna – hér er ein leið.

Eru sum ensk starfsheiti óþýðanleg?

Á Vísi í dag er fróðleg grein með titlinum „Erum við hætt að skilja sum starfsheiti?“ og boðað að hún sé upphaf umfjöllunar um starfsheiti og þróun þeirra. Í upphafi greinarinnar segir: „Stöðuheiti á ensku eru sífellt að verða fleiri og sýnilegri í íslensku atvinnulífi. Enda mörg fyrirtæki sem starfa á alþjóðavettvangi og orðið algengara en áður að aðal tungumál vinnustaða sé enska.“ Þetta er auðvitað eitt af mörgum dæmum um það að enskan sé smátt og smátt að leggja undir sig fleiri og fleiri svið þjóðlífsins og ýta íslenskunni út. Í greininni er m.a. rætt við fulltrúa þriggja ráðningarstofa og spurt: „Hver er þín upplifun/reynsla og hver heldur þú að þróunin á þessu verði?“

Einn viðmælandi segir: „Í algjörum undantekningum eru starfsheiti fyrirtækja sem starfa að mestu leyti á íslenskum markaði á ensku, en þá er það fyrst og fremst vegna þess að við eigum ekki til nógu góð lýsandi starfsheiti á íslensku, til dæmis „Growth Manager“.“ En ef ekki er til íslenskt starfsheiti ætti ráðningarstofan að hafa metnað til að smíða það. „Growth Manager“ gæti t.d. heitið vaxtarstjóri. Ég sé ekki að það starfsheiti væri neitt minna lýsandi en það enska, en vegna þess að það er nýtt hljómar það vitanlega framandi. En verkefni vaxtarstjórans væru væntanlega skilgreind í auglýsingunni og ef starfsheitið kemst í notkun venst það fljótlega.

Sami viðmælandi heldur áfram: „Auk þess eru sum störf einfaldlega meira lýsandi á ensku, eins og til dæmis „Multimedia Sales Engineer“.“ Hér verður að spyrja: Meira lýsandi en hvað? Ekki er vísað til neins íslensks starfsheitis sem stungið hafi verið upp á. Á bak við þetta virðist búa sú hugsun að það sé einfaldlega ekki hægt að orða þetta starfsheiti á lýsandi hátt á íslensku. Það er auðvitað fráleitt. Hins vegar er auðvitað spurning hversu lipur sú þýðing yrði, en þá má einnig spyrja hvort Multimedia Sales Engineer sé sérstaklega lipurt. Málið er auðvitað það sama og með „Growth Manager“: Viðmælandinn þekkir ensku starfsheitin og finnst þau þess vegna lýsandi. En það er ekki þar með sagt að öðrum finnist það.

Sami viðmælandi segir einnig: „Það er mikilvægt að fyrirtæki noti starfsheiti sem er lýsandi fyrir starfið því slæmt er ef þau valda misskilningi, bæði meðal starfsfólks og þeirra sem kunna að sækja um starfið.“ Annar viðmælandi segir: „Það er mikilvægt að starfsheiti séu skiljanleg, gegnsæ og gefa vel til kynna um hvaða starf er að ræða til að hægt sé að átta sig á hvað fólk hefur starfað við á ferlinum.“ Þriðji viðmælandi segir: „Starfsheiti er það fyrsta sem dregur umsækjanda að starfi og er mikilvægt að það sé nægilega lýsandi fyrir það starf sem viðkomandi mun sinna.“ Hér held ég að gagnsæi starfsheita sé verulega ofmetið. Því fer fjarri að öll algeng íslensk starfsheiti séu gagnsæ eða lýsi því út á hvað starfið gengur.

Það er t.d. ekki svo að allir framkvæmdastjórar stýri einhverjum framkvæmdum. Það sem áður hét starfsmannastjóri heitir nú oft mannauðsstjóri – er sú breyting lýsandi fyrir breytingu á eðli starfsins? Hvað með samskiptastjóra – sjá þeir um samskipti innan vinnustaðarins eða út fyrir hann? Hver er munurinn á upplýsingafulltrúa, almannatengli, kynningarstjóra og fjölmiðlafulltrúa? Á mínum gamla vinnustað er fjöldi deildarstjóra sem ekki stýra neinum deildum og verkefnisstjóra sem ekki stýra neinum verkefnum. Það þýðir auðvitað ekki að þetta fólk sé ekki að vinna vinnuna sína, heldur þarf að raða fólki í tiltekin starfsheiti sem skilgreind eru í kjarasamningum.

Málið er að við þekkjum þessi starfsheiti og vitum – eða þykjumst vita – hvað í störfunum felst, og þess vegna finnst okkur heitin vera gagnsæ. En það er iðulega blekking. Meginatriðið í þessu er að gagnsæi orða skiptir fyrst og fremst máli þegar orðin eru ný og óþekkt. Þegar við erum búin að læra orðin og átta okkur á því hvað þau merkja og hvernig þau eru notuð hættir gagnsæið að skipta máli. Þá fer orðið – starfsheitið í þessu tilviki – að lifa sjálfstæðu lífi óháð uppruna sínum og orðhlutum. Þannig getur það líka orðið með íslensk starfsheiti fyrir „Growth Manager“ og „Multimedia Sales Engineer“. En auðvitað ekki ef við gefum okkur fyrir fram að útilokað sé að þýða þessi starfsheiti almennilega.

Enskættað orðalag er vísbending

Um helgina sá ég sambandið brjóta met notað í frétt á vefmiðli. Ég ætlaði að fara að skrifa höfundi fréttarinnar og benda á að hefðbundið íslenskt orðalag væri að slá met, en þegar ég skoðaði fréttina aftur var búið að breyta þessu þannig að ég slapp við bréfaskriftir. Þetta var í erlendri frétt og nokkuð augljóst að þarna hefur enskt orðalag haft áhrif á höfundinn – í ensku er talað um break a record. Íslenska orðalagið er reyndar komið úr dönsku, slå (en) rekord, og í elstu dæmum um það frá fjórða áratug síðustu aldar er það stundum haft innan gæsalappa sem bendir til þess að það hafi ekki þótt alveg fullgild íslenska í byrjun, en nú hefur það fyrir löngu unnið sér hefð. En þetta gaf mér tilefni til að skoða fleiri svipuð dæmi.

Annað dæmi um sögnina brjóta er þegar talað er um brotið hjartabroken heart á ensku. Elstu dæmi um þetta eru rúmlega 100 ára gömul, öll úr vesturíslenskum blöðum sem bendir eindregið til ensks uppruna. Í íslenskum blöðum fer þetta ekki að sjást að ráði fyrr en á stríðsárunum og þó sérstaklega eftir 1980, og eykst verulega eftir aldamótin. Aftur á móti er mun eldri hefð fyrir því að tala um brostið hjarta. Svipað má segja um að brjóta loforð sem á ensku er break a promise. Þetta er líka gamalt, elstu dæmi yfir 100 ára, og flest elstu dæmin einnig úr vesturíslenskum blöðum. En orðalagið hefur tíðkast síðan snemma á 20. öld þótt dæmin hafi alltaf verið margfalt færri en um svíkja loforð sem er hið venjulega orðalag.

Svipuð dæmi eru fjölmörg. Við tökum oft ekki eftir þeim vegna þess að orðin sem eru notuð eru íslensk – það sem er enskrar ættar er samhengið sem orðin eru sett í. Við þessu má einkum búast hjá fólki sem er mikið í ensku málumhverfi og í þýðingum úr ensku, ekki síst þeim sem eru unnar í flýti eins og þýðingar á fréttum eru oft. Meðal dæma af þessu tagi sem ég hef skrifað um er að læra frá þar sem enska hefur learn from, í stað læra af eins og venja er; segja að einhver sé í tárum í stað tárfellandi eða tárvotur þar sem enska hefur in tears; að nota tímaákvarðanir án ákvæðisorða og segja í daga og í vikur þar sem enska hefur for days/weeks en íslenska hefur haft í nokkra daga, vikum saman eða eitthvað slíkt.

Í rannsóknarverkefni okkar Sigríðar Sigurjónsdóttur fyrir nokkrum árum báðum við þátttakendur að meta nokkur dæmi af þessu tagi. Eitt þeirra var Hann baðst afsökunar fyrir léleg myndgæði þar sem á ensku er apologize for. Hátt í 90% þátttakenda undir 16 ára fannst þessi setning frekar eða mjög eðlileg. Önnur var Hún hefur aldrei haft vandamál með þetta áður þar sem á ensku er have a problem. Rúmlega helmingi undir 16 ára fannst þessi setning frekar eða mjög eðlileg. Þriðja dæmið var Í þennan veg er hægt að bæta ástandið þar sem á ensku er in this way. Þar töldu 20-30% undir 16 ára setninguna frekar eða mjög eðlilega. Í öllum tilvikum lækkaði hlutfallið mikið, en þó mismikið, með hækkandi aldri.

Eins og ég hef oft áður sagt er erlendur uppruni ekki næg ástæða til að amast við einhverju orði eða orðalagi, og það er erfitt að færa rök að því að brjóta met, læra frá og biðjast afsökunar fyrir sé eitthvað minni eða verri íslenska en slá met, læra af og biðjast afsökunar vegna. Ef þessi sambönd vinna sér hefð finnum við væntanlega ekkert athugavert við þau í framtíðinni. En notkun þessara sambanda bendir hins vegar til þess að fólkið sem notar þau þekki ekki málhefðina og það er umhugsunarvert. Málhefðin er vissulega ekkert heilög og hún getur breyst – og oft er eðlilegt eða nauðsynlegt að hún breytist. En skortur á þekkingu á málhefðinni getur samt gefið vísbendingu um að það þurfi að huga að kynningu hennar.

Þess vegna er sjálfsagt að benda á það þegar brugðið er út af málhefð. Ef ég væri enn að kenna, eða væri að lesa prófarkir, myndi ég benda á það í öllum þeim dæmum sem nefnd eru hér að framan. Ég skrifa líka stundum fjölmiðlum þegar ég sé dæmi af þessu tagi, þótt ég slyppi við það með brjóta met eins og nefnt er í upphafi. En það skiptir öllu máli að slíkar ábendingar séu settar fram sem leiðbeiningar en ekki leiðréttingar. Þetta snýst ekki um það að eitt sé rangt en annað rétt, heldur um samræmi við málhefðina. Fólk getur haft sínar ástæður fyrir því að kjósa að fylgja henni ekki, og þá er það í góðu lagi. En það skiptir máli að slíkt sé meðvitað val en stafi ekki af því að fólk þekki ekki hefðina.

Að berskjalda sig

Íslenskan er lifandi mál og ný orð eru alltaf að koma fram og ná hylli málnotenda. Í gær sá ég sögnina berskjalda í viðtali við Unu Torfadóttur tónlistarkonu á vef RÚV – „Ég hef alltaf lagt mjög mikið upp úr því að vanda mig og að vera nærgætin af því að mér finnst ótrúlega mikilvægt að berskjalda sig í list og vera svolítið hugrakkur“. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég sé þessa sögn en hún er þó ekki algengari en svo að ég tek eftir henni þegar ég rekst á hana. Mér fannst þeim tilvikum hafa fjölgað undanfarið og þess vegna fór ég að skoða sögnina svolítið. Þá komst ég að því að hún er ekki í neinum orðabókum og ekki heldur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Þar er aftur á móti að finna óbeygjanlega lýsingarorðið berskjalda sem fjögur dæmi eru um í Ritmálssafni Árnastofnunar, það elsta frá 17. öld. Það orð þekkti ég ekki heldur en það lifir samt enn í nútímamáli þótt sjaldgæft sé. Í Morgunblaðinu 2017 segir t.d.: „Vitar Íslands standa oftar en ekki á afskekktum annesjum eða útskerjum, berskjalda fyrir veðri og vindum, óvarðir fyrir ágangi sjávar.“ Þetta er samheiti við berskjaldaður sem er algengt og vel þekkt orð – um það eru yfir fimm þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1862. En orðið kemur einnig fyrir í Njálu: „Þess galt eg nú,“ segir Kolur, „er eg var berskjaldaður“ og stóð nokkura stund á hinn fótinn og leit á stúfinn.“

Orðið berskjaldaður lítur út eins og lýsingarháttur þátíðar af sögn, sem væri þá berskjalda, en hún kemur ekki fyrir á prenti fyrr en á 20. öld. Það er auðvitað hugsanlegt að sögnin hafi verið til í fornu máli og lifað í málinu öldum saman án þess að komast á prent. Slíkt væri ekki einsdæmi. En einnig getur verið að orðið hafi verið myndað með því að bæta ber- framan við lýsingarháttinn skjaldaður, af sögninni skjalda sem var til í fornu máli og merkti 'hlífa með skildi' – í fornu máli er einnig til samsetningin al-skjaldaður. Í sögninni berskjalda væri þá um að ræða „öfuga orðmyndun“ ef svo má segja, þ.e. sögnin væri leidd af lýsingarhættinum berskjaldaður en ekki öfugt eins og yfirleitt er. Slík orðmyndun er ekki heldur einsdæmi.

Í Íðorðabankanum er einnig að finna orðið berskjöldun sem kemur fyrir í íðorðasafni í læknisfræði og er skilgreint svo: „Það að láta verða fyrir áhrifum sem geta haft skaðvænleg áhrif, svo sem af miklum hita, kulda, geislun eða sóttkveikjum.“ Elsta dæmi um orðið er þó úr Tímariti lögfræðinga 1955 þar sem segir: „Þessi berskjöldun vörumerkja er e. t. v. sá þáttur í réttarvernd þeirra, sem menn hafa mestan áhuga á.“ Alls eru um 70 dæmi um orðið á tímarit.is frá því um miðjan tíunda áratuginn. Flest þessara dæma eru úr fræðilegu samhengi og hafa merkinguna sem skilgreind er í Íðorðabankanum, en á seinustu árum virðist það þó notað eitthvað í almennari merkingu, 'varnarleysi' eða eitthvað slíkt.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um sögnina berskjalda er í Rauða fánanum 1934: „Með kenningunni um hið „Skárra af tvennu illu“ […] hafa SUJ-foringjarnir reynt að afvopna verkalýðsæskuna, reynt að berskjalda hana fyrir fasistiskum hungurárásum auðvaldsins.“ Í Nýju dagblaði 1942 segir: „Hvernig er unnt á sem skemmstum tíma að berskjalda Ísland fyrir innrás þýzka hersins?“ Í þessum dæmum merkir berskjalda greinilega 'gera varnarlausan' og sama gildir t.d. í Morgunblaðinu 1992: „Eyðing skóganna berskjaldar jarðveginn“ og í Fréttablaðinu 2021: „laxinn tekur upp á því í tíma og ótíma að stökkva upp úr djúpinu og berskjalda sig þannig gagnvart veiðimönnum“.

Að undanteknum elstu dæmunum er sögnin nær alltaf notuð afturbeygð – talað um að berskjalda sig. Merkingin virðist oftast vera 'opna sig, bera tilfinningar sínar á torg' frekar en beinlínis 'gera sig varnarlausan' þótt þarna sé vissulega stutt á milli og segja megi að opnunin leiði til varnarleysis. Örfá dæmi eru um sögnina frá tveimur síðustu áratugum 20. aldar og fyrsta áratug þessarar, en allmörg dæmi eru frá síðasta áratug. Það er þó einkum á síðustu tveimur árum sem dæmum fjölgar verulega – sögnin er greinilega búin að ná fótfestu meðal málnotenda. Það er engin ástæða til annars en fagna því – mér finnst þetta ágæt sögn og gagnast vel.

Tvírætt orð í stjórnarskrá

Ég hef undanfarið verið að skoða dálítið merkingu orðsins maður og rekist á ýmislegt forvitnilegt. Af tilviljun fór ég að athuga hvernig orðið er notað í upphaflegri gerð stjórnarskrárinnar, þeirri sem Kristján níundi færði okkur 1874 þegar hann kom „með frelsisskrá í föðurhendi“ eins og Matthías Jochumsson orti. Þar telst mér til að orðið maður, í ýmsum beygingarmyndum, sé notað samtals þrettán sinnum. Það er hins vegar athyglisvert að í engu þessara dæma er notað samsvarandi nafnorð í dönskum frumtexta stjórnarskrárinnar.

Þar er oft óákveðið fornafn eða ábendingarfornafn í staðinn, eins og í 48. grein, „Engan mann má setja í gæzluvarðhald“ sem er á dönsku „Ingen kan underkastes Varetægtsfængsel“, í 34. grein, „Stjórnin getur einnig veitt öðrum manni umboð“, á dönsku „kan ogsaa en Anden af Regjeringen bemyndiges“, í 54. grein, „Hver maður á rjett á að láta í ljósi hugsanir sínar á prenti“, á dönsku „Enhver er berettiget til ved Trykken at offentliggjøre sine Tanker“, í 18. grein „Kjósa má samt þann mann, á dönsku „Dog kan den vælges“, o.s.frv.

Stundum er annað nafnorð notað í danska textanum, eins og í 55. og 56. grein, „Rjett eiga menn á“, á dönsku „Borgerne have Ret til“. Stundum er setningagerðin önnur þannig að maður kemur ekki í stað neins eins orð í danska textanum, t.d. í 4. grein, „nema hann hafi hin almennu rjettindi innborinna manna“, á dönsku „medmindre han har den almindelige Indfødsret“, 5. grein, „Konungur náðar menn og veitir almenna uppgjöf á sökum“, á dönsku „Kongen benaader og giver Amnesti“, o.fl.

Í öllum þessum dæmum liggur beint við að álykta að maður hafi almenna merkingu, vísi bæði til karla og kvenna, eins og orðið gerir venjulega í íslensku lagamáli. Þess vegna kemur á óvart að orðið skuli notað í 57. grein, „Sjerhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins“ því að í danska textanum stendur „Enhver vaabenfør Mand“. Málið er nefnilega að mand á dönsku merkir 'karlmaður' enda ekki gert ráð fyrir því á þessum tíma að konur gripu til vopna. Þarna hefur því þýðendum textans orðið á í messunni.

Það verður því ekki betur séð en orðið maður sé notað í tveimur mismunandi merkingum í stjórnarskránni 1874 – oftast vísi það til bæði karla og kvenna, en í 54. grein einungis til karla. Af þessum tvískinnungi hefðu örugglega getað sprottið áhugaverð dómsmál. Hefði t.d. verið hægt að meina konum um ritfrelsi á þeim forsendum að 54. greinin, „Hver maður á rjett á að láta í ljósi hugsanir sínar á prenti“, ætti bara við karla? Eða kalla konur í hernað á ófriðartímum á þeirri forsendu að orðalag 57. greinar, „Sjerhver vopnfær maður“, vísaði líka til þeirra?

Ég veit ekki til að til slíks hafi komið, en lögfræðingar kunna kannski einhver dæmi. Svo má vel vera að í slíkum tilvikum hefði verið vísað til danska frumtextans og bent á að augljóslega væri um að ræða ranga þýðingu í íslenska textanum. Umrædd grein féll brott úr stjórnarskránni 1944 þannig að á túlkun hennar reynir ekki hér eftir. Hvað sem því líður sýnir þetta dæmi vel að notkun orðsins maður er ýmsum vandkvæðum háð og öfugt við það sem stundum er haldið fram er það ekki endilega heppilegt í lagatexta sem þarf að vera skýr og ótvíræður.

Beygjanlegar tölur

Ég fór með bílinn minn í dekkjaskipti í morgun og var að koma frá því að ná í hann. Undanfarin 17 ár hefur þetta verið streitu- og kvíðavaldur, en nú var ég pollrólegur vegna þess að ég skipti um bíl í vor. Það var samt ekki gamli bíllinn sem olli þessari streitu og kvíða – það var númerið. Undanfarin 17 ár hef ég nefnilega verið á bíl með beygjanlegu bílnúmeri – þ.e., seinasti tölustafurinn í númerinu var 2. Þess vegna hefur mér alltaf vafist tunga um tönn þegar kemur að því að sækja bílinn, hvort sem er á verkstæði eða í dekkjaskipti – hvernig les maður úr bílnúmerum?

„Ég er að ná í DM níu níu tveir“? eða „níu níu tvo“? eða „níu hundruð níutíu og tveir“? eða „níu hundruð níutíu og tvö“? Þetta hefur valdið mér miklu hugarangri og jafnvel leitt til þess að ég hafi trassað dekkjaskipti óhæfilega. Stundum hefur mér meira að segja dottið í hug að skrifa bara númerið á miða og rétta afgreiðslumanninum. Ég hét því fyrir löngu að næst þegar ég skipti um bíl myndi ég sjá til þess að það yrðu engar beygjanlegar tölur í númerinu. Þegar ég var að ráfa um bílasölur í vor leit ég ekki við bílum með númer sem enduðu á 1, 2, 3 eða 4. Sem betur fer fann ég ágætan bíl með númer sem endar á 6 og er núna alsæll.

Svona er nú stundum erfitt að vera málfræðingur krakkar mínir. En í alvöru: Hvernig farið þið með bílnúmer sem enda á beygjanlegum tölum? Og hvað með símanúmer – segir maður ég hringdi í átta sjö fimm fjórir sex níu þrír eða átta sjö fimm fjóra sex níu þrjá? Og af hverju tölum við um Laugaveg tuttugu og tvö en ekki Laugaveg tuttugu og tvo?

Lestur og læsi

Það er örugglega best að blanda sér ekki of mikið í umræðu um lestur og lestrarkennslu því að sú umræða virðist oftast fara í skotgrafir mjög fljótlega. Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði en mér sýnist að bæði leshraðapróf og lesskilningspróf geti verið góð og gagnleg, séu þau vel gerð og byggð á fræðilegum forsendum, lögð fyrir á réttan hátt og þeim fylgi nægilegar upplýsingar. Í Fréttablaðinu í dag er langt og fróðlegt viðtal um hraðlestrarpróf við læsisfræðinga hjá Menntamálastofnun. Þetta er fínt viðtal sem ég hvet ykkur til að lesa vegna þess að í því kemur ýmislegt fram sem hefur vantað í umræðuna. En í viðtalinu koma líka fram þrjú atriði sem staðfesta að ýmis gagnrýni á hraðlestrarprófin og framkvæmd þeirra á rétt á sér.

Í fyrsta lagi virðist vera misbrestur á því að nægar upplýsingar fylgi prófunum, og tilgangur þeirra og eðli sé útskýrt nægilega vel. Í viðtalinu segir t.d. „þetta eru kannski ákveðin mistök í framsetningunni hjá okkur“ og „Við þurfum að standa okkur betur í því að reiða þetta öðruvísi fram“. Í öðru lagi er viðurkennt að ákveðnir gallar séu á prófunum. „Við getum tekið undir það að í þessu kappi sem þarna kemur til þá er þriðja viðmiðið rosalega hratt en við höfum reynt að vinda ofan af því“ og viðmælendur segja „veikleika prófsins liggja í því tæknilega atriði að textar eru ekki jafn þungir“ – „við vitum að það eru textar sem eru hlutfallslega þyngri en aðrir textar og það þarf að fínstilla“.

Þetta tengist svo þriðja atriðinu – það vantar gögn og mælitæki, m.a. málskilningspróf. „Staðan á Íslandi í dag er þannig að við erum með ofboðslega lítið af verkfærum fyrir kennara og það vantar öll stöðluð mælitæki. Við getum talað um próf sem talmeinafræðingar nota. Þetta eru held ég yfir 30 ára gömul próf sem eru að renna út.“ Þetta er alveg rétt. Það sárvantar margs konar upplýsingar um mál og málnotkun barna og unglinga sem hægt sé að byggja slík próf á – orðaforða, orðtíðni, lengd orða, byggingu orða, atkvæðagerð, setningagerð o.m.fl. En það sem verra er – það sem þó er til hefur ekki verið nýtt, a.m.k. hvorki í samræmdum prófum grunnskóla né í PISA-prófinu eins og ég hef áður skrifað um.

Hermundur Sigmundsson lagði áherslu á það í Kastljósi í gær að þær bækur sem börn hafi úr að velja í skólanum þyrftu að vera fleiri og af fjölbreyttari erfiðleikastigum. Þetta er sannarlega satt og rétt en auðveldara um að tala en í að komast. Það er reyndar ekki sanngjarnt að bera okkur saman við Norðmenn – 15 sinnum fjölmennari þjóð. Við munum aldrei hafa jafnmikið úrval af lesefni fyrir börn – en við getum samt gert miklu betur og verðum að gera miklu betur í að styrkja ritun og útgáfu lesefnis fyrir börn og unglinga. En til að geta metið hvaða textar henta hverju aldurs- og þroskastigi þurfum við ekki síður að gera átak í að þróa almennileg mælitæki sem byggjast á fræðilegum forsendum.

Slík mælitæki verður að smíða frá grunni út frá forsendum íslenskunnar og íslenskrar málnotkunar. Sigríður Ólafsdóttir hefur þó unnið að því undanfarið ásamt nemendum sínum að skilgreina íslenskan námsorðaforða sem ætti að nýtast í gerð mælitækja þótt margt fleira þurfi að koma til. Þetta hefur verið vanrækt og ég tel að Menntamálastofnun hefði átt að vinna að þessu, en það hefur því miður ekki verið gert svo að ég viti. Vonandi mun sú endurskoðun á verkefnum stofnunarinnar sem ráðherra hefur boðað leiða til þess að farið verði í slíka vinnu. Ég held að hún sé ein helsta forsenda þess að hægt sé að meta árangur mismunandi aðferða á þessu sviði. Það er mjög vond hugmynd að Alþingi mæli fyrir um kennsluaðferðir.