Í nýrri grein Snorra Mássonar á Vísi talar hann um „augljóst og alvarlegt útlendingavandamál, eins og stöðu tungumálsins hjá nýbúum“ og segir: „Mistekist hefur hrapallega að tryggja að aðfluttir tileinki sér tungumálið, svo illa að í alþjóðlegri skýrslu hljóta Íslendingar sérstaka falleinkunn. Minna en 19% innflytjenda hafa náð góðum tökum á hinu opinbera máli hér í landi, á meðan sama hlutfall stendur til dæmis í 90% í Portúgal, 85% í Ungverjalandi og tæpum 80% á Spáni.“ Þetta er rétt, en mikilvægt er að spyrja hvað liggi að baki þessum mikla mun. Stafar hann af því að innflytjendur á Íslandi séu tornæmari, latari, áhugalausari, metnaðarlausari eða neikvæðari í garð þjóðtungunnar en innflytjendur í öðrum Evrópulöndum?
Ég á bágt með að trúa því að svo sé – og sé ekkert sem bendir til þess að þann mun sem þarna er á Íslandi og öðrum Evrópulöndum megi rekja til innflytjendanna sjálfra. Þá stendur eftir að ástandið hlýtur að stafa af aðstæðum á Íslandi. Þar skiptir meginmáli að það liggur fyrir fyrir – sem Snorri nefnir ekki þótt það komi fram í skýrslunni sem hann vísar til – að það fé sem Íslendingar verja til að kenna innflytjendum íslensku er ekki nema brot af því sem önnur Norðurlönd verja til að kenna sín mál. Innflytjendur hér eiga til dæmis ekki kost á ókeypis íslenskunámskeiðum við komu til landsins – þótt þeir geti oft fengið endurgreiðslu gegnum stéttarfélög sín þurfa þeir yfirleitt að vera búnir að greiða stéttarfélagsgjöld í einhverja mánuði til þess.
Snorri segir: „Góðu fólki mislíkar það af hugmyndafræðilegum ástæðum að kenna vandamál við hópa sem gætu talist jaðarsettir í einhverjum skilningi. Ef það hjálpar því fólki í gegnum þessa umræðu að firra útlendinga allri ábyrgð á að læra tungumálið í því landi sem þeir flytjast til, getum við gert það hér fyrir sakir umræðunnar. Þá stendur að minnsta kosti eftir Íslendingavandamál. Það er að við höfum ekki tryggt að fólk sem hingað flyst læri tungumálið okkar.“ Þetta er vissulega vandamál, en það er ekki „af hugmyndafræðilegum ástæðum“ sem mörgum finnst óheppilegt að kenna það við útlendinga, heldur vegna þess að það er rangt. Það er eins og þegar maðurinn sem var stolið frá var kallaður „Jón þjófur“ upp frá því.
Það er hins vegar alveg rétt hjá Snorra að þetta er „Íslendingavandamál“ – en forsendur hans eru rangar. Íslendingavandamálið felst ekki í því „að við höfum ekki tryggt að fólk sem hingað flyst læri tungumálið okkar“, heldur í því að við höfum ekki skapað aðstæður sem auðveldi fólki að læra íslensku – það skortir faglegar, félagslegar og fjárhagslegar forsendur. Við bjóðum ekki nógu mörg námskeið og ekki nógu víða og námskeiðin sem þó eru í boði eru sjaldnast ókeypis, við gerum fólki sjaldnast kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma, við höfum ekki samið nóg af hentugu kennsluefni, við höfum ekki menntað nógu marga hæfa kennara, og við höfum ekki varið nándar nærri nógu miklu fé í að móta og framfylgja stefnu á þessu sviði.
Við þetta bætist að enskukunnátta er almenn á Íslandi þannig að það er auðvelt að búa hér og starfa árum og jafnvel áratugum saman án þess að læra málið. Það er samt ósanngjarnt og rangt að tala um „það grátlega litla hlutfall útlendinga sem sér ástæðu til að læra íslensku“ – rannsóknir sýna nefnilega að innflytjendur vilja flestir læra málið. En fyrir utan þá erfiðleika sem áður voru nefndir er ein ástæðan fyrir því að íslenskukunnátta þeirra er ekki almennari en raun ber vitni neikvætt viðhorf margra Íslendinga gagnvart „ófullkominni“ íslensku og sá siður margra að skipta yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku, þannig að fólk sem er að læra málið fær enga æfingu í því að nota það, missir móðinn og hættir námi.
„Þróunin er á fleygiferð og með hverju ári minnka hvatarnir fyrir fólk að læra tungumálið“ segir Snorri og bætir við: „Með þessu áframhaldi er hætt við því að þjóðfélagið skiptist í auknum mæli upp í tvo aðskilda hópa, íslenskumælandi fólk og svo enskumælandi fólk.“ Þetta er alveg rétt og ég hef margsinnis skrifað um þetta hér – bæði andvaraleysi gagnvart aukinni enskunotkun og hættuna á tvískiptu þjóðfélagi, og ég tek fullkomlega undir það með Snorra að við þessu verður að bregðast ef við viljum halda í íslenskuna. En það gerum við ekki með því að tala um „útlendingavandamál“ heldur með því að átta okkur á því að við berum sjálf ábyrgð á stöðunni og það er okkar að leysa þetta mál – í sátt og samlyndi við innflytjendur.