afbrygðisemi

Í fyrra skrifaði ég pistil um ýmsar breytingar á orðum sem ég taldi stafa af misheyrn, svo sem þegar reiprennandi verður reiðbrennandi og fyrst að verður víst að. Til viðbótar þessum dæmum, sem áður hafði verið bent á, nefndi ég að á netinu hefði ég rekist á nokkur dæmi um afbrigði(s)samur og afbrigði(s)semi fyrir afbrýðisamur og afbrýðisemi. Ég sagði um þessi dæmi: „Þar gegnir sama máli – framburðarmunur í eðlilegu tali er mjög lítill. Önghljóðið g veiklast oft eða hverfur í framburði í þessari stöðu, og hljóðfræðilegur munur i og í (ý) er lítill. Það er því ekkert óeðlilegt að sumir greini orðið ranglega – og skrifi það í samræmi við þessa röngu greiningu.“

Í skýringu orðsins afbrýði í Íslenskri orðsifjabók (undir ábrúðig(u)r) kemur fram að einnig séu til myndirnar ábrýði og afbrygði, og ekki sé víst hvort upphaflegt forskeyti sé á- eða af-. Síðan segir: „Upphaflegt g í síðara lið orðsins hefur fallið niður og valdið uppbótarlengingu, -brugðigr > -brúðig(u)r, -brygði > -brýði.“ Uppbótarlenging er þekkt og algengt fyrirbæri í málsögunni og vísar til þess þegar samhljóð fellur brott en aðliggjandi sérhljóð lengist í staðinn, eins og til að bæta upp fyrir brottfallið. Áður fyrr var lengdarmunur á y og ý, en í nútímamáli felst munurinn ekki í lengd heldur í hljóðgildi, auk þess sem y hefur fallið saman við i og ý við í. En þarna var myndin -brygði komin svo að ég fór að kanna málið nánar.

Í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn er afbrygði aðaluppflettimynd, en afbrýði höfð á eftir. Um þessi orð eru fimm dæmi sem eru skrifuð svo í handritum: afbrygdis (2); af bryþes (1); abbryde (1); af bryþe (1). Auk þess er í safninu gefin uppflettimyndin ábrýði, með spurningarmerki á undan til marks um að hún sé vafasöm. Myndin ábrýði kemur fyrir í kvæði frá seinni hluta 18. aldar – reyndar skrifuð ábríði en þetta er löngu eftir að ý féll saman við í í framburði þannig að stafsetningin segir ekkert. Fáein dæmi eru svo um ábrýði frá síðustu árum 19. aldar og fram undir miðja 20. öld – flest úr vesturíslensku blöðunum. Hún er líka gefin upp í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal og í Íslenskri orðabók.

Af myndinni afbrygði segir ekki aftur fyrr en í upphafi 20. aldar – í blaðinu Bjarka segir árið 1902: „Jesús opinberar oss, að synd og lygar, órjettvísi og eftirlátsemi eigingirninnar sje ónáttúra og afbyrgði hjá manninum.“ Þarna stendur að vísu afbyrgði en það virðist nokkuð ljóst að það sé prentvilla fyrir afbrygði. Árið 1924 er sýning á gamanleiknum Afbrygðissemin auglýst í Vísi og afbrygðissemi kemur fyrir í blaðinu Brautinni árið 1929. Eftir það má finna í blöðum örfá dæmi um nafnorðið afbrigði(s)semi og lýsingarorðið afbrigði(s)samur – öll með i en ekki y, en það segir lítið vegna þess að málnotendur tengja þetta væntanlega ekki við neitt annað og vita því ekki hvort á að nota i eða y.

Athyglisverðasta dæmið er úr grein tveggja lögreglumanna í Morgunblaðinu 1995, þar sem fjallað er um ástæður þess að ofbeldi er beitt. Meðal ástæðna er talin afbrigðisemi. Þetta sýnir að orðið er ekki bundið við óvandaðan eða óprófarkalesinn texta á netinu eins og ég hélt. Það er ljóst að myndin afbrygði kemur fyrir þegar í fornu máli, og frá því í upphafi 20. aldar, en spurningin er hvort hún eigi sér óslitna sögu þar á milli þótt hún hafi ekki ratað á bækur í margar aldir. Sé svo, sem ég hef tilhneigingu til að halda, eiga myndirnar afbrigði(s)samur og afbrigði(s)semi sem ég hélt að ættu rætur í misheyrn eða misskilningi á 21. öldinni sér í raun jafnlanga sögu og afbrýðisamur og afbrýðisemi – þótt strangt tekið ætti að skrifa fyrrnefndu myndirnar með y frekar en i.

Það er í raun stórmerkilegt – en ekki einsdæmi – ef orðmyndir geta lifað í talmálinu í margar aldir án þess að komast á bækur svo að heitið geti. En vissulega er líka hugsanlegt að umræddar myndir hafi orðið til nýlega á þann hátt sem ég taldi í upphafi og séu óháðar eldri samhljóða myndum. Í því máli er erfitt að sanna nokkuð. En ef saga myndanna afbrygðisamur og afbrygðisemi er óslitin frá fornu máli, ættum við þá að viðurkenna þær sem fullgildar orðmyndir í nútímamáli?  Það kæmi auðvitað ekki til greina að hafna afbrýðisamur og afbrýðisemi, þannig að þetta yrðu þá hliðarmyndir. Ég hef svo sem ekki ákveðna skoðun á þessu. Það er ljóst að myndir með afbrygði hafa alla tíð verið sjaldgæfar og spurning hvort hægt sé að segja að hefð sé fyrir þeim, þrátt fyrir að virðist geta verið ættaðar úr fornu máli. En ég hef a.m.k. aðra afstöðu til þessara mynda en áður, og myndi ekki vilja kalla þær rangt mál.

Vegna þess að það er hægt

Nýlega hlustaði ég á fróðlegan útvarpsþátt þar sem margs kyns fatlanir og raskanir bar á góma. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hef stundum séð amast við því að þessi orð séu notuð í fleirtölu, rétt eins og gösin sem mikið hefur verið tuðað um undanfarið. Fyrir nokkrum árum las ég t.d. í málfarspistli: „[…] sum íslensk orð verða alveg galómöguleg í fleirtölu. Til dæmis þráttaði ég lengi við fræðimann um orðið fatlanir. Ég sagði honum að hægt væri að tala um margs konar fötlun eða ýmsar tegundir fötlunar en hann sat við sinn keip og sagði að fleirtölumynd orðsins hefði unnið sér þegnrétt í fræðunum. Hvað sem því líður þykir mér sú mynd orðsins ljót á sama hátt og gösin […].“

Það er auðvitað enginn vafi á því að gös og fatlanir er rétt mynduð fleirtala af gas og fötlun, enda hefur það svo sem ekki verið dregið í efa. Hins vegar hefur því verið haldið fram að fleirtala þessara orða sé „ekki til“, eða þá a.m.k. að hún sé „óþörf“. Það stenst auðvitað enga skoðun. Það hefur verið bent á að fleirtalan gös var notuð þegar á 19. öld, og fleirtalan fatlanir kemur fyrir í upphafi 20. aldar. Það voru bara ekki mikil not fyrir fleirtölu þessara orða til skamms tíma, og þess vegna finnst mörgum hún framandi og telja hana þar af leiðandi ranga. En breyttar aðstæður og breytt viðhorf í þjóðfélaginu valda því að fleirtalan er núna gagnleg og nauðsynleg.

Þetta er fullkomlega eðlilegt. Í pistlinum sem áður er vitnað til er því haldið fram (reyndar ranglega) að orðið búslóð hafi varla tíðkast í fleirtölu fyrr en flytja þurfti búslóðir Vestmannaeyinga til lands í gosinu 1973 og þá hafi fleirtalan skotið upp kollinum, „ýmsum til ama og leiðinda“. En þó ekki öllum: „Prófessor Halldór Halldórsson […] sá ekkert athugavert við þessa orðmynd, benti okkur á að tungumálið væri félagslegt fyrirbrigði og hlyti að taka mið af breyttum aðstæðum í samfélaginu.“ Þetta er einmitt málið. Tungumálið verður að þjóna – og verður að fá að þjóna – því samfélagi sem notar það. Ef samfélagið breytist, eins og það gerir óhjákvæmilega, verður tungumálið að fá að gera það líka.

Auðvitað gætum við haldið áfram að tala um ýmsar gastegundir og margs konar fötlun í stað þess að tala um gös og fatlanir. En hverju værum við bættari? Hvers vegna ekki að nota eðlilega og rétt myndaða fleirtölu sem er miklu liprari? Eigum við að hafna fleirtölumyndunum bara af því að við sem erum á miðjum aldri og eldri þekkjum þær ekki úr æsku okkar og finnst þær þess vegna ankannanlegar og jafnvel ljótar? Ef við gerum það erum við að ráðast á einn mikilvægasta og stórkostlegasta þátt tungumálsins – sköpunarmáttinn. Þennan sköpunarmátt sem við höfum öll á valdi okkar og gerir tungumálinu kleift að endurnýja sig og vera í takt við tímann.

Ein minnisstæðasta sjónvarpsauglýsing seinni ára er sú þar sem Jón Gnarr í hlutverki starfsmanns Prentmets ræddi í símann við viðskiptavin sem lét sér ekki nægja svarið „Nei, það er ekki hægt“ við einhverri spurningu og spurði hvers vegna það væri ekki hægt. Þá var Jóni nóg boðið og svaraði með þjósti: „Vegna þess að það er ekki hægt.“ Mér dettur þetta oft í hug þegar ég sé fólk agnúast út í einhver tilbrigði eða (meintar) nýjungar í málinu. Fyrir því eru oft engin málefnaleg rök, og ef spurt er hvers vegna ekki sé hægt að segja svona verður svarið oft – efnislega – „Vegna þess að það er ekki hægt“.

Látum okkur ekki nægja það svar. Það er nefnilega allt mögulegt hægt.

afþíða

Sögnin afþíða (afþýða) er einkum notuð um ísskápa og merkir sama og affrysta, þ.e. slökkva á frystingunni til að losa klaka og hrím í skápnum; og svo um frosin matvæli, í merkingunni 'láta þiðna'. Elstu dæmi sem ég finn um sögnina eru frá 1965. Það liggur beint við að álykta að hún hafi orðið til við samslátt sagnanna þíða og affrysta - sú síðarnefnda virðist vera um áratug eldri og hafði því ekki fest sig mjög í sessi þegar afþíða kom til.

Stundum hefur verið amast við þessari sögn í málfarspistlum og hún kölluð „ómynd“. Sumum finnst sögnin órökrétt, því að hún „ætti að“ merkja andstæðuna við þíða í stað þess að vera sömu merkingar. Vissulega eru dæmi um að af virki þannig – afferma er andstæða við ferma. Þess eru þó dæmi að orð hafi sömu merkingu með og án af, eins og læsa og aflæsa sem voru hér til umræðu í gær. En eins og margoft hefur verið lögð áhersla á er málið ekki alltaf „rökrétt“.

Á tímarit.is er að finna um 350 dæmi um afþíða (eða afþýða). Í öllum nema fimm hefur sögnin merkinguna 'affrysta, láta þiðna' – og þessi fimm eru úr málfarsþáttum þar sem verið er að amast við sögninni. Það er því augljóst að sögnin afþíða merkir 'affrysta, láta þiðna' og hefur aldrei merkt neitt annað hvað sem einhverjum kann að þykja „rökrétt“. Það væri fráleitt að nota þessa sögn í þveröfugri merkingu.

En það er athyglisvert að dæmin um afþýða á tímarit.is eru álíka mörg og um afþíða. Nú er vissulega algengt að sögnunum þíða og þýða sé ruglað saman í riti, en ég er samt nokkuð viss um að hlutfall afþýða á móti afþíða er margfalt hærra en hlufall þýða á móti þíða í merkingunni 'láta þiðna'. Það gæti bent til þess að málnotendur tengi afþíða/afþýða ekki sérstaklega við þíða, heldur skynji hana sem sérstaka sögn sem sé þá ekki bundin af þíða um það hvort hún sé rituð með í eða ý.

Samtengingar með og án að

Smáorðið er hluti ýmissa íslenskra samtenginga, en það er þó misvel séð. Í Málfarsbankanum segir: „Mælt er með eftirfarandi samtengingum, a.m.k. í rituðu máli (og formlegu tali): ef, hvort, sem. Síður: „ef að“, „hvort að“, „sem að“. Aftur á móti eiga tengingarnar: því að, þó að, svo að ávallt vel við og hafa verið taldar vandaðra mál en „því“, „þó“, „svo“.“ En á hverju byggist það að líta með velþóknun á í sumum tengingum en hafa horn í síðu þess í öðrum? Þær myndir tenginganna sem taldar eru óæskilegri eru sannarlega ekki nýjar.

Lítum fyrst á dæmi þar sem er sleppt. Í Fjölni 1835 segir: „Hundurinn bar sig illa og íldi, af því hann var óvanur þessari meðferð.“ Í Skírni 1830 segir: Nikulás Rússakeisari lét ekki lengi frýa sér hugar, því hann þóktist hafa nóg efni til stríðs fyrir laungu.“ Í Skírni 1832 segir: „Konúngr er jafnan lítt við heilsu, þó hann sé úngr að aldri.“ Í Skírni 1837 segir: Forseti Þjóðveldanna, Jakkson, er nú orðinn gamall, og hefir verið lengi veikur af blóðspýu, svo hann hefir stundum naumast getað sinnt stjórnarefnum.“

Sama er að segja um tengingar þar sem er bætt við. Í Fjölni 1830 segir: „Honum fannst, eínsog sér mundi verða glatt og létt í huga, ef að þessi eíni maður væri frá.“ Í Fjölni 1835 segir: „Það eru eptirleífar mikillar dýraættar, sem að er áþekk skorkvikindum og miklu fremri að sköpulagi enn lindýrin.“ Í Fjölni 1847 segir: „jeg ... veit ekki, að kalla má, enn sem komið er, hvort að jeg fyrir nokkurn hlut megi teljast dugandi bónda-efni.“ Í Þjóðólfi 1850 segir: „Ef menn spyrja nú að því, hvernig kjósendurnir eigi að fá vissu sína um það, hvort að þeir menn, sem þeim leikur helzt hugur á að kjósa …“

En er oft bætt við fleiri tengingar en þær sem eru taldar í upphafi. Í Skírni 1868 segir: „Ráðherrann ... kvaðst eigi vilja standa fyrir hermálunum, nema að hann ljeti prússneska manninn fara úr þeirri þjónustu.“ Í Fjölni 1835 segir: „Jafnvel þótt að margar góðar og nytsamar bækur séu til á íslenzku, þá er samt hitt miklu fleira, sem enn er óskrifað um.“ Í Þjóðólfi 1853 segir: „Fyrst að hann nú játar sjálfur, að hann hlaupi yfir á því vaðinu, sem kennt er við hunda …“ Í Ísafold 1898 segir: „Sissener var ekki heima, þegar að ég kom, en hann kom heim nokkru áður en ég fór.“ Sjálfsagt mætti bæta einhverjum tengingum við þessa upptalningu.

Það er því ljóst að a.m.k. 200 ára hefð er fyrir flestum þeim afbrigðum sem þykja síðri en hin. Ég verð að játa að ég átta mig ekki á því hvers vegna á stundum að vera hluti samtengingar en stundum ekki. Mér þykir líklegt að æskilegri afbrigðin séu talin eldri, en í fornu máli standa þó því, þó og svo stundum án – hitt er mjög sjaldgæft að sé bætt við. En það er ljóst að mjög langt er síðan þetta fór að riðlast, eins og sést á dæmunum hér að framan sem öll eru síðan á 19. öld og mörg hver úr Fjölni sem venjulega hefur fremur þótt til fyrirmyndar um málfar en hitt.

Ég veit ekki hvort áðurnefndar reglur eru enn kenndar í skólum, en sé svo finnst mér það ástæðulaust – þær eiga sér enga stoð í málkerfinu. Að því marki sem nútíma málnotendur hafa tilfinningu fyrir því hvenær á að vera með og hvenær ekki held ég að sú tilfinning sé tillærð en ekki komin til á máltökuskeiði – a.m.k. er það þannig hjá mér. Ég lærði reglurnar í skóla á sínum tíma og þær festust svo í mér að ég skrifa alltaf sjálfkrafa á eftir því, þó og svo, en aldrei á eftir ef, hvort og sem – en í töluðu máli sleppi ég -inu hins vegar oftast á eftir fyrrnefndu tengingunum, en nota það það iðulega á eftir þeim síðarnefndu, einkum sem.

Fyrir löngu síðan

Notkun orðsins síðan með forsetningunni fyrir í ýmsum samböndum sem vísa til tíma er vel þekkt umfjöllunarefni í málfarsumræðu og tekin fyrir í Málfarsbankanum þar sem segir: „Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.“ Auk þessa er oft amast við síðan í þessum samböndum á þeim forsendum að sú notkun sé komin úr dönsku og sé þess vegna „ekki nothæft orðalag í vönduðu íslenzku máli“.

Það er sjálfsagt rétt að þessi notkun síðan sé komin úr dönsku, en það sama má segja um mikinn fjölda orða og orðasambanda í málinu. Ef ætti að útrýma því öllu yrði málið æði miklu fátæklegra. Vissulega má halda því fram að síðan sé „óþarft“ í áðurnefndum samböndum. En það er óskaplega varasamt að tala um „óþörf“ orð. Það má til dæmis segja að sé „óþarft“ í samtengingum eins og því að, þó að og svo að – það er alveg jafn skýrt að segja bara því, þó og svo. Samt segir í Málfarsbankanum: „Aftur á móti eiga tengingarnar: því að, þó að, svo að ávallt vel við og hafa verið taldar vandaðra mál en „því“, „þó“, „svo“.“

Orðið síðan er auðvitað rammíslenskt, og áðurnefnd sambönd með því hafa verið algeng í málinu a.m.k. síðan á 18. öld og hafa því fyrir löngu síðan unnið sér hefð. Hvorki danskur uppruni né meint „þarfleysi“ orðsins breytir neinu um það. Vitanlega er líka hægt að sleppa síðan, og vitanlega getur sumum fundist fara betur á því (hvort sem það er upprunaleg máltilfinning eða runnið frá því sem fólki hefur verið kennt). En aðalatriðið er að það er algerlega fráleitt að halda því fram að fyrir löngu, fyrir fjórum árum o.s.frv. sé á einhvern hátt réttara eða vandaðra mál en fyrir löngu síðan, fyrir fjórum árum síðan o.s.frv. Fyrir slíku eru engin rök.

Beljur

Árið 1965 byrjaði Mjólkursamlag KEA með nýjar 10 lítra mjólkurumbúðir. Þetta voru plastpokar með þartilgerðum krana og pappakassi utan um. Umbúðirnar voru kallaðar mjólkurkassar og voru fljótlega teknar upp hjá fleiri mjólkursamlögum, t.d. í Skagafirði 1967. Þegar ég kom í MA haustið 1971 drukku flestir í mötuneyti heimavistarinnar mjólk með mat og á afgreiðsluborðinu stóðu mjólkurkassar í röðum (og voru óspart nýttir til að hrekkja busa sem ekki kunnu á þessa tegund mjólkurumbúða, en það er önnur saga).


Þarna lærði ég að kalla mjólkurkassana beljur sem lá auðvitað beint við. Ég veit ekki hvort þetta heiti var upprunnið þarna í mötuneytinu en það gæti svo sem vel verið – a.m.k. hafði ég aldrei heyrt það í Skagafirði. Allnokkrum árum seinna var farið að selja léttvín í svipuðum umbúðum. Kassarnir eru að vísu minni og kranarnir svolítið öðruvísi en í grundvallaratriðum er þetta sama sýstem. Það er þess vegna engin furða að belju-heitið hafi færst yfir á kassavínið. Elsta dæmi um kassavín á tímarit.is er frá 1992, en dæmi um beljuvín og belju af rauðvíni eru frá 1996 (með „belju“ í gæsalöppum).

Ég get svo sem ekki fullyrt að þetta sé uppruni þess að tala um belju af víni og beljuvín en mér finnst það langlíklegast. Sé sú tilgáta rétt er þetta skemmtilegt dæmi um það hvernig fullkomlega gagnsæ og eðlileg orðmyndun og orðanotkun þróast og verður ógagnsæ – og óskiljanleg ef maður þekkir ekki söguna. Ef mjólkurkassarnir hefðu aldrei verið til, og verið kallaðir beljur, er óvíst og raunar ólíklegt að nokkrum hefði dottið í hug að taka belju-nafnið upp fyrir kassavín. En vegna þess að fólk mundi eftir mjólkurkössunum og líkindin voru augljós lá þetta heiti beint við.

Málfarsleg sjálfhverfni

Íslensk málsaga spannar a.m.k. þúsund ár – og jafnvel allt að sex þúsund ef við miðum við rekjanlega sögu allt aftur til indóevrópska frummálsins. Allan þann tíma hefur málið verið að breytast – stundum mikið og stundum minna, en aldrei staðnað. En við horfum venjulega á tungumálið gegnum örlítinn glugga sem sjaldnast nær yfir meira en svona 15-20 ár, frá upphafi máltöku okkar og til fullorðinsára. Hugmyndir okkar um hvernig íslenskan , og eigi að vera, miðast að mestu leyti við hvernig málið var í umhverfi okkar – eða hvernig okkur var kennt að það ætti að vera – á þessum tíma.

Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt og er ekki bundið við Ísland – svona er þetta víðast hvar. Það er ekki við því að búast að venjulegir málnotendur þekki öll tilbrigði málsins í tíma og rúmi. En það er hætta á að þessi litli gluggi geri okkur þröngsýn og lítt umburðarlynd gagnvart margs kyns tilbrigðum og breytileika í máli, bæði nýjungum sem eru að koma upp og einnig eldri tilbrigðum sem við höfum ekki alist upp við, eða okkur hefur verið kennt að séu röng. Það er slæmt, því að málið nærist á fjölbreytni og nýsköpun. Það verður að fá svigrúm til að breytast – annars koðnar það niður.

Þess vegna er svo mikilvægt að við ræktum með okkur umburðarlyndi gagnvart ýmsum tilbrigðum í máli, gagnvart annars konar íslensku en þeirri sem við ólumst upp við. Það þýðir ekki að við eigum að breyta máli okkar sjálfra til samræmis við ný tilbrigði. Það þýðir ekki heldur að við megum ekki láta ýmsar nýjungar í máli pirra okkur. Það þýðir ekki heldur að við megum ekki vekja athygli á því þegar brugðið er út af málhefð. En það þýðir að við þurfum að átta okkur á því að við eigum íslenskuna öll saman, líka unga fólkið og þau sem eru að læra málið, og okkar íslenska er ekki betri eða réttari en annarra. Íslenska er alls konar.

skíða, skauta, funda

Fjölmargar íslenskar sagnir eru leiddar af nafnorðum án nokkurs viðskeytis – bara bætt nafnháttarendingu við rótina. Margar þessara sagna eru gamlar, en nýjar eru sífellt að bætast við – og fá misjafnar viðtökur. Meðal þeirra sem hafa breiðst út á síðustu áratugum eru skauta í stað 'renna sér á skautum', skíða í stað 'renna sér/ganga á skíðum' og funda í stað 'halda fund'. Sögnin skíða virðist vera rúmlega 50 ára gömul í málinu – í sumum elstu dæmunum um hana á tímarit.is er hún höfð innan gæsalappa sem sýnir að hún hefur verið ný og jafnvel þótt ástæða til að afsaka notkun hennar. Sögnin funda er eitthvað eldri, líklega rúmlega 60 ára gömul. Sögnin skauta er aftur á móti gömul í málinu í merkingunni 'bera skaut' en í merkingunni 'renna sér á skautum' er hún sennilega á svipuðum aldri og hinar tvær.

Þessar sagnir koma í stað orðasambanda með nafnorði eins og merkingarskýringarnar sýna. Margir málvöndunarmenn hafa einmitt lagt áherslu á að íslenska sé sagnamál – noti sagnir í stað sambanda með nafnorðum eins og gert sé í ensku sem sé nafnorðamál. Nú hef ég reyndar aldrei séð nein rök fyrir því að íslenska og enska séu ólíkar hvað þetta varðar – engar tölur sem bendi til þess að hlutfallsleg tíðni sagna í texta sé hærri í íslensku en ensku. Þessi staðhæfing virðist eingöngu byggjast á tilfinningu og er aðeins studd með einstöku dæmum, oftast þeim sömu – ég veit ekki hversu oft ég hef séð nefnt að í stað þess að gera eða framkvæma rannsókn eða könnun eigi að tala um að rannsaka eða kanna.

Út frá þessu mætti ætla að sögnum eins og funda, skíða og skauta yrði tekið fagnandi. En því er aldeilis ekki að heilsa. Í þættinum Íslenskt mál, sem Gísli Jónsson skrifaði í Morgunblaðið um tveggja áratuga skeið, var margoft amast við þessum sögnum – þær sagðar vera „snautlegar“, „barnalegar“, „fátæktarlegar“, „barnamálslegar“, „lágkúrulegar“, „flatsagnir“, „ómynd“, „bjálfamál“, bera vott um „málfátækt“ og vera vinsælar „af þeim sem minnstan hafa málsmetnað og daufasta tilfinningu“. Og Gísli er sannarlega ekki einn um að hafa haft ímugust á þessum sögnum. Mér er samt hulin ráðgáta hvað er svona vont við þær. Þannig virðist funda vera alveg sambærileg við þinga sem talað er um með velþóknun; og skíða og skauta virðast hliðstæðar við hjóla.

Mér finnst áðurnefndar sagnir alveg ágætar – þær hafa skýra og augljósa merkingu og eru mun liprari en orðasamböndin sem þær leysa af hólmi. Myndun sagna af nafnorðum á þennan hátt á sér langa hefð og ótal fordæmi í málinu. Ég get ekki séð neitt sem skýrir andstöðu við þessar sagnir annað en þær eru nýlegar – og það tekur tíma að venjast nýjungum í máli. Reyndar hef ég ekki séð amast við þessum sögnum nú í nokkurn tíma, sem gæti bent til þess að þær hafi verið teknar í sátt. En í staðinn er fólk farið að hnýta í aðrar nýjar sagnir sem eru myndaðar á þennan hátt.

Veðurfarsorð

Í málfarshópum er fólk iðulega að amast við orðinu snjóstormur – kallar það ensku og gerir því skóna að það sé að útrýma rammíslenskum orðum sömu merkingar, eins og bylur, stórhríð, kafald o.s.frv. Auðvitað er snjóstormur íslenska en ekki enska – báðir orðhlutarnir íslenskir. Orðið verður ekki að ensku þótt hliðstæð samsetning sé vissulega til í ensku, og ekki heldur þótt sú samsetning kunni að vera fyrirmynd íslenska orðsins. Hitt er annað mál að vitanlega er fjölbreytni í orðavali æskileg og ekki gott ef þetta orð er að breiða sig út á kostnað annarra. En talning sem ég gerði á nokkrum orðum á þessu merkingarsviði á tímarit.is bendir sannarlega ekki til þess að svo sé.
En út frá þessu fór ég að hugsa um sögnina hríða. Þegar ég var að alast upp í Skagafirði var þessi sögn mikið notuð – það er farið að hríða o.þ.h. Mig minnir að notkun hennar hafi alls ekki verið bundin við storm og stórhríð heldur hafi hún eins verið notuð um smávægilega snjókomu í logni enda er orðið lognhríð til. Nú heyri ég þessa sögn aldrei og nota hana ekki sjálfur. Samkvæmt tímarit.is. var notkun hennar langmest milli 1950 og 1970, sem samræmist þeirri tilfinningu minni að hún hafi verið algeng í mínu ungdæmi, en datt niður eftir það. Kannski er hún á leið úr málinu – hún er t.d. ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Það hefur stundum borið á því að sagnir sem eru leiddar af nafnorðum án nokkurs viðskeytis hafi ekki þótt nógu góðar eða virðulegar, t.d. skíða, skauta o.fl. Mér datt í hug hvort hríða hefði hugsanlega orðið fórnarlamb einhvers konar misskilinnar málvöndunar. Það er samt bara hugdetta.

Þykkvbæingar

Ég sá nýlega orðið Þykkvbæingur notað nokkrum sinnum í frétt á vefmiðli. Það lék enginn vafi á merkingunni – það var verið að tala um íbúa í Þykkvabæ. En þessi orðmynd kom mér samt svolítið á óvart – ég hefði hiklaust notað myndina Þykkbæingur, án v. Þegar ég fór að skoða þetta á tímarit.is kom í ljós að báðar myndirnar er þar að finna, en v-lausa myndin er þó nokkrum áratugum eldri og hátt í fjórum sinnum algengari en hin. En eru báðar þessar myndir góðar og gildar?

Ég skrifaði nýlega pistil um viðskeytið -ingur og benti á að oftast gerir það þá kröfu að orðið sem það tengist sé stytt niður í tvö atkvæði. Þannig verður Reykjavík + ingur ekki *Reykjavíkingur, heldur Reykvíkingur; Hafnarfjörður + ingur verður ekki *Hafnarfjörðingur, heldur Hafnfirðingur; Bolungarvík + ingur verður ekki *Bolungarvíkingur, heldur Bolvíkingur; Sauðárkrókur + ingur verður ekki *Sauðárkrókingur, heldur Sauðkrækingur; og svo mætti lengi telja. En yfirleitt er grunnorðið klippt sundur á orðhlutaskilum og ef slík skil eru ekki fyrir hendi er krafan um tvö atkvæði stundum brotin, eins og í Ólafsfirð-ingur, Jökuldæl-ingur o.fl.

Báðar myndirnar, Þykkbæingur og Þykkvbæingur, falla að þessari meginreglu – bæði Þykk og Þykkv eru eitt atkvæði. Það má líka færa rök fyrir því að klippa orðið hvort heldur er á undan eða eftir v-inu. Orðið þykkur er svonefndur wa-stofn sem merkir að v var viðskeyti sem var hluti stofnsins en féll þó brott við ákveðnar hljóðfræðilegar aðstæður. Nefnifall veikrar beygingar í karlkyni var þykkvi og því heitir sveitin Þykkvibær. Nú hefur beygingin breyst þannig að v er alveg horfið úr henni – við segjum hinn þykki, ekki hinn þykkvi. Eldri beygingin helst þó í heitinu Þykkvibær eins og algengt er.

Það eru skil á undan v í þykk-v-i vegna þess að v er viðskeyti, og það eru líka skil á undan i vegna þess að i er beygingarending. Þess vegna má færa rök fyrir því að klippa grunnorðið á hvorum staðnum sem er eins og áður segir. En í fornu máli féll v brott í beygingu orðsins þykkr á undan u og einnig á undan samhljóðum og í enda orðs. Sterka beygingin í eintölu var þannig þykkrþykkvanþykkumþykks í karlkyni en þykkþykkva þykkriþykkrar í kvenkyni. Vegna þess að næsti orðhluti, , hefst á samhljóði, ætti v því að falla brott samkvæmt þessum reglum. Þykkvbæingur er í raun hliðstætt við að sagt væri *Reykjvíkingur.

Þýðir það að Þykkbæingur sé rétt mynd en Þykkvbæingur röng? Ekki endilega. Í fyrsta lagi er reglan um það hvenær v fellur brott og hvenær það fær að standa ekki lengur lifandi í máltilfinningu okkar. Vegna þess að v er horfið úr öllum beygingarmyndum orðsins þykkur er alveg hugsanlegt að málnotendur – sumir hverjir a.m.k. – skynji engin orðhlutaskil á undan v í Þykkvi. Sé svo er myndin Þykkvbæingur sú sem við er að búast. Í öðru lagi skiptir hefðin auðvitað máli. Þótt Þykkbæingur sé mun algengari mynd eins og áður segir er enginn vafi á því að myndin Þykkvbæingur hefur verið töluvert notuð áratugum saman. Báðar myndirnar hljóta að teljast réttar.

En auk þessara tveggja mynda er myndin Þykkvabæingur einnig til, þótt hún sé sjaldgæfari en hinar samkvæmt tímarit.is. Þar er brotin meginreglan um að á undan -ingur komi aðeins tvö atkvæði – Þykkvabæ- er þrjú. Sú regla á sér reyndar ýmsar undantekningar eins og áður segir en þær virðast helst koma fram þegar málnotendur skynja engin orðhlutaskil milli annars og þriðja atkvæðis. Vegna þess að v er alveg horfið úr beygingu lýsingarorðsins þykkur er hugsanlegt að málnotendur skynji þykkva- sem eina heild frekar en sem beygingarmynd af þykkur. Einnig er hugsanlegt að málnotendum finnist hinar myndirnar tvær óheppilegar – Þykkvbæingur af hljóðfræðilegum ástæðum og Þykkbæingur vegna þess að með brottfalli v verði tengslin við Þykkvabæ ekki nógu ljós.