Við hittumst aðra hvora helgi

Í framhaldi af umræðu um samböndin öðru hvoru og öðru hverju í atvikslegri merkingu, 'við og við', fór ég að hugsa um notkun þessara sambanda sem fornafna í merkingunni 'einn af hverjum tveimur í röð (með nafnorði án greinis)' eins og skýringin á annar hvor er í Íslenskri nútímamálsorðabók, með dæmunum ég á að skúra aðra hvora viku og við hittumst annan hvorn sunnudag. En við skýringuna er bætt innan sviga: „(réttara er þó talið að nota hér 'annar hver': annan hvern sunnudag)“. Sambandið annar hver er skýrt 'einn af hverjum tveimur á víxl í samfelldri röð' með dæmunum annar hver nemandi lærir á hljóðfæri, það er mynd á annarri hverri blaðsíðu, önnur hver fjölskylda er áskrifandi að blaðinu og hún vinnur aðra hverja helgi.

Í Málfarsbankanum er svo hnykkt á því hvað er talið „réttara“ í þessu: „Annar hvor, önnur hvor, annað hvort merkir: Annar (önnur, annað) af tveimur. Þau fara þangað aðra hvora helgina, annaðhvort þá næstu eða þá þarnæstu.“ En hins vegar: „Annar hver, önnur hver, annað hvert. Þau fara þangað aðra hverja helgi, þ.e. að jafnaði 26 helgar á ári.“ Þetta samræmist því sem Málfarsbankinn segir um greinarmun hvor og hver – „Óákveðna fornafnið hvor á við þegar rætt er um annan af tveimur“ og „Fornafnið hver á við þegar rætt er um einn af þremur eða fleirum“ Sá greinarmunur hefur reyndar ekki alltaf verið gerður – í skýringu orðanna í Íslenskri orðabók segir: „á 14.–19. öld var enginn greinarmunur á hver og hvor.“

Það er líka alkunna að algengt er í nútímamáli að ekki sé gerður munur á þessum orðum. En þótt við höldum okkur við að gera merkingarmunur á hvor og hver leiðir það ekki endilega til þess að annan hvern sunnudag og aðra hverja helgi sé réttara en annan hvorn sunnudag og aðra hvora helgi í dæmunum að ofan. Þegar við segjum aðra hvora helgi er nefnilega hægt að líta svo á að viðmiðið sé í raun ekki allar 52 helgar ársins, heldur einungis tvær og tvær í einu. Það má sem sé líta svo á að aðra hvora helgi merki 'aðra af tveimur í hverjum viðmiðunarhópi' og því sé eðlilegt að nota þarna fornafnið hvor. En einnig kemur til greina að líta á allar helgar ársins sem viðmiðunarhóp og þá er eðlilegt að segja aðra hverja helgi.

Á tímarit.is má finna fjölda gamalla dæma um sambandið annar hvor í þessari merkingu. Elsta dæmi um annan hvorn dag og annan hvern dag eru jafngömul, frá 1872 – elsta dæmi um aðra hvora viku er frá 1887 en um aðra hverja viku frá 1906. Dæmi með hver eru vissulega mun fleiri, en dæmin um hvor skipta samt þúsundum og fráleitt vegna aldurs, tíðni og þess sem áður segir um viðmiðunarhóp að telja þau röng. Áðurnefnd skýring um að hvor miðist við hóp tveggja og tveggja gengur vitanlega ekki upp í dæmum eins og þriðju hvora helgi sem slæðingur er af í Risamálheildinni. En þau dæmi eru eingöngu af samfélagsmiðlum og því trúlegt að þau megi skýra með almennu samfalli hvor og hver sem er algengt í óformlegu máli.

Öðru hvoru og öðru hverju

Áðan var hér spurt hvort fólk væri „alveg hætt að greina mismuninn“ á öðru hverju og öðru hvoru – en hver er þessi munur? Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 sagði Jón G. Friðjónsson: „Spurnarfornafnið hvor vísar til annars af tveimur en hver til fleiri en tveggja. Í samræmi við það er (eða ætti að vera) merkingarmunur á orðasamböndunum öðru hvoru og öðru hverju. Orðasambandið öðru hverju vísar til þess sem gerist aftur og aftur með ákveðnu millibili (endurtekin merking) […]. Öðru hvoru vísar hins vegar til annars tilviks af tveimur […].“ Þrátt fyrir að telja að þarna „ætti að vera“ munur segist Jón hafa „veitt því athygli að í nútímamáli er algengt að enginn munur sé gerður á öðru hverju og öðru hvoru“.

Í pistli frá 2015 í Málfarsbankanum er Jón svo orðinn afdráttarlausari um þetta samfall og segir: „Í nútímamáli er t.d. ýmist sagt öðru hverju eða öðru hvoru án merkingarmunar […].“ Hér er rétt að athuga að „í nútímamáli“ er þarna skilgreint nokkuð rúmt – Jón vísar í ýmis dæmi allt frá fyrri hluta 18. aldar þar sem öðru hvoru er notað þar sem hann telur að búast mætti við öðru hverju. Stundum er því þó haldið fram að öðru hverju sé hið eina rétta. Í Einingu 1953 er vitnað í Magnús Finnbogason menntaskólakennara sem var þekktur málvöndunarmaður „og nú minnir hann okkur á að segja […] Ekki: öðru hvoru – heldur: öðru hverju“. Málfarsbankinn er ekki eins afdráttarlaus en segir þó: „Talið er betra mál að segja öðru hverju en „öðru hvoru“.

Þarna eru sem sé komin fram tvö sjónarmið – annars vegar telur Jón G. Friðjónsson rétt að nota ýmist öðru hvoru eða öðru hverju eftir merkingu, og hins vegar vilja Magnús Finnbogason og Málfarsbankinn alltaf nota öðru hverju, óháð fjölda tilvika að því er virðist. Þriðja sjónarmiðið kemur fram hjá Gísla Jónssyni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1987: „Öðru hvoru eða öðru hverju. Erfitt er að segja að annað sé réttara en hitt. […] Hæpið mun að greina þetta eftir því, hversu oft eitthvað gerist, því að tímaviðmiðunin í þessu er svo afstæð.“ Ég tek undir þetta. Ég hef enga tilfinningu fyrir því að einhver merkingarmunur sé á öðru hvoru og öðru hverju og held að ég noti þessi sambönd til skiptis á tilviljanakenndan hátt.

Ég held nefnilega að tvö fyrri sjónarmiðin byggist á misskilningi – eins og dæmi hjá Jóni G. Friðjónssyni sýna er þar verið að blanda saman atviksorðunum öðru hvoru og öðru hverju annars vegar og beygingarmyndum fornafnanna annar hvor og annar hver hins vegar. Á fornöfnunum er gerður greinarmunur eftir því hvort vísað er til tveggja eða fleiri, en í aviksorðunum sem málið snýst um hér vísar hvor aldrei til fjölda tilvika, annars af tveimur – það er óhugsandi í merkingunni 'við og við'. Það skiptir því ekki heldur máli hvort sagt er öðru hvoru eða öðru hverju vegna þess að merkingarmunur getur ekki verið fyrir hendi – enda eru öðru hvoru og öðru hverju gefin athugasemdalaust í sömu merkingu í orðabókum.

Eignarfallsfrumlög

Tvær fyrirsagnir á mbl.is í morgun vöktu athygli ýmissa og voru m.a. gerðar að umtalsefni í Málvöndunarþættinum – „Líklegt að áhrif kerfisbilunar gæti hérlendis“ og „Áhrifin gæta ekki hjá Play“. Myndirnar áhrif og áhrifin gætu formsins vegna verið hvort heldur er nefnifall eða þolfall en fleirtalan gæta sýnir að um nefnifall er að ræða í seinni setningunni a.m.k. Sögnin gæta tekur hins vegar með sér eignarfall í þessari merkingu í hefðbundnu máli þannig að búast hefði mátt við áhrifa og áhrifanna. Báðum fyrirsögnum var líka fljótlega breytt og eru „Líklegt að áhrifa kerfisbilunar gæti hérlendis“ og „Áhrifanna gætir ekki hjá Play“. En er einhver skýring á því að þarna var í upphaflegri gerð fréttanna notað nefnifall í stað eignarfalls?

Í íslensku er frumlag setninga langoftast í nefnifalli. Allnokkrar sagnir taka þó frumlag í þolfalli, svo sem langa, vanta, dreyma, syfja, reka (á land), daga (uppi) en þolfall sem frumlag á þó nokkuð í vök að verjast eins og kunnugt er og margar þessar sagnir hafa tilhneigingu til að breyta um frumlagsfall – fá þágufall eins og langa, vanta og dreyma eða nefnifall eins og dreyma, reka (á land) og daga (uppi), svo að fáein dæmi séu tekin. Fjöldi sagna tekur þágufallsfrumlag, eins og líka, leiðast, finnast, sýnast og sambönd með vera eins og vera kalt, vera illt o.s.frv. Hins vegar taka aðeins örfáar sagnir eignarfallsfrumlag – Jóhannes Gísli Jónsson telur sjö í grein í Íslensku máli: bíða, geta, gæta, kenna, missa við, njóta (við) og þurfa.

Allar þessar sagnir eru einnig til með nefnifallsfrumlagi, ýmist í svipaðri merkingu eða ekki – til er bæði mín bíður erfitt verkefni og ég bíð eftir þessu, hennar getur í þessu kvæði og hún getur gert þetta, verkjanna gætir ekki og ég gæti að mér, það kenndi aflsmunar og ég kenndi hana, hans missti við og ég missti hann, hans nýtur ekki við og hún nýtur þessarar bókar, og þess þarf ekki og ég þarf þess ekki. Við bætist að flestar þessara sagna – sem og fáeinar aðrar sem mætti bæta við listann – eru sjaldgæfar með eignarfallsfrumlagi og sumar mjög sjaldgæfar. Þess vegna er í sjálfu sér ekkert undarlegt að fallstjórn þeirra hafi tilhneigingu til að breytast og dæmigert frumlagsfall, nefnifall, koma í stað eignarfallsins – eins og í umræddum fréttum.

Ef sögn sem hefur svipaða merkingu og gæta en tekur nefnifallsfrumlag eins og t.d. finnast, eða samband eins og koma fram, væri sett í stað gæta í upphaflegri gerð áðurnefndra fyrirsagna væri ekkert við þær að athuga – Líklegt að áhrif kerfisbilunar komi fram hérlendis, Áhrifin finnast ekki hjá Play. Sennilega hefur fréttaskrifurum fundist að gæta tæki nefnifallsfrumlag eins og langflestar sagnir. Almennt séð er meinlaust þótt einstakar sagnir breyti um fallstjórn og ég hef t.d. engar áhyggjur af breyttri fallstjórn með langa, vanta, dreyma og slíkum sögnum. En þar sem sagnir sem taka eignarfallsfrumlag eru svo fáar munar um hverja einstaka, og vegna þess að eignarfallsfrumlög eru eitt af sérkennum íslenskunnar væri mikil eftirsjá að þeim.

Arfleifð Bítlanna í íslensku

Breska hljómsveitin The Beatles er að mati okkar margra sem ólumst upp á sjöunda áratug síðustu aldar (og ýmissa fleiri) merkilegasta og besta hljómsveit sögunnar. Það er samt ekki ástæðan fyrir því að ég nefni hana hér, enda er þetta ekki hópur fyrir tónlistaráhugafólk. The Beatles Bítlarnir – eru nefndir hér vegna þeirra áhrifa sem þeir höfðu á íslenskt mál. Þetta er ein fárra erlendra hljómsveita, ef ekki sú eina, sem hefur verið gefið íslenskt nafn sem meira að segja varð fullgilt nýyrði í málinu og hefur getið af sér ýmsar samsetningar. Að vísu voru The Rolling Stones stundum kallaðir Rollingarnir en það er annars eðlis – miklu sjaldgæfara og auk þess var rollingur til í málinu fyrir þótt það hafi auðvitað aðra merkingu en í Rolling Stones.

The Beatles sjást fyrst nefndir í íslensku blaði um mitt ár 1963, skömmu eftir að þeir slógu í gegn í Bretlandi. Alls er enskt nafn hljómsveitarinnar nefnt fimm sinnum í íslensku blöðunum það ár samkvæmt tímarit.is, en nærri sjö hundruð sinnum á næsta ári, 1964. En strax í nóvember 1963 er enska heitið búið að geta af sér íslenskt orð. Þá birtist frétt í Þjóðviljanum með fyrirsögninni „Bítilæðið í Bretlandi“ þar sem bítilæði er greinlega notað sem þýðing á enska orðinu Beatlemania sem kom fram í október sama ár. Í fréttinni segir: „Þeir kalla sig „The Beatles“ (framborið Bítils)“ og vitnað er í fyrirsögn í Daily Mail, „This is Beatlemania“, sem þýtt er „Þetta er bítilæði“. Myndin bítlaæði sem er mun algengari sést fyrst í mars 1964.

En fyrsta dæmið um íslenska gerð hljómsveitarheitisins sjálfs er í frétt Alþýðublaðsins með fyrirsögninni „„Beatles“ í Bandaríkjunum“ í febrúar 1964 – þar segir: „Og hvað um áform íbúa Detroitborgar um að útrýma Bítlunum.“ Í sama blaði viku síðar segir: „Við erum fremur ómerkilegir músikantar, segir Bítillinn George.“ Þar er sem sé farið að tala um einstakan Bítil – skilja Bítlar sem fleirtölu af Bítill. Fljótlega var svo farið að nota bítlar sem samheiti um hljómsveitir sem stældu Bítlana eða spiluðu svipaða tónlist. Um miðjan mars 1964 birti Morgunblaðið frétt um tónleika nokkurra íslenskra hljómsveita undir fyrirsögninni „Íslenzkir „Bítlar“ og daginn eftir segir í myndatexta í Alþýðublaðinu: „Hljómar, hinir íslenzku bítlar.“

Orðið bítill er í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt 'félagi úr hljómsveitinni The Beatles' en það er ófullnægjandi skýring – merking fleirtölunnar er mun almennari. En bítill er frábært orð sem fellur fullkomlega að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins. Það hefur sömu stofngerð og trítill og mítill (sem er reyndar yngra nýyrði) og fellir brott áherslulausa sérhljóðið þegar beygingarendingin hefst á sérhljóði – bítli, bítlar, bítla, bítlum. Þetta er reyndar svokölluð „öfug orðmyndun“ – í stað þess að fleirtalan sé leidd af eintölunni eins og venjulega er fyrst tekin upp fleirtalan Bítlarnir vegna hljóðlíkingar við Beatles og eintalan Bítill sem síðan verður samheitið bítill búin til út frá henni í samræmi við reglur málsins, sbr. lyklar lykill, jöklar jökull o.s.frv.

Á árinu 1964 urðu svo til fjölmargar samsetningar með bítil-/bítl- sem fyrri lið. Í sumum tilvikum vísa þær sérstaklega til Bítlanna en flestar urðu þó samheiti með tímanum. Lýsingarorðin bítilóður og bítilgreiddur sjást fyrst í Alþýðublaðinu snemma í mars, nafnorðið bítilfaraldur er í Þjóðviljanum um sama leyti, bítilhljómleikar, bítlahljómleikar og bítlaútlit sjást fyrst í Alþýðublaðinu um miðjan mars og bítlaskór í Tímanum í ágúst. Orðin bítilhár og bítlahár – sem er það eina af þessum orðum sem er í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt 'hár niður í augu og niður fyrir eyru (á karlmanni)' – fara hins vegar ekki að sjást í ýmsum blöðum fyrr en um haustið þegar strákarnir hafa fengið nægilegan tíma til að láta hárið vaxa.

Ýmsar fleiri samsetningar komu fram næstu árin. „Hversu lengi eigum við að eyða gjaldeyri þjóðarinnar í þetta bítlagarg“ er spurt í Vísi vorið 1965, „Keflavík hefur með talsverðum sanni verið kallaður „bítlabærinn“ á Íslandi“ segir í Vikunni 1966, og svo mætti lengi telja. Aðrar hafa komið til síðar, eins og bítlaekkja. Sögnin bítlast er líka til – í myndatexta í Alþýðublaðinu vorið 1965 segir: „Ekki fylgdi það með í textanum, sem með fylgdi myndinni, hvort þau væru að bítlast.“ Vissulega náðu sumar þessara samsetninga aldrei flugi en þrátt fyrir að meira en hálf öld sé liðin síðan Bítlarnir sjálfir leystust upp lifir arfleifð þeirra í íslenskunni – eins og sjá má í Risamálheildinni eru furðu margar bítla-samsetningar sprelllifandi enn í dag.

„Við höldum að þetta byrjaði þarna“

Í dag var hér spurt hvort dæmi eins og „við höldum að þetta byrjaði þarna“ í frétt á mbl.is séu „orðin viðtekin íslenska“ – fyrirspyrjandi sagðist sjá þessa setningagerð oftar og oftar. Samspil hátta og tíða í aukasetningum við merkingarflokka sagna í aðalsetningum er of flókið til að hægt sé að fara mikið út í það á þessum vettvangi og vísast þar í bókina Setningar eftir Höskuld Þráinsson – þriðja bindi Íslenskrar tungu. Það sem hér skiptir máli er að í hefðbundinni íslensku verður að hafa viðtengingarhátt af hjálparsögninni hafa og lýsingarhátt þátíðar af aðalsögninni í slíkum setningum – við höldum að þetta hafi byrjað þarna. En setningar af þeirri gerð sem vitnað var til í upphafi virðast þó vera orðnar mjög algengar, einkum í óformlegu málsniði.

Á Bland.is 2002 segir: „Ég held að þetta var eiginlega mest fyrir mig.“ Á Bland.is 2005 segir: „Svo ég held að hann var í dag bara að gera hetjudáð.“ Á Bland.is 2011 segir: „Við höldum að þetta var brekkubobbi.“ Á Hugi.is 2002 segir: „Ég held að hann var að svindla.“ Á Hugi.is 2004 segir: „Held að þetta var barnabók sem hann skrifaði fyrir krakkana sína.“ Á Málefnin.com 2006 segir: „Ég held að hún var bara að hræra í þér.“ Á Málefnin.com 2012 segir: „Ef hún segir að þetta var allt uppspuni lendir hún sjálf í vandræðum.“ Á Twitter 2013 segir: „Held að það var tekin mynd af mér á ballinu.“ Á Twitter 2019 segir: „Ég held að þetta var eini skynsamlegi leikurinn í stöðunni.“ Á Twitter 2020 segir: „ég held að það var í marsmánuði.“

Ýmis dæmi úr formlegra málsniði má þó finna. Í Vísi 2010 segir: „Eva segir að hún var lögð í einelti í skóla.“ Í Vísi 2020 segir: „ég held að hann var að fá þarna minna en milljón á ári.“ Í DV 2011 segir: „Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur segir að það var von á því að fylgi Besta flokksins myndi minnka.“ Í DV 2021 segir: „Ég held að þetta var bara eitthvað svona.“ Á fótbolti.net 2006 segir: „Ég held að þetta var erfiðasti leikurinn okkar á tímabilinu.“ Á fótbolti.net 2020 segir: „ég held að hann var sáttur með frammistöðuna.“ Á mbl.is 2017 segir: „Ég held að hann var alveg á því að hann átti að fá víti.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2018 segir: „Hún segir að það var í fyrsta sinn sem lagt er fram minnisblað um náðun til allra ráðherra.“

Vegna þess að þessi setningagerð er einkum bundin við óformlegt mál er erfitt að átta sig á upphafi hennar, en dæmi af samfélagsmiðlum sýna þó að hún var a.m.k. tilkomin upp úr aldamótum. Einn þátttakenda í umræðu um fyrirspurnina sem vísað var til í upphafi sagði „Ég gæti trúað því að þetta séu lúmsk áhrif frá ensku“ og það er ekki ótrúlegt – í samsvarandi setningum á ensku er notuð einföld þátíð en ekki hjálparsögn og lýsingarháttur þannig að setningin sem vitnað var til gæti verið we think it originated there á ensku. Annar þátttakandi sagði: „Ætla að slengja því hér fram sem tilgátu að flestir undir fertugu tali og skrifi svona.“ Hvað sem um það er sýnist mér að þetta sé orðið svo útbreitt að því verði vart snúið við.

Kannski er ekki heldur ástæða til þess. Þótt útbreiðslu þessarar setningagerðar á tuttugustu og fyrstu öld megi hugsanlega rekja til enskra áhrifa er nefnilega nokkuð um keimlíkar setningar í fornu máli. Í Grettis sögu segir: „Þrándur segir að hann var bróðir Eyvindar austmanns.“ Í Heiðarvíga sögu segir: „Hann segir að hann var þar.“ Í Reykdæla sögu segir: „Vémundur segir að hann var nú eftir sendur fanginu.“ Í Heimskringlu segir: „Karl svarar að hann var áður ráðinn að fara til Leifs.“ Í Sturlungu segir: „Prestur og allir heimamenn segja að hann var brott riðinn.“ Í Heimskringlu segir: „Konungur spyr hvort það var Knúts konungs gjöf.“ Það má svo auðvitað deila um hvort þetta dugi til að sættast við svipaða setningagerð í nútímamáli.

Með sjálfstraustið í botni

Nafnorðið botn hefur ýmsar merkingar en aðalmerkingin sem aðrar merkingar eru væntanlega komnar af er '(flatur) neðsti hluti e-s' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er oft notað um neðsta eða síðasta sæti í einhverri röð, ekki síst í íþróttakeppnum. „Þróttur frá Neskaupstað er nú aftur kominn á botninn í deildinni“ segir í Tímanum 1973; „Fylkir lenti á botninum“ segir í Þjóðviljanum sama ár. En einnig hefur það lengi verið notað um ástand fólks. Í Tímanum 1975 segir: „Leið hans hefur legið niður á við um árabil, en nú er hann kominn á botninn, því hann þambar kaffi og reykir Winston.“ Í Vikunni 1979 segir: „Ég var aftur kominn á botninn bæði andlega og fjárhagslega.“ Í DV 2002 segir: „Hún endaði á botninum í neyslu.“

Það er sem sé yfirleitt ekki gott að lenda á botninum eða vera kominn á botninn – þarna merkir botn 'lágmark, lægsta hugsanleg staða' eða eitthvað slíkt. En hins vegar bregður svo við að botn er einnig notað um jákvætt ástand, svo sem vera með sjálfstraustið í botni þar sem botn virðist merkja 'hámark' sem er eiginlega þveröfugt við önnur sambönd. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru reyndar tilgreind orðasambönd með botn þar sem þessi sama merking kemur fram, svo sem gefa allt í botn í merkingunni 'keyra mjög hratt, stíga fast á bensínið' og <stilla tónlistina> í botn í merkingunni '(stilla tónlistina) mjög hátt'. Hvernig stendur á því að botn er notað á þennan hátt sem virðist vera í andstöðu við grunnmerkingu orðsins?

Upprunans er án efa að leita í sambandinu stíga bensínið í botn sem er a.m.k. hátt í 90 ára gamalt – kemur fyrst fyrir á prenti 1938. Í Skólablaðinu það ár segir: „Benzínið er stigið í botn, en vélin gengur jafn silalega og áður.“ Í Morgunblaðinu sama ár segir: „bílstjórinn segir, að hann hafi þurft „að stíga bensínið í botn“ til að fá vjelina til að vinna.“ Þetta samband, oft með bensíngjafann eða bensíngjöfina í stað bensínið, var lengi mjög algengt en dregið hefur úr tíðni þess á seinni árum. En það var hægt að stíga fleira í botn en bensínið. Í Alþýðublaðinu 1962 segir: „Um leið og ökumaðurinn steig bremsurnar í botn, heyrðist ægilegt öskur yfir höfðum þeirra.“ Í Austra 1958 segir: „Með fastri spyrnu stíg ég allt í botn, tengsli og hemla.“

Í þessum dæmum hefur botn í upphafi bókstaflega merkingu, þ.e. 'botn bílsins' – þótt vissulega sé algengara að tala um gólf í bílum kemur botn þó fyrir í þeirri merkingu og er auðskiljanlegt. En vegna þess að langalgengast var að tala um aflgjafann bensín í þessu sambandi hefur fólk farið að skilja botn sem 'hámark' – vera með bensínið í botni er þá skilið sem 'nota hámarksafl' eða 'vera á hæstu stillingu' og þá opnast leið fyrir að nota botn í öðru samhengi. Í Dagblaðinu 1976 segir: „Meiri hlutinn vill músík til að hreyfa sig eftir, æsa sig upp, til að drekka með, til að syngja með og „fíla allt í botn“.“ Í Skólablaðinu 1977 segir: „Mikil (og vaxandi) þörf fyrir það að nota sterk og „sláandi“ orð, t.a.m. […] (að) fíla (eitthvað í botn).“

Þarna er augljóslega um að ræða merkinguna 'hámark', og í langflestum tilvikum merkir í botn / botni 'hámarksstillingu hljóðstyrks'. Slík dæmi koma til á níunda áratugnum. Í Þjóðviljanum 1983 segir: „Djasssíða Þjóðviljans hvetur alla ærlega djassgeggjara að setja græjurnar í botn.“ Í Helgarpóstinum 1985 segir: „Ég þótti víst ekkert sérstaklega efnilegur unglingur, baldinn og alltaf með músíkina í botni.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „hann er að gera æfingarnar sjálfur í takt við tónlistina og útskýra þær með tónlistina í botni.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „bílstjórinn setur útvarpið í botn með grísku hljómlistinni og syngur með.“ Í Degi 1988 segir: „Hann trommaði svo í stofunni heima hjá sér með plötuspilarann í botni.“

Svo var farið að nota í botni í merkingunni 'hámark' um ýmislegt sem ekki er stillanlegt. Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Það væri mjög huggulegt að geta borgað leiguna á réttum tíma og vera ekki alltaf með yfirdráttinn í botni.“ Í Austurglugganum 2003 segir: „Fram kom í svari frá sveitarfélögunum að hjá þrettán af fimmtán væri útsvarið í botni.“ En einnig var farið að nota þetta um fólk, einkum með orðinu sjálfstraust – í DV 1997 segir: „KR-ingar eru á bullandi siglingu og með sjálfstraustið í botni.“ Alls eru 63 dæmi um sjálfstraustið í botni á tímarit.is, öll hin frá þessari öld, og hátt í tvö hundruð í Risamálheildinni. Einnig eru dæmi um egóið, metnaðinn, sjálfsálitið o.fl. með í botni – yfirgnæfandi meirihluti dæma er úr íþróttafréttum.

Þetta er mjög áhugavert og skemmtilegt dæmi um það hvernig merking orðs snýst í raun alveg við í ákveðnu sambandi – í stað þess að merkja 'neðsti hluti, lágmark' fer botn að merkja 'hámark' þannig að vera með sjálfstraustið í botni merkir það sama og vera með sjálfstraustið í toppi sem einnig kemur fyrir, þótt toppur og botn séu venjulega andstæður. Öll stig þessarar breytingar eru fullkomlega eðlileg og skiljanleg og eiga sér ýmsar hliðstæður en útkoman gæti samt verið ruglandi – ef ég væri að sjá sjálfstraustið í botni í fyrsta skipti myndi ég sennilega telja það merkja sama og „Ég hef verið algerlega á botninum með sjálfstraust“ á Bland.is 2009. En samhengið sýnir yfirleitt hvað sambandið merkir og við lærum það.

Ferðamannaiðnaður og ferðaþjónusta

Orðið ferðamannaiðnaður bar á góma hér í gær í umræðu um annað efni. Oft hefur verið amast við þessu orði, m.a. vegna þess að seinni liðurinn, -iðnaður, eigi ekki heima þarna vegna þess að hann merki 'vélvædd eða sjálfvirk framleiðsla efna og varnings úr hráefnum' svo að vitnað sé í Íslenska nútímamálsorðabók. En þar er reyndar líka gefin önnur merking orðsins í samsetningum – 'umfangsmikil atvinnugrein, s.s. kvikmyndaiðnaður, ferðamannaiðnaður'. Þess ber einnig að geta að orðið iðnaður eitt og sér virðist stöku sinnum hafa getað merkt 'atvinnugrein' áður fyrr – í Þjóðólfi 1854 segir: „Enginn iðnaður er eins gamall, eða hefur jafnlengi verið stundaður af mannkyninu, eins og jarðyrkjan.“ En þetta er mjög sjaldgæft.

Elsta dæmi um orðið ferðamannaiðnaður á tímarit.is er frá 1949: „En þau hafa mikla þýðingu fyrir ferðamannaiðnaðinn í Manitoba.“ Þetta er úr vesturíslenska blaðinu Lögbergi og lítill vafi á að þarna er um að ræða beina þýðingu á travel industry í ensku. En fyrsta dæmi í blaði á Íslandi er í Tímanum 1962: „og er það ekki sú tegund gesta, sem hinn svonefndi ferðamannaiðnaður sækist mest eftir.“ Sárafá dæmi eru þó um orðið fram um 1970, og í Tímanum 1972 er enn notað orðalagið „hinn svokallaði ferðamannaiðnaður“. Tíðnin eykst svo ört og náði hámarki um miðjan níunda áratuginn, en hefur verið á hægri niðurleið síðan. Alls eru tæplega 2.500 dæmi um orðið á tímarit.is en hátt í fjögur þúsund í Risamálheildinni.

Annað orð sömu merkingar en aðeins eldra í málinu er ferðamannaþjónusta. Elstu dæmi um það eru fyrirsagnirnar „Ferðamannaþjónustan“ í Samvinnunni 1946 og Alþýðublaðinu sama ár. Í Þjóðviljanum 1948 segir: „Sú stétt manna sem stundar ferðamannaþjónustu í Ítalíu er gersamlega afturúr.“ Alls eru þrjú þúsund dæmi um þetta orð á tímarit.is og það varð mjög algengt um miðjan níunda áratuginn en hefur síðan verið á hraðri niðurleið og er t.d. ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók – í Risamálheildinni eru þó um 1.450 dæmi um það.  En það hefur látið í minni pokann fyrir orðinu ferðaþjónusta sem kom fyrst fram um svipað leyti en hafði þá yfirleitt aðra og nokkru þrengri merkingu en það hefur nú.

Elsta dæmi um orðið ferðaþjónusta er í Degi 1950: „þ.á.m. hefur Gunnar umboð ferðaþjónustu ýmissa flugfélaga, járnbrauta- og skipafélaga.“ Þarna snýst málið um ferðir sem eru í boði. Annað dæmi er í Samtíðinni 1951: „að loknu námi fór hann á vegum verksmiðjunnar til Erfurt og gegndi síðan svonefndri ferðaþjónustu fyrir hana til 1942.“ Hér virðist rætt um þjónustuferðir til viðskiptavina. Þriðja dæmi er í Tímanum 1952: „Þórir sonur hans byrjaði snemma á bílaakstri og hóf strax ferðaþjónustu á vegum út frá Ísafirði.“ Þarna vísar orðið til þess að halda uppi ferðum. Árið 1957 var stofnsett Ferðaþjónusta stúdenta þar sem ferðaþjónusta var þýðing á travel service og samsvaraði einna helst því sem nú heitir ferðaskrifstofa.

Fram um 1980 var orðið einkum notað í þessari merkingu, þ.e. 'þjónusta í sambandi við ferðir' eins og í auglýsingu frá ferðaskrifstofu í Morgunblaðinu 1960: „Farpantanir og farseðlar, ásamt allri ferðaþjónustu annast sérhæfðir afgreiðslumenn okkar.“ Fyrsta dæmi sem ég finn um orðið ferðaþjónusta í núverandi merkingu eins og hún er skilgreind í Íslenskri nútímamálsorðabók, 'atvinnugrein sem tengist ferðamönnum, t.d. skipulagðar hópferðir og hótelrekstur', er í Frjálsri verslun 1961: „Ferðaþjónusta er stöðugt vaxandi atvinnugrein um víða veröld.“ Þessari merkingu bregður stöku sinnum fyrir næstu árin en verður ekki áberandi fyrr en eftir 1980. Í Íslendingi 1980 segir: „Ferðaþjónusta er í raun bæði útflutningsatvinnuvegur og þjónustugrein.“

Eftir 1980 jókst notkun orðsins í þessari merkingu mjög og tíðni þess margfaldaðist á níunda áratugnum og aftur á þeim tíunda. Gísli Jónsson fjallaði margoft um orð á þessu sviði í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu og mælti eindregið með orðinu ferðaþjónusta en fannst ferðamannaiðnaður afleitt. En hann nefndi einnig orðið ferðaútvegur sem fyrst kemur fyrir í Vikunni 1970: „Ýmsir gera sér vonir um að Íslendingar geti haft góða atvinnu af ferðaútvegi.“ Gísli vildi nota ferðaútvegur um atvinnugreinina en ferðaþjónusta um starfsemina og gera þannig svipaðan mun og er á orðunum sjávarútvegur og fiskveiðar. Öðrum fannst samt óþarft að gera þennan mun, og ferðaútvegur er nær horfið úr málinu – aðeins 180 dæmi á tímarit.is.

Í Morgunblaðinu 1986 segir Birna G. Bjarnleifsdóttir að á ferðamálaráðstefnu í Vestmannaeyjum haustið áður hafi verið „samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að halda sig við orðið ferðaþjónusta“ frekar en taka upp orðið ferðaútvegur og árið 1998 var heiti Sambands veitinga- og gistihúsa breytt í Samtök ferðaþjónustunnar. Það er því ljóst að í samkeppni orða á þessu sviði hefur ferðaþjónusta orðið ofan á, enda styttra og liprara en keppinautarnir – á tímarit.is eru hátt í sextíu þúsund dæmi um orðið og yfir hundrað og sextíu þúsund í Risamálheildinni. Þrátt fyrir það er orðið ferðamannaiðnaður enn töluvert notað eins og áður er nefnt, en mér finnst ástæða til að mæla eindregið með því að nota ferðaþjónusta.

Megnugur

Í dag var hér spurt hvort bæði hvers hann er megnugur og hversu megnugur hann er væri rétt. Til að átta sig á þessu er nauðsynlegt að athuga að setningagerð þessara tveggja dæma er ólík. Í fyrri setningunni er hvers eignarfall af spurnarfornafni og stýrist af lýsingarorðinu megnugur sem er skýrt 'sem er fær um e-ð, sem hefur e-ð í valdi sínu' í Íslenskri nútímamálsorðabók – sagt er vera megnugur einhvers eða vera einhvers megnugur. Í seinni setningunni er hversu spurnaratviksorð sem merkir 'hvað mikið, hve' og stendur venjulega sem ákvæðisorð með lýsingarorði eða atviksorði – hversu gamall, hversu lengi o.s.frv. Setningarnar tvær hafa því ólíka merkingu en geta vissulega báðar verið góðar og gildar ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt.

En í hefðbundinni notkun er lýsingarorðið megnugur eitt þeirra orða sem ekki geta verið án frekari skilgreiningar af einhverju tagi – það er ekki hægt að segja *ég er megnugur á sama hátt og ég er sterkur, heldur verður að segja t.d. megnugur einhvers eða megnugur um eitthvað. Þetta er hliðstætt því að tæplega er hægt að segja *ég er verðugur eða *ég er  hliðhollur eða *ég er vinveittur, heldur verður að vera verðugur einhvers, hliðhollur einhverjum og vinveittur einhverjum. Ef sagt er (ég veit ekki) hversu megnugur hann er verður því að koma eitthvert framhald, t.d um að leysa vandamálið eða eitthvað slíkt. Þrátt fyrir þetta má finna slæðing af dæmum þar sem megnugur er notað án nokkurrar skilgreiningar.

Í Alþýðublaðinu 1928 segir: „Ég hygg því ekki annað ráð vænna, en að þeir […] myndi með sér félagsskap […] og sýni hversu megnugir þeir eru.“ Í Tímanum 1948 segir: „mun þar m.a. reyna á, hversu megnug þessi samtök eru.“ Í Skólablaðinu 1943 segir: „Hélt hún þvi næst fund í kjallaranum og ákvað að sýna forseta hversu megnugir meðlimir klúbbsins væru.“ Í Tímanum 1978 segir: „gömlu jaxlarnir í KR sýndu þá hversu megnugir þeir eru.“ Í Iðnnemanum 1986 segir: „Þetta sýnir hversu megnug samtök iðnnema geta orðið.“ Í DV 1991 segir: „Valsmenn tóku þá við sér og sýndu hversu megnugir þeir eru.“ Í DV 2005 segir: „Hann telur Íslendinga ekki gera sér nægilega grein fyrir þvi hversu megnug náttúran geti orðið.“

Þessi dæmi voru sárafá fram undir 1990 en fjölgaði þá talsvert þótt þau séu ekki ýkja mörg. Það mætti ímynda sér að hversu væri þarna einhvers konar misskilningur eða villa fyrir hvers þannig að merking og setningagerð væri í raun eins og í hvers megnugur en sú skýring gengur ekki upp í dæmum þar sem önnur atviksorð standa með megnugur. Í ræðu á Alþingi 1923 segir: „Hann veit, að þessir menn geta orðið talsvert megnugir innan skamms.“ Í Tímanum 1954 segir: „Hann virðist líklegur til að hafa um sig allfjölmenna deild trúaðra áhangenda, er getur orðið talsvert megnug innan flokks republikana.“ Í Morgunblaðinu 2004 segir: „Við erum nefnilega ótrúlega megnug þegar við sjálf ákveðum að gera eitthvað í okkar málum.“

Bæði setningagerð og samhengi bendir til þess að í þessum setningum sé megnugur ekki notað í merkingunni 'fær um' heldur látið merkja 'öflugur, magnaður'. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að orðið sé (mis)skilið á þann hátt – það er komið af megin eða megn sem merkir ‚kraftur, afl‘ og skylt lýsingarorðinu magnaður. Oft gætu báðar merkingarnar átt við, eins og í „En hann var frábær í þessum leik og sýndi hvers megnugur hann er“ í Morgunblaðinu 2005 og það eru ekki ólíklegt að merkingarbreytingin eigi sér rætur í (mis)túlkun á slíkum setningum. En þessi breyting virðist ekki vera orðin ýkja útbreidd enn sem komið er og því er æskilegt að andæfa henni og leyfa lýsingarorðinu magnaður að halda sinni gömlu merkingu.

Fleirri og meirri

Í morgun var hér spurt hvers vegna væru stundum tvö r í fleiri, þ.e. fleirri. Sá framburður (og ritháttur) er ekki nýr – oft er því haldið fram að hann sé sunnlenskur, en gömul dæmi um hann eru þó til úr öðrum landshlutum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá því í byrjun 18. aldar segir: „Sveitarómagar á Barðaströnd eru 28 að tölu. Þó von til fleirra.“ Í þýðingu séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá á „Messíasi“ eftir Klopstock segir: „Nú án návistar / nokkurra fleirri.“ Í Íslands árbókum Jóns Espólin segir: „Fleirri urdu og giörníngar“ og „fleirri manna er fylgdu Byrni Gudnasyni“. Enginn þessara höfunda var Sunnlendingur en þó er ekki ástæða til að efast um að framburðurinn hafi einkum verið áberandi á Suðurlandi á seinni hluta 19. aldar.

Í grein eftir Guðrúnu Kvaran í Íslensku máli 2007 er vitnað í orðasafn sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili safnaði í Rangárvallasýslu á árunum 1884-1885. Þar kemur fram að Jónas hafi „tekið eftir að Rangæingar segðu fleirri í stað fleiri“. Guðrún bendir einnig á að Hallgrímur Scheving hafi skrifað í bréfi til Konráðs Gíslasonar 1854: „Aftur er það merkilegt, að Rangvellingar […] segja fleirri […] fyrir fleiri.“ Í skýringum við aðra útgáfu á Þjóðsögum Jóns Árnasonar kemur fram að í handritum Jóns Sigurðssonar í Steinum undir Eyjafjöllum standi iðulega fleirra / fleirri. Í leiðréttingum og viðbótum aftast í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 stendur við margur: „comp. ogs. fleirri [flɛiːrɪ]“, en bætt við innan sviga „(Sl.)“, þ.e. Suðurland.

Á síðustu öld voru iðulega gerðar athugasemdir við þennan framburð. Í Þjóðviljanum 1954 er fundið að framburði fréttamanns: „Hann sagði síðast […] „fleirra“.“ Þessi hljóðstytting er eitthvað að ryðja sér til rúms, […] og þarf að stinga þar fótum við.“ Í Þjóðviljanum 1963 segir í tónlistargagnrýni: „Hitt er víst, að hann söng „fleirri“ í staðinn fyrir ,,fleiri“ í fyrsta íslenzka laginu, og er það eigi fagur framburður.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1988 segir: „Fréttamenn komast upp með slappt tungutak, bæði í orðavali og framburði (ég nefni aðeins „fleirri“ í stað „fleiri“).“ Og í Málfarsbankanum segir: „Athuga að rita ekki „fleirri“.“ En Gísli Jónsson var á annarri línu og sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1980:

„Svo er það „hið sunnlenska fleirri“. Þó að sú orðmynd falli ekki í minn smekk, get ég ekki annað en viðurkennt að hún er í fullu samræmi við þá breytingu málsins sem menn hafa látið sér lynda. Hljóðið r tvöfaldast (lengist) á eftir löngu áherslusérhljóði og undan stuttu áherslulausu sérhljóði, ekki aðeins í miðstigum lýsingarorða, heldur nokkru víðar. […] Enginn segir lengur að einn sé stæri en annar, og enginn segir þeiri konu. Allir segja nú orðið þeirri. Nákvæmlega sama er að gerast í miðstiginu fleiri. […]. Þó að mér þyki ekki fagurt að segja fleirri, viðurkenni ég fúslega réttmæti þessa framburðar af sögulegum ástæðum […]. Mér finnst fráleitt að býsnast yfir því að Sunnlendingar tali svo […].“

En Gísli bætir við: „Mér virðist og engin hreyfing vera komin á miðstigið meiri, hvorki hér né þar, hvað sem því veldur.“ Þetta er þó ekki alveg rétt – meirri kemur fyrir í nokkrum kveðskapardæmum í fornu máli og er uppflettimynd í Lexicon Poeticum. Í Altnordisches Lesebuch eftir Friedrich Pfeiffer frá 1860 er myndin meirri gefin upp sem miðstig við hlið meiri og kemur t.d. fyrir í Áns sögu bogsveigis: „Björn var í hinni meirri bóndatölu norðr þar.“ Nokkur önnur dæmi eru í Fornaldarsögum Norðurlanda. Í áðurnefndri þýðingu Jóns á Bægisá á Messíasi segir: „svo at sjálfs hans dýrð / sé þess meirri!“ og í þýðingu Jóns á Paradísarmissi Miltons segir: „at hann eigi var / öllum meirri“ og „heldur verðr heiðr / hans at meirri“.

Á tímarit.is eru samtals 125 dæmi um meirri og meirra, allt frá áttunda áratug nítjándu aldar til nútímans, og dreifast nokkuð jafnt á áratugi – sem þýðir að myndirnar hafa verið hlutfallslega algengari áður fyrr því að textamagnið var þá miklu minna. Í Risamálheildinni eru tæplega 280 dæmi um þessar myndir, t.d „Meirra veiddist einnig nú af ýsu og ufsa“ í Morgunblaðinu 2001 og „Nú spila ég á miðjunni hjá Manchester United og átta mig á að ég hef enn meirri ábyrgð“ á fótbolti.net 2005. En annars eru nær öll dæmin af samfélagsmiðlum, t.d. „Ég segi að það eru meirri kröfur núna en voru þegar ég var að alast upp“ á Bland.is 2011 og „Þeir vilja líklega bara losa sig við tollana og skattana til að græða meirra“ á Málefnin.com 2013.

Það er því ljóst að meirri og meirra er eitthvað notað í óformlegu máli þótt það komist ekki í hálfkvisti við fleirri og fleirra en um þær myndir eru á sextánda þúsund dæmi í Risamálheildinni, einnig langflest af samfélagsmiðlum. Það má spyrja hvers vegna fleirri / fleirra sé svo miklu algengara en meirri / meirra sem heimildir virðast þó benda til að sé eldra. Við því hef ég ekki svar en e.t.v. hafa merkingartengsl við færri þarna einhver áhrif. Hvað sem því líður er ljóst að bæði fleirri / fleirra og meirri / meirra eru myndir sem við er að búast út frá almennri hljóðþróun. Vegna aldurs og útbreiðslu er fráleitt að amast við fyrrnefndu myndunum, en spurning hvort þær síðarnefndu ná því að geta talist málvenja og þar með rétt mál.

Forsetningar með dalanöfnum

Með staðanöfnum er ýmist notuð forsetningin á eða í, eins og alkunna er. Iðulega taka staðanöfn með sama seinni lið mismunandi forsetningar – á Húsavík en í Reykjavík; á Akranesi en í Borgarnesi; á Seyðisfirði en í Hafnarfirði; á Blönduósi en í Grafarósi; á Djúpavogi en í Kópavogi; á Fellsmúla en í Holtsmúla; á Kaldadal en í Skorradal; o.s.frv. Reynt hefur verið að finna reglur um þetta en gengið misjafnlega. Guðrún Kvaran hefur fjallað um þetta í grein á Vísindavefnum – að einhverju leyti fer það eftir landshlutum, að einhverju leyti eftir aðstæðum á hverjum stað, o.s.frv. – en yfirleitt eru þó einhverjar undantekningar frá reglunum. En nýlega rakst ég á forvitnilega athugasemd um forsetninganotkun með staðanöfnum í grein í Degi 1957:

Konráð Vilhjálmsson skrifar: „Þegar dalur telst láglendur, er forsetningin í notuð fyrir nafninu. En liggi hann hærra í landinu er notuð forsetningin á. Þess vegna er sagt: Í Reykjadal, í Vatnsdal, en aftur á móti: Á Jökuldal, á Flateyjardal, á Þegjandidal, á Laxárdal (í Húnav.sýslu). Þessi fylgd staðanafna og forsetninga hefur haldizt að mestu óbreytt frá fornu fari allt fram yfir síðustu aldamót. En á síðustu áratugum hefur um þetta gætt nokkurra breytinga: Nú hef ég heyrt menn segja og séð menn rita: Í Jökuldal, í Flateyjardal, og fleiri dalanöfn hafa fyrir slíkri brenglun orðið. En þess ber vel að gæta, að hér eigum við að segja og rita á, en ekki í. Engin finnanleg ástæða er til að hverfa hér bæði frá fornum rithætti og málvenju.“

Konráð bætir við: „Um þau bæjanöfn, sem kennd eru við nes, er það að segja, að fyrir sumum þeirra hefur verið höfð forsetningin í, en á fyrir öðrum, og sú skipan haldizt lengstum óbreytt á hverjum stað. Hefur þar enn ráðið úrslitum afstaða eða landslag jarðanna. Sagt er með fullum rétti: Í Nesi í Höfðahverfi og í Nesi í Aðaldal. En á hinn bóginn hefur allt af verið sagt og ritað á Sauðanesi; stendur og sá staður hærra en hinir eða á nokkurs konar ási, enda þótt nes sé þar einnig réttnefni.“ Kannski er þessi regla um tengsl forsetninga við afstöðu í landslagi vel þekkt þótt ég minnist þess ekki að hafa séð hana áður og hef ekki athugað hversu traustum fótum hún stendur, en sýnist í þó að Konráð hafi nokkuð til síns máls a.m.k. hvað varðar dala-nöfnin.