Með blæti fyrir málfræði

Í gær var spurt í hópnum „Málspjall“ um merkingu orðsins blæti í samböndum eins og hafa blæti fyrir einhverju. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'hlutur eða fyrirbæri sem veldur kynörvun hjá ákveðnum einstaklingum' en sú merking er ekki gömul. Þetta orð kemur fyrir í fornu (skálda)máli og merkir upphaflega 'hlutur eða vera sem e-r tilbiður og færir fórnir; skurðgoð, hjáguð' – skylt nafnorðinu blót. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið merkt úrelt og skýrt 'fórn' eða ‚'fórnardýr'. Í Íslenskri orðabók er það einnig skýrt 'fórnardýr' og 'hlutur sem er dýrkaður sem goðvera, skurðgoð' en í nýjustu útgáfu bókarinnar hefur merkingunni sem tilgreind er í Íslenskri nútímamálsorðabók verið bætt við.

Við þá merkingu stendur „sálfr.“ sem sýnir að í þessari merkingu er blæti eins konar íðorð, enda er það flettiorð í tveimur söfnum í Íðorðabankanum. Í íðorðasafni úr læknisfræði er orðið skilgreint 'Hlutlægt (áþreifanlegt, sýnilegt) eða á annan hátt skynjanlegt fyrirbæri, sem af vissri þráhyggju er eftirsótt eða dýrkað, s.s. til persónulegrar kynörvunar, eða vegna meintra yfirnáttúrulegra eiginleika' og í orðasafni úr uppeldis- og sálarfræði er það skilgreint 'e-r hlutur, sem með ólíkindum veldur kynörvun' og í nánari skýringu segir 'Einatt e-ð, sem konum heyrir til, þegar karlmenn eiga í hlut, t.d. nælonsokkar eða hanskar'. Í báðum tilvikum er orðið notað sem samsvörun við enska orðið fetish – sú notkun var tekin upp seint á síðustu öld.

Í Veru 1999 segir: „fer jafnvel út í áhuga á fetishisma, sem hefur verið þýtt munalosti eða blæti og felst í ofurást á hlutum, oft fötum svo sem skóm og undirfötum.“ Í Degi 2000 segir: „Blæti er eitt af þessum orðum sem einn snillingur smíðaði fyrir orðið fetish sem er notað í erlendum tungum um eitthvað sem veitir einhverjum kynferðislega örvun en samræmist ekki hefðbundnum skilningi samfélagsins á kynferðislegri örvun.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Alþjóðaorðið fyrir þesskonar hluti er „fetish“ en hefur verið kallað „blæti“ á íslensku.“ Í DV 2003 segir: „Enska orðið fetish þýðir í stuttu máli að eitthvað hafi kynörvandi áhrif á fólk. Íslenska orðið yfir þetta er blæti sem verður að teljast misheppnuð orðasmíð.“

Skýringin á fetish í ensku virðist í fljótu bragði falla vel að áðurnefndum skýringum orðabóka og íðorðasafna á blæti: 'a sexual interest in an object or a part of the body other than the sexual organs' eða 'kynferðislegur áhugi á hlut, eða á líkamshluta öðrum en kynfærum'. En á þessu er þó mikilvægur munur: Enska orðið vísar ekki til hlutar eða fyrirbæris heldur til óvenjulegs eða óeðlilegs áhuga á tilteknum hlut, fyrirbæri, líkamshluta eða athöfn, og sá áhugi þarf ekki að vera af kynferðislegum toga – fetish er líka skýrt 'an interest in an activity or object that makes someone spend an unreasonable amount of time doing it or thinking about it' eða 'áhugi á athöfn eða hlut sem veldur því að óeðlilega löngum tíma er varið í það eða hugsun um það'.

Svona hefur orðið blæti einmitt oftast verið notað undanfarið – ekki um hlut eða fyrirbæri, heldur um óvenjulegan eða óeðlilegan áhuga, ekki endilega kynferðislegan, mjög oft í sambandinu blæti fyrir. Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun er í Morgunblaðinu 2003: „Í þessum myrkraverkum finnst flugan í huganum sem hefur blæti fyrir að sitja í kjallara náungans.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Ég er með rosa blæti fyrir skóm og fötum og snyrtivörum.“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Merkilegt nokk virðist varaforsetaframbjóðandinn fyrrverandi Sarah Palin einnig hafa blæti fyrir sogrörum sem hægt er að beygja til og frá.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Hann hefur blæti fyrir góðri samsetningu á bindi og axlaböndum.“

Orðið blæti á sér því áhugaverða sögu. Þegar það var gert að íðorði var hinni gömlu merkingu, 'hlutur sem er dýrkaður sem goðvera, skurðgoð‘' eiginlega haldið en merkingunni 'til kynörvunar' bætt við. En seinna færðist aðalmerking orðsins frá hlutnum eða fyrirbærinu yfir í áhugann á þessu og þá kom til sambandið blæti fyrir – og jafnframt varð merkingin almennari þannig að kynferðisleg merking þarf ekki að vera til staðar. Væntanlega má rekja þessa breytingu til áhrifa frá enska orðinu fetish sem blæti var gert að samsvörun við. Það er því ljóst að skýringar orðsins í íslenskum orðabókum og íðorðasöfnum eru ófullnægjandi og villandi – ná ekki yfir langalgengustu notkun orðsins blæti á síðustu árum.

Þjóðarmorð

Fá orð eru meira áberandi í almennri umræðu þessa dagana en þjóðarmorð en stundum virðist gæta nokkurs misskilnings um merkingu þess og notkun. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'markviss útrýming þjóðar'. Á vef UNRIC, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, segir: „Pólski lögfræðingurinn Raphäel Lemkin bjó til hugtakið “þjóðarmorð” (genocide) árið 1944. Lemkin reyndi með því að finna orð yfir Helförina. Einnig vildi hann lýsa þeim verknaði þegar heilum þjóðum, kynþáttum og trúarhópum hafði verið útrýmt. […] Þjóðarmorð var í fyrsta skipti skráð sem sérstakur glæpur samkvæmt alþjóðalögum í Sáttmálanum um þjóðarmorð árið 1948 en hann gekk í gildi árið 1951.“

Það sem þarna segir um uppruna hugtaksins og enska orðsins genocide er án efa rétt en það er mikilvægt að halda því til haga að íslenska orðið þjóðarmorð er ekki tilkomið sem þýðing á enska orðinu, heldur er hálfri öld eldra. Elsta dæmi um orðið er í Þjóðviljanum unga 1897, þar sem segir: „þjóðarmorðið á ekki, og má ekki, fremur en mannsmorðið haldast óhegnt.“ Þarna er orðið notað í óeiginlegri merkingu um það athæfi stjórnvalda „að smá-pína kjarkinn og lífsþrekið úr þjóð sinni með gjörræðisfullri misbrúkun stjórnar- og embættis-valdsins“, en í Ísafold 1919 er orðið notað í nútímamerkingu: „Er þar fyrst Armenía, þetta margkúgaða og hrjáða land, sem hefir staðið hinar mörgu þjóðarmorðstilraunir Tyrkja og ótrúlega grimd.“

Fáein dæmi eru um orðið fram til 1945, en elsta dæmi um að þjóðarmorð sé notað um skipulega útrýmingu Gyðinga í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni er í Þjóðviljanum 1955 þar sem fjallað er um athæfi Breta í Kenýa: „Þar er verið að framkvæma sams konar þjóðarmorð eins og stríðsglæpamenn nazista voru dæmdir fyrir í Nürnberg fyrir níu árum.“ Síðan hefur það verið notað um ýmis voðaverk sem sum hver yrðu þó varla kölluð þjóðarmorð nú – á sínum tíma töluðu íslensk blöð t.d. iðulega um „þjóðarmorð á Ungverjum“ í uppreisninni árið 1956 en þar er talið að 2500-3000 manns hafi fallið. Í seinni tíð er þjóðarmorðið í Rúanda árið 1994 þekktast en það var sannarlega þjóðarmorð samkvæmt öllum viðmiðum – meira en hálf milljón drepin.

Stundum er deilt um hvort réttlætanlegt sé að nota orðið þjóðarmorð um það sem er að gerast á Gaza – t.d. sagði utanríkisráðherra um áramótin: „Það er bara lagatæknileg skilgreining á alþjóðavísu sem þú þarft að falla undir. Ég veit bara ekki hvort það falli undir.“ En ráðherrann sagði jafnframt: „ef að þjóðarmorð er það til þess að lýsa yfir hryllilegum aðstæðum, gríðarlegu ofbeldi þá getur fólk talað um að það sé þjóðarmorð.“ Þetta er lykilatriði. Í íslenskum lögum er orðið þjóðarmorð ekki notað, heldur hópmorð. Um þau er fjallað í lögum nr. 2018, þar sem skilgreindir eru þeir verknaðir sem „teljast hópmorð þegar þeir eru framdir í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki sem slíkum“.

Orðið þjóðarmorð er íslenskt orð sem við getum notað ef okkur finnst það eiga við, óháð lagatæknilegri skilgreiningu – orðið kemur nefnilega ekki fyrir í alþjóðalögum þótt orðið genocide geri það, og þjóðarmorð er ekki sú samsvörun við genocide sem notuð er í íslenskum lögum. Þess vegna þurfum við ekkert að hika við að nota orðið þjóðarmorð uns Alþjóðadómstólinn úrskurðar um lagatæknilega skilgreiningu þess sem er að gerast á Gaza. Þetta er dæmi um að mikilvægt er að gera mun á íslenskum orðum og erlendum – átta sig á því að íslensku orðin eiga sér sjálfstætt líf og gefa sér ekki hugsunarlaust að tiltekið íslenskt orð lúti þeim takmörkunum sem kunna að vera á notkun erlends orðs sem vísar til sama hugtaks.

Byltni

Í þættinum „Stúkan“ á Stöð tvö sport var verið að ræða um orðið byltni sem er tillaga að íslensku nýyrði yfir það sem heitir á ensku possession og hefur venjulega verið kallað 'með boltann' á íslensku. Orðið byltni var sagt „dregið af orðunum bolti og leikni eða jafnvel bolti og nýtni.“ Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að mynda bylt- af bolt- – það er i-hljóðvarp eins og t.d. (Breið)hyltingur af (Breið)holt o.fl. Það er engin þörf á að tengja -ni við orð eins og leikni og nýtni – -ni er virkt viðskeyti sem hægt er að nota til að mynda nafnorð af lýsingarorðum. Upphaflega var því bætt við lýsingarhætti sem enda á -inn eins og fyndinn – fyndni, en nú er einnig hægt að nota það á önnur lýsingarorð, eins og virkur virkni, blindur blindni.

En þótt byltni sé í sjálfu sér ágætt orð er rétt að athuga að í þessu tilviki er verið að mynda -ni-orð af nafnorðinu bolti en ekki af lýsingarorði þannig að þetta virðist ekki vera í samræmi við venjulegar orðmyndunarreglur. Úr því mætti reyndar bæta með því að mynda lýsingarorðið byltinn sem merkti þá 'sem er mikið með boltann' (t.d. Vestri var mjög byltinn í þessum leik) og segja síðan að byltni væri leitt af byltinn en ekki beint af bolti. Eftir stendur samt það vandamál að nafnorð með viðskeytinu -ni tákna yfirleitt einhverja eiginleika – fyndni, glettni, hittni og mörg fleiri. En byltni táknar ekki eiginleika í sama skilningi og þess vegna er það ekki alls kostar heppilegt orð í þeirri merkingu sem hér er verið að gefa því.

Við þetta bætist að til er sögnin bylta og nafnorðin bylta og bylting sem eru óskyld orðinu bolti (sem er tökuorð úr dönsku, bold). Það liggur miklu beinna við að tengja byltni við þessi orð – og orðið hefur reyndar verið notað þannig. Í Læknanemanum 1996 segir: „Hin háa notkun svefn- og kvíðastillandi lyfja, val þeirra og skammtastærðir, vekja hins vegar upp spurningar með tilliti til aukaverkana, s.s. byltni.“ Þarna er byltni greinilega notað í merkingunni 'hætta á byltum' sem er eðlilegt, og lægi beint við að nota einnig lýsingarorðið byltinn í merkingunni 'byltugjarn'. Ég get því ekki mælt með byltni í stað 'með boltann' en auðvitað eru það á endanum málnotendur en ekki málfræðingar sem ráða örlögum orða. Þannig á það líka að vera.

Glæpir gegn mannúð – mannúðarkrísa

Enska orðið humanity getur ýmist merkt ‘fólk almennt’ (‘people in general’) eða ‘mannúð’ (‘understanding and kindness towards other people’). Í fyrri merkingunni er það ekki síst notað í sambandinu crime against humanity sem oftast var þýtt glæpur gegn mannkyni. Wikipedia skilgreinir þetta svo: „Glæpir gegn mannkyni eru ákveðnir alvarlegir glæpir sem eru framdir sem hluti af meiriháttar árás gegn almennum borgurum“ („Crimes against humanity are certain serious crimes committed as part of a large-scale attack against civilians“). Elsta dæmi sem ég finn um þetta orðalag er í Frjálsri þjóð 1961: „Rússar hafa hér framið glæp gegn mannkyni.“ Síðan hefur þetta verið langalgengasta orðalagið sem notað er í þessari merkingu – og er enn.

Annað orðalag er þó eldra um þetta – glæpur gegn mannúð. Það kemur t.d. fyrir í Rétti 1921: „Hvaða glæpir hafa verið framdir hér gegn mannúð eða alþjóðalögum?“ Í Alþýðublaðinu 1946 eru „Afbrot gegn mannúð“ talin upp sem einn þeirra flokka sem ákært var fyrir í Nürnberg-réttarhöldunum. Þetta orðalag var lítið notað lengi vel en hefur verið endurvakið á seinustu árum, einkum í lagamáli – t.d. í Lögum um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði nr. 144/2018 og í „Lögfræðiorðasafni“ í Íðorðabankanum þar sem það er skilgreint „manndráp, pyndingar o.fl., framin sem hluti af víðtækri eða kerfisbundinni atlögu sem beint er gegn óbreyttum borgurum, vitandi vits um atlöguna“.

Annað enskt orð þessu skylt er humanitarian sem merkir ‘tekur þátt í eða tengist því að bæta líf fólks og draga úr þjáningum’ (‘involved in or connected with improving people's lives and reducing suffering’). Þetta orð er ekki síst notað í samböndum eins og humanitarian aid sem hefur verið þýtt mannúðaraðstoð og humanitarian crisis sem hefur verið þýtt mannúðarkrísa. Wikipedia skilgreinir þetta svo: „Mannúðarkrísa er atburður eða röð atburða sem ógna heilsu, öryggi og velferð samfélags eða stórs hóps fólks“ („A humanitarian crisis (or sometimes humanitarian disaster) is defined as a singular event or a series of events that are threatening in terms of health, safety or well-being of a community or large group of people“).

Orðið mannúðarkrísa sást fyrst í blöðum fyrir tæpum tuttugu árum og er augljóslega bein samsvörun við humanitarian crisis en er ekki sérlega heppilegt orð. Ég held að tökuorðið krísa sem er skýrt ‘ótryggt ástand, erfiðleikar’ og ‘sálræn vandamál, t.d. eftir áfall’ í Íslenskri nútímamálsorðabók sé talsvert vægara en enska orðið crisis sem er skýrt ‘tími mikils ósættis, ruglings eða þjáninga’ (‘a time of great disagreement, confusion, or suffering’) eða ‘einstaklega erfiður eða hættulegur tímapunktur í ákveðnum aðstæðum’ (‘an extremely difficult or dangerous point in a situation’). Við það bætist að eins og Wikipedia bendir á er einnig talað um humanitarian disaster í sömu merkingu en disaster er ‘voði, hörmungar’ eða eitthvað slíkt.

En þótt enska orðið humanity geti vissulega merkt ‘mannúð’ held ég að sú merking eigi tæpast við í crime against humanity og glæpur gegn mannúð sé því ekki heldur góð þýðing. Sama gildir um glæpur gegn mannkyni – mér finnst það ekki ná þeirri merkingu sem um er að ræða. Skásta þýðingin sem mér hefur dottið í hug er glæpur gegn mennskunni. Orðið mennska merkir ‘það ástand að vera maður, mannlegur’ – þarna er um að ræða glæpi gegn mannlegri reisn. Til samræmis við það mætti þá tala um mennskuvoða fyrir humanitarian crisis/disaster – eða halda sig við mannúð og tala um mannúðarvoða. En svo verður fólk að eiga það við sig hvort því finnist eitthvert þessara orða hæfilega sterkt orð til að lýsa ástandinu á Gaza um þessar mundir.

Nýr áhersluforliður: fox-

Í „Málspjalli“ var í gær spurt um uppruna þess að kalla eitthvað foxljótt sem fyrirspyrjandi sagðist hafa oft hafa heyrt fyrir 10-20 árum en fyndi lítið um upprunann – aðeins fáein dæmi á samfélagsmiðlum. Ég kannaðist ekki við þetta orð og það er ekki í orðabókum en ég finn tæp 40 dæmi um það í Risamálheildinni, þau elstu frá 2004, og þrjú á tímarit.is, það elsta í DV 2005: „Mér finnst hún samt foxljót, reyndar ekki andlitið á henni en líkaminn á henni er hörmulegur.“ Það er svo sem enginn vafi á því hvað orðið merkir þarna og í öðrum dæmum, sem sé 'mjög ljót', en uppruninn er samt á huldu. Mér datt fyrst í hug að þetta væri misskilningur á eða afbrigði af forljótur sem merkir 'mjög ljótur' en við nánari athugun reyndist það ekki rétt.

Orðið fox merkti í fornu máli 'svik' en í síðari alda máli 'norn' samkvæmt Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – Íslensk orðabók bætir við merkingunum 'meinhorn, uppstökk manneskja'. Í Safni af íslenzkum orðskviðum eftir Guðmund Jónsson frá 1830 er málshátturinn „Opt er flagð í fögru skinni (fox í fögrum ham)“ sem sýnir að fox merkir svipað og flagð sem er skýrt 'ófrýnileg og óvinsamleg kona' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er nær eða alveg horfið úr nútímamáli en samsetningarnar foxvondur og foxillur eru þekktar og báðar skýrðar ‚mjög reiður‘ í Íslenskri orðabók. Þær virðast ekki ýkja gamlar – sú fyrrnefnda kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 en elstu dæmi um báðar á tímarit.is eru frá því um 1950.

Einnig er til foxreiður í sömu merkingu en miklu sjaldgæfara en hin – ekki í orðabókum og aðeins sex dæmi á tímarit.is, þau elstu frá 1967. Trúlegt er að þessi orð séu upphaflega viðlíkingar – 'vondur/illur/reiður eins og fox' – og þá vísað til merkinga eins og 'meinhorn, uppstökk manneskja, flagð'. Einnig eru dæmi um að fox sé notað eitt og sér og þá greinilega stytting á foxillur/-reiður/-vondur – „Ég get alveg orðið fox þegar þeir hringja“ segir á Bland.is 2004. En vegna þess að fox er að öðru leyti horfið úr málinu sem sjálfstætt orð glatast tenging við upprunann og málnotendur fara að skilja fox- sem áhersluforlið. Þá opnast sá möguleiki að nota fox- til áherslu í fleiri orðum sem eiga ekkert skylt við upphaflega merkingu orðsins.

Dæmi um þetta er orðið foxljótur sem gæti svo sem líka merkt 'ljótur eins og fox' en líklegast er þó að fox sé þarna áhersluforliður frá byrjun. Í Risamálheildinni fann ég slæðing af samsetningum með fox-, öllum mjög sjaldgæfum og dæmin öll af samfélagsmiðlum. Þetta voru orðin foxdýr, foxgamall, foxglaður, foxgóður, foxheitur, foxleiðinlegur, foxmyndarlegur, foxnettur, foxríkur, foxsætur. Það er athyglisvert að mörg þessara orða hafa jákvæða merkingu sem sýnir að bókstaflegur skilningur, 'X eins og fox', kemur ekki til greina, heldur hlýtur að vera um áhersluforlið að ræða, 'mjög X'. Ýmis fordæmi eru fyrir endurtúlkun af þessu tagi og mér finnst ekkert athugavert við þessa notkun á fox- sem áhersluforlið – hún auðgar bara málið.

Mjúkasta ull sem fyrirfinnst

Í færslu í „Málspjalli“ – sem hefur reyndar verið tekin út – var birt skjáskot af auglýsingu þar sem stóð „Ein mjúkasta ull sem fyrirfinnst“ og spurt hvað fólki fyndist um þetta. Augljóslega var þar átt við myndina mjúkasta sem er vissulega ekki hið venjulega efsta stig af mjúkur í nefnifalli eintölu kvenkyni – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er aðeins gefin upp myndin mýksta og á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran: „Í málfræðibókum yfir forna málið er hvergi minnst á að orðið mjúkur sé án hljóðvarps í miðstigi og efsta stigi. Í bók Björns Karels Þórólfssonar, Íslenzkar orðmyndir á 14. og 15. öld, […] er ekki heldur minnst á mjúkari […]. Sama gildir um […] Grammatica Islandica, sem Jón Magnússon skrifaði á 18. öld […].“

Það er rétt að óhljóðverptar myndir af mjúkur í miðstigi og efsta stigi eru ekki nefndar í þeim bókum sem vísað er til – en hljóðverptu myndirnar eru það ekki heldur. Reyndar er nefnt „að óhljóðverpta myndin af mjúkur þekkist úr prentuðum ritum“ frá 16., 17., 19. og 20. öld, og í Ordbog over det norrøne prosasprog eru endingar lýsingarorðsins mjúkr í miðstigi og efsta stigi gefnar upp sem -ari og -astr og engin dæmi eru í safni orðabókarinnar um mýkri eða mýkstur. Eitt dæmi er þar um mjúkastur, úr Karlamagnúss sögu: „Otvel þakkaði konungi gjöf þá ok féll til fóta honum ok gerðist hinn mjúkasti.“ Fimm dæmi eru hins vegar um miðstigið mjúkari, m.a. „margir menn þykki mér mjúkari í sóknum en þér Íslendingar“ í Heimskringlu.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er bæði gefið upp miðstigið mjúkari og mýkri og efsta stigið mjúkastur og mýkstur, án þess að gert sé upp á milli myndanna – nema ef lesa má eitthvað út úr því að óhljóðverptu myndirnar mjúkari og mýkri eru á undan. Sama er að segja um Íslenska orðabók nema þar eru hljóðverptu myndirnar á undan. Á tímarit.is eru um tvö hundruð dæmi um mjúkastur og aðrar óhljóðverptar myndir efsta stigs. Dæmin dreifast yfir allt tímabilið frá miðri nítjándu öld til þessa dags þótt þau séu fá í seinni tíð, en eru langflest á nítjándu öld og þá virðast óhljóðverptu myndirnar hafa verið algengari en þær hljóðverptu – elstu dæmi um hverja af óhljóðverptu myndunum eru eldri en dæmi um samsvarandi hljóðverpta mynd.

Í áðurnefndri grein á Vísindavefnum segir að óhljóðverptu myndirnar hafi „ekki talist réttar“ en í ljósi þess að þær eru einhafðar í fornu máli, virðast hafa verið algengastar fram um 1900 og bregður enn fyrir hljóta þær að teljast rétt mál. Því má bæta við að alþekkt er að orð sem beygjast óreglulega ein og sér fá oft reglulega beygingu í samsetningum – í Risamálheildinni eru t.d. fleiri dæmi um geðvondari en geðverri. Af lýsingarorðinu auðmjúkur er miðstigið bæði gefið auðmýkri og auðmjúkari og efsta stigið bæði auðmýkstur og auðmjúkastur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Á tímarit.is er beygingin auðmjúkari auðmjúkastur nær einhöfð – hátt í þrjú hundruð dæmi eru um hana en aðeins milli tíu og tuttugu um auðmýkri auðmýkstur.

Enn dregur Isavia lappirnar

Á degi íslenskrar tungu fyrir hálfu öðru ári, 16. nóvember 2023, birti Isavia eftirfarandi fréttatilkynningu: „Degi íslenskrar tungu er fagnað á Keflavíkurflugvelli þann 16. nóvember 2023 með því að hleypa af stokkunum átakinu Höldum íslenskunni á lofti. Það miðar að því að íslenskan verði sýnilegri og mikilvægur þáttur í upplifun gesta flugvallarins. Stjórn Isavia hefur samhliða tekið ákvörðun um að íslenskan verði á undan öðrum tungumálum á öllum leiðbeiningarskiltum fyrir árslok 2024.“ Isavia hafði lengi setið undir miklu ámæli, m.a. frá menningar- og viðskiptaráðherra, fyrir að gera ensku hærra undir höfði en íslensku á skiltum, þannig að þessi ákvörðun vakti athygli og var víða fagnað, og fyrirtækið fékk hrós fyrir.

En þar var fullsnemma fagnað. Í gær var sett í hópinn „Málspjall“ færsla frá konu sem átti leið um Leifsstöð og rifjaði upp þessar fréttir og sagði að það væri „langur vegur frá því“ að staðið hefði verið við þessi fyrirheit. Ég hef ekki komið í Leifsstöð á þessu ári og get því ekki borið um þetta út frá eigin reynslu, en í athugasemdum við umrædda færslu birtu aðrir hópverjar myndir og ábendingar sem sýna glöggt að því fer fjarri að íslenska sé á undan ensku á öllum skiltum. Meira að segja kom fram að í nýrri viðbyggingu Leifsstöðvar, sem var opnuð á þessu ári – eftir að íslenska átti að vera komin í forgang á öllum skiltum – er sama uppi á teningnum. Það er augljóslega ekki hægt að skýra með því að það hafi tafist að skipta um skilti.

Upplýsingafulltrúi Isavia hefur verið spurður hverju þetta sæti, bæði á Facebook og í tölvupósti, en engin svör hafa borist. Mér finnst hlutur fyrirtækisins í þessu vera aumkunarverður. Eftir að hafa dregið lappirnar og móast við í mörg ár, þrátt fyrir ótal ábendingar og umkvartanir frá Íslenskri málnefnd og fleirum (sem fyrirtækið lét ekki svo lítið að svara), lét það loks undan þrýstingi í orði og lofaði bót og betrun, en stendur svo ekki við það markmið sem það setti. Eins og margoft hefur verið bent á er þjóðtungan nær alls staðar í forgrunni á alþjóðaflugvöllum – meira að segja írska á Írlandi þótt hún sé þar algert minnihlutamál. Það er hneyksli að Isavia skuli ennþá komast upp með að skjóta sér undan því að gera íslensku að fyrsta máli á skiltum.

Að klára stúdentinn og stefna á lækninn

Í „Málspjalli“ var spurt hvers vegna fólk segðist vera að læra lækninn / kennarann / lögfræðinginn / hjúkkuna / smiðinn / píparann o.s.frv., og hversu gamalt þetta væri í málinu. Þótt ég þekki þetta orðalag vissulega er það ekki í mínu máli og virðist ekki vera gamalt – elstu dæmi sem ég finn um það eru rúmlega tuttugu ára gömul. Fáein dæmi frá 2003 og 2004 er að finna á samfélagsmiðlum en dæmi úr prentmiðlum eru litlu yngri. Í DV 2005 segir: „Hún lærði kennarann í fjarnámi á styttri tíma en eðlilegt þykir.“ Í DV 2005 segir: „Ég er að læra píparann.“ Í blaðinu 2006 segir: „það vakti enga undrun hjá fjölskyldunni þegar hún ákvað að læra smiðinn.“ Í Munin 2008 segir: „Er að læra lækninn og spila knattspyrnu í landi frelsisins.“

Ég hef rekist á dæmi um nokkur fleiri orð í þessu sambandi, einkum á samfélagsmiðlum – að læra prestinn / leikarann / lögguna / ljósuna. Aftur á móti kemur að læra lögfræðinginn sem nefnt var í upphaflegu spurningunni varla fyrir – aðeins tvö dæmi á samfélagsmiðlum. Ekki eru heldur dæmi um að læra *hagfræðinginn eða *viðskiptafræðinginn þótt mikill fjöldi leggi stund á þessar greinar. Ástæðan er líklega sú að umrætt samband virðist alltaf vísa til þess að mennta sig til ákveðins starfs og lögfræðingur, hagfræðingur og viðskiptafræðingur eru prófgráður en ekki starfsheiti. Það er t.d. talað um að læra prestinn en aldrei *að læra guðfræðinginn þótt ekkert nám sé til sem heiti *prestafræði eða eitthvað slíkt.

Annað samband sem einnig er notað í skyldri merkingu og er sennilega álíka gamalt er stefna á. Á vef Náttúrulækningafélags Íslands 2023 er spurt: „Menntun?“ og svarað „Útskrifast sem sjúkraliði í vor og stefni á kennarann eða iðjuþjálfann eftir það.“ Þarna er augljóslega vísað til tiltekins náms, en sama orðalag getur einnig vísað til starfsins sem námið veitir réttindi til. Í Eyjafréttum 2007 er spurt „Hvað stefnir þú á að verða í framtíðinni?“ og svarið er „Ég stefni á lækninn“. Það er hins vegar ekki gott að segja hvers vegna þessi sambönd koma upp, en líklegasta ástæðan er sú að þau eru einföld og lipur. Það er einfaldara að segja ég er að læra kennarann eða ég er að læra lækninn en ég er í kennaranámi eða ég er að læra til læknis.

Ekki er heldur ólíklegt að um sé að ræða áhrif frá orðalaginu stefna á stúdentinn í merkingunni 'stefna á stúdentspróf' og klára / taka stúdentinn í merkingunni 'ljúka stúdentsprófi'. Það er nokkru eldra, frá því um 1980. Í Helgarpóstinum 1980 segir: „Ég ætla alla vega að klára stúdentinn og reyna að halda í ballettinn á meðan.“ Í Vísi 1981 segir: „Ég stefni á stúdentinn til að byrja með, en hvað verður eftir það er óráðið.“ Í Eyjafréttum 1985 segir: „Hugurinn stendur til ferðalaga, kynnast nýju fólki og löndum, taka stúdentinn og fara í auglýsingateiknun eftir það.“ Orðalagið verða stúdent í merkingunni 'ljúka stúdentsprófi' er auðvitað gamalt og ekkert undarlegt að farið sé að nota fleiri sagnir til að tákna sömu eða skylda merkingu.

Í millitíðinni

Af einhverjum ástæðum fór ég að skoða orðið millitíð sem í nútímamáli kemur nær eingöngu fyrir í sambandinu í millitíðinni sem er skýrt 'milli tveggja tímapunkta' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi um sambandið í þessari mynd er í Norðanfara 1876: „í millitíðinni skulu peningar þessir geymast og ávaxtast í hinum væntanlega „Sparisjóði“.“ Þetta samband er mjög algengt – um það eru tæp níu þúsund dæmi á tímarit.is. Af einhverjum ástæðum jókst tíðni þess snögglega upp úr 1980 og dæmi um það á tímarit.is eru nærri fimmfalt fleiri á þeim áratug en á áratugnum á undan. Þetta hefur haldist – í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá þessari öld eru dæmin hátt í þrettán þúsund.

En þótt millitíð hafi nú ævinlega greini í þessu sambandi hafði orðið raunar áður verið notað án greinis í a.m.k. heila öld. Í Sjálfsævisögu síra Þorsteins Péturssonar á Staðarbakka frá 1777 segir: „í millitíð vil ég eigi þegja við míns herra […] tilmælum.“ Í Húsfreyjan á Bessastöðum frá 1811 segir: „En í millitíð komst gamli fóstri að þessu.“ Myndirnar í millitíð og í millitíðinni virðast hafa verið notaðar hlið við hlið lengi vel þótt sú síðarnefnda hafi verið margfalt algengari frá því skömmu eftir að hún kom fram, en frá síðustu aldamótum hefur greinislausa myndin verið mjög sjaldgæf. Þó eru til nýleg dæmi: „Í millitíð ákvað forsætisráðherra að láta af störfum“ segir í grein eftir Hallgrím Helgason í Tímariti Máls og menningar 2010.

Sambandið í millitíðinni á sér merkingarlega samsvörun í danska orðasambandinu i mellemtiden og gæti hugsanlega verið myndað með hliðsjón af því. En mér finnst þó líklegra að það sé komið af danska orðinu imidlertid. Það orð merkir reyndar 'hins vegar, þó' í nútímadönsku en í eldri dönsku gat það einmitt merkt 'í millitíðinni'. Það samsvarar því íslenska sambandinu merkingarlega, og hljóðfræðilega samsvörunin er mun meiri en við i mellemtiden. Danska orðið imidlertid er líka án greinis sem rímar vel við það að íslenska sambandið var upphaflega greinislaust, í millitíð. Áhrif frá i mellemtiden sem er með greini kunna svo að hafa spilað inn í það að farið var að nota greini í sambandinu, í millitíðinni.

Sambandið í millitíðinni er auðvitað fyrir löngu orðið góð og gild íslenska, en það ber danskan uppruna óneitanlega með sér og þess vegna átti ég von á því að það hefði verið merkt sem óformlegt eða vont mál í orðabókum. En mér til mikillar undrunar kom í ljós að orðið millitíð er hvorki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 (og ekki heldur í viðbætinum frá 1963) né í Íslenskri orðabók – ekki heldur í nýjustu útgáfu hennar á Snöru. Það er mjög sérkennilegt að svo algengt orð og gamalt í málinu skuli hafa farið fram hjá orðabókahöfundum, allt fram að Íslenskri nútímamálsorðabók, en sýnir að orð geta verið lengi í málinu án þess að komast í orðabækur og þær er því ekki hægt að nota til að skera úr um hvort eitthvert orð sé til.

Meinfýsi eða meinfýsni?

Í „Málvöndunarþættinum“ var verið að ræða orðið meinfýsni en málshefjandi taldi sig aðeins kannast við myndina meinfýsi – án n. Báðar myndirnar eru algengar og gefnar í Íslenskri nútímamálsorðabók, þar sem síðarnefnda myndin er skýrð 'það að vera meinfýsinn, illkvittni' og greinilega talin aðalmyndin því að sú fyrrnefnda er ekki skýrð sérstaklega heldur vísað á hina. Í Íslenskri orðabók eru orðin skýrð saman undir meinfýsi, meinfýsni. Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2019 segir: „Meinfýsi heitir eiginleiki. […]. Þyki manni orðið ekki lýsa manni fyllilega stendur annar ritháttur til boða: meinfýsni. Og það er eins og auka-n-ið geri það aðeins mergjaðra.“ Þetta bendir allt til þess að litið sé á meinfýsni sem afbrigði af meinfýsi.

Elsta dæmi um meinfýsi á tímarit.is er í Austra 1900: „En mér virtist herra Laupépins tillit eigi laust við meinfýsi.“ Elsta dæmi um meinfýsni er í Tákni tímanna 1919: „Á meðan þessu fer fram, horfa aðstoðarmenn óvinarins með meinfýsni á þá, sem þeir hafa leitt til vantrúar.“ Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er aðeins meinfýsi að finna, en meinfýsni er hins vegar í Viðbæti bókarinnar sem var gefinn út 1963. Myndin meinfýsi virðist því vera aðeins eldri þótt ekki sé hægt að fullyrða um það vegna þess hversu fá dæmin eru lengi framan af. Hvorug myndin er sérlega algeng en meinfýsi hefur lengst af verið heldur algengari þótt meinfýsni virðist hafa siglt fram úr á síðustu árum ef marka má tímarit.is og Risamálheildina.

Nafnorðið meinfýsi er augljóslega myndað með i-hljóðvarpi af lýsingarorðinu meinfús sem er reyndar nánast horfið úr nútímamáli – aðeins um 50 dæmi eru um það á tímarit.is og það finnst hvorki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en er hins vegar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Orðmyndun af þessu tagi er mjög algeng – við höfum t.d. nafnorðin lýsi og lýti af lýsingarorðunum ljós og ljótur, nafnorðið hýsi af nafnorðinu hús, o.s.frv. Í þessum orðum er ekkert n – það eru ekki til myndir eins og *lýsni, *lýtni o.s.frv. Nú er það auðvitað varla svo að þetta n troði sér inn í meinfýsi af einhverri tilviljun, „af því bara“, heldur hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Lykillinn að þessu er væntanlega lýsingarorðið meinfýsinn.

Það orð er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – elsta dæmi um það er í Vísi 1920: „Svipur hans varð þá bæði í senn, háðslegur og meinfýsinn.“ Orðið gæti verið myndað beint af meinfús með i-hljóðvarpi, eins og meinfýsi, en gegn því mælir það að meinfýsinn virðist hafa alveg sömu merkingu og meinfús og vandséð hvers vegna ástæða hefði þótt til að búa til nýtt lýsingarorð af lýsingarorði sömu merkingar. Orðið meinfús virðist alltaf hafa verið mjög sjaldgæft eins og áður segir og óvíst að margir málnotendur hafi þekkt það. Líklegra er því að lýsingarorðið meinfýsinn hafi verið myndað af nafnorðinu meinfýsi – slík orðmyndun liggur beint við. Myndunin er þá meinfús > meinfýsi > meinfýsinn frekar en meinfús > meinfýsinn.

Þetta skiptir þó í raun ekki máli – hver sem myndunarsaga lýsingarorðsins meinfýsinn er hlýtur það að vera forsenda fyrir nafnorðinu meinfýsni, með n-i. Af lýsingarorðum sem enda á -inn eru nefnilega oft leidd nafnorð sem enda á -ni, svo sem fyndinn fyndni,  glettinn glettni, heppinn heppni, hittinn hittni, (ást)leitinn ástleitni og mörg fleiri, þar sem n-ið í nafnorðinu er augljóslega ættað úr lýsingarorðinu. Sama gildir um meinfýsinn meinfýsni. Orðin meinfýsinn og meinfýsni eru álíka gömul í málinu ef marka má tímarit.is (þótt vissulega sé erfitt að draga ályktanir af því vegna dæmafæðar) og ekkert því til fyrirstöðu að málnotendur hafi myndað nafnorðið af lýsingarorðinu eftir mynstri sem var þeim vel kunnugt.

Það er því ljóst að meinfýsni er ekki eitthvert tilviljanakennt framburðar- og ritháttartilbrigði við meinfýsi, heldur eru orðin orðmyndunarlega ólík – annars vegar meinfús meinfýsi og hins vegar meinfús meinfýsi – meinfýsinn – meinfýsni (eða meinfús meinfýsinn meinfýsni). Sama máli gegnir væntanlega um tvímyndirnar vandfýsi og vandfýsni (sem er ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók en aðalmyndin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924) þótt tímalínan sé þar óljósari – elsta dæmi um vandfýsi er frá 1892, um vandfýsni frá 1856, um vandfýsinn frá 1874, en vandfús kemur nánast ekki fyrir (aðeins tvö dæmi frá 1934 og 1977). Báðar orðmyndunaraðferðirnar eru vitanlega góðar og gildar og ástæðulaust að gera upp á milli þeirra.