„Málvilla“ dagsins

Um þessar mundir set ég daglega pistil undir fyrirsögninni „Málvilla“ dagsins inn í hópinn Málspjall á Facebook.  Flesta þessara pistla hef ég birt áður en margir hafa verið endurbættir nokkuð. Að auki set ég fremst í hvern pistil dæmi um viðfangsefnið, á forminu Sagt var og Rétt væri. Þetta er form sem er tekið úr ábendingum sem komu út í kverinu Gætum tungunnar árið 1984 og birtust einnig í dagblöðum. Ég hef oftar en einu sinni lýst því yfir að þessi aðferð við „málfarsráðgjöf“ sé eitur í mínum beinum og því má þykja undarlegt að ég noti hana þarna.

En það verður ekki litið fram hjá því að til er óopinber íslenskur málstaðall – reglur um það hvað teljist „rétt“ mál og hvað „rangt“, „gott“ og „vont“, „vandað“ og „óvandað“, „æskilegt“ og „óæskilegt“. Ég er vissulega ósáttur við ýmislegt í þessum staðli og tel mjög brýnt að taka hann til endurskoðunar og breyta honum – viðurkenna ýmis tilbrigði sem hafa verið í málinu áratugum saman og fjöldi fólks tileinkar sér á máltökuskeiði. Ég er sannfærður um að það væri til þess fallið að efla og styrkja íslenskuna en ekki öfugt. En þetta er ekki á mínu valdi.

Ég held samt að það sé nauðsynlegt að hafa einhvern staðal, og þrátt fyrir að ég sé á margan hátt ósáttur við staðalinn eins og hann er tel ég mikilvægt að fólk eigi þess kost að kynna sér hann – og tileinka sér hann ef það vill. Það eru ýmsar aðstæður þar sem það getur skipt máli að þekkja þennan staðal – og fara eftir honum. Þess vegna nota ég þessa aðferð. Fólk sem er að leita að upplýsingum um hvað er talið „rétt“ og hvað „rangt“ þarf þá ekki að lesa nema þessar tvær línur í hverjum pistli.

Vilji fólk hins vegar fá skýringu á því hvers vegna annað afbrigðið hefur verið talið rétt og hitt rangt getur það lesið áfram, það sem fer á eftir undirfyrirsögninni Eða hvað? En þar á það á hættu að finna ekki bara útskýringu á hefðbundnu mati á tilbrigðunum, heldur rekast líka á annað sjónarmið – rök fyrir því að þetta sé kannski ekki eins og venjulega hefur verið haldið fram, og kannski væri eðlilegt að viðurkenna líka það sem „sagt var“ sem rétt mál. Ég legg samt áherslu á að vitanlega þýðir það ekki að hitt afbrigðið yrði talið rangt.

Með þessu móti tel ég mig koma til móts við ýmsa hópa. Meginmarkmið mitt er að fræða fólk og ýta undir málefnalega umræðu um fjölbreytni og tilbrigði tungumálsins, en ekki að boða einhverja stefnu eða skoðun, hvað þá að fá fólk til að breyta máli sínu. Hins vegar hika ég ekkert við að hafa skoðun á ýmsum málfarsatriðum og setja þá skoðun fram, en mér er slétt sama hvort mér tekst að sannfæra annað fólk eða ekki. Ég vonast hins vegar til þess að mér takist að auka skilning fólks á tilbrigðum í máli og umburðarlyndi fyrir þeim.

Það er nefnilega ekki þannig að eitt þurfi alltaf að vera rétt en annað rangt – einn framburður, ein beyging, ein setningagerð, ein merking. Ég held að sá hugsunarháttur sé stórskaðlegur fyrir tungumálið, ýti undir málótta og málfarslega stéttaskiptingu sem hvort tveggja er til þess fallið að veikja íslenskuna, draga úr mótstöðuafli hennar gegn ytri áhrifum. Það er allt í lagi að fólk noti íslenskuna á svolítið mismunandi hátt. Málið sér sjálft um að hafa taumhald á tilbrigðunum þannig að það verði ekki ónothæft sem samskiptatæki.

Tilbrigði eru í góðu lagi. Íslenska er alls konar – og á að vera það.

Fræðimenn í vinsældakeppni?

Í morgun heyrði ég viðtal á Bylgjunni um efni sem mikið hefur verið til umræðu undanfarna daga – kynhlutlaust mál. Ég ætlaði eiginlega að leiða umræðu um þetta viðtal hjá mér en vegna þess að mér sýnist vera skotið á mig í því verð ég að gera nokkrar athugasemdir við það sem sagt var um einn þeirra hópa sem hafa talað fyrir auknu kynhlutleysi:

„Svo eru það fræðimenn […] sem að gera allt sem þeir geta til að afla sér vinsælda með því að aðhyllast þessa stefnu til þess að líta út fyrir að vera frjálslyndir í skoðunum. En þeir eru það ekkert endilega. Það gerir mann ekkert frjálslyndan í skoðunum að fara að nota einhver önnur fornöfn og strika út ákveðin orð.“

Ég ímynda mér að þessu sé ekki síst beint til mín, vegna þess að ég hef verið nokkuð áberandi í þessari umræðu. En ég get ekki annað sagt en þetta sé ómerkilegur málflutningur – að halda því fram að afstaða ónefndra fræðimanna stjórnist af því að þeir vilji afla sér vinsælda. Ég er ekki í neinni vinsældakeppni við einn eða neinn. Ég er kominn á eftirlaun og hef fengið allan þann frama í starfi og allar þær viðurkenningar sem ég gæti hugsað mér – og meira til. Ég þarf ekki á því að halda að hafa einhverja góða eða safna lækum.

Ég hef sagt frá því áður að fátt hefur haft meiri áhrif á viðhorf mitt og afstöðu til tungumálsins – og fólksins sem talar það – en þegar ég var fenginn til að taka sæti í dómnefnd nýyrðasamkeppni Samtakanna 78 árið 2015. Fram undir það þótti mér fornafnið hán bæði ljótt og allsendis óþarft, og umræða um karllægni tungumálsins byggð á misskilningi. En þarna kynntist ég fólki sem var það hjartans mál að geta talað um sjálft sig á móðurmálinu, og áttaði mig á því hversu miskunnarlaus jaðarsetning og útilokun það er að neita fólki um það.

Þess vegna hef ég talað fyrir því að fornafnið hán fái þegnrétt í málinu, og tók það inn í kennsluefni mitt og kennslu á sínum tíma. Ég er stoltur af því, og hundsama hvort það er túlkað sem frjálslyndi eða ekki. Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að sýna fólki þá lágmarksvirðingu að gera því sjálfu, vinum þess og ættingjum, kleift að nota móðurmál sitt til að tala um það. Er það til of mikils mælst?

Nýlenska

Í umræðu um mál og kyn undanfarið hafa tilraunum til að draga úr karllægni íslenskunnar verið gefin ýmis nöfn – talað um „geldingu tungumálsins“, „afkynjun íslenskunnar“, „málvönun“ og kannski fleira. Hvað sem um þessar tilraunir er að segja er þetta orðfæri ekki heppilegt og virðist fremur valið til þess að hafa áróðursgildi en til að vera lýsandi. Ef þessi orð eru tekin bókstaflega mætti ætla að leitast væri við að útrýma málfræðilegu kyni úr íslensku, en það er auðvitað fjarri sanni. Það sem um er að ræða er tvennt – annars vegar að nota hvorugkynsmyndir fornafna og lýsingarorða í almennri vísun, í stað karlkyns, og hins vegar að nota starfsheiti í hvorugkyni eða kvenkyni í stað karlkyns.

Notkun hvorugkyns sem hlutlauss kyns í dæmum eins og öll velkomin í stað allir velkomnir stríðir gegn máltilfinningu margra enda erum við flest alin upp við að nota karlkyn í þessu hlutverki. Slík breyting er fjarri því að vera einföld í framkvæmd og það er skiljanlegt að hún mæti andstöðu. En það felst engin „afkynjun“ í henni. Málfræðileg kyn í íslensku eru þrjú eins og öllum er kunnugt – karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn. Fornöfn og lýsingarorð í hvorugkyni beygjast í fjórum föllum og tveimur tölum eins og þau gera í karlkyni og kvenkyni, og lýsingarorðin hafa auk þess bæði veika og sterka beygingu og þrjú stig í öllum þremur kynjum. Hvorugkynið er á engan hátt „minna kyn“ en hin tvö – stendur þeim alveg jafnfætis.

Þótt hvorugkynsorðin björgunarfólk, blaðafólk, fréttafólk, hestafólk og lögreglufólk og séu notuð í stað orða sem enda á -menn felst ekki í því nein „afkynjun“ eða misþyrming á tungumálinu – þetta eru rétt mynduð orð sem hafa verið til í málinu í 60-90 ár. Í Heimskringlu talar Snorri oftar um landsfólk en landsmenn, og hann talar líka um bóndafólk, byggðarfólk, býjarfólk, bæjarfólk, fátækisfólk, fjölkynngisfólk, hernaðarfólk, illþýðisfólk og innanlandsfólk – að ógleymdu mannfólkinu sem byggir kringlu heimsins. Orðin iðnaðarfólk og sjófólk voru notuð á 19. öld – og svo mætti lengi telja. Það er nákvæmlega ekkert að því að fólk sem svo kýs noti þessi orð, en öðrum er að sjálfsögðu frjálst að halda sig við hefðbundnari orð.

Tilraunir til að draga úr karllægni tungumálsins hafa verið kallaðar „nýlenska“ sem vísar til newspeak hjá George Orwell og er oft notað um það þegar málnotkun og hefðbundinni merkingu orða er meðvitað hnikað til í pólitískum eða hugmyndafræðilegum tilgangi. En það er a.m.k. ekki minni nýlenska að tala um afkynjun, geldingu og málvönun í þessu samhengi. Í fyrsta lagi eru orðin villandi – það er ekki um neina „afkynjun“ að ræða eins og hér hefur verið rakið. Í öðru lagi er dálítið hlálegt að réttlæta notkun málfræðilegs karlkyns í kynhlutleysi með því segja – réttilega – að málfræðilegt kyn sé allt annað en kynferði fólks, en nota svo orð sem vísa til hins síðarnefnda, og eiga þar við, í umræðu um það fyrrnefnda þar sem þau eiga alls ekki við.

umkringis

Í gær frétti ég af orðinu umkringis sem kennari hafði séð í ritgerð nemanda, í merkingunni 'umhverfis', og taldi nýyrði. Það hefði ég líka gert, enda hafði ég aldrei heyrt eða séð orðið svo að ég muni. Mér fannst það samt ekki fráleitt og fór að kanna þetta betur. Þá kom í ljós að umkringis er ævagamalt orð, a.m.k. frá 13. öld, og um það eru yfir 30 dæmi í fornu máli. Það virðist hins vegar vera mjög sjaldgæft á síðari öldum – kemur fyrir í þýðingu eftir Arngrím lærða frá 1618, en eftir það eru ekki heimildir um það fyrr en í Danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Konráð Gíslason frá 1851.

Á tímarit.is eru 20 dæmi um umkringis, dreifð yfir 20. öld og upphaf þeirrar 21. – það elsta frá 1909 og það yngsta frá 2005. Í þessum dæmum er merkingin sú sama, 'umhverfis', en það er athyglisvert að í nýjasta dæminu virðist þetta vera notað sem þýðing á surround – „Við erum nýlega búin að taka sýningarvélarnar í gegn og setja upp „umkringis“-hljóðkerfi“. Í Risamálheildinni er að finna eitt dæmi umfram þau sem eru á tímarit.is og er það frá 2016. Orðið er uppflettiorð bæði í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924 og í Íslenskri orðabók, en er ekki að finna í neinum safnanna á Málið.is.

Þetta orð virðist því hafa lifað í málsamfélaginu öldum saman án þess að komast nema einstöku sinnum á prent. Það er svo sem ekki einsdæmi, en spurning er hver uppruni þess er í ritgerð framhaldsskólanema árið 2021. Er þetta orð sem nemandinn hefur lært í málumhverfi sínu, eða hefur hann búið það til? Síðarnefndi möguleikinn er kannski líklegri – það má segja að þetta orð liggi nokkuð beint við út frá umkringja, kringum, hringinn í kringum og umhverfis. Í sjálfu sér er þetta miklu gagnsærra – og þá e.t.v. í vissum skilningi „betra“ – orð en umhverfis.

En það er samt ekki rétt að útiloka hinn möguleikann. Við getum borið þetta saman við kórónuveiruna sem við vitum að er úti í samfélaginu þótt hún láti lítið á sér bera tímunum saman – en svo skýtur hún upp kollinum allt í einu. Að vísu er kórónuveiran talsvert meira smitandi en orð, en það er samt ekki óhugsandi að nemandinn hafi lært orðið af foreldrum sínum. En hvað sem um þetta er held ég að við ættum að fagna þessu orði. Annaðhvort sýnir það hvernig orð geta leynst í málsamfélaginu tímunum saman án þess að hverfa endanlega eða það sýnir mállega nýsköpun hjá ungum málnotanda. Hvort tveggja er skemmtilegt og sýnir að íslenskan er sannarlega lifandi mál.

Að breyta máli

Ég hef ekki talað fyrir því að fólk breyti máli sínu og ég hef ekki gert það sjálfur, í þeim skilningi að ég segi eða skrifi eitthvað sem stríðir gegn máltilfinningu minni. En það er oft hægt að hagræða máli sínu þannig að það komi betur til móts við kynhlutleysi. Með óákveðnum fornöfnum nota ég t.d. oft sagnir sem taka þágufallsfrumlag ef hægt er að koma því við – segi öllum þykir í stað allir telja eða eitthvað slíkt. Ástæðan er sú að í þágufalli og eignarfalli fleirtölu eru öll kyn fornafna (og lýsingarorða) eins. Einnig nota ég oft fólk þar sem ég hefði áður notað menn, og mér finnst ekkert að því að tala um björgunarfólk og hestafólk – þetta eru ekki ný orð.

En þótt ég tali ekki fyrir breytingum skil ég vel að mörgum konum og kynsegin fólki finnist karlkynsmyndir fornafna og lýsingarorða, sem og orðið maður og samsetningar af því, ekki höfða til sín og vilji breyta málnotkun sinni. Það er hins vegar ekki einfalt – bæði af því að það er erfitt að breyta málnotkun sinni almennt séð, og einnig vegna þess að íslenskan er svo gegnsýrð af málfræðilegu kyni. Þegar fólk reynir að breyta málnotkun sinni er því hætta á að ýmiss konar ósamræmi og óvissa komi upp. En fólk á að vera frjálst að því að gera slíkar tilraunir með eigin málnotkun án þess að amast sé við því.

Ég legg hins vegar áherslu á að það er alveg ótækt að gagnrýna fólk fyrir að breyta ekki máli sínu – fyrir að tala það mál sem það er alið upp við og hefur tileinkað sér á máltökuskeiði. Þetta á við um ýmis tilbrigði sem oft eru kölluð „málvillur“, en einnig um það að nota karlkyn sem hlutlaust (ómarkað) kyn, og nota orðið maður og samsetningar af því í vísun til bæði karla og kvenna. Þetta er það mál sem við erum flest alin upp við, og það er ekki sanngjarnt að ætlast til að fólk sem er alið upp við að segja allir velkomnir breyti því, frekar en sanngjarnt er að ætlast til að fólk sem er alið upp við að segja mér langar breyti því.

Framansagt á við málfar og málnotkun einstakra málnotenda. Málnotkun hjá opinberum stofnunum, svo sem Ríkisútvarpinu og Alþingi, er svo annað mál sem mjög skiptar skoðanir eru um. Það hefur komið fram að unnið sé að því að færa lagamál í átt til kynhlutleysis, og mikið hefur verið skrifað um þá „tilraunastarfsemi“ með tungumálið sem ýmsum finnst Ríkisútvarpið stunda – þótt það sé raunar fjarri sanni að þar sé verið að útrýma kynhlutlausu karlkyni eða orðinu maður. Mörgum finnst að RÚV eigi að virða rétt þeirra sem vilja halda í „hefðbundna“ íslensku – en á móti má spyrja hvort réttur þeirra sem finnst karlkynið ekki höfða til sín sé þá enginn.

Þetta er snúið mál, en aðalatriðið í þessu er umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Fólk sem vill hafna karlkyni sem hlutlausu kyni þarf að hafa í huga og sýna því skilning að við erum flest alin upp við að karlkynið hafi þetta hlutverk, og fólk sem vill halda í karlkynið sem hlutlaust kyn þarf að hafa í huga og sýna því skilning að ýmsum finnst karlkynið eingöngu vísa til karlmanna og þar með vera útilokandi. Það má ekki gerast að fólk verði flokkað eftir málnotkun hvað þetta varðar og annað hvort tilbrigðið verði talið villa eða óviðeigandi málnotkun.

Hvað merkir „maður“?

Í fornu máli vísar orðið maður fyrst og fremst til karlmanna þótt vissulega séu ýmis dæmi um að konur felist í fleirtölunni menn. Í Ögmundar þætti dytts segir t.d. „Var Freyr jafnan fátalaður við aðra menn en konu sína“, í Þórðar sögu hreðu segir „Fátt hafði hann manna hjá sér utan konu sína“, í Fóstbræðra sögu segir „Þar var ekki inni manna nema konur einar“, í Þorsteins þætti uxafóts segir „Um daginn eftir er þeir voru úti staddir sáu þeir þrettán menn á skóginum og var eitt kona í“, og í Eyrbyggja sögu segir „Fóru menn þá upp á hlaðann, bæði karlar og konur“. En slík dæmi eru ekki mörg.

Eintalan maður getur líka vísað til konu þegar tilgreina þarf einn úr hópi sem hefur verið nefndur. Í Heiðarvíga sögu segir „Nú þykist hann eigi vita víst hvort kona er hinn þriðji maðurinn er hvítt er til höfuðsins að sjá“ og í Heimskringlu segir „Kona var hinn þriðji maður er þannug hafði sótt af Svíþjóðu austan“. Fyrir utan þetta eru þess fá dæmi að eintalan vísi til konu. Það er sláandi að í þau tæp 500 skipti sem persóna er kynnt til sögu með maður hét X eða maður er nefndur X er ævinlega um karlmann að ræða. Konur eru kynntar með kona hét X eða kona er nefnd X, en þau dæmi eru bara kringum 20 – þetta eru karlabókmenntir.

Stundum er því haldið fram að notkun orðsins maður í beinni andstöðu við kona sé tiltölulega nýtilkomin en það er ekki rétt. Slík dæmi eru vissulega fá í fornsögum en í Sturlungu segir þó t.d. „Þá var beitt útgöngu konum og þeim mönnum er eigi voru sakar við“. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 eru nokkur dæmi, m.a. „hann gjörði það að vera skyldi maður og kona“, „skírðust bæði menn og konur“, o.fl. Fáein dæmi eru síðan frá 17. öld og allmörg frá 18. öld, t.d. úr verkum Eggerts Ólafssonar sem segir t.d. í brúðkaupssiðabók sinni: „jafnan sitji hér tvennt til samans, maður  og kona“. Á 19. öld verður þetta svo mjög algengt.

Það er ljóst að þrátt fyrir að orðið maður hafi vitaskuld líka almenna merkingu tengist það karlmönnum mjög nánum böndum. Í því ljósi ætti ekki að þurfa að koma á óvart að margar konur og kynsegin fólk tengi sig ekki við það orð eða samsetningar af því. Það er líka löng hefð fyrir starfsheitum þar sem orð sem endar á -maður er notað um karlmenn en orð sem endar á -kona um konur. Í bændasamfélaginu var skýr munur á vinnumönnum og vinnukonum, kaupamönnum og kaupakonum. Þegar farið var að stofna verkalýðsfélög voru karlarnir í verkamannafélögum, konurnar í verkakvennafélögum. Svo mætti lengi telja.

Vitanlega er líka fjöldi starfsheita sem enda á -maður notaður um bæði karla og konur. Oft stafar það af því að framan af gegndu einungis karlmenn þessum störfum – voru alþingismenn, iðnaðarmenn, stýrimenn, flugmenn og svo mætti lengi telja. Þegar konur fóru að sinna þessum störfum var starfsheitið orðið fast í málinu og breyttist ekki – öfugt við það sem gerðist þegar karlar fóru að sinna hefðbundnum kvennastörfum. Þeir voru þá ekki hjúkrunarkonur eða flugfreyjur, heldur hjúkrunarmenn og flugþjónar, og þeir fáu karlmenn sem hafa fengist við að taka á móti börnum voru nefndir ljósfeður – ekki ljósmæður.

Það hefur verið amast við því að orð sem enda á -fólk séu notuð í stað orða með -maður. Það er samt löng hefð fyrir því að tala um verkafólk og verslunarfólk, og þótt orðin iðnaðarfólk og sjófólk hljómi kannski ókunnuglega eru þau bæði síðan á 19. öld og voru nokkuð notuð þá. Það eru yfir 600 dæmi um björgunarfólk á tímarit.is, þau elstu nærri 90 ára gömul, og nærri 2000 dæmi um hestafólk, þau elstu meira en 60 ára gömul. Á 19. öld og langt fram eftir þeirri 20. var iðulega talað um landsfólk. Auðvitað er ekkert að þessum orðum – þetta eru rétt mynduð íslensk orð. Við erum kannski ekki vön þeim – en við getum vanist þeim.

Í Fréttablaðinu í gær er haft eftir Guðrúnu Þórhallsdóttur: „Það væri algerlega rangt að gefa út íslenska orðabók þar sem orð sem enda á -maður væru eingöngu sögð vísa til karla. Það væri einfaldlega ekki í samræmi við íslensku og þar væru lesandanum gefnar rangar upplýsingar.“ Þetta er vitanlega rétt – orðabækur eiga að vera lýsandi, ekki stýrandi. En eins og ég hef oft sagt er það ekki uppruni, orðabókaskýringar, eða fyrirmæli sem ákvarðar merkingu orða. Orð hafa þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim. Ef málsamfélagið er ósátt við þau orð sem eru í notkun kemur það með ný orð. Þannig hefur það alltaf verið – og þannig á það að vera.

Afkynjun íslenskunnar?

Ég verð alltaf dálítið dapur þegar umræða hefst um meinta „afkynjun“ íslenskunnar. Dapur vegna þess að þessi umræða leiðir í ljós fullkomið skilningsleysi margra á því sem liggur að baki vilja til breyttrar málnotkunar. Dapur vegna þess hve umburðarlyndi margra gagnvart máli, málnotkun og máltilfinningu annarra er af skornum skammti. Dapur vegna þess hvernig sjálfskipaðir málsvarar íslenskunnar gera andstæðingum sínum upp skoðanir og fyrirætlanir. Dapur vegna þess að þessi umræða leiðist alltaf út í gífuryrði og tal um „offors“, „fólskulega árás á íslenskt mál“, „uppvöðslusemi sjálfskipaðra umbótaaðila“, „skipulagða skemmdarverkastarfsemi gegn tungumálinu“ o.s.frv.

Ég er ekki og hef ekki verið sérstakur talsmaður þess að breyta tungumálinu á einhvern ákveðinn hátt og hef enga trú á því að einhver fyrirmæli um slíkt að ofan hafi einhver áhrif. En ég skil hvað liggur að baki vilja margra til að ákveðnar breytingar verði á tungumálinu. Þar er ekki um að ræða einhverja misskilda jafnréttisbaráttu, heldur tilfinningu margra kvenna og kynsegin fólks fyrir því að orðið maður og samsetningar af því, sem og karlkynsmyndir lýsingarorða í kynhlutlausri notkun, höfði ekki til þeirra. Ég hef fulla trú á því að þarna sé um að ræða sanna og einlæga tilfinningu, og hef engar forsendur til að efast um það. Og mér finnst að við eigum að sýna þessari tilfinningu skilning.

Það má svo deila um það hvort og hvernig og að hvaða marki hægt sé og rétt að koma til móts við þessa tilfinningu. Við því hef ég engin góð svör. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í þessa átt, m.a. í Ríkisútvarpinu, og fólk greinir á um réttmæti þeirra. Það er allt í lagi og eðlilegt. En að tala um þetta sem „nýlensku“, „geldingu tungumálsins“, „afkynjun íslenskunnar“, tilraun til að „svipta tungumálið okkar fegurð sinni og þokka“, sem beri vott um „einstrengingslegan hugsunar­hátt og al­geran skort á máltilfinningu“ og snúist „ekki um jafn­réttis­bar­áttu heldur ýmist um of­stæki, sýndar­mennsku eða ótta við álit þrýsti­hópa“ – það er einfaldlega út í hött.

Tungumálinu er ekki hægt að breyta – það getur hins vegar breyst. Ég held að sama hvað við þrætum á Facebook eða í fjölmiðlum, og sama hvað Ríkisútvarpið gerir, muni íslenskan breytast nokkuð hratt í átt til kynhlutleysis á næstu árum. Ég held að ungt fólk sé töluvert opnara fyrir því en við sem eldri erum. Ég fæ hins vegar ekki betur séð en mörg þeirra sem býsnast sem mest yfir því að verið sé að heimta að fólk breyti máli sínu séu einmitt sama fólkið og finnst sjálfsagt að krefjast þess að fólk sem er alið upp við að segja mér langar, ég vill, það var barið mig, opna hurðina o.s.frv. breyti máli sínu. Það er eiginlega grátbroslegt.

Hvorki Kasper né Jesper né Jónatan

Í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar segir: „Sumar fleiryrtar samtengingar eru stundum fleygaðar af öðrum orðum, einu eða mörgum. Þær nefnast fleygaðar samtengingar.“ Björn gerir ráð fyrir fimm fleyguðum aðaltengingum – það eru bæði – og, hvorki – né, annaðhvort – eða, hvort – eða, ýmist – eða. Í Málfarsbankanum segir að bæði – og „aðeins hægt að nota þegar um tvo liði er að ræða“ og annaðhvort – eða „aðeins hægt að nota þegar um tvo möguleika er að ræða“.

Það liggur þó fyrir að flestar þessar tengingar eru iðulega notaðar til að tengja fleiri en tvo liði. Þegar um bæði – og er að ræða eru tveir fyrri liðirnir þá stundum ótengdir hvor á eftir öðrum, með kommu á milli í rituðu máli, en og kemur á undan síðasta liðnum – ég keypti bæði appelsínur, epli og banana. En einnig er hægt að tvítaka og, hafa það bæði á undan öðrum og þriðja lið. Um það eru fjölmörg dæmi þegar í fornu máli – í Heimskringlu segir t.d. „Jómsvíkingar börðust bæði hraustlega og djarflega og snarplega“.

Ekki nóg með það, heldur er hægt er að bæta fleiri liðum við með því að hafa og á undan hverjum þeirra. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir t.d. „hann var bæði sterkur og stórvirkur og umskiptasamur og illskiptinn“ og í Heimskringlu segir „Var skipið bæði langt og breitt og borðmikið og stórviðað“. Ég veit ekki hvaða efri mörk eru á fjölda liða sem hægt er að tengja saman á þennan hátt, en í grein eftir Pétur Gunnarsson rithöfund í Morgunblaðinu 2007 segir: „En vonandi verður þá bæði skrifað og spilað og leikið og málað og ort.“ Þetta er fullkomlega eðlileg setning þótt þarna séu fimm liðir tengdir saman og og fjórtekið.

Sama gildir um annaðhvort – eða. Það er enginn vandi að nota þá tengingu til að tengja fleiri en tvo liði með því að endurtaka eða á undan hverjum lið. Eitt slíkt dæmi er að finna í Grettis sögu: „Leitaði hann allra bragða nú að stíga yfir Gretti, annaðhvort með harðfengi eða brögðum eða á hvern hátt er hann gæti það gert.“ Í Risamálheildinni eru yfir 300 dæmi um tvítekningu eða, þ. á m. úr formlegum yfirlesnum textum eins og Alþingisræðum, lagatextum og Hæstaréttardómum.

Fáein dæmi eru um að eða sé þrítekið, eins og í ræðu á Alþingi 2004: „þá var bent á nokkrar leiðir sem væru hyggilegar fyrir þessar stofnanir, annaðhvort aukin samvinna eða sameiginleg yfirstjórn eða óbreytt ástand eða allsherjarsameining í eina stofnun“. Ég hef hins vegar ekki fundið nein dæmi um fjórtekið eða með annaðhvort, en slík dæmi finnast um ýmist – eða, t.d. í Morgunblaðinu árið 2000: „þeir gera mig ýmist leiðan eða áhyggjufullan eða reiðan eða graðan eða einmana“.

Ekki nóg með það. Sama gildir um hvorki – né – það er hægt að tengja fleiri en tvo liði saman með því að endurtaka . Í Heimskringlu segir t.d. „hann vill hvorki korn né malt né mjöl þaðan í brott láta“. Í þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk á söng ræningjanna í Kardimommubænum segir: „Þó tökum við aldregi of eða van, hvorki Kasper né Jesper né Jónatan.“ Það eru líka dæmi um þrítekningu : Í Prédikaranum í Biblíunni segir „í dánarheimum, þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska“.

Það er því ljóst að á öllum tímum hafa fleyguðu aðaltengingarnar verið notaðar til að tengja fleiri en tvo liði. Í nútímamáli má finna dæmi um að þetta sé gert í formlegum textum og í verkum virtra rithöfunda. Þetta er fullkomlega eðlilegt mál sem engin ástæða er til að amast við.

Barátta við vindmyllur

Þegar maður skoðar málfarspistla í dagblöðum frá miðri síðustu öld og jafnvel eldri vekur athygli hvað flest af því sem þar er kvartað yfir er kunnuglegt – það er verið að amast við því enn í dag. Þetta á við um t.d. „þágufallssýki“, ég villverslunin opnarkeyptu þetta, og fjölmargt fleira. Vissulega hafa ýmis aðfinnsluatriði bæst við, svo sem „nýja þolmyndin“, spá í þessudingla bjöllu o.fl., en samfellan í þessu er samt ótrúlega mikil.

Þetta sýnir tvennt. Annars vegar að baráttan gegn þessum tilbrigðum hefur litlu skilað á 70-80 árum og er því væntanlega vonlítil – barátta við vindmyllur. Hins vegar er ljóst að fjöldi fólks, nokkrar kynslóðir, hefur alist upp við þau tilbrigði sem barist er gegn – þau eru þá málvenja þess fólks og hljóta því að teljast „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“

Á undanförnum mánuðum hef ég skrifað hér pistla um milli 40 og 50 tilbrigði sem talin eru „rangt mál“ eða óæskilegt samkvæmt hinum óopinbera íslenska málstaðli. Í þessum pistlum hef ég fært rök að því að þessi tilbrigði feli ekki í sér neinar grundvallarbreytingar á málinu, séu engin málspjöll, og ættu að njóta fullrar viðurkenningar sem „rétt mál“ samkvæmt skilgreiningunni sem vitnað er til hér að framan – ættu að fara inn í málstaðalinn sem val, vitanlega ekki sem hið eina rétta.

Það er samt ekkert aðalatriði fyrir mér að breyta skoðunum fólks á þessum tilbrigðum, og ég er vitanlega ekki að mælast til þess að fólk breyti máli sínu. Hins vegar finnst mér mikilvægt að fræða fólk um tilbrigðin, uppruna þeirra og ástæður, þannig að fólk geti sjálft lagt mat á þau. Skýringalausar leiðréttingar eins og „Sagt var: Þau eru góð við hvort annað. Rétt væri: Þau eru góð hvort við annað“ eru eitur í mínum beinum, skila engu og vinna beinlínis gegn íslenskunni að mínu mati.

Að versla sér mat

Sögnin versla er með algengari sögnum málsins. Í orða­bókum um nútímamál er hún skýrð 'kaupa og selja; eiga í viðskiptum', en í Íslenskri orðabók er reyndar bætt við merkingunni 'gera innkaup' og dæminu „versla ‹sér› e-ð“ en það er merkt með !? sem merkir að það njóti ekki fullrar viðurkenningar. Það fellur vel að því sem segir í Mál­farsbankanum: „Mælt er með því að segja: kaupa inn, kaupa vörur, kaupa sér vörur. Síður: „versla inn“, „versla vörur“, versla sér vörur“. Hins vegar: versla með vörur, versla við einhvern." En ýmsar forvitnilegar breytingar hafa orðið á hegðun sagnarinnar á síðustu 100-150 árum.

Á 19. öld tók sögnin oft andlag, en það var í þágufalli en ekki þolfalli. Í Íslenzkum sagnablöðum 1817 segir: „Einn­ig skal þad leifiligt skipum þeim er med leidibréfi koma tilbaka frá Stórbretalandi ad verzla vörum þeim er þau hafa medferdis.“ Í Austra 1886 segir: „Í bænum Caen í Normandíi er stórt torg sem ungar stúlkur sækja til, er þær vilja verzla hárinu í peninga.“ Yngstu dæmi sem ég hef fundið um versla með þágufallsandlagi eru frá fyrstu áratugum 20. aldar, þ. á m. „Mamma! heldur þú að þú vildir versla ullinni minni fyrir mig?“ í Hlín 1927.

Svolítið annars eðlis eru dæmi úr Önnu frá Stóruborg eftir Jón Trausta: „Ég átti að láta versla mér burt fyrir silfur og gull og nokkur hundruð í jörðum!“, og úr Upp við fossa eftir Þorgils gjallanda: „Keypti ær fyrir hey­verð­ið frá Brandi og verslaði öllu, sem hann komst yfir, til fjárkaupa. “ Í þessum dæmum merkir sögnin ekki 'kaupa og selja', heldur ein­ungis 'selja'. Þetta samræmist skýr­ingum sagnarinnar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem bæði er gefin merkingin 'handle, drive Handel' og „v[ersla] e-u, handle med n-t, sælge n-t“. Þó er alltaf miklu algengara að sögnin taki með sér for­setningarlið – versla með (eitt­hvað) eða versla við (ein­hvern).

Vissulega má benda á að langt fram eftir 19. öld var nánast eingöngu um vöruskiptaverslun að ræða – fólk lét af hendi einhverjar vörur en fékk aðrar í staðinn. Þannig má segja að þegar talað er um að versla vörum sé hvor aðili um sig bæði kaupandi og seljandi, og því mætti halda fram að sögnin merki þarna 'kaupa og selja', ekki bara 'selja'. En það er samt greinilegt að í dæmunum hér að framan er alltaf horft á viðskiptin frá sjónarhóli selj­and­ans, og stundum kemur líka fram að ekki er um vöruskipti að ræða, eins og þegar talað er um að „verzla hárinu í peninga“. Það er því eðlilegt að líta svo á að í um­ræddum dæmum hafi versla merkinguna 'selja'.

Setningagerðirnar sem Málfarsbankinn telur óæskilegar, versla inn, versla vörur, versla sér vörur, og einnig t.d. versla í matinn, virðast vera frekar nýtilkomnar, og elstu dæmi sem ég finn um þær allar eru frá svipuðum tíma, kringum 1980, en dæmum fjölgar mjög ört. Í Lyst­ræningjanum 1977 segir „Konan elskar semsé að versla sér tuskur.“ Í Vikunni 1978 segir „Við ferðumst mjög mikið, verslum inn frá Frakklandi, Ítalíu, Finnlandi, Dan­mörku, Englandi, Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og Hol­landi.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir „Hann er t.d. [...] að verzla í matinn.“ Í Morgunblaðinu 1981 segir „Nú getur fólk komið í Sýningahöllina og verslað vörur á hlægilega lágu verði.“

Þarna koma fram bæði setningafræðilegar og merk­ingar­legar nýjungar. Sögnin er aftur farin að taka með sér and­lag, nú í þolfalli – versla vörur. Hún getur meira að segja tekið tvö andlög, þágufall og þolfall – versla sér vörur. Þar að auki getur hún nú tekið með sér atviksorðið (ögn­ina) inn. Merkingarlega nýjungin er sú að í þessum dæm­um merkir versla ekki 'selja', og ekki heldur 'kaupa og selja', heldur bara 'kaupa'. Það er samt ekki svo að amast sé við öllum dæmum um að versla merki 'kaupa'. Þegar ég segist versla við einhvern eða versla hjá einhverjum er ég að kaupa eitthvað, ekki selja, og sama gildir þegar ég segist vera að fara að versla.

Það er því ljóst að ýmis tilbrigði hafa verið í notkun sagn­ar­innar versla, bæði setningagerð og merkingu – á 19. öld tekur hún stundum með sér þágufallsandlag og merkir 'selja', á 21. öld tekur hún stundum með sér þolfallsandlag og merkir 'kaupa'. Fólk verður svo sjálft að gera upp við sig hvaða skoðun það hefur á versla (sér) vörur, versla inn og versla í matinn. Það er komin a.m.k. 40 ára hefð á þessa notkun sagnarinnar, hún er mjög al­geng, og veldur varla misskilningi. Vilji fólk frysta íslenskuna eins og hún var um miðja 20. öld eða fyrr er svo sem hægt að ergja sig á þessu, en þetta eru engin málspjöll.