Að á

Í gær skrifaði ég um sögnina heyja, en önnur sögn sem hagar sér ekki ósvipað er æja í merkingunni ‚stoppa og hvíla sig á ferðalagi‘. Þátíðin hennar er áði, þannig að þar er ekkert hljóð sameiginlegt nútíð og þátíð. Ég þekki ekki dæmi um að nútíðin hafi áhrif á þátíðina, sem þá félli saman við þátíð sagnarinnar æja í merkingunni ‚segja æ, kveinka sér, stynja, hljóða, veina‘. Hins vegar eru fjölmörg dæmi um að þátíðin hafi áhrif á nafnháttinn þannig að hann verði á. Í Tímanum 1951 segir: „Við verðum að á hér, sagði hann.“ Í Sunnudagsblaði Tímans 1971 segir: „Við urðum að á nokkru sinnum á leiðinni.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „við urðum að á oftar en áður á ferðum okkar um sanda og strendur og borgir Suður-Kaliforníu.“

Áhrifin ná einnig til nútíðarmynda eins og Gísla Jónsson grunaði: „Reyndar er mér ekki grunlaust um að einhver segi: ég ái í nútíð framsöguháttar, þá sjaldan þessi sögn er enn notuð.“ Í Þjóðviljanum 1959 segir: „Það verð ég og að játa, að öllu minna þykir mér til koma borgarinnar við sundið eftir því sem ég ái þar oftar.“ Í Eyjablaðinu 1950 segir: „þú áir og heilsar nú íslenzkri vör.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1968 segir: „Hann áir á vínveitingastað eftir vinnuna og kemur of seint í matinn.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Við áum tvívegis á leiðinni.“ Í Heimskringlu 1948 segir: „Þegar þið áið á kvöldin, þá skuluð þið setja vagnstöngina, svo að hún bendi á pólstjörnuna.“

Jón Aðalsteinn Jónsson lagði áherslu á að það ætti að segja „þú æir, hann æir hestunum (alls ekki áir)“, og bætti við: „Hitt þekkist í talmáli, þótt ekki sé rétt, að segja: ég ætla að á hestunum við ána, við ætlum að á þeim við ána o.s.frv. Þannig hliðra menn sér hjá hinni réttu beygingu so. að æja […].“ En myndin á er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og skýrð sérstaklega þótt einnig sé vísað á æja. Í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1982 er hún merkt með spurningarmerki sem táknar „vont mál“ og í þriðju útgáfu merkt með !? sem táknar að hún njóti ekki fullrar viðurkenningar – ekki skýrð sérstaklega en vísað á æja. Nafnháttarmyndin á er hins vegar ekki gefin í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Nafnháttar- og nútíðarmyndir með á- eiga sér langa hefð – „áir hjer hestum bæði í engjum og úthögum“ segir t.d. í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá því snemma á 18. öld. Í ljósi hefðarinnar og þess að hér er um að ræða eðlilega og skiljanlega áhrifsmyndun sem á sér viðurkenndar hliðstæður í málinu finnst mér engin ástæða til annars en viðurkenna á sem fullgildan nafnhátt sagnarinnar og myndir með á- sem fullgildar nútíðarmyndir.

Að há einvígi

Í gær sá ég fyrirsögnina „Sunak og Truss há einvígi um leiðtogasætið“ á vef RÚV, en þegar ég fór aftur inn á vefinn skömmu síðar var búið að breyta henni í „Sunak og Truss heyja einvígi um leiðtogasætið“, í samræmi við viðurkennda beygingu sagnarinnar sem um er að ræða. En sögnin heyja hefur mjög óvenjulega beygingu. Í eintölu nútíðar er hún í fyrstu persónu ýmist (ég) hey eða heyi, í annarri persónu (þú) heyrð eða heyir, og í þriðju persónu (hún/hann/hán) heyr eða heyir. Mesta óreglan kemur þó fram í þátíðinni sem er (ég) háði. Í raun er því ekkert sameiginlegt með nútíðarmyndum sagnarinnar og þátíðarmyndunum nema upphafshljóðið, h. Því er engin furða að beyging sagnarinnar hafi tilhneigingu til að breytast.

Stöku dæmi eru um að nútíðarmyndirnar hafi áhrif á þátíð sem fær þá myndir með hey-. Í Lögbergi 1913 segir: „heyði hann nú þunga baráttu við sjúkleik sinn.“ Í Morgunblaðinu 1940 segir: „Hugh Dalton, viðskiftastríðsmálaráðherra Breta, sagði í ræðu, sem hann flutti í gær, að hann heyði þögla styrjöld við Hitler.“ Í Morgunblaðinu 1971 segir: „heyði hún áratuga langa og oft tvísýna baráttu við þann sjúkdóm.“ Í Stéttabaráttunni 1978 segir: „væri sú barátta sem þessir heyðu fyrir frelsi þjóða sinna, hlutlægt séð byltingarbarátta.“ Í DV 1991 segir: „Stundum gleymist það í umræðunni um Evrópubandalagið að það var upprunalega stofnað til þess að Þjóðverjar og Frakkar heyðu ekki framar stríð.“ En þetta er sjaldgæft.

Hitt er miklu algengara að þátíðin hafi áhrif á nafnháttinn og nútíðina. Elsta dæmið er úr nýárskvæði eftir Matthías Jochumsson í Þjóðólfi 1878: „Heilaga ljós, sem háir stríð / við heljar-vetur um ár og síð!“ Í Norðlingi frá sama ári er elsta dæmi um há einvígi: „Illmenni! þorir þú að há einvígi við mig?“ Í Freyju 1929 segir: „Þú kemur með mér hér fram á ganginn, og við háum einvígi.“ Í DV 2008 segir: „Þú telur að það sé einhver sem hái baráttu um athygli elskhuga þíns.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Stefnan er að há stríð við veiru.“ Alls má finna tæp 130 dæmi um nútíðarmyndir með há- á undan orðunum einvígi, baráttu og stríð á tímarit.is, þar af langflest um há einvígi.

Jón Aðalsteinn Jónsson hafnaði nafnhættinum í þætti sínum í Morgunblaðinu bæði 1998 og 2000 en Gísli Jónsson fjallaði um hann í þætti sínum í Morgunblaðinu árið 1985 og sagði: „Mönnum þykir munur kennimyndanna of mikill og búa til nafnháttinn að í samræmi við háði, háð, en vafasöm verður sú sagnmynd að teljast. Mér þykir ekki rismikið málið, þegar sagt er að há stríð […].“ Árið 1995 var hann farinn að linast í andstöðunni við og sagði: „þetta er náttúrlega svona humm-humm, en hefur viðgengist síðan á 17. öld að minnsta kosti. […] Umsjónarmanni finnst sýnu fallegra að heyja en (=framkvæma, gera), en lætur hitt með semingi kyrrt liggja. Væri og fljótlegt að reka hann á stampinn, með þreyja og þrá.“

Myndin er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 en ekki skýrð sérstaklega heldur vísað á heyja. Í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983 er einnig flettiorð án athugasemda og skýrt sérstaklega, þótt einnig sé vísað á heyja. Í þriðju útgáfu frá 2002 er orðið aftur á móti merkt !? sem táknar að það njóti ekki fullrar viðurkenningar. Orðið er ekki flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók. En eins og fram kemur í tilvitnun í Gísla Jónsson hér á undan á þessi myndun nafnháttar af þátíðinni sér hugsanlega hliðstæðu í þrá, sem er vitanlega fullkomlega viðurkennd sögn – í Íslenskri orðsifjabók segir að hún „gæti verið að nokkru nýmyndun eftir þt.-myndinni þráði af þreyja“ – sem nú hefur þátíðina þreyði.

Það er ljóst að nafnhátturinn á sér margra alda hefð í málinu og á sennilega hliðstæðu sem er fullkomlega viðurkennd, enda er hann mjög eðlileg og skiljanleg áhrifsmyndun. Hann hefur verið gefinn athugasemdalaust í orðabók og málvöndunarmaðurinn Gísli Jónsson afneitaði honum ekki. Í ljósi alls þessa finnst mér engin ástæða til annars en taka hann í sátt. Það var óþarfi hjá RÚV að breyta fyrirsögninni sem nefnd var í upphafi.

Orðanotkun sýnir afstöðu og mótar skoðanir

Í útvarpsfréttunum áðan heyrði ég gott dæmi um það hvernig afstaða er tekin með orðanotkun. Sagt var frá ótta Evrópuríkja um að Rússar hygðust draga úr gassölu til Evrópu í hefndarskyni fyrir refsiaðgerðir sem þeir eru beittir vegna stríðsins í Úkraínu. Í báðum tilvikum er auðvitað verið að refsa hinum aðilanum – eða hefna sín á honum – fyrir aðgerðir hans. En sögnin refsa vekur þau hughrif að um sé að ræða réttmæta aðgerð, makleg málagjöld – hefna aftur á móti að á bak við búi hefndarhugur sem ekki eigi endilega rétt á sér. Það er ljóst að hefna er margfalt neikvæðara orð en refsa.

Vissulega má halda því fram að þetta sé ekki sambærilegt vegna þess að Rússar hafi brotið alþjóðalög með innrásinni og því eðlilegt að tala um viðbrögð við henni sem refsingu. En þessi viðbrögð voru einhliða ákvörðun viðkomandi ríkja, ekki ákveðin með einhverjum dómi. Þar að auki hefur lengi tíðkast að tala um refsiaðgerðir þegar reynt er að þvinga eitthvert ríki til að breyta háttum sínum, óháð því hvort það sem um er að ræða er brot á alþjóðalögum eða ekki. Nærtækt er að minna á refsiaðgerðir gegn Suður-Afríku á seinni hluta síðustu aldar vegna kynþáttaaðskilnaðar, og refsiaðgerðir gegn Íran á síðustu árum vegna auðgunar úrans.

Nú er fjarri mér að vilja bera í bætifláka fyrir Rússa og hina óréttlætanlegu innrás í Úkraínu, en ég fæ ekki betur séð en aðgerðir Rússa gagnvart Evrópuríkjum séu af nákvæmlega sama toga og aðgerðir Evrópuríkja gagnvart þeim. Við kjósum hins vegar að nota miklu neikvæðara orð um aðgerðir Rússa en um aðgerðir Evrópuríkja. Við það er í sjálfu sér ekkert að athuga – þetta endurspeglar væntanlega afstöðu flestra Íslendinga. En það er mikilvægt að skoða málnotkun í fréttum á gagnrýninn hátt til að sjá hvernig hægt er að móta skoðanir okkar með tilbrigðum í orðanotkun án þess að við gerum okkur grein fyrir því.

Að ávarpa vandamálið

Sögnin ávarpa er gömul í málinu, a.m.k. frá 17. öld, í tveimur náskyldum merkingum eins og fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók. Annars vegar merkir hún 'segja e-ð (við e-n), tala til (e-s)' en hins vegar 'halda stutta ræðu, flytja ávarp (yfir e-m)'. Á seinustu árum hefur þriðja merkingin svo bæst við, sú sem fram kemur í setningum eins og „Á þessum dögum finnst mér að staðan sé einfaldlega allt, allt önnur heldur en hún var áður en ég byrjaði að ávarpa vanda flokksins“ á Eyjunni 2013, „Femínískar hreyfingar sem vilja standa undir nafni verða að ávarpa málefni ólíkra hópa kvenna og setja þau á dagskrá“ í Vísi 2014 og „Við erum fyrst og síðast að ávarpa nýjar leiðir“ í ræðu á Alþingi sama ár.

Þarna er nokkuð augljóst að sögnin er notuð í einni þeirra merkinga sem address hefur í ensku, „to give attention to or deal with a matter or problem“ eða „beina athygli að viðfangsefni eða vandamáli eða glíma við það“. Önnur skýring er „If you address a problem or task or if you address yourself to it, you try to understand it or deal with it“, þ.e., „reynir að skilja það eða glíma við það.“ Þessi notkun sagnarinnar virðist reyndar ekki vera mjög gömul í ensku. Hún er ekki nefnd í minni gömlu menntaskólabiblíu, Oxford Advanced Learner's Dictionary of Current English frá 1963 (né í útgáfunni frá 1974), og í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi frá 1984 er aðeins nefnt „address oneself to a task“ sem skýrt er 'snúa sér að, taka til við'.

En aðalmerkingar sagnarinnar address í ensku eru þær sömu og ávarpa í íslensku og það hefur leitt til þess að þessi – að því er virðist nýlegi – merkingarauki ensku sagnarinnar er farinn að hafa áhrif á þá íslensku. Þessi þróun virðist hafa hafist fyrir u.þ.b. tíu árum – elstu dæmin sem ég hef rekist á eru þau þrjú sem nefnd eru í upphafi, frá 2013 og 2014. En notkun sagnarinnar í þessari merkingu hefur farið sívaxandi og er nú áberandi, ekki síst í tali stjórnmálafólks. Í Risamálheildinni eru fimm dæmi um þessa notkun sagnarinnar ávarpa í ræðum á Alþingi frá 2019, þar á meðal „ekki gafst tími til að ávarpa það sérstaklega í áætluninni“ og „Við verðum að ávarpa það“.

En að auki eru þrjú forvitnileg dæmi þar sem Risamálheildinni og texta ræðnanna á vef Alþingis ber ekki saman. Þetta eru „Þetta ávarpar með einhverjum hætti þær spurningar sem hv. þingmaður bar hér fram“ í Risamálheildinni sem verður „Þetta kemur með einhverjum hætti inn á þær spurningar sem hv. þingmaður bar hér fram“ á vef Alþingis; „Friðlýsingar eru ávarpaðar sérstaklega í ríkisstjórnarsáttmálanum“ sem verður „Friðlýsingar eru skoðaðar sérstaklega í ríkisstjórnarsáttmálanum“ og „við töldum rétt að ávarpa framtíðarsýnina með ákveðnum hætti í stjórnarsáttmálanum“ sem verður „við töldum rétt að nálgast framtíðarsýnina með ákveðnum hætti í stjórnarsáttmálanum“.

Skýringin á þessu ósamræmi er sú að Risamálheildin byggist á upphaflegri gerð ræðnanna, því sem raunverulega var sagt, en textinn á vef Alþingis er yfirlesinn og oft breyttur. Í þessum tilvikum hefur einhverjum, annaðhvort yfirlesurum Alþingis eða þingmönnunum sjálfum, greinilega ekki fundist við hæfi að nota ávarpa í þessari merkingu við nánari íhugun og því breytt textanum og sett önnur orð í staðinn. Þarna er ávarpa skipt út fyrir þrjár mismunandi sagnir: koma inn á, skoða og nálgast. Í Hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins er svo fjórða þýðinginfjalla um. Þessi fjölbreytni skýrir í sjálfu sé að ávarpa skuli fá viðbótarmerkingu að láni úr ensku – það er engin íslensk sögn til sem nær yfir viðkomandi merkingu ensku sagnarinnar.

Hvað á þá að gera – hvernig eigum við að orða þessa merkingu á íslensku? Það er auðvitað hægt að segja að við þurfum ekkert á sérstakri sögn að halda til þess – við höfum komist af án þess í þúsund ár þótt við höfum allan tímann reynt að greina vandamál og viðfangsefni, ræða þau, skilja þau, ráðast til atlögu við þau, glíma við þau, taka þau til umræðu o.s.frv. Það er líka hægt að benda á að það er misskilningur að þótt enska hafi ákveðið orð yfir eitthvert hugtak þurfi íslenska endilega að hafa orð sem samsvarar því nákvæmlega. Það sé enginn vandi að orða þessa hugsun á fjölbreyttan hátt, mismunandi eftir aðstæðum. Það er mikið til í þessu, en þrátt fyrir þann fjölda orða og orðasambanda sem tiltæk eru sýnist mér ekkert þeirra ná viðkomandi merkingu alveg.

Ég er ekki hrifinn af því að nota sögnina ávarpa á þennan hátt, og geri það ekki sjálfur þótt ég geti ekki fullyrt að ég muni aldrei gera það í framtíðinni. Ég mæli með því að við leitumst við að orða viðkomandi merkingu á annan hátt. En mér finnst samt ekki trúlegt að þessari þróun verði snúið við, og það er vitanlega algengt að merking orða breytist eða þau bæti við sig merkingu fyrir erlend áhrif. Þetta er enginn heimsendir.

Á fæti

Í Fréttablaðinu í dag er frétt með fyrirsögninni „Keyrði ölvaður aftan á strætó og stakk af á fæti“, og í texta fréttarinnar segir „Einstaklingurinn yfirgaf vettvang á fæti“. Þetta er sjaldgæft orðalag – oftast væri sagt gangandi, fótgangandi, hlaupandi, á hlaupum eða eitthvað slíkt. En þetta er fjarri því að vera nýtt. Í Tómas sögu erkibiskups frá því um 1400 segir: „Gengur hann af skipi með öllum skunda og sækir á fæti fund erkibiskups“ og í Flateyjarbók frá svipuðum tíma segir: "Vér munum fara fæti norður á Strandir.“ Þetta er líka notað á síðari öldum – í Skírni 1849 segir: „Nokkrir uppreisnarmanna fóru á fæti og höfðu eflt nokkurn flokk.“

Nýlegri dæmi má einnig nefna. Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „En hvernig myndi því þá lítast á það að fara á fæti upp á sjötugustu hæð?“ Í Sjómannablaðinu Víkingi 1948 segir: „Hann óskaði sér þess að geta varið nokkrum dögum til þess að fara á fæti og bátum meðal eyjanna og um þær.“ Í Kirkjuritinu 1963 segir: „Hann fór á fæti, gekk fyrir og valdi veginn.“ Í Tímanum 1980 segir: „vorkunnarlaust að bregða sér bæjarleið fótgangandi, ef svo vildi verkast, þótt fólk verði að hafa tímann fyrir sér, þegar langar leiðir á að fara á fæti.“ Í Víkurfréttum 2008 segir: „Klessti á og flúði á fæti.“ Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Því að okkar gamli veruleiki var eins og verið hafði um aldir, menn fóru á fæti eða ríðandi eða á sjó.“

Orðalagið í Fréttablaðinu er sem sé gömul, góð og gild – en vissulega sjaldséð – íslenska, og ástæða til að hrósa blaðinu fyrir að nota það, hvort sem það er komið frá blaðamanni eða úr dagbók lögreglunnar sem fréttin byggist á. En þá ber svo við að fólk hefur allt á hornum sér. Ég var að lesa langan þráð þar sem fólk óskapast yfir þessu orðalagi – ýmist vegna þess að þarna er notuð eintalan fæti (Var maðurinn einfættur? Hoppaði hann á öðrum fæti? Á hvorum fætinum? Tók hann fót af einhverjum?) eða vegna þess að þarna sé „hrein enskusletta“, on foot, sem verði „þessi hroðbjóður, „á fæti““. Þetta étur hver upp eftir öðrum og skiptir engu þótt bent sé á að hér sé um gamalgróið orðalag að ræða.

Það er auðvitað ekkert einsdæmi að nota eintölu orðsins fótur í ýmsum samböndum þótt í raun sé vísað til beggja fóta. Fyrir utan það að fara á fæti er talað um að vera fimur / fljótur / frár / kvikur / léttur / lipur / röskur / snar á fæti. Einnig er til sambandið eiga einhvern á fæti, sagt er að gangan sé á fótinn, og ýmislegt fleira. En það er merkilegt hvað fólk er fljótt að álykta að eitthvað sé enskusletta – og fordæma það þess vegna – bara ef það á sér hliðstæðu í ensku. Það má ekki gleyma því að íslenska og enska eru skyld mál, bæði germönsk, og eiga margt sameiginlegt án þess að annað hafi þegið frá hinu. Eins og áður segir er það mjög gamalt orðalag að nota á fæti í merkingunni 'fótgangandi' og alls ekki komið úr ensku.

Ég legg áherslu á að ég er ekki að gagnrýna að fólk skyldi ekki þekkja þetta samband. Það er ekki algengt og ekki við því að búast að það sé öllum kunnugt. Það sem ég er að gagnrýna var hins vegar sá hroki og sjálfhverfni sem felst í viðhorfi margra: „Ég þekki þetta ekki, og þess vegna hlýtur það að vera rangt.“ Þetta eru viðbrögð margra – í stað þess að leita sér upplýsinga, fletta upp í orðabókum, gúgla, spyrjast fyrir. Upphafsmaður umrædds þráðar gerði það reyndar – setti inn hlekk á fréttina með textanum „Fæti?“. En viðbrögðin voru að verulegu leyti útúrsnúningur og sleggjudómar.

En viti menn – meðan ég var að skrifa þennan pistil var fréttinni breytt. Nú er fyrirsögnin „Keyrði ölvaður aftan á strætó og stakk af á hlaupum“, og í texta fréttarinnar segir „Einstaklingurinn yfirgaf vettvang á hlaupum“. Þarna hafa málvendirnir haft sitt fram – tekist að losna við gott og gilt og svipmikið íslenskt orðalag og fengið í staðinn hversdagslega flatneskju. Er það íslenskunni til framdráttar?

Gaslýsing

Í Facebook-hópnum Málspjalli var í vor spurst fyrir um merkingu orðsins gaslýsing sem sést æ oftar, og af því spannst langur þráður. Nú hefur Guðrún Kvaran svarað spurningu um orðið á Vísindavefnum. Ég hef ekkert við það svar að athuga en langar samt til að bæta aðeins við nokkrum vangaveltum um orðið og notkun þess. Guðrún vitnar í grein í Kjarnanum frá 2017 þar sem segir: „Tæknin sem beitt er kall­ast á ensku „gaslight­ing“, eða gas­lýs­ing, og er þekkt póli­tískt bragð. Í henni felst að neita stans­laust allri sök, afvega­leiða, setja fram mót­sagn­ir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll auka­at­riði og hanna nýja atburða­rás eftir á sem hentar mál­stað þess sem er að verja sig.“ Hægt er að finna ýmsar aðrar skilgreiningar á hugtakinu sem víkja eitthvað frá þessari en í meginatriðum held ég samt að notendur þess séu sammála um merkinguna.

En það er ekki hún sem ég ætla að ræða, heldur notkun orðsins í íslensku. Eins og fram kemur í Kjarnanum og á Vísindavefnum er um að ræða tökuþýðingu enska orðsins gaslighting. Uppruna þess er að leita í leikritinu Gaslight frá 1938 og samnefndri kvikmynd frá 1944. Þar er sagt frá „hjónum sem eru hástéttarfólk. Hún tiplar á tánum kringum hann. Hann er ljúfur, síðan kaldlyndur. Hann daðrar við konur en þegar Bella finnur að því er henni sagt að hún „oftúlki allt“. Hann felur eigur hennar svo hún efast um geðheilsu sína. Á kvöldin læðist hann upp á efstu hæð hússins og hækkar í gasljósunum og þá dofna ljósin á neðri hæðinni. Af því er titillinn dreginn.“ Uppruninn er sem sé ljós en ég hef séð notkun orðsins gaslýsing í þessari merkingu í íslensku gagnrýnda á tvennum forsendum.

Annars vegar er sagt að orðið sé ógagnsætt – ekki hægt að ætlast til þess að Íslendingar þekki 80 ára gamla bandaríska kvikmynd. Það er hárrétt, en sama gildir væntanlega um meginhluta fólks sem á ensku að móðurmáli. Við þurfum einfaldlega að læra merkingu líkinga af þessu tagi. Orðið smjörklípa er t.d. iðulega notað um það þegar eitthvað er (réttilega eða ranglega) borið upp á andstæðing sem þarf þá að verja tíma og orku í að bera af sér sakir, þannig að athyglin beinist að honum en ekki að þeim sem bar ásökunina fram. Þetta er rakið til lýsingar Davíðs Oddssonar í sjónvarpsviðtali árið 2006 á því hvernig hann komst upp með ýmislegt umdeilanlegt. Nú er orðið smjörklípa mjög oft notað í þessari merkingu og hefur unnið sér hefð þannig að fólk þarf ekki að þekkja hina upphaflegu sögu Davíðs til að skilja það.

Önnur röksemd gegn notkun orðsins gaslýsing í íslensku er sú að það sé tekið hrátt úr ensku og hafi engin tengsl við íslenskan veruleika þar sem gasljós séu ekki notuð á Íslandi. Ég þykist reyndar vita að gasljós séu minna notuð víðast erlendis en fyrir 80 árum, en það er aukaatriði. Það sem máli skiptir er að við notum í daglegu tali fjölda orða, orðasambanda og málshátta sem eru komin úr öðrum tungumálum og eiga strangt tekið ekki við íslenskar aðstæður. Gott dæmi um það er missa af lestinni sem hefur verið notað í yfirfærðri merkingu í a.m.k. 80 ár þótt hér hafi aldrei verið lestir. Við notum líka máltækið sjaldan fellur eplið langt frá eikinni þótt hér hafi ekki vaxið eplatré (eik var áður notað um hvers kyns stór tré). Ótal fleiri dæmi af svipuðu tagi mætti nefna.

Helstu rökin sem hafa verið færð fram gegn orðinu gaslýsing falla því um sjálf sig því að þau eiga líka við um fjölmörg orð og orðasambönd sem löng hefð er fyrir í málinu og aldrei er amast við. Við notum ýmsar líkingar án þess að þekkja uppruna þeirra af því að við höfum lært merkinguna, og eins notum við fjölda orða og orðasambanda sem eru komin úr erlendum málum og skírskota strangt tekið ekki til íslenskra aðstæðna. Ég get samt alveg tekið undir það að gaman hefði verið að eiga eitthvert gagnsætt orð yfir þá merkingu sem hér um ræðir. En gaslýsing hefur verið notað í málinu í a.m.k. fimm ár, notkun þess hefur aukist verulega að undanförnu, og sífellt fleiri þekkja það og merkingu þess. Ég sé ekki hvað væri unnið með því að hrekja það úr málinu og búa til eitthvert nýtt orð sem þyrfti þá að kynna frá grunni.

Smætta

Sögnin smætta kemur fyrir í fornu máli, reyndar aðeins í Konungsskuggsjá sem er norsk, og aðeins í miðmyndinni smættast. Í Íslenskri orðsifjabók er gert ráð fyrir því að hún sé mynduð (með i-hljóðvarpi) af hvorugkyni lýsingarorðsins smár, þ.e. smátt. Sögnin virðist lengstum hafa verið mjög sjaldgæf – engin gömul dæmi eru um hana í Ritmálssafni Árnastofnunar og hún kemur ekki fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Elsta dæmi um hana á tímarit.is er í grein Sigurðar Nordals um Völuspá í Iðunni 1924 þar sem segir: „Það myndi gera kvæðið ljósara og nálægara, án þess að smætta það.“ Trúlegt er að Sigurður hafi þekkt þekkt fornmálsdæmin.

En næst kemur sögnin ekki fyrir fyrr en hálfri öld síðar, í Stúdentablaðinu 1973 þar sem segir: „Vissulega hefur ávallt verið stéttarsvipur yfir ráðandi gildum, en jafnframt hefur ávallt verið viss kjarni í þessum gildum, sem ekki er hægt að smætta niður í stéttarhagsmuni.“ Það er vel hugsanlegt, þótt ómögulegt sé að fullyrða nokkuð um það, að þarna sé í raun og veru um nýmyndun að ræða, frekar en höfundur textans sé að nota orð sem hann þekkti. Til þess bendir líka sú nýjung að sögnin er þarna notuð með fylgilið, smætta niður í, eins og oftast hefur verið gert á undanförnum áratugum.

Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Hún gæti þó tæplega fullyrt að hægt sé að „smætta“ það niður í frumeiningar sínar, hún lítur á það í heild sinni.“ Þarna er smætta höfð innan gæsalappa sem sýnir að hún hefur þótt framandi á þessum tíma. En notkun orðsins fór að vaxa seint á níunda áratugnum og sú þróun hélt áfram á þeim tíunda, og upp úr aldamótum varð sprenging í notkuninni svo að nánast er hægt að kalla smætta tískuorð. Þannig eru 12 dæmi um orðið á tímarit.is frá 1980-1989, en 217 frá 2000-2009. Ljóst er að orðið er hálfgildings íðorð í hug- og félagsvísindum – stór hluti dæma um það er úr fræðilegum tímaritum í bókmenntafræði og heimspeki.

Merking orðsins í fornu máli er 'minnka, draga úr' en í áðurnefndu dæmi úr grein Sigurðar Nordals er merkingin eiginlega 'gera léttvægara, draga úr gildi'. Stundum getur sögnin merkt 'einfalda', og það gæti í og með átt við í áðurnefndum dæmum úr Stúdentablaðinu 1973 og Morgunblaðinu 1986. En eftir að notkun orðsins fór að aukast hefur merkingin 'gera lítið úr, niðurlægja' orðið meira áberandi og er nú líklega aðalmerkingin. Málsgrein í Veru 1993 sýnir vel dæmigerða notkun orðsins á seinustu árum: „Konur eru smættaðar niður í kynfæri sín og völd þeirra færð úr samfélaginu og inn í svefnherbergið.“

Þetta endurspeglast í skýringum orðabóka. Í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'gera smærra en skyldi, minnka, draga úr' en í Íslenskri nútímamálsorðabók er eingöngu gefin merkingin 'gera lítið úr einhverju (einhverjum)'. Það væri hins vegar ástæða til að nefna það í orðabókunum að þótt sögnin hafi áður verið notuð án fylgiliðar, eins og í áðurnefndu dæmi frá Sigurði Nordal, er hún nú sjaldnast notuð án þess að getið sé um útkomu þess ferlis sem hún lýsir – hún er langoftast notuð í sambandinu smætta niður í. Þetta er mikilvægt vegna þess að útkoman er lykilatriði í því hvað smættunin er niðurlægjandi.

Nafnorðið smættun er sem sé til líka – elsta dæmi um það er úr Íslensku máli 1986. Það hefur oft þá merkingu sem búast má við út frá smætta. Orðið smættun er þó líka notað í merkingunni 'reductio', „þegar hugtak eða kenning er skýrð eða skilgreind með öðru hugtaki eða kenningu sem er talin liggja henni til grundvallar“ eins og segir á Vísindavefnum. En smætta er gott dæmi um stutt og lipurt orð sem er gamalt í málinu en var lítið notað og hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk. Slík endurnýting getur oft gefist vel.

Íðorð og önnur orð

Orðið hönd er í Íslenskri nútímamálsorðabók skýrt ‘líkamshlutinn í framhaldi af handlegg, framan við úlnlið‘ en handleggur er ‚annar tveggja útlima manns (apa o.fl.) út frá öxl að úlnlið eða hönd‘. Þetta er skýr munur, en við vitum þó vel að í daglegu tali er annað orðið iðulega notað í stað beggja. Við tölum um að rétta upp hönd þótt það sé ekki hægt án þess að handleggurinn fylgi með, og við tölum um að missa handlegginn þótt höndin fylgi þar óhjákvæmilega. Í fréttum af Guðmundi Felix Grétarssyni er ýmist talað um að hendur eða handleggir hafi verið grædd á hann þótt um hvort tveggja sé að ræða.

Það má vissulega halda því fram að þarna sé um ónákvæma orðanotkun að ræða, en það kemur ekki að sök – samhengið, og þekking okkar á mannslíkamanum, dugir til þess að við skiljum þetta eins og til var ætlast. Við ákveðnar aðstæður skiptir þó máli að hafa eitt orð sem vísar sameiginlega til handar og handleggs og hefur alveg skýra og ótvíræða merkingu. Þetta á einkum við í læknisfræðilegu samhengi, og í Íðorðasafni lækna í Íðorðabankanum eru gefin tvö íðorð, samheiti, sem þjóna þessum tilgangi – axlarlimur og orðasambandið efri útlimur.

Um íðorð gilda að ýmsu leyti aðrar reglur en um orð í almennu máli. Það er t.d. algert aukaatriði hvort íðorð eru falleg (hvernig sem á að meta það) þótt fegurð spilli vitanlega aldrei. Það er ekki heldur aðalatriði að íðorð séu stutt eða lipur þótt það sé vissulega til bóta. Það er æskilegt að íðorð séu gagnsæ en ekki nauðsynlegt. En íðorð þurfa að vera mynduð samkvæmt almennum orðmyndunarreglum málsins, þau þurfa að hafa skýra og ótvíræða merkingu, og ef þau eru hluti af ákveðnu kerfi þurfa þau að vera mynduð á sama hátt og önnur sambærileg orð innan kerfisins (sbr. t.d. að orð sem tákna lagarmál enda öll á lítri).

Ég nefndi hér áður orðið axlarlimur sem ég geri varla ráð fyrir að þið þekkið enda er það ekki í neinum almennum orðabókum. Íðorð eru nefnilega bundin við ákveðið samhengi og oft lítið sem ekkert notuð í almennu máli, og þar af leiðandi lítið þekkt meðal almennings. En þetta er ekki eina orðið sem stungið hefur verið upp á í þessari merkingu. Um tíma var orðið griplimur notað í læknisfræðilegu samhengi, og á tímarit.is má finna allnokkur dæmi um það frá síðustu 40 árum, langflest úr Læknablaðinu. Þetta er gagnsætt orð og gott sem slíkt, en það komst á flakk og þótti fáránlegt og það var óspart gert gys að því.

Þetta kemur glöggt fram í grein sem Jóhann Heiðar Jóhannsson, formaður orðanefndar Læknafélagsins, skrifaði í Læknablaðið 1997: „Undirritaður hefur einungis óljósa minningu um það hvenær hann komst fyrst í kynni við heitið griplimur, en andúðin sem það vakti er enn nánast áþreifanleg. Apar og óæðri dýr máttu svo sem hanga á griplimum sínum í trjánum, en menn réttu ekki hver öðrum griplimina! Þó er heitið sem slíkt ágætt sem kerfisheiti til að nota um útlim (L: extremitas) sem getur gripið, á sama hátt og heitið ganglimur lýsir útlim sem nota má til gangs.“

Orðið griplimur er ekki lengur í Íðorðasafni lækna þótt læknar noti það eitthvað enn ef marka má greinar í Læknablaðinu. Þetta var orð sem aldrei var ætlað til notkunar í almennu máli en með því að taka það úr samhengi sínu og gera gys að því var komið slíku óorði á þetta gagnsæja orð að það var ekki lengur nothæft sem íðorð. Þetta er gott dæmi um það hvernig hægt er að eyðileggja orð sem þjóna ágætlega þeim tilgangi sem þeim var ætlaður með því að slíta þau úr samhengi, misskilja og rangtúlka.

Leghafar og aðrir -hafar

Undanfarna daga hef ég séð á nokkrum stöðum á Facebook ótrúlegar umræður um orðið leghafi. Mörgum finnst þetta ljótt orð og um það er vitanlega þýðingarlaust að ræða, að öðru leyti en því að minna á að það tekur yfirleitt alltaf nokkurn tíma að venjast nýjum orðum. En þetta orð er a.m.k. rétt myndað og gagnsætt – -hafi merkir yfirleitt 'sem hefur eitthvað' og leghafi vísar því til fólks sem hefur leg. Annað orð sem stundum er notað er legberi og um það gildir allt hið sama og um leghafi.

misskilningur er áberandi í umræðunni að orðið leghafi sé samheiti við kona og eigi jafnvel að leysa það orð af hólmi vegna einhvers pólitísks rétttrúnaðar. En það er fjarri sanni. Það eru ekki allar konur með leg. Sumar hafa undirgengist legnám og aðrar eru fæddar án legs, þ. á m. transkonur. Hins vegar er til fólk sem skilgreinir sig ekki sem konur en er samt með leg. Það getur verið kynsegin fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karl né konu, og einnig transkarlar sem ekki hafa farið í legnám.

Því er ljóst að leghafar geta verið kvenkyns, karlkyns og hvorugt, þ.e. skilgreint sig utan kynjatvíhyggju. Af þeirri ástæðu er fráleitt að halda því fram að þessu orði sé ætlað að koma, eða geti komið, í stað orðsins kona. Orðið leghafi er í raun íðorð, einkum ætlað til nota í læknisfræðilegu samhengi en ekki í almennu máli. Orðið var t.d. notað í vetur í tengslum við frumvarp heilbrigðisráðherra um skimunarskrá. Þar er m.a. fjallað um skimanir fyrir leghálskrabbameini. Það segir sig sjálft að slík skimun tekur til fólks með leg, óháð kyni.

Þetta er því gagnlegt orð, en einungis í ákveðnu og þröngu samhengi og yfirleitt um hóp, tæpast um einstaklinga. En af einhverjum ástæðum virðist sumt fólk ekki skilja þetta, eða ekki vilja skilja. Þess í stað verða til langir þræðir af hneykslun þar sem fólk talar um hvað þetta sé óþarft og fáránlegt orð, og margar konur segja að þær vilji alls ekki nota það – eða láta nota það um sig. Vitanlega ræður fólk sjálft hvaða orð það notar en hæpið er að fólk geti hafnað því að um það séu notuð tiltekin íðorð sem ekki eru annað en skilgreining.

Í umræðunni hefur líka verið spurt hvers vegna ekki séu notuð sambærileg orð um karlmenn – ég hef séð orð eins og punghafi, eistnahafi, tittlingshafi, blöðruhálskirtilshafi og fleiri. Við því er það að segja að væntanlega hefur ekki verið þörf á þessum orðum hingað til, en auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að nota þau ef þörf krefur. Þau eiga það sameiginlegt með leghafi að þau geta vísað til fólks af fleiri en einu kyni. Ef teknar væru upp skimanir fyrir eistnakrabbameini eða krabbameini í blöðruhálskirtli væru viðkomandi orð gagnleg.

Orðin leghafi og legberi hafa verið notuð greinum þar sem ráðist er á transfólk eða hæðst að því, og merking þeirra og notkun þar skrumskæld. Ég ætla ekki þeim sem amast við þessum orðum að vilja taka undir þá afstöðu sem fram kemur í þessum greinum, en með því að fordæma orðin er fólk samt að leggja lóð á vogarskálar þeirrar transfóbíu sem því miður virðist fara vaxandi. Gefum þessum orðum þegnrétt í málinu – þau hvorki spilla íslenskunni né smætta konur eins og stundum er haldið fram.

Sveigjanlegar kröfur um íslenskukunnáttu

Gúrkutíðin er í hámarki um þessar mundir og kannski skýrir það að hluta þá athygli sem skoðanaskipti okkar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur hafa fengið í vefmiðlum. Eins og viðbúið var hefur sú athygli einkum beinst að ágreiningi okkar um það hvort starfsauglýsing háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins samræmist lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011. Ég taldi og tel svo ekki vera, og því miður hefur ráðherra kosið að svara rökum mínum ekki málefnalega en tala þess í stað um „dæmigert kerfissvar“ – þótt mér sé ekki ljóst fyrir hvaða kerfi ég ætti að vera fulltrúi. Ekki fyrir hefðbundna íslenska málvöndunarstefnu, svo mikið er víst.

En vegna þessarar áherslu vefmiðla á ágreining okkar Áslaugar Örnu hefur sú staðreynd fallið í skuggann að við erum í raun algerlega sammála um meginatriði málsins – að það er mikilvægt að auðvelda fólki sem ekki á íslensku að móðurmáli að sinna þeim störfum sem það hefur menntun og hæfileika til, og gera því kleift að taka sem mestan þátt í samfélaginu. Það er mikilvægt bæði fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir íslenskt samfélag að nýta sem best þann mannauð sem við höfum í landinu, óháð uppruna fólks og móðurmáli. Þetta getur þýtt að við þurfum að endurskoða bæði lög og reglur um íslenskukunnáttu, og einnig viðhorf okkar sjálfra til stöðu íslensku og ensku í málsamfélaginu.

Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls eru vissulega ekki nema ellefu ára gömul. En á þeim ellefu árum hefur gífurlega margt breyst og samfélagið orðið mun fjölmenningarlegra. Erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi hefur t.d. fjölgað úr 20.500 árið 2011 í 55 þúsund í ár, eða um 170%, og ekkert bendir til annars en sú þróun haldi áfram og innflytjendur verði sífellt hærra hlutfall af íbúum landsins. Þessi þróun leiðir vissulega til stóraukinnar enskunotkunar í landinu og þrýstings á íslenskuna. En það er hreint ekki sjálfgefið að réttu viðbrögðin við því séu að halda fast í afdráttarlausar kröfur um íslenskukunnáttu á ýmsum sviðum – þvert á móti.

Athugasemdir mínar við áðurnefnda auglýsingu ráðuneytisins voru fyrst og fremst til þess ætlaðar að vekja umræðu um þessi mál. Í stað afdráttarlausra krafna um íslenskukunnáttu þarf að skoða hvert starf og leggja málefnalegt mat á hvort og hvers konar íslenskukunnátta sé nauðsynleg til að sinna starfinu. Þegar samskipti við almenning eru stór hluti starfsins er eðlilegt að gera kröfur um góða íslenskukunnáttu. En í starfi eins og því sem auglýst var, þar sem verksviðið er meðferð og miðlun tölulegra gagna, getur verið nægilegt að gera kröfu um sæmilegan skilning á málinu en ekki um færni í tjáningu. Mér finnst eðlilegt að lögin gefi slíkt svigrúm og sé ekki að það myndi skaða íslenskuna á nokkurn hátt.

Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið, og raunar ólíklegt, að ófrávíkjanlegar kröfur um fullkomna íslensku séu málinu til góðs, þegar til lengri tíma er litið. Þær geta leitt til þess að færri innflytjendur hafi áhuga á að læra íslenskuna og nota hana, en fái í staðinn neikvætt viðhorf til hennar. Þær geta leitt til þess að lægra hlutfall af íbúum landsins noti málið, sem veikir það óhjákvæmilega. Þær geta líka orðið til þess að bægja íslenskunni frá ákveðnum sviðum, t.d. nýrri tækni þar sem íslenskan orðaforða og íslenska umræðuhefð skortir. Þær geta orðið til þess að íslenskan staðni, verði elítumál sem klýfur þjóðina í stað þess að sameina hana. Þess vegna held ég að meiri sveigjanleiki sé skynsamlegur.