„Heldur þann versta en þann næstbesta“

Þið hélduð kannski að það væri búið að afgreiða Oatly-auglýsinguna? Ég held nú síður. Áðan sá ég mynd á Facebook með þeim ummælum „að skárra væri að hafa textann á ensku en að ráða ekki við að snara honum á íslensku skammlaust“, og í umræðum sagðist sá sem setti þetta inn telja „ensku skárri en ambögur“. Þetta virðist vera viðhorf margra, ef marka má þær undirtektir sem þess færsla fékk. Þetta felur í sér þá hugmynd að íslenska sé einhver ósnertanleg helgimynd sem enginn blettur megi falla á. Betra að hafa ensku en þá íslensku er stórum hluta þjóðarinnar eðlileg, þótt hún sé ekki í samræmi við málstaðalinn.

En þetta er stórhættulegt viðhorf og í raun tilræði við íslenskuna. Það er þetta viðhorf sem fælir marga útlendinga frá því að læra íslensku. Þeir verða fyrir því hvað eftir annað að viðmælendur skipta yfir í ensku af því að íslenska þeirra er ekki fullkomin. En það er líka þetta viðhorf sem á stóran þátt í áhugaleysi ungs fólks um viðgang íslenskunnar. Það er sífellt verið að leiðrétta það og segja því að það tali ekki íslensku. Þegar það sér því svo haldið fram að skárra sé að nota ensku en það mál sem því er eiginlegt eigum við á hættu að það taki okkur á orðinu og skipti einfaldlega yfir í ensku. Er þá ekki verr af stað farið en heima setið?

„Heldur þann versta en þann næstbesta“ sagði Snæfríður Íslandssól. Heldur ensku en íslensku venjulegs fólks.

Kallað eftir nýju kennsluefni í íslensku

Í gær skrifaði ég í Facebook-hópinn Málspjall um fækkun nýnema í íslensku við Háskóla Íslands. Þetta vakti nokkra athygli og Morgunblaðið skrifaði um það frétt. Mörg ágæt ummæli voru skrifuð við þessa færslu mína en ein fundust mér sérstaklega áhugaverð:

„Ég starfa sem framhaldsskólakennari á öðru ári og það kom mér á óvart hversu lítill áhugi nemenda er á greininni. Hluti ástæðunnar gæti verið hversu lítið námsefnið hefur breyst að undanförnu. Nemendur í dag alast upp í allt öðru samfélagi og eru vanari mun meiri hraða en ýmsar íslenskar bókmenntir bjóða uppá. Mín upplifun er að þeim finnst menningararfurinn okkar almennt mjög áhugaverður en að mörgu leyti „óaðgengilegur“ fyrir þessa kynslóð. Langir textar og langdregnir, sem eru oft á tungumáli sem þau skilja ekki nægilega vel til að njóta, eru ekki að grípa áhuga þeirra. Ég myndi vilja stórátak í að gera þessa texta aðgengilegri fyrir bæði ungmenni og fólk af erlendum uppruna.“

Ég held að þarna sé komið að kjarna málsins. Nemendur hafa alist upp í allt annars konar þjóðfélagi en við flest í þessum hópi, og annars konar þjóðfélagi en flestir kennarar þeirra. Við áttum okkur ekki endilega á því hvað þetta þýðir. Og jafnvel þótt við áttum okkur á því vitum við ekki endilega hvernig á að bregðast við. Og jafnvel þótt við teljum okkur vita það er óvíst að við höfum eða kunnum á þau tól og tæki, í þessu tilviki kennsluefni og kennsluaðferðir, sem þarf til að bregðast við. Gerbreytt þjóðfélag kallar auðvitað á gerbreytt kennsluefni og gerbreyttar kennsluaðferðir. Ég efast ekkert um að fjöldi kennara átti sig á því, og reyni að koma til móts við nemendur á þeirra forsendum. En það er hægara sagt en gert.

Hér er nefnilega komið að öðru efni sem rætt var um hér fyrr í vikunni – tilfinnanlegum skorti á góðu kennsluefni. Vegna þess að nemendur – eða foreldrar – þurfa að kaupa kennslubækur framhaldsskóla, öfugt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, leita þau eðlilega allra leiða til að lækka bókakostnaðinn. Þótt skiptibókamarkaðir séu hagstæðir fyrir nemendur eru þeir rothögg fyrir bókaútgáfu og draga stórkostlega úr endurnýjun kennsluefnis á íslensku og áhuga útgefenda á útgáfu nýs kennsluefnis. Þess vegna sitjum við uppi með gamalt og úrelt kennsluefni sem nemendur lesa í snjáðum og misvel förnum bókum. Í sumum greinum er gripið til þess ráðs að nota erlendar kennslubækur – en þar er ekki hægt í íslensku.

Til að bæta úr skorti á hentugu kennsluefni eru kennarar oft að útbúa fjölrit með efni sem þau telja að henti nemendum. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, en getur þó reynst tvíbent þegar að er gáð. Hvað varðar allan frágang og útlit standast myndalaus fjölrit auðvitað engan samanburð við myndskreyttar erlendar kennslubækur prentaðar í lit á glanspappír. Fjölritað íslenskukennsluefni á ekki séns í fjölbreytt enskukennsluefni á bók eða margmiðlunarformi. Gamalt eða ósjálegt kennsluefni hefur vitaskuld áhrif á viðhorf nemenda til kennslugreinarinnar. Íslenska er í sauðalitunum – enska er í öllum regnbogans litum. Íslenska er gamaldags – enska er nútímaleg. Íslenska er dauf – enska er fjör.

Eins og segir í ummælunum sem ég vitnaði í hér að framan skortir ekki áhuga nemenda á íslenskum menningararfi og ég er sannfærður um að það er hægt að vekja áhuga þeirra á íslensku máli líka. En okkur vantar hentugt efni til að miðla þessu til þeirra. Það er ekki við því að búast að hinn frjálsi markaður framleiði slíkt efni. Ríkið verður að koma til – standa fyrir og styrkja myndarlega útgáfu hentugs kennsluefnis sem nær til nemenda. Og þetta má ekki verða dæmigert íslenskt „átaksverkefni“ sem lýkur um leið og einhver árangur fer að koma í ljós. Þetta þarf stöðugt að vera í gangi. Það er að segja, ef við viljum halda áfram að tala íslensku. Ef við viljum það ekki skulum við bara segja það.

Stórátak í íslenskukennslu – núna!

Í gær kom fram á Morgunvaktinni á Rás eitt í Ríkisútvarpinu að um fjórðungur fólks á íslenskum vinnumarkaði væri nú af erlendum uppruna, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spáði því að eftir 20-30 ár yrði sú tala komin í 40-50%. Vitanlega mun erlent vinnuafl ekki dreifast jafnt á öll störf. Við vitum að fólk af erlendum uppruna er helst að finna í ákveðnum starfsgreinum og þannig verður það væntanlega í meginatriðum áfram. Það er ljóst að þessi þróun felur í sér grundvallarbreytingar á íslensku þjóðfélagi og við þurfum að hugsa fyrir því hvernig við tökumst á við þær.

Þótt fólk sem hingað kemur að vinna í framtíðinni muni væntanlega í auknum mæli koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og fram kom í þættinum, er nokkuð öruggt að enska verður, í byrjun a.m.k., samskiptamál þess á vinnumarkaði – við íslenska yfirmenn og samstarfsfólk, en einnig milli fólks sem hefur ólík móðurmál, önnur en íslensku. En spurningin er hvað gerist í framhaldinu – heldur fólkið áfram að nota ensku sem samskiptamál, ekki bara í vinnunni heldur einnig á öðrum sviðum, og lærir ekki íslensku nema þá að mjög takmörkuðu leyti? Til hvers gæti það leitt?

Ef það gerist verðum við komin í mjög alvarlega stöðu eftir 20-30 ár. Þá verðum við með tvískiptan vinnumarkað – láglaunastörf þar sem yfirgnæfandi fólks verður af erlendum uppruna og samskipti fara að mestu leyti fram á ensku, og svo betur launuð störf mönnuð Íslendingum, sem samt munu nota ensku mikið í samskiptum við fólk af erlendum uppruna, til viðbótar annarri enskunotkun sem er mikil nú þegar. Það þarf ekki að hugsa mikið um þetta til að átta sig á því hvaða áhrif slík staða gæti haft á íslenskuna. Staða hennar sem burðarás samfélagsins og viðnámsþróttur gegn erlendum áhrifum myndi veikjast verulega.

Viðbrögð okkar eiga ekki að vera að berjast gegn þessari þróun og loka landinu – það er hvorki skynsamlegt né mögulegt. Okkur vantar fleira fólk. En ef við viljum að íslenska verði áfram aðaltungumál landsins verður að gera kröfur um íslenskukunnáttu fólks sem kemur hingað til að vinna, a.m.k. þeirra sem dveljast hér meira en einhvern stuttan tíma. Það er hins vegar bæði ósanngjarnt og óframkvæmanlegt að gera slíkar kröfur án þess að gera um leið stórátak í því að auðvelda fólki íslenskunámið – auka framboð á góðu kennsluefni og námskeiðum, gera fólki kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma, o.s.frv.

Ef þetta verður ekki gert eigum við á hættu að íslenska verði ekki aðaltungumál landsins um miðja öldina. Ef allt að helmingur fólks á vinnumarkaði verður af erlendum uppruna, og verulegur hluti þess fólks talar ekki íslensku, verður hún alltaf víkjandi í samskiptum fólks á ýmsum sviðum – ekki bara á mörgum veitingastöðum eins og er orðið nú þegar, heldur í flestum verslunum, margvíslegri annarri þjónustu og víðar. Þegar svo er komið er skammt í að ungt fólk sjái ekki tilganginn í að tileinka sér þetta tungumál sem hefur svona takmarkað notkunarmöguleika og skipti alveg yfir í ensku.

Þetta hljómar bölsýnislega en góðu fréttirnar eru þær að þetta þarf ekki að fara svona – alls ekki. Ég hef fulla trú á því að íslenskan geti haldið stöðu sinni sem aðaltungumál samfélagsins og burðarás þess. En til þess þurfum við að styðja hana af öllum mætti og gera stórátak í kennslu íslensku sem annars máls – núna. Því lengur sem við bíðum, þeim mun erfiðara verður að snúa af þeirri braut sem við erum á. Þeim mun vanari verðum við orðin enskunni allt í kringum okkur, þeim mun hraðar mun hún flæða yfir okkur og yfirtaka fleiri svið. Þetta þolir enga bið.

Íslenska þarf að vera samkeppnishæf

Mér brá þegar ég frétti að nýnemar í minni gömlu kennslugrein, íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, væru aðeins ellefu þetta árið. Nýnemar í greininni hafa ekki verið færri síðan einhvern tíma á sjöunda áratugnum eða jafnvel fyrr. Þá var fjöldi nýstúdenta við Háskólann bara brot af því sem nú er þannig að hlutfall íslenskunema af nýnemum er ekki nema brotabrot af því sem það var fyrir meira en hálfri öld. Fjöldinn náði hæstu hæðum kringum 1990 þegar nærri 90 nemendur hófu nám í íslensku tvö ár í röð en hefur farið jafnt og þétt fækkandi síðan.

Þarna er örugglega margt sem spilar saman. Fleiri en ein rannsókn benda til þess að íslenskukennsla, sérstaklega í grunnskólum en að einhverju leyti í framhaldsskólum líka, höfði ekki alltaf nógu vel til nemenda og samræmdu prófin voru skaðræði að mínu mati eins og ég hef oft skrifað um. Við í Háskólanum (ég ber þar þar fulla ábyrgð því að það er ekki svo langt síðan ég hætti störfum) höfum kannski ekki heldur staðið okkur nógu vel í markaðssetningu. Okkur hefur ekki tekist að vekja áhuga á greininni meðal framhaldsskólanema.

En fleira kemur til. Ég hef heyrt að eftir að hafa verið með íslensku á stundaskránni alla sína skólatíð þyki ekki spennandi að fara í háskóla til að læra grein sem heitir íslenska – er það ekki bara meira af því sama? Alþjóðavæðingin hefur líka áhrif – nemendur óttast að lenda í blindgötu ef þau fara í íslensku, vilja eiga þess kost að búa og starfa erlendis og telja að námið nýtist þeim ekki þar, o.s.frv. Neikvæð umræða um mál ungs fólks hefur líka áhrif – það er alltaf verið að segja unglingum að þau kunni ekki íslensku, skamma þau fyrir að sletta ensku of mikið, o.s.frv.

Nú má vissulega segja að við þurfum ekki á því að halda að mennta meira en tug fólks á ári í í íslensku. Ég er reyndar ósammála – það hefur sýnt sig að íslenskunám nýtist fólki í fjölmörgum og fjölbreyttum störfum og okkur veitir ekkert af því að útskrifa fleiri með háskólamenntun í íslensku. En það er í sjálfu sér aukaatriði. Aðalatriðið er það að þessi fækkun nemenda ber skýrt vitni um stöðu íslenskunnar í huga ungs fólks. Hún er ekki spennandi. Hún er ekki kúl. Hún er ekki grein sem unga fólkið hefur áhuga á að læra í háskóla. Hún höfðar ekki til ungs fólks. Það er verulega alvarlegt.

Þótt hugsanlega megi rekja minnkaðan áhuga á íslenskunámi að einhverju leyti til kennslunnar í grunn- og framhaldsskólum, og til þess að háskólakennarar í greininni hafi ekki staðið sig í markaðssetningu, er það ekki frumástæðan heldur birtingarmynd miklu stærra máls – stöðu íslenskunnar í samfélaginu. Staðreyndin er sú að við höfum ekki sinnt íslenskunni nógu vel, ekki hugsað nógu vel um að sýna málnotendum fram á gildi hennar fyrir okkur og fyrir samfélagið. Móðurmálið er hluti af sjálfsmynd okkar, hluti af okkur sjálfum. Við þurfum að rækta þann hluta á jákvæðan og uppbyggjandi hátt – ekki sem skyldu.

Það þýðir ekkert að reka áróður fyrir íslenskunni á einhverjum þjóðernisforsendum. Það virkaði ágætlega í upphafi síðustu aldar en ekki lengur. Með því er ég ekki að segja að íslenskan skipti ekki máli fyrir okkur. Auðvitað gerir hún það. En við verðum samt að átta okkur á því að til þess að unga fólkið hafi áhuga á henni, vilji nota hana á flestum sviðum, rækta hana og varðveita, verður hún að vera samkeppnishæf. Við þurfum að geta boðið unga fólkinu áhugaverða afþreyingu og fræðslu á íslensku, nútímalegt og smekklegt kennsluefni – og nýjan málstaðal sem stendur nær því máli sem þau hafa tileinkað sér og tala.

Góðu fréttirnar eru þær að þetta er hægt. Það er engin ástæða til svartsýni um íslenskuna og framtíð hennar – ef við sinnum henni, hvert og eitt. Stjórnvöld hafa gert vel í að byggja upp íslenska máltækni en þurfa að stórauka annan stuðning við íslenskuna – við útgáfu kennslu- og fræðsluefnis, við bókaútgáfu, kvikmyndagerð og hvers kyns afþreyingu á íslensku. Framar öllu þarf að gera stórátak í kennslu íslensku sem annars máls, með sameinuðu átaki stjórnvalda og atvinnurekenda. En þetta hrekkur skammt ef við, almennir málnotendur, leggjumst ekki líka á árarnar við að gera íslensku sjálfsagða á öllum sviðum.

Flíkin klæjar mig

Í Facebook-hópnum Málspjall var í gær spurt um nýstárlega notkun sagnarinnar klæja. Hún er venjulega notuð með aukafallsfrumlagi, án andlags – mig (eða mér) klæjar. Ef ástæðu eða staðsetningar kláðans er getið er það í forsetningarlið, ekki andlagi, t.d. mig klæjar undan peysunni, mig klæjar í nefið / á nefinu. En fyrirspyrjandi hafði séð dæmi um að ástæða kláðans væri höfð sem frumlag í nefnifalli – flíkin klæjar. Þessa notkun hef ég ekki séð áður og hún hefur ekki tíðkast, þótt einhverjir sem tóku þátt í umræðunni hafi kannast við slík dæmi og örfá finnist á netinu, svo sem „Það er reyndar ullargarn en það klæjar ekki“ og „Túristarnir sjúkir í íslensku ullina, hef og mun ekki skilja það, því hún klæjar“.

En sögnin klæja hefur ekki alltaf verið notuð á sama hátt og nú. Staðsetning kláðans var áður stundum tjáð með þolfallsandlagi. „Ef mann klæar hökuna, á hann að smakka nýnæmi“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. „Klæjaði mann lófann, fékk maður gjöf“ segir í Ritsafni Ólafar frá Hlöðum. Staðsetningin var líka oft tjáð með nefnifalli en þolandi kláðans hafður í þolfalli eða þágufalli. „Klæjar mér túngan“ segir í þulu frá 17. öld í safni Ólafs Davíðssonar. „Kyrrir, knapar mínir, og klæja mig nú lófar“ segir í leikriti eftir Matthías Jochumsson. Öll þessi dæmi er að finna í Ritmálssafni Árnastofnunar. Það er athyglisvert að í mörgum elstu dæmanna er frumlagið í þágufalli þótt nú sé kennt að það eigi að vera í þolfalli.

Í öllum þessum dæmum vísaði andlagið til staðsetningar kláðans en ástæða hans hefur yfirleitt ekki verið tjáð með andlagi, og dæmin sem nefnd voru í upphafi virðast því vera nýjung í málinu. En kannski ættu þau ekki að koma á óvart. Í umræðunni var bent á hliðstæðu í sögninni kitla sem er merkingarlega ekki ýkja langt frá klæja. Vissulega er kitla oftast notuð með þolfallsfrumlagi, mig kitlar, en einnig er hægt að hafa hana með nefnifallsfrumlagi sem vísar til ástæðunnar og þolandinn kemur þá fram sem þolfallsandlag – flíkin kitlar mig. Með hliðsjón af þessu er ekkert undarlegt að málnotendur dragi þá ályktun að til dæma eins og mig klæjar (undan flíkinni) svari flíkin klæjar mig.

Sögnin klæja er venjulega áhrifslaus (tekur ekki með sér andlag) en væri með þessu breytt í áhrifssögn með þolfallsandlagi. Það er vissulega nýjung, en á sér ýmis fordæmi. Nýlega hefur sögnin streyma t.d. breyst á þennan hátt. Hún var til skamms tíma áhrifslaus – áin streymir, en það er enginn sem *streymir ánni. En nú tölum við hiklaust um að streyma viðburðum og segjum við streymum tónleikunum á netinu. Eldra dæmi er hægt að taka af sögninni fljúga. Þar til fyrir einni öld var hún áhrifslaus – fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn *flaug fuglum eða *flaug örvum eða neinu öðru. En með tilkomu flugvéla skapaðist þörf fyrir geranda með þessari sögn og þá var farið að segja Lindbergh flaug flugvélinni og annað slíkt.

Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með nýjunginni flíkin klæjar (mig) og vissulega er hægt að amast við henni á þeirri forsendu að hún sé ekki (orðin) málvenja og hljóti því að teljast „rangt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu. En þessi hegðun klæja á sér samt skýra fyrirmynd í kitla og breytingin á sér augljósar hliðstæður í sögnum eins og streyma og fljúga. Það má þess vegna líka líta á þetta sem skemmtilega og frjóa nýsköpun sem engin ástæða sé til að ergja sig yfir.

Að senda póst á – eða til

Fyrirsögnin „Skólameistari senti frá sér póst á alla“ var nýlega sett inn í Facebook-hópinn Málspjall til að vekja athygli á því að þar er notuð hin óhefðbundna þátíð senti sem ég hef skrifað um og engin ástæða er til að amast við. En ekki hefði verið minni ástæða til að vekja athygli á því að sögnin senda tekur þarna með sér forsetninguna á. Það er svo algengt að við tökum ekki eftir því en í raun má kalla það nýjung. Á tímarit.is eru nánast engin dæmi um senda póst á fyrr en um aldamót og sárafá dæmi um senda bréf á. Á síðustu tveim áratugum eru aftur á móti fleiri hundruð dæmi um þessi sambönd á hverju ári.

Sögnin senda er ein svonefndra tveggja andlaga sagna – sagna sem taka, eða geta tekið með sér, tvö andlög, tvo nafnliði eins og senda sýslumanninum ábyrgðarbréf og gefa safninu bækur. Oft er hægt að nota forsetningarlið með til í stað annars andlagsins – segja senda ábyrgðarbréf til sýslumannsins. Sagnir eru þó ólíkar hvað þetta varðar og með sögnum eins og gefa er þetta sjaldnast hægt – við getum ekki sagt *gefa bókina til hennar heldur aðeins gefa henni bókina. Þegar viðtakandinn er ekki mannvera heldur félag eða stofnun er þó stundum hægt að nota forsetningarlið – gefa peninga til fátækra.

Í nýlegri BA-ritgerð Iðunnar Kristínardóttur er sýnt fram á að „því bókstaflegri flutning sem tveggja andlaga sögn felur í sér því algengari er til-formgerðin með henni“ auk þess sem „til-formgerðin er algengari þegar andlag til táknar ekki ótvíræða viðtakendur eins og tiltekna einstaklinga eða hópa“ – sbr. gefa peninga til fátækra hér að framan. Með sögnum eins og senda er vitaskuld oft um bókstaflegan flutning að ræða og því gengur oftast að nota til með þeim. En eins og sést í fyrirsögninni sem vitnað var til í upphafi er forsetningin sem senda tekur með sér ekki alltaf til í seinni tíð.

Í þeim sárafáu dæmum um senda á sem eru eldri en aldarfjórðungs gömul eða svo er yfirleitt ekki verið að senda til ákveðins viðtakanda. Í Austra 1887 segir t.d.: „ef leiðin er viss, geta menn sent bréf á bæi í veg fyrir póstinn“. Í Austra 1971 segir: „Hannibal sendi bréf á stofnfundinn og bað þá er þar sætu aldrei þrífast.“ Í Dagblaðinu 1976 segir: „Það eina sem Barnaverndarnefnd gerði var að senda bréf á dvalarstað barnsins um kyrrsetningu þess.“ Í Vikunni 1983 segir: „Ef þig langar til að hafa samband við Bubba eða Magnús skaltu senda bréf á eftirfarandi heimilisfang.“

En um aldamót verður sprenging í notkun á með senda eins og áður segir. Fljótlegt er að ganga úr skugga um hvað veldur því: Tilkoma tölvupósts. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Tölvumálum 1995 þar sem segir: „Áskrift að póstlistanum er hægt að panta með því að senda tölvupóst á netfangið list-proc@ismennt.is.“ Alla tíð síðan vísa langflest dæmi um senda póst á og senda bréf á– og vitanlega öll um senda tölvupóst á – til tölvupósts, og á er margfalt algengari en til í þessari merkingu. Það sem sent er á er oftast netfang, en einnig hópar eins og í fyrirsögninni sem vísað var til í upphafi – sjaldnast einstaklingar.

En hvers vegna er forsetningin á notuð frekar en til þegar um tölvupóst er að ræða? Það hlýtur að sýna einhverja tilfinningu málnotenda fyrir því að sendingin sé annars eðlis en þegar til er notuð. Í tölvupósti er auðvitað ekki um að ræða bókstaflegan flutning á einhverju efnislegu, en líklega skiptir ekki minna máli að viðtakandinn sem tilgreindur er með sögninni er sjaldnast einstaklingur heldur netfang eða hópur eins og áður segir – sem er hliðstætt hinum örfáu eldri dæmum sem finnast um senda á. Líklega má því segja að þessi notkun senda á sé ekki nýjung en ytri aðstæður valdi því að tíðnin hefur margfaldast. Vissulega má tengja þetta enskum áhrifum eins og Jón G. Friðjónsson hefur gert en rótin er samt íslensk.

Mér sýnist sá merkingarmunur vera á á og til í þessu samhengi að á vísi til stefnu en til til ákvörðunarstaðar eða viðtakanda. Þegar ég sendi póst á er ég fremur að tilgreina stefnuna en viðtakandann. Þetta á sér hliðstæðu í íþróttamáli – svipaður munur er á senda bolta á og senda bolta til. Með sögninni gefa, sem venjulega tekur ekki með sér forsetningarlið eins og áður segir, er líka hægt að tala um gefa bolta á og gefa bolta til. Ég held að í öllum þessum tilvikum sé merkingarmunur á á og til, þótt hann sé vissulega ekki mikill og oftast sé hægt að setja annað sambandið í stað hins.

Þetta er skemmtilegt dæmi um það hvernig tæknibreytingar valda stórfelldri aukningu á notkun tiltekinnar setningagerðar sem hefur lengi verið til í málinu.

Bréf til fjölmiðla um auglýsingar á ensku

Frá aldamótum, og einkum síðasta áratug, hefur enska og enskunotkun orðið sífellt meira áberandi í íslensku málumhverfi. Þessu valda einkum ýmsar samfélagsbreytingar – mikil fjölgun innflytjenda, sprenging í ferðamennsku, alþjóðavæðing og fleira. En einnig koma til tæknibreytingar, ekki síst sítenging við enskan menningarheim með tilkomu snjallsíma, áhorf á erlendar efnis- og streymisveitur, og margt fleira.

Allt þetta er í sjálfu sér eðlilegt og engin ástæða til að amast við því, en það veldur auknum þrýstingi á íslenskuna. Hættan er sú að við verðum ónæm fyrir enskunni, tökum ekki eftir því að enska er notuð við einhverjar aðstæður í stað íslensku, og enskan yfirtaki því sífellt stærri og stærri hlut af umráðasvæði íslenskunnar. Haldi sú þróun áfram endar það óhjákvæmilega með því að íslenskan hrynur, hættir að geta gegnt burðarhlutverki í samfélaginu.

Það er hins vegar vel hægt að stöðva þessa þróun. Vænlegast er að gera það með almennri vitundarvakningu – með því að við öll, íslenskir málnotendur, hugsum út í þetta. Við þurfum að nota íslensku alls staðar þar sem þess er kostur, stuðla að því að annað fólk geri hið sama, og vekja athygli á því þegar misbrestur verður á. Hlutverk fjölmiðla á þessu sviði er stórt og ábyrgð þeirra mikil. Þess vegna skrifa ég ykkur til að hvetja ykkur til að íhuga hvað í þessari ábyrgð felst.

Undanfarið hefur færst í vöxt að fjölmiðlar birti auglýsingar sem eru að verulegu eða öllu leyti á ensku, þrátt fyrir að í lögum sé skýrt tekið fram að auglýsingar sem eiga að höfða til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku. Ég held, eða vil a.m.k. trúa því, að á bak við það búi sjaldnast einbeittur vilji auglýsenda til að sniðganga íslenskuna og brjóta lög, heldur sé oftast um hugsunarleysi að ræða – eða verið að spara með því að nýta erlendar auglýsingar. En hver sem ástæðan kann að vera er tvennt ljóst: Þetta er óheimilt samkvæmt lögum, og þetta vinnur gegn íslenskunni.

Þótt auglýsendur beri að sjálfsögðu ábyrgð á auglýsingum sínum nær auglýsing ekki tilgangi sínum nema hún komi fyrir augu neytenda og þar koma fjölmiðlarnir til sögu – þeir bera ábyrgð á því sem þeir birta. Nýleg dæmi sýna að auglýsendur eru fáanlegir til að breyta auglýsingum sínum ef vakin er athygli á því að þær samrýmist ekki lögum. Ég skora á ykkur að hafna því að birta auglýsingar sem eru að verulegu leyti á ensku – bæði vegna þess að það er ólöglegt, en ekki síður vegna þess að slíkar auglýsingar vinna gegn íslenskunni og veikja varnir hennar gegn enskum áhrifum.

Ég legg áherslu á að það er ekki mögulegt, og ekki heldur æskilegt eða skynsamlegt, að reyna að útrýma ensku úr íslensku málsamfélagi – hún er svo stór þáttur af veruleika okkar. Við verðum líka að taka tillit til þess mikla fjölda fólks sem býr hér og kann ekki íslensku, sem og til allra þeirra sem sækja landið heim. Enskan er hluti af íslensku málsamfélagi og hún er komin til að vera. Hún verður notuð hér áfram, samhliða íslenskunni, og það er allt í lagi. En hún má ekki koma í stað íslenskunnar. Það er ekkert óeðlilegt, og í sumum tilvikum æskilegt, að texti auglýsinga sé á ensku auk íslenskunnar. En ekki aðallega eða eingöngu á ensku.

Já, málfræði er raunverulega skemmtileg!

Í bráðskemmtilegu Kastljósviðtali áðan við Sólveigu H. Hilmarsdóttur doktorsnema sagði hún að það sem hefði heillað hana mest við latínu og grísku hefði verið málfræðin. Þetta kom flatt upp á stjórnandann sem sagði: „Það er bara gaman að heyra setninguna „það sem heillaði mig mest var málfræðin“. Það er ekki setning sem maður heyrir oft. Hvað er það við málfræði sem heillar? Er hún raunverulega skemmtileg?“

Eins og ráða mátti af orðum stjórnandans hefur málfræði vissulega illt orð á sér. Aðalástæðan er sú að hún er svo oft kennd sem forskriftarmálfræði – reglur sem nemendur þurfa að læra en tengja ekki við tungumálið sem þau kunna og tala, og ganga oft þvert á það málkerfi sem þau hafa byggt upp. Nemendur eru látnir greina í orðflokka án þess að skilja tilganginn í því – orðflokkarnir eru kenndir sem merkimiðar til að hengja á orð í stað þess að skoða setningafræðilegt hlutverk þeirra. Og svo framvegis.

En þetta er ekki sú málfræði sem ætti að kenna. Málfræði á ekki að vera fyrirmæli – hún á að vera lýsing og skýring á tungumálinu. Tungumálið er sameiginlegt öllu mannkyni – tungumálin eiga svo margt sameiginlegt en eru samt svo fjölbreytt og áhugaverð. Að skoða eðli þeirra og uppbyggingu, orðaforða og orðsifjar, hljóðkerfi, beygingar, orðmyndun, setningagerð og merkingu, og ekki síst máltöku barna, er heillandi viðfangsefni sem býður upp á ótal möguleika í kennslu á ýmsum skólastigum. Sú málfræði er raunverulega skemmtileg – hvernig ætti hún að geta verið annað?

Auglýsingar á ensku eru oftast ólöglegar

Í sjöttu grein laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 segir: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Þetta er skýrt og ótvírætt ákvæði, og frá því eru engar undantekningar. Það eru helst fyrirtæki eins og lundabúðir og örfá önnur sem geta leyft sér að auglýsa eingöngu á ensku en auglýsingar flestra annarra fyrirtækja eiga að vera á íslensku, þótt oft geti verið eðlilegt eða æskilegt að enska fylgi með.

Við vitum samt öll að þetta lagaákvæði er þverbrotið. Við sjáum mörg dæmi um það á hverjum degi, allt í kringum okkur. Ég hef enga ástæðu til að ætla að einbeittur brotavilji liggi alltaf að baki – ég held að þetta sé miklu oftar hugsunarleysi. Hugsunarleysi auglýsendanna, en ekki síður hugsunarleysi okkar, almennra málnotenda. Við erum orðin ónæm fyrir enskunni, tökum ekki eftir henni, kippum okkur ekki upp við hana – hún er svo stór hluti af daglegu umhverfi okkar.

En við eigum auðvitað ekki að láta bjóða okkur þetta. Við eigum að kvarta. Ef við sjáum auglýsingu á ensku sem augljóslega er beint til íslenskra neytenda eigum við að hafa samband við auglýsandann og benda á að þetta samrýmist ekki lögum. Einnig má skrifa Neytendastofu sem á að hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Fyrir sléttum fimm árum skrifaði ég einmitt Neytendastofu vegna áberandi auglýsingar á ensku frá H&M á Lækjartorgi og fékk svar þar sem sagði m.a.:

„Neytendastofa hefur í gegnum tíðina fengið ábendingar vegna auglýsinga á öðrum tungumálum en íslensku. Algengast er að bent sé á atvinnuauglýsingar á öðrum tungumálum. Stofnunin hefur hingað til ekki talið tilefni til aðgerða vegna slíkra auglýsinga. Ástæður þess að Neytendastofa ákveður að grípa ekki til aðgerða geta verið af ýmsum toga. […] Þá getur ástæðan einfaldlega verið sú að stofnunin hefur ekki orðið vör við viðskiptahættina. Allar ábendingar eru því gagnlegar starfi stofnunarinnar.“

Ég hef engan áhuga á að skipta við fyrirtæki sem bjóða mér vöru sína eða þjónustu á ensku. Skerum upp herör gegn auglýsingum á ensku!

Yfirfærsla enskra orða og orðasambanda

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifaði ágætan pistil í Morgunblaðið um helgina þar sem hún benti á hversu algengt er að ýmis orð og orðasambönd séu yfirfærð beint úr ensku, svo sem taka með saltbroti (e. with a grain of salt), blessun í dulargervi (e. blessing in disguise) o.fl. Dæmum um slíka yfirfærslu fer líklega ört fjölgandi – bæði vegna þess hve enskan er yfirþyrmandi í umhverfi okkar, og vegna þess að sennilega hefur dregið úr almennri þekkingu á málhefðinni vegna minnkandi bóklesturs og örra samfélagsbreytinga. En þótt þetta sé áberandi um þessar mundir er það engin ný bóla.

Mikill fjöldi orða og orðasambanda hefur komið inn í íslensku úr öðrum málum á undanförnum öldum – lengi framan af einkum úr dönsku og þýsku en á síðustu áratugum nær eingöngu úr ensku. Mörg þessara orða og orðasambanda falla fullkomlega að málinu þannig að okkur dettur ekki annað í hug en þau séu annaðhvort norrænn arfur eða heimasmíðuð – önnur bera erlendan uppruna með sér á einhvern hátt en eru samt löngu orðin góð og gild íslenska. Málið yrði miklu fátækara ef við ætluðum að útrýma öllum þessum orðum og orðasamböndum enda dettur engum það í hug.

Þegar um er að ræða orð og orðasambönd sem eru smíðuð úr íslensku hráefni, samkvæmt íslenskum reglum um orðmyndun og setningagerð, er engin ástæða til að amast við þeim enda þótt þau eigi sér erlendar fyrirmyndir. Það er að segja – það er engin ástæða til að amast við því að þessi orð eða orðasambönd séu smíðuð, og notuð þegar við á. Það eru í sjálfu sér ekki rök gegn slíkum nýjungum að þær séu iðulega óþarfar vegna þess að fyrir séu í málinu orð eða orðasambönd sem gegni sama hlutverki. Fjölmörg orð í málinu eru óþörf, sé þessi mælikvarði notaður, en það auðgar málið að geta tjáð sömu hugsun á fleiri en einn hátt.

Vandinn er hins vegar sá að þessi nýju orð og orðasambönd eru iðulega búin til af ókunnugleika eða áhugaleysi um málhefð. Fólk veit ekki eða hugsar ekki út í að til eru í íslensku orð eða orðasambönd sem hafa þá merkingu sem leitað er að, og notar því enskuna sem fyrirmynd. Ef við lítum eingöngu á tungumálið sem samskiptatæki er auðvitað ekkert að þessu. Væntanlega gera höfundar nýjunganna ráð fyrir að lesendur eða áheyrendur kannist við ensku fyrirmyndina og skilji því nýjungina fyrirhafnarlaust – margir jafnvel frekar en ef notuð væru orð sem fyrir eru í málinu.

En öðru máli gegnir ef við lítum svo á að hlutverk tungumálsins sé einnig að vera menningarmiðlari milli kynslóða. Þá er óheppilegt að virða málhefð að vettugi, hvort sem það er viljandi gert eða af þekkingarleysi. Það eykur á kynslóðabil í máli og heggur skörð í samhengi málsins. Nýjum orðum og orðasamböndum ber að fagna, en notkun þeirra á ekki að vera sprottin af þekkingarskorti eða hirðuleysi. Ef við notum þau á annað borð á það annaðhvort að vera vegna þess að íslensku skorti aðferð til að tjá viðkomandi merkingu, eða vegna þess að við veljum meðvitað að nota nýjungina þótt við vitum af öðrum kostum.