Að falast eftir

Sambandið falast eftir er vel þekkt í málinu og hefur verið notað a.m.k. frá því seint á 19. öld – elstu dæmi sem ég hef fundið um það eru frá 1886. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'biðja um' með notkunardæminu hann falaðist eftir fjárhagsaðstoð hjá bænum. Í Íslenskri orðabók er vísað úr falast eftir e-u í fala e-ð, sem er skýrt 'biðja um e-ð (sér til handa)', og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skýringin 'spörge om n-t kan faas'. Þessar skýringar eru í sjálfu sér réttar en ófullnægjandi, því að í þeim virðist alltaf gert ráð fyrir því að það sem falast er eftir sé eitthvað áþreifanlegt eða einhver efnisleg gæði. En svo er ekki alltaf, heldur er sambandið oft notað þegar verið er að biðja um einhverjar aðgerðir eða athafnir.

Elsta dæmi sem ég finn um slíka notkun er í Þjóðólfi 1910: „Segir í sömu grein, að H. Þ. hafi falast eftir því, að B.J. „notaði fægitól hegningarlaganna til þess að „garfa“ goðum líkt hörund velnefnds þjóðmennis [...].“. Í Ísafold 1916 segir: „ekki hefði hann reynst nothæfur þar; hefði helzt falast eftir því að mega bera inn skjöl til þingmanna, meðan fundur stóð yfir.“ Í Tímanum 1929 segir: „í fundarlok lýsti Jón því yfir að á Framsókn og „Sjálfstæðismönnum“ væri enginn munur og falaðist eftir því að þessir flokkar sameinuðust gegn Jafnaðarmönnum.“ Í Vísi 1933 segir: „Hann er þar að falast eftir því, að komast í stjórn með framsóknarmönnum.“ Þessi notkun sambandsins er vitaskuld enn mjög algeng, eins og sú sem orðabækurnar lýsa.

Nýlega rakst ég þó á sambandið falast eftir notað í merkingunni 'grennslast fyrir um'. Ég fór að skoða þetta nánar og fann slæðing af dæmum, það elsta í Degi 1992: „Hann átti kærustu fram í sveit og þar sem ég átti bíl var hann að falast eftir því hvort ég gæti orðið honum að liði við að sækja hana.“ Annað dæmi er í Morgunblaðinu 2000: „Leiðsögumaður hópsins á rútunni falaðist eftir því hvort unnt væri fyrir okkur að flytja hópinn með okkur upp í Kverkfjöll.“ Í DV 2001 segir: „Í tilfelli Bjarka hef ég samband við hann sjálfan […] og falast eftir því hvort hann gefi kost á sér í landsliðið.“ Í Víkurfréttum 2017 segir: „„Ég falaðist eftir því hvort það væru einhver verkefni þessu tengd, og þá helst jarðvarmanum.“ Örfá fleiri dæmi má finna á netinu.

Það er í sjálfu sér skiljanlegt hvernig þessi notkun sambandsins kemur til. Í venjulegri notkun þess er í raun og veru oft spurnarmerking – ef sagt er hann falaðist eftir því að ég yrði honum að liði má skilja það sem 'hann spurði hvort ég gæti orðið honum að liði' og þá er stutt yfir í að setningin taki á sig form óbeinnar spurningar og verði hann falaðist eftir því hvort ég gæti orðið honum að liði. En þótt þessi breyting á notkun sambandsins sé skiljanleg er ekki þar með sagt að hún sé æskileg. Dæmin um hana virðast enn sem komið er vera mjög fá og ekkert sem bendir til þess að hún sé orðin málvenja einhverra hópa. Þess vegna hvet ég til að við virðum málhefðina og höldum áfram að nota falast eftir eingöngu í merkingunni 'biðja um'.

Ég er góður

Í fyrradag var hér spurt: „Hvað þýðir ,,að vera góður?“ Æ oftar heyrist, þegar manni [er] t.d. boðið kaffi, sem er afþakkað, að er sagt er ,,nei takk, ég er góður“.“ Í umræðum kom fram að fyrirspyrjandi vissi reyndar mætavel hvað átt er við en vildi koma því á framfæri að honum þætti þetta „út í hött og hrein rökleysa“. Í umræðum var einnig bent á að „ég er góður“ væri algengt svar við spurningunni „hvernig ertu?“, og raunar getur þetta verið svar við ýmiss konar orðuðum og óorðuðum spurningum um líðan, ástand, óskir eða þarfir viðmælanda – hvað er að frétta? hvernig líður þér?er allt í lagi? ­hvað segirðu? viltu meira?vantar þig eitthvað? o.s.frv. Þetta merkir sem sé 'ég er í góðu standi og þarfnast einskis' eða eitthvað í þá átt.

Þetta tilsvar fer að sjást á samfélagsmiðlum upp úr aldamótum en elsta dæmi sem ég hef fundið á prenti er í DV 2004 þar sem maður sem hafði lent í fjárhagslegum hremmingum segir: „Ég er góður í bili.“ Í Mosfellingi 2006 segir: „Hvað er að frétta?“ – „Bara allt mjög gott … En af þér?“ – „Ég er góður.“ Í Feyki 2007 segir: „Hvernig hefurðu það?“ – „Ég er góður takk.“ Í 24 stundum 2008 lætur viðmælandi vel af sér og segir „Ég er góður svona almennt.“ Í DV 2010 er kona spurð hvort hún sé með blöðrur á höndunum og svarar: „Ég var svo rosalega sniðug að vera með hanska. Þannig að ég er góð.“ Í Fréttablaðinu 2013 er nefnt að „Hvernig líður þér“ sé mjög algeng spurning og bætt við: „Algengt svar er „bara vel“ eða „ég er góð/ur“.

Sambandið hefur verið rætt – og gagnrýnt – í málfarsþáttum. Í Morgunblaðinu 2010 gerði Guðrún Egilson athugasemd við það og sagði: „„Nei, ég er góð,“ sagði unga stúlkan ákveðin þegar ég bauð henni kökusneið. Þetta þótti mér skrýtin yfirlýsing.“ Þórður Helgason amaðist einnig við því í Morgunblaðinu 2013: „Þetta er eins og margt annað nýmælið í málinu runnið úr ensku (I am good) og er orðið mál ákaflega margra hér á landi.“ Jón G. Friðjónsson sagði í pistli frá 2017 í Málfarsbankanum: „Hér er vitaskuld hvert orð íslenskt en merkingin eða vísunin er framandleg. […] [Í] íslensku er engin hefð fyrir merkingunni ‘vilja ekki meira af e-u, vera saddur; líða vel ...’. Mig grunar að þessa málnotkun megi rekja til ensku: I’m fine/good.“

Þessar athugasemdir virðast ekki hafa haft mikil áhrif (frekar en athugasemdir við málfar yfirleitt) – sambandið ég er góð/góður fór einmitt að verða algengt í fjölmiðlum eftir þetta, og á samfélagsmiðlum er það mjög algengt. En hvað er um það að segja – hvað merkir að sambandið sé „hrein rökleysa“? Kannski finnst sumum óljóst hvað lýsingarorðið góður merkir þarna, en þá er rétt að hafa í huga að það er eitt fjölhæfasta lýsingarorð málsins – í Íslenskri orðabók er merkingu þess lýst í sjö liðum, og í áttunda liðnum auk þess talinn fjöldi orðasambanda sem það kemur fyrir í. Það má því segja að orðið muni ekki um að bæta við sig einni merkingu. En í þessu tilviki er samt ástæðulaust að gera ráð fyrir viðbótarmerkingu.

Það skiptir nefnilega meginmáli hér að ég er góð/góður er fast orðasamband, og í slíkum samböndum hafa einstök orð ekki endilega grunnmerkingu sína, heldur hefur sambandið merkingu sem heild. Um þetta má taka tvö augljós dæmi sem innihalda sama lýsingarorð. Hvað merkir góður t.d. í ég er góður með mig? Og til hvers vísar það í ég hef það gott? Þessi sambönd þykja góð og gild og við vitum hvað þau merkja en getum ekki endilega skilgreint merkingu einstakra orða í þeim. Eins er með ég er góð/góður. Vissulega stafar notkun þess af enskum áhrifum en orðin eru íslensk og sambandið hefur greinilega unnið sér hefð. Þau sem pirra sig á þessu orðasambandi geta auðvitað gert það, en við hin notum það bara áfram.

Hrekja leiðréttingar einhverf börn frá íslensku?

Því er oft haldið fram að íslensk börn og unglingar á einhverfurófi séu sérlega góð í ensku og kjósi jafnvel frekar að tala ensku en íslensku. Á vef geðfræðslufélagsins Hugrúnar segir t.d.: „Einnig eru margir einhverfir á Íslandi sem kjósa að tala ensku og hugsa á ensku.“ Það mætti e.t.v. ætla að þetta stafaði af því að fólk á einhverfurófi væri betra í ensku en íslensku en svo virðist ekki endilega vera. Í meistaraprófsritgerð Maríu Rósar Arngrímsdóttur í talmeinafræði frá 2021 segir: „Niðurstöðurnar benda til að færni barnanna í ensku og íslensku haldist nokkuð í hendur og það er ekkert sem bendir til að börn sem greind eru með einhverfu hafi almennt meiri og betri færni í ensku en íslensku.“ En hvers vegna leita þau þá yfir í enskuna?

Kannski er svarið að finna í eftirfarandi athugasemd sem kona skrifaði hér í gær: „Ég átti spjall við góða vinkonu mína á dögunum sem er ung, á einhverfurófi og þjökuð af endalausum íslensku leiðréttingum, jafnvel blá ókunnugs fólks. Hún kýs að tala ensku, sem hún þarf aldrei að þola leiðréttingar á. Hún er ekki ein um þetta, margir vina hennar gera það sama.“ Þetta rímar við könnun sem Karen Kristín Ralston gerði í BA-ritgerð frá 2016. Þar kemur fram að foreldrar barna á einhverfurófi nefndu m.a. eftirfarandi hugsanlega skýringar á því að börn þeirra gerðust fráhverf íslensku: Þau væru oft leiðrétt þegar þau töluðu íslensku; þeim fyndist þau vera undirmálsfólk þegar þau töluðu íslensku; þau ættu erfitt með að tjá tilfinningar á íslensku.

Í áðurnefndri meistaraprófsrannsókn Maríu Rósar Arngrímsdóttur kom fram að „hlutfall málfræðivillna var hærra á íslensku en ensku en gæti það hreinlega verið vegna þess að íslenska er mikið beygingarmál sem enska er ekki“. Það er vitað að fullkomnunarárátta er einn fylgifiskur einhverfu. Þess vegna er ekki ólíklegt að málfræðileiðréttingar fari illa í fólk á einhverfurófi og slíkar leiðréttingar eru eðli málsins samkvæmt miklu fremur gerðar við notkun fólksins á íslensku en ensku. Einnig er vitað að fólk á einhverfurófi er oft viðkvæmt fyrir hvers kyns áreiti frá umhverfinu og tekur það sem sagt er mjög bókstaflega. Hvort tveggja gæti stuðlað að því að því finnist hvers kyns málfarsleiðréttingar óþægilegar og forðist íslensku.

Ég hef svo sem nefnt áður að hugsanlega stuðli leiðréttingar, umvandanir og reglufesta að því að börn og unglingar eigi erfitt með eða veigri sér við að tala um tilfinningar sínar á íslensku og hrekist þess í stað yfir í ensku. Það er auðvitað vont, en sérlega slæmt ef það bitnar verst á fólki í viðkvæmri stöðu eins og fólki á einhverfurófi. En ég tek fram að ég hef aldrei unnið með einhverfu fólki og hef litla persónulega reynslu af einhverfu og þess vegna veit ég ekki hvort þarna er komin meginskýringin á mikilli enskunotkun barna og unglinga á einhverfurófi. Mér fannst þetta samt umhugsunarvert og ástæða til að skoða það betur. Það má ekki vera þannig að við hrekjum fólk á þennan hátt í faðm enskunnar – nóg er nú aðdráttarafl hennar samt.

Næs

Eitt algengasta tökuorð frá síðari tímum er lýsingarorðin næs sem er tekið óbreytt (að öðru en rithætti) úr nice í ensku. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'notalegur, hlýlegur' en sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Í Íslenskri orðabók frá 2002 er það skýrt 'snotur, fallegur, smekklegur' og '(um fólk) þægilegur, notalegur, geðfelldur' og merkt ?? sem þýðir „framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta“. Viðhorfið hefur greinilega mildast því að í eldri útgáfu bókarinnar er það merkt ? sem táknar „vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku“. Í Orðabók um slangur slettur bannorð og annað utangarðsmál frá 1982 er orðið skýrt 'fallegur, sætur, smart; alúðlegur, viðkunnanlegur, huggulegur'.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um orðið næs á prenti er í greininni „Hinn dýrmæti arfur Íslendinga“ eftir Pál Þorsteinsson alþingismann á Hnappavöllum í Ingólfi 1942. Þar segir: „Margar hinar fullkomnari búðir hér á landi eru „agalega huggulegar“ meira að segja „flot“. Þar gefur að líta margskonar „græjur“. Þar eru föt, sum eru reglulega „pen“, hlutir, sem eru „smart“, ennfremur aðrir, sem eru „næs“ (nice) eða „patent“.“ Í Speglinum 1943 segir: „En hvað það er næs titill á bók.“ Í Alþýðublaðinu 1944 segir: „Svo settist ég á rúmið og sagði Köju, hvað mér fyndist Snæfellsjökullinn fallegur. ,,Ó, hann er næs!“ sagði Kaja og brosti við.“ Alls eru um 20 dæmi um myndina næs á tímarit.is fyrir 1960, aldrei innan gæsalappa nema það fyrsta.

Þótt orðið sé venjulega skrifað eftir framburði eru einnig dæmi um að það haldi upphaflegri stafsetningu, en þá er það oftast haft innan gæsalappa. Í Morgunblaðinu 1953 segir: „Og það átti að vera svo ,,nice“ að koma heim til Gvendar!“ Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Því að þessi ómennski satan í mynd manns, hefur í rauninni aldrei átt annað áhugamál en að rekast ekki á, semja sig að aðstæðunum, vera ,nice‘ við alla og alstaðar.“ Enski rithátturinn er einnig algengur á seinni árum þótt næs sé mun algengara. Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Þetta er mjög „nice“ lið, valinn maður í hverju rúmi.“ Í DV 2010 segir: „Jón Ásgeir gerði þetta bara af því hann var „nice“.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „allt stóðst og þau voru mjög „nice“ við mig alla tíð“.

Lengi vel áttu talmálsorð ekki greiða leið á prent og þess vegna er ekki við því að búast að mörg dæmi finnist um orðið fyrr en á síðustu áratugum, hvort sem væri í myndinni næs eða nice. Það er ekki fyrr en um 1980 sem fer að slakna á formlegheitum fjölmiðla og þá fer næs að sjást æ oftar á prenti. Í grein eftir Vanessu Isenmann í Orði og tungu 2014 er næs tekið sem dæmi um tökuorð sem hafi verið lagað að íslenskri stafsetningu. Í Risamálheildinni eru rúmlega 31 þúsund dæmi um næs – þar af eru vissulega rúm 30 þúsund af samfélagsmiðlum en þó á annað þúsund úr formlegri textum. Enska ritmyndin nice er þó enn talsvert notuð á samfélagsmiðlum – þar eru rúm 12 þúsund dæmi um hana, sum vissulega úr ensku samhengi eða textum á ensku.

Orðið næs virðist smátt og smátt færast nær því að öðlast viðurkenningu sem íslenskt orð, enda fellur það fullkomlega að íslensku hljóðkerfi – það má t.d. bera það saman við lýsingarorðið læs. Það sem helst hamlar því að næs fái fulla viðurkenningu er væntanlega beygingarleysið. Í sjálfu sér ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það beygðist í kynjum, tölum og föllum, rétt eins og læs – þá mætti tala um næsan mann, næsa konu og næst kvár, rétt eins og læsan mann, læsa konu og læst kvár. Eins ætti að vera auðvelt að stigbreyta orðið og segja t.d. það er næsara veður en í gær og þetta er næsasta fólk sem ég þekki. En þetta er eiginlega aldrei gert þótt örfá dæmi um beygðar myndir orðsins megi finna á samfélagsmiðlum, sum hver e.t.v. grín.

Þetta er þó ekki einsdæmi – sama máli gegnir um nokkur önnur ensk lýsingarorð sem hafa verið tekin inn í íslensku, eins og kúl (sem beygist þó stöku sinnum), töff, kósí og fleiri. Vissulega eru til rammíslensk lýsingarorð sem beygjast ekki – orð sem enda á -a eins og andvaka, fullburða, samferða o.fl. og -i eins og hugsi og þurfi – en þar má segja að hljóðafarið hindri beygingu sem ekki ætti að vera hjá tökuorðunum. En næs er lipurt og gagnlegt orð sem hefur fjölbreytta merkingu og ekki óeðlilegt að það sé mikið notað – sumum finnst það óþarflega mikið notað á kostnað ýmissa annarra orða sem einnig kæmu til greina og það má vera rétt. En það er borin von að næs verði útrýmt úr málinu og eins gott að viðurkenna það sem góða og gilda íslensku.

Fyrir hliðina á

Ég var ekki fyrr búinn að skrifa um sambandið fyrir bakvið en annað hliðstætt samband kom upp í hendurnar á mér – fyrir hliðina á. Rúmlega þrítug kona skrifaði hér og sagðist alltaf hafa sagt þetta en ekki við hliðina á, og rúmlega fimmtugur karlmaður sagðist einnig alltaf hafa sagt þetta. Við skoðun í Risamálheildinni fann ég hátt í 90 dæmi um fyrir hliðina á og fyrir hliðiná, flest af samfélagsmiðlum en þó fáein af vefmiðlum. Þegar að er gáð ættu þessi sambönd ekki að koma á óvart. Við notum forsetninguna fyrir í flestum orðasamböndum sem tákna staðsetningu – segjum fyrir aftan, fyrir framan, fyrir ofan, fyrir neðan, fyrir utan, fyrir innan, fyrir norðan, fyrir sunnan, fyrir austan, fyrir vestan – því ekki fyrir bakvið og fyrir hliðina á?

Í huga barna sem eru að læra málið hlýtur það að vera mjög rökrétt. Vissulega eru bak og hlið upphaflega nafnorð en ekki atviksorð eins og -an-orðin en hafa fyrir löngu misst nafnorðseðli sitt og runnið saman við meðfylgjandi forsetningu, orðið bakvið og hliðiná í huga fólks – og oft í riti. Í athugasemd við pistil minn um fyrir bakvið var skrifað: „Þetta sagði ég alltaf þegar ég var lítil […] fyrir mér var þetta rökrétt því það var jú „framan“ og „bakvið“ og svo var maður að leika sér annaðhvort „fyrir framan húsið“ eða „fyrir bakvið húsið“.“ Trúlegt er að mörg börn fari í gegnum þetta skeið – segi fyrir bakvið og fyrir hliðiná um tíma en átti sig svo á því að það er ekki í samræmi við mál fullorðinna og breyti þessu. Þannig er eðlileg máltaka.

En eins og með önnur frávik barna frá máli fullorðinna má alltaf búast við að hjá einhverjum haldist þetta í málinu fram á fullorðinsár – þau haldi áfram að segja fyrir bakvið og fyrir hliðiná. Þannig verða málbreytingar. Það er eðlileg þróun málsins. Það þýðir hins vegar ekki að eðlilegt sé að viðurkenna fyrir bakvið og fyrir hliðiná sem „rétt mál“. Þetta virðist ekki vera útbreitt í máli fullorðinna – tæp 90 dæmi um fyrir hliðiná og á annað hundrað um fyrir bakvið er ekki mikið í Risamálheildinni sem hefur að geyma hátt á þriðja milljarð orða. Þetta uppfyllir varla þau skilyrði sem þarf til að teljast málvenja og getur þar af leiðandi ekki talist rétt mál – enn. En fari þeim fjölgandi sem hafa þetta í máli sínu á fullorðinsárum kemur væntanlega að því.

Að beila

Sögnin beila er nýleg tökusögn, komin af bail í ensku sem merkir 'to stop doing something or leave a place before something is finished' þ.e. 'hætta einhverju eða yfirgefa stað áður en einhverju er lokið'. Elsta dæmi sem ég finn um hana er í DV 2000 en í ritdómi í Morgunblaðinu 2001 segir: „Málfar allra sagnanna er hversdagslegt og orðfærið kunnuglegt úr tali ungs fólks í dag með öllum sínum enskuslettum og vísunum til kvikmynda og tónlistar; persónur „tjatta“, „dissa“, „chilla“ og „beila“ þegar það á við.“ Sögnin beila hefur því verið orðin vel þekkt í talmáli um aldamótin. Hún virðist orðin rótföst í málinu – rúm 5000 dæmi eru um hana í Risamálheildinni, langflest af samfélagsmiðlum en á tímarit.is eru þó 80 dæmi um sögnina.

Notkun beila er nokkuð fjölbreytt og ekki hlaupið að því að umorða hana en reyna má t.d. 'hætta við' (t.d. að hitta einhverja), 'guggna', 'heykjast á', 'bregðast', 'svíkjast um' eða eitthvað í þá átt. Í Orðlaus 2004 segir: „Við ákváðum því að beila á hestaferðinni og fara í hlöðuna að undirbúa skemmtiatriði.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Ég vildi einhvern veginn ekki vera eins og allir hinir og beila á deiti.“ Í Monitor 2010 segir: „Í seinni seríunni fór fólk að beila á viðtölum sem var búið að bóka.“ Í Monitor 2012 segir: „Síðan ég beilaði á bókmenntafræðinni seinasta vor hef ég ekki lesið eina einustu bók.“ Í Fréttablaðinu 2016 segir: „Þegar við beiluðum á kjöti tók við áhugavert tímabil þar sem við þurftum að læra að nálgast mat upp á nýtt.“

Svo er líka talað um að beila á í merkingunni ‚hætta við að hitta‘ – Hann ætlaði að koma en beilaði á mér á síðustu stundu. Í öllum dæmunum hér að framan er sambandið notað með þágufalli, en í viðtali við Einar Lövdahl Gunnlaugsson í Morgunblaðinu 2018 segir hann: „Þá er yngra fólki mjög tamt að nota sögnina að beila, […] og þar er meira að segja kynslóðamunur á notkun hennar út frá málfræði. Mín kynslóð myndi tala um að beila á einhverju meðan yngri kynslóð, krakkar undir tvítugu tala um að beila á eitthvað þar sem sögnin tekur með sér þolfall.“ Þetta samræmist því sem kom fram í könnun Ríkisútvarpsins 2019 – fólk fætt milli 1975 og 1995 notar þágufall með sögninni, en fólk fætt fyrir og eftir þann tíma notar þolfall.

En beila er líka notuð án forsetningarliðar. Í Orðlaus 2003 segir: „Ég ákvað því að fara og hugsaði með mér – að minnsta kosti fengi ég góðan mat og gæti síðan „beilað“ eftir matinn.“ Í Orðlaus 2004 segir: „Ég ákvað því bara að beila og rölti út.“ Í DV 2012 segir: „Ég fór í vinnuskólann um sumarið og „beilaði“ alltaf þar um hádegi.“ Í Monitor 2013 segir: „Samt missa þær aldrei af helgi á b5 og myndu „beila“ alla skólavikuna frekar en að missa af föstudagsdjammi í bænum.“ Stundum kemur staðsetning á eftir beila sem merkir þá eiginlega 'stinga af til' eða eitthvað slíkt. Í DV 2004 segir: „Erpur fékk nóg af fylliríisrokklífinu, beilaði til Kúbu.“ Í Munin 2006 segir: „Ég ákvað þó síðan að beila bara heim.“

Sambandið beila út getur merkt 'hætta við' eða 'bakka út' – „Þannig að ég beilaði bara út“ segir í DV 2011. En oftast er það þó nokkuð annars eðlis, komið af bail out í ensku sem merkir 'to help a person or organization that is in difficulty, usually by giving or lending them money', þ.e. 'hjálpa einhverjum sem eru í vanda, venjulega með því að láta þau hafa fé'. Í DV 2010 segir: „Hvað varðar Illuga Gunnarsson þá er komið í ljós að hann þrýsti mjög eindregið á að Glitnir beilaði sjóð níu út.“ Í Stundinni 2017 segir: „Kostirnir voru að láta Glitni fara í þrot eða „beila“ hann út.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „hljóðmaðurinn varð að hringja heim í konuna sína og tilkynna henni að hann þyrfti að nota spariféð þeirra til að beila þessa fávita út.“

Þótt beila sé vissulega komin úr ensku er ekki hægt að segja að hún beri það sérstaklega með sér – það er ekkert útlenskulegt við hana. Það má t.d. bera hana saman við sögnina deila sem er vel þekkt og geila sem er sjaldgæf – allar þrjár hafa sams konar hljóðskipan, ófráblásið lokhljóð á undan -eila. Ef einhverjum finnst beila hljóma torkennilega er það því vegna þess að hún er ný, en ekki vegna þess að hún falli illa að málinu. Mér finnst engin ástæða til að láta orð gjalda uppruna síns – láta erlendan uppruna koma í veg fyrir að orð sem falla fullkomlega að íslensku hljóðkerfi séu tekin inn í málið. Mikil notkun sagnarinnar beila bendir til að hún þjóni ákveðinni þörf og engar líkur eru á að hún hverfi úr notkun. Mér finnst sjálfsagt að kalla hana íslensku.

Ljæ eða ljái, léði eða ljáði, léð eða ljáð?

Merkingin er ekki það eina sem er á reiki í sambandinu ljá máls á – sama gildir um beygingu sagnarinnar ljá. Hefðbundin beyging er ég ljæ þú ljærðhann / hún / hán ljær í framsöguhætti eintölu í nútíð, ég léðiþú léðir hann / hún / hán léði í framsöguhætti eintölu í þátíð, og léð í lýsingarhætti þátíðar. En algengt er að hljóðasamband nafnháttar haldi sér í þessum myndum og sagt sé ég ljái þú ljáir hann / hún / hán ljáir í framsöguhætti eintölu í nútíð, ég ljáði þú ljáðir hann / hún / hán ljáði í framsöguhætti eintölu í þátíð og ljáð í lýsingarhætti þátíðar. Í viðtengingarhætti nútíðar er é í öllum myndum í hefðbundinni beygingu (léði léðir léði, léðum léðuð léðu) en kemur einnig fyrir (ljáði ljáðir ljáði, ljáðum ljáðuð ljáðu).

Í Málfarsbankanum er amast við þessum tilbrigðum og sagt: „Hann ljær (ekki „ljáir“) máls á þessu. Hann léði (ekki „ljáði“) máls á þessi. Þeir hafa léð (ekki „ljáð“) máls á því.“ Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 sagði Jón G. Friðjónsson: „Sögnin að ljá er að því leyti óregluleg að nútíðarmyndin ljæ er ‘sterk’ í þeim skilningi að hún er mynduð eins og nútíð af sumum sterkum sögnum (; fláflæ; sláslæ). Það er því skiljanlegt að ‘veika’ nútíðarmyndin ljáir skuli stundum skjóta upp kollinum.“ Jón segir þó enn fremur: „Þessi breyting er ekki viðurkennd enda sér hennar hvergi stað í vönduðu ritmáli“ og „þeir sem skrifa í fjölmiðla og vilja vanda mál sitt ættu að nota sögnina að ljá eins og flestir kjósa að nota hana“.

Það er álitamál hvort lokaorðin þarna eiga rétt á sér. Í Risamálheildinni eru t.d. 844 dæmi um þátíðarmyndina léði en 328 um myndina ljáði, og 1451 dæmi um lýsingarháttinn léð en 1037 um myndina ljáð. Þótt dæmi um hefðbundnu beyginguna séu vissulega fleiri er tæplega hægt að halda því fram lengur að „flestir“ kjósi að nota hana, þótt svo hafi e.t.v. verið fyrir tæpum 20 árum. Hinar myndirnar eiga sér langa sögu, en fyrir utan eitt dæmi um myndina ljár frá miðri 19. öld sjást nútíðarmyndir með á þó ekki fyrr en undir miðja 20. öld: „Málgagn það, sem nú ljáir honum rúm fyrir rógskrifin“ segir í Degi 1945; „þá er sá maður almennt ekki litinn réttu auga vestan járntjalds sem ljáir nafn sitt til ályktunar í friðarátt“ segir í Nýja tímanum 1951.

Þátíðarmyndir með á verða aftur á móti algengar nokkru fyrr. Í Heimskringlu 1940 segir: „það skáldið ekki byrjaður að yrkja, er ljáði þeim verðugt lof.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „Roosevelt ljáði því eindreginn stuðning, að róttækari breyting yrði gerð á hlutleysislögunum.“ Í Vísi 1942 segir: „Ljáði eg söngnum sérstaklega eyra.“ Lýsingarhátturinn ljáð er enn eldri og algengari: „svo að ung stúlka gæti ljáð þeim eyra án þess að blygðast sín“ segir í Morgunblaðinu 1931. Í Morgunblaðinu 1936 segir: „og hafi þess vegna ljáð því samþykki sitt að Bretar veittu Kínverjum lán.“ Í Íþróttablaðinu 1940 segir: „Blöðin hafa ljáð þessum röddum eyra.“ Það er því löngu komin hefð á „óhefðbundnu“ beyginguna og hún hlýtur að teljast rétt mál.

Hvað merkir ljá máls á?

Í frétt í nýjasta tölublaði Heimildarinnar rakst ég á setninguna „Það var við matarborðið daginn sem stúlkan kom heim úr sumarbúðunum sem hún ljáði máls á því sem þar var sagt við hana um samkynhneigð.“ Þarna er merking sambandsins ljá máls á greinilega ekki sú sem ég er vanur, 'telja koma til greina' eða 'taka í mál' eins og það er skýrt í Íslenskri orðabók. Í þessu dæmi er merkingin augljóslega 'vekja máls á, nefna' eins og ég hef svo sem séð áður, og það samrýmist skýringunni 'minnast á' í Íslenskri nútímamálsorðabók, með notkunardæminu hún léði máls á mikilvægu efni. Í Íslensk danskri orðabók frá 1920-1924 er svo enn ein skýring: 'give Lejlighed til at omtale noget', þ.e. 'gefa færi á að ræða eitthvað' eða 'taka til umræðu'.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar er eitt dæmi frá 18. öld um ljá máls á en elsta dæmi á tímarit.is er í Fjallkonunni 1890: „Þegar ég léðist máls á því, að vera skipaðr leiðsögumaðr skipa héðan af Akranesi til Borgarness.“ Þarna er merkingin augljóslega 'taka í mál' og sama máli gegnir að því er virðist um öll eldri dæmi um sambandið. Hins vegar er oft erfitt að skera úr um merkinguna. Ef ég segi ég léði máls á því að taka verkið að mér gæti það merkt hvort heldur 'ég sagði koma til mála að ég tæki verkið að mér' eða 'ég vakti máls á / stakk upp á því að ég tæki verkið að mér' en seinni skilningurinn er háður því að sá möguleiki að ég tæki verkið að mér hafi ekki verið í umræðunni. Úr þessu er ekki alltaf auðvelt að skera út frá samhengi.

Í Morgunblaðinu 1980 segir: „Þá hefur Gerald Ford fyrrum forseti upplýst, að Haig hafi fyrstur ljáð máls á því að Nixon yrði náðaður.“ Þarna gæti merkingin í fljótu bragði virst vera 'tekið í mál'. En þegar fréttin er lesin kemur í ljós að Haig var hliðhollur Nixon og merkingin hlýtur því að vera 'vakið máls á, stungið upp á'. Í DV 1992 segir: „Bush Bandaríkjaforseti ljáði máls á því í síðustu viku að Rússland fengi að vera með í hópi hinna sjö helstu iðnríkja en hin löndin hafa tekið misjafnlega í þá hugmynd.“ Þarna gæti merkingin verið 'tók í mál, taldi koma til greina' ef þetta hefði verið rætt áður, en framhaldið bendir til þess að svo hafi ekki verið heldur hafi hugmynd Bush verið nýstárleg og merkingin því 'stakk upp á'.

Elsta örugga og ótvíræða dæmi sem ég hef fundið um merkinguna 'vekja máls á' er í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1980: „Í tilefni „árs trésins“ lét ég þetta frá mér fara í þeirri von að Velvakandi ljái máls á þessu.“ Þessi merking er því a.m.k. komin til fyrir meira en 40 árum – en getur vel verið miklu eldri vegna tvíræðni margra dæma. Ótvíræð dæmi eru þó sjaldgæf fram um aldamót en bregður fyrir – í Þjóðviljanum 1990 segir t.d.: „Ég vil ljá máls á því að það væri móðgun við félagsmenn að fara fram á að gefa eftir samninginn.“ Um aldamót fer dæmum fjölgandi – í Morgunblaðinu 2000 segir t.d.: „Fljótlega fóru menn þó að ljá máls á því að skemmtilegt gæti verið að lengja hátíðina.“ Á síðustu árum er þessi merking orðin mjög algeng.

Þarna eru í raun komnar þrjár merkingar sambandsins ljá máls á – 'taka í mál' eins og í Íslenskri orðabók, 'vekja máls á' eða 'minnast á', eins og í Íslenskri nútímamálsorðabók, og 'stinga upp á' sem er vissulega skylt en þó svolítið annað. Fjórðu merkinguna má e.t.v. finna í setningu um Jóhönnu Sigurðardóttur í DV 2010: „Hún hefur aldrei ljáð máls á samkynhneigð og hefur því ekki orðið þessi táknmynd samkynhneigðra á alþjóðavettvangi sem margir óskuðu sér.“ Það er hugsanlegt að segja að sambandið hafi þarna merkinguna 'minnast á' en eiginlega liggur beinna við að segja að það merki þarna 'gefa færi á að ræða' eins og í Íslensk-danskri orðabók. Aðalskilin eru þó milli fyrstnefndu merkingarinnar og hinna þriggja.

Vitanlega er það ekkert einsdæmi að orð og orðasambönd hafi fleiri en eina merkingu, en oftast er það þá þannig að samhengið sker ótvírætt úr um það hver sé réttur skilningur hverju sinni. Svo er ekki í þessu tilviki og því er óheppilegt og getur valdið misskilningi að sambandið ljá máls á skuli vera notað í mismunandi merkingu. Það er hins vegar erfitt að gera nokkuð í því. Vissulega er merkingin 'taka í mál' upphafleg (þótt skýringin í hinni aldargömlu Íslensk-danskri orðabók sé reyndar önnur) og ennþá langalgengust, en tæplega er hægt að hafna merkingunni 'minnast á' sem er algenga og á sér langa sögu eins og hér hefur komið fram og staðfestist í Íslenskri nútímamálsorðabók. Við verðum líklega bara að búa við þessa tvíræðni.

Öskrum við meira eftir hrun?

Í gær bar hér á góma nokkrar sagnir sem hafa öskur- að fyrri lið – öskursyngja, öskurhlæja, öskurgráta og öskurgrenja eru þær helstu en mun sjaldgæfari eru öskurhnerra, öskuræla, öskurgubba, öskurmjálma o.fl. Eins og ég hef áður skrifað hér um eru samsettar sagnir ekki ýkja margar í íslensku en á síðustu árum hefur það þó færst mjög í vöxt að nota samsettar sagnir í stað orðasambands með sögn og nafnorði eða sögn og forsetningu eða atviksorði. Þetta eru sagnir eins og haldleggja í stað leggja hald áfrelsissvipta í stað svipta frelsinafnbirta í stað birta nafnökuleyfissvipta í stað svipta ökuleyfi, fjárafla í stað afla fjár, brottvísa í stað vísa brott, o.s.frv. Nýlega hafa svo áðurnefndar öskur-sagnir bæst í þennan hóp.

Elsta dæmi sem ég finn um slíka samsetningu er í ljóði eftir Nínu Björk Árnadóttur í Leikhúsmálum 1997: „hún heyrir hafið öskra og hlæja, heyrir það öskurhlæja.“  Á Hugi.is segir 2003: „heheh deatha er að öskursyngja.“ Örfá dæmi eru á Bland.is. Dæmi frá 2009: „Í versta falli losna þau við helluna við það að öskurgrenja.“ Frá 2010: „þá öskurgrenjaði ég inni á baði því mamma lenti ekki að skutla mér í ræktina.“ Frá 2011: „Ég var um daginn í kolaportinu og þá var kona búin að týna syni sínum og var öskurgrátandi yfir því.“ Frá 2013: „Ég mindi öskurgrenja og æla.“ Á Twitter eru tvö dæmi frá 2013: „Heil röð af unglingsstúlkum með teina öskurgrét fyrir aftan mig“ og „og öskurgrét yfir UP myndinni með Kára í dag“.

Þetta eru einu dæmin um öskur-sagnir sem ég finn fyrir 2014, en þá er eins og einhver stífla bresti og áðurnefndar fjórar sagnir verða skyndilega algengar á samfélagsmiðlum en fara skömmu síðar einnig að sjást á vefmiðlum og prentmiðlum. Í Risamálheildinni er vel á annað þúsund dæma um þessar sagnir – hátt á þriðja hundrað um öskurhlæja og öskurgráta, á fjórða hundrað um öskurgrenja og á sjöunda hundrað um öskursyngja – og örfá um aðrar öskur-sagnir. Meginhluti dæmanna er vissulega af samfélagsmiðlum, en þó er slæðingur af dæmum úr vefmiðlum eins og Vísi og DV og prentmiðlum eins og Fréttablaðinu, Fréttatímanum, Morgunblaðinu og Stundinni. Slíkum dæmum hefur fjölgað verulega allra síðustu ár.

Í umræðum í gær var því haldið fram að öskur-sagnir hefðu komið í staðinn fyrir sagnir eins og skellihlæja og hágráta / hágrenja sem heyrðust varla lengur. Það er þó ekki rétt – þær sagnir eru enn margfalt algengari en öskur-sagnirnar, líka á samfélagsmiðlum. En svo er spurning hvort merkingin er sú sama. Vegna þess að öskur-sagnirnar eru ekki í mínum orðaforða átta ég mig ekki alveg á því en dreg þó í efa að svo sé – mér finnst merkingin í öskur-sögnunum yfirleitt ofsafengnari en í skellihlæja og hágráta / hágrenja. Nær væri að bera hágráta / hágrenja saman við orga en hún er líka algeng. Ég man ekki eftir neinni sögn sem gæti samsvarað öskursyngja   – ég myndi væntanlega segja syngja hástöfum eða eitthvað slíkt, en það merkir samt annað.

Hvernig stendur á því að þessar fjórar sagnir (og raunar fleiri þótt sjaldgæfar séu) koma upp og breiðast út á svipuðum – og mjög stuttum – tíma? Ég átta mig ekki á því – ég finn t.d. enga beina enska samsvörun þótt nefnt hafi verið að öskurgrenja svipi til ugly cry á ensku. Einnig var nefnt í umræðunni að í sænsku væru til sagnirnar skrikgråta, skrikskratta og skriksjunga sem samsvara íslensku sögnunum en mér finnst einhvern veginn ólíklegt að sænska hafi haft svona mikil og skyndileg áhrif – nema þau stafi frá einhverri bíómynd eða sjónvarpsþáttum sem ég þekki ekki. En svo má líka spyrja hvort andlegt ástand þjóðarinnar hafi orðið óstöðugra og ofsafengnara eftir hrun sem kalli á öskur-sagnir eða hvetji til tilþrifameiri tjáningar.

Að ópa

Í dag var spurt hér hvort fólk hefði séð ópa notað sem sögn, en í frétt í DV í dag segir: „Ópaði hann svo yfir mannskapinn að eigandi bílsins skyldi færa bílinn.“ DV tekur þetta upp af vef Hrímfaxa en þar stendur reyndar núna „Hrópaði hann svo yfir mannskapinn að eigandi bílsins skyldi færa bílinn“ – trúlegt er að því hafi verið breytt eftir athugasemdir. Ég kannaðist ekki við sögnina ópa og hélt fyrst að þetta væri villa, en eftir að ég fór að skoða málið nánar skipti ég um skoðun. Það kom nefnilega í ljós að þótt þessi sögn hafi ekki komist í orðabækur á hún sér langa sögu og nokkra tugi dæma má finna um hana á tímarit.is, allt frá 19. öld til síðustu ára. Í Risamálheildinni er á fjórða tug dæma um sögnina, flest af samfélagsmiðlum.

Elsta dæmi sem ég finn um ópa er í Skírni 1889: „Lengi og hátt ópað heyr.“ Þetta kemur fyrir tvisvar í sömu grein þannig að það er greinilega ekki prentvilla. Annað dæmi er í Dagskrá 1898: „Simpson og jeg gengum sitt við hvora hlið hans, ópuðum og orguðum í eyru honum til þess að halda honum vakandi.“ Í Íslendingi 1925 segir (í kvæði eftir Jochum M. Eggertsson): „En útburðir við heljar-hurðu / hrópa, biðja, væla, ópa.“ Í Fálkanum 1931 segir: „Drottinn minn! heyrði hann ópað og um leið datt maðurinn kylliflatur á gólfið og lá þar.“ Í Viljanum 1939 segir: „Þeir koma langar leiðir að og ópa, dansa og syngja í marga daga.“ Í Munin 1977 segir (í ljóði eftir Tryggva Hákonarson): „Haf hljótt / hlusta / heyr þú hrópa / væla og ópa.“

Aðalnotkun ópa eftir miðja 20. öld er þó í krossgátum – sögnin er stutt og sjaldgæf og hentar því einkar vel til þeirra nota. Ég fann vel á annan tug dæma um þessa notkun sagnarinnar í ýmsum blöðum, einkum á sjötta áratugnum en einnig síðar – nýjasta dæmið er frá 2022. Sögnin er ýmist höfð sem lausn á hrópa, kalla, orga eða veina. En sögninni bregður einnig fyrir í annarri notkun. Í myndatexta í DV 2001 segir: „Á litlu myndinni sést hlauparinn Jon Drummond ópa af angist.“ Í DV 2004 segir: „persónur ópa „Heilagur Kiljan“ í gríð og erg.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „þegar almenningur ópar og veinar í örvæntingu.“ Á mbl.is 2020 segir: „Lögregla skaut og særði mann sem veifaði hnífi og ópaði „Guð er máttugastur“.“

Dæmi eru um að gerðar hafi verið athugasemdir við sögnina ópa í málfarsskrifum. Í grein eftir nemendur í hagnýtri fjölmiðlun um málfar í útvarpsstöðvum í Málfregnum 1998 segir: „Eftirfarandi setning heyrðist á einni stöðinni: Hún ópaði upp yfir sig, þ.e. sögnin(!) „ópa“. Líklegt má telja að útvarpsmaðurinn haft ætlað að segja hún æpti upp yfir sig eða hún hrópaði upp yfir sig en ruglað saman sögnunum að æpa og hrópa svo að úr varð þessi meinlega en kostulega málvilla.“ Í pistli Eiðs Guðnasonar frá 2014 er vakin athygli á setningunni „Ein hérna var að stíga niður fæti, þegar önnur sem starfar með mér sá köngulóna og ópaði“ í frétt á Vísi – þar stendur reyndar núna æpti í staðinn. Eiður segir: „Það var og. Konan ópaði, hún æpti ekki.“

Að leiða sögn af nafnorði með því að bæta nafnháttarendingunni -a við nafnorðsstofninn er vitaskuld góð og gild orðmyndunaraðferð, og ekki undarlegt þótt málnotendum finnist eðlilegt að leiða ópa af óp, með hliðsjón af t.d. hrópa hróp. Í þessu tilviki vill samt svo til að fyrir er í málinu sögn leidd af óp á örlítið annan hátt, þ.e. með i-hljóðvarpi – sögnin æpa. Tilvist hennar veldur því að mörgum finnst ópa hljóma óeðlilega, og vissulega er hún mjög sjaldgæf þótt dæmum virðist fara fjölgandi í óformlegu málsniði a.m.k. En í ljósi þess að ópa er rétt mynduð, á sér langa og óslitna sögu í málinu, og hefur lengi verið notuð athugasemdalaust í krossgátum tel ég eðlilegt að viðurkenna hana sem rétt mál, þótt ég mæli ekki sérstaklega með henni.