Forystukonur og forkonur

Um daginn var hér nefnt að vorið 2023 samþykkti færeyska Lögþingið breytingar á „stýrisskipan“ Færeyja sem gera ráð fyrir að -kvinna komi í stað -maður í starfsheitum í stjórnsýslunni þegar konur gegna störfunum – landsstýriskvinna, løgkvinna, løgtingsforkvinna og fleira. Ég veit ekki til að það hafi komið til tals að gera sambærilega breytingu á íslenskum lögum eða stjórnarskrá. Hins vegar hafa einstakar konur sem sitja á þingi stundum titlað sig sem þingkonur eða Alþingiskonur í stað þingmenn eða Alþingismenn. Þetta tíðkaðist athugasemdalaust allt frá því að fyrsta konan var kosin á þing árið 1923 en þegar þingkonur Kvennalistans vildu kalla sig svo árið 1983 var allt vitlaust – þá fór þetta að snúast um vald.

Ég tek eftir því að kosningabarátta Katrínar Jakobsdóttur er rekin undir kjörorðinu „Kraftmikil forystukona“. Það sýnir auðvitað að eðlilegra þykir að vísa til hennar sem forystukonu en forystumanns vegna þess að orð sem enda á -maður tengjast frekar körlum í huga fólks. Fjölmörg dæmi eru því um að búin hafi verið til orð með seinni liðinn -kona við hlið orða sem enda á -maður, en ein þeirra samsetninga með -maður sem venjulega er notuð jafnt um karla og konur er formaður. Þegar Stúdentaráð Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu árið 2018 að starfsheitið formaður Stúdentaráðs væri ónothæft var ekki brugðist við með því að taka upp kvenkyns starfsheiti, t.d. forkona, heldur var karlkynsorðið forseti tekið upp í staðinn.

En orðið forkona er samt til í málinu og hefur verið síðan á nítjándu öld. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Kirkjublaðinu 1895: „En aptur útvegaði Barrows sjer fylgi margra merkra karla og kvenna, […] frú Potter Palmer forkonu, frú Charles Henrotin varaforkonu kvennstjórnarinnar á sýningunni […].“ Í Kvennablaðinu sama ár segir: „Þessi bókfærsla hefir misjafnt gildi, og fer það eftir dugnaði forkonunnar.“ Í Fjallkonunni 1898 segir: „„Þetta mál er ekki á dagskrá“, sagði forkonan.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1928 segir: „Forkona hins sósíalistiska fjelags ljet ekki segja sjer þetta tvisvar.“ Dæmin eru vissulega ekki mörg, og nokkur dæmi eru einnig um að notkun orðsins forkona sé gagnrýnd þar eð konur séu menn.

Á seinustu árum eru fáein dæmi um að konur í forystu félaga titli sig forkonur og rúm hundrað dæmi eru um orðið í Risamálheildinni. Mér dettur ekki í hug að hvetja til þess að konur taki þetta starfsheiti almennt upp, enda er ég yfirleitt lítið hrifinn af því að tengja starfsheiti við kyn þeirra sem gegna störfunum. Hins vegar finnst mér líka ástæða til að benda á að auðvitað er forkona gott og gilt orð en engin málspjöll, og engin ástæða væri til að amast við því ef það breiddist út – við þyrftum bara að venjast því. Það er engin málfræðileg ástæða fyrir því að okkur þykir eðlilegt að tala um Katrínu Jakobsdóttur sem forystukonu en undarlegt að tala um hana sem (fyrrverandi) forkonu Vinstri grænna – það er bara venja, og slíkar venjur geta breyst.

Bókstafstrú er varasöm

Í gær var vitnað hér í fyrirsögn á mbl.is, „Þrír köstuðust útbyrðis“ um farþega sem köstuðust út úr rútu, og spurt: „Er þetta ekki undarleg notkun á að kastast útbyrðis?“ Í Málvöndunarþættinum var einnig spurt: „Verður maður ekki að vera um borð í báti til að geta kastast útbyrðis?“ Atviksorðið útbyrðis er skýrt 'fyrir borð' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'utanborðs, fyrir borð' í Íslenskri orðabók. Orðið borð merkir 'fjöl, planki' og eins og nefnt var í umræðu um þetta er því eiginlega aðeins hægt að kastast útbyrðis af tréskipi ef fólk vill skilja útbyrðis alveg bókstaflega. Það hefur samt aldrei verið gerður munur á tréskipum, stálskipum, plastbátum og annars konar skipategundum í notkun þessa orðs, eða annarra skyldra.

En þessi orð – (um) borð, innbyrða, innanborðs, útbyrðis o.fl. – hafa lengi verið notuð um annað en skip. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er borð m.a. skýrt 'innra rými skips eða flugvélar'. Orðið borð hefur lengi verið notað um flugvélar – í Dýraverndaranum 1931 segir: „Á myndinni sést það þegar verið er að flytja stóran kassa fullan af svölum um borð í flugvél.“ Við brottför íslenskra flugvéla frá flugvöllum á Íslandi er líka venja að segja „Gerið svo vel að ganga um borð.“ Sögnin innbyrða hefur líka lengi verið notuð bæði í merkingunni 'taka fisk um borð í skip' og 'neyta (e-s) borða, drekka' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – „hann er líka stór fiskur og getur innbyrt mikið“ segir um hákarlinn í Ægi 1918.

Þótt atviksorðið útbyrðis sé aðeins skýrt 'fyrir borð' í Íslenskri nútímamálsorðabók eru ýmis dæmi um að það sé notað í öðru samhengi, eins og t.d. í Þjóðinni 1942: „Að taka ekki upp siði og venjur þeirra, en kasta útbyrðis siðum og venjum þjóðar vorrar, kasta frá oss Íslendingseðlinu.“ Aftur á móti er atviksorðið innanborðs skýrt 'um borð í skipi, flugvél eða öðru farartæki' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Degi 1909 segir um Zeppelin-loftfar: „Þá flaug hann og með 2 farþega innanborðs 10 rastir.“ Í Morgunblaðinu 1936 segir: „Jótlandshraðlestin varð föst í gærdag í snjó með 95 farþega innanborðs.“ Í Vísi 1957 segir: „Almenningsbifreið með áttatíu farþega innanborðs ók út af vegi í fjallshlíð og hrapaði mikið fall.“

Þótt kannski sé ekki algengt að tala um að farþegar kastist útbyrðis úr rútu er það ekkert óeðlilegt fyrst þeir geta verið innanborðs í rútunni. Eins og dæmin hér að framan sýna, sem og fjölmörg önnur af ýmsum toga, eru orð sem upphaflega tengjast tréskipum notuð í margs konar yfirfærðri merkingu. Þannig er tungumálið – sem betur fer. Ef við krefjumst þess að orð séu aðeins notuð í upphaflegri, bókstaflegri merkingu og fordæmum allt nýtt, teljum allt rangt sem við könnumst ekki við – höfnum öllum líkingum, myndhverfingum, tilbrigðum og leik með tungumálið – erum við að taka burt það sem gerir málið frjótt, skapandi og lifandi og banna málinu að endurnýja sig. Það er vísasti vegurinn til að drepa áhuga ungs fólks á að tala íslensku.

Meiri kynfræðslu, takk!

Lengi hefur verið sæmileg sátt í samfélaginu um að mikilvægt sé að börn og unglingar fái einhverja kynfræðslu í skólum. Við vitum að unglingar gera tilraunir með kynlíf hvort sem fullorðnum líkar betur eða verr og þess vegna er fræðsla mikilvæg til að minnka hættuna á að þessar tilraunir leiði til óheilbrigðs kynlífs, ótímabærra barneigna, aukningar kynsjúkdóma o.fl. Markmið fræðslunnar er hvorki að hvetja unglinga til að stunda kynlíf né að koma í veg fyrir kynlíf, heldur að fræða um eðli kynlífsins og ýmislegt sem þarf að varast í því sambandi. Oft hefur samt staðið styr um kynfræðslu í skólum og íhaldsöfl reynt að banna hana eða draga úr henni – í fyrrahaust bar t.d. töluvert á gagnrýni á nýtt kynfræðsluefni frá Menntamálastofnun.

En annars konar kynfræðsla er líka mikilvæg. Í nýlegri blaðagrein var sagt: „Nýlega fréttist að níunda bekkingum væri fyrirskipað að leiðrétta ýmsar setningar í tímum þannig að þær „virkuðu fyrir öll kyn“.“ Nú veit ég ekki sönnur á þessari staðhæfingu, hvað þá að ég viti nákvæmlega hvaða fyrirmæli voru gefin ef einhver slík æfing var lögð fyrir. En æfingar af þessu tagi geta þjónað þeim tilgangi að leiða nemendum fyrir sjónir út á hvað kynhlutleysi í máli gengur og fá þá til að sjá þetta í samhengi. Það er nefnilega meira en að segja það að gera mál sitt kynhlutlaust vegna þess að karlkyn í almennri merkingu er „út um allt“ í íslensku eins og Höskuldur Þráinsson lýsti ágætlega í nýlegri grein. Þess vegna er málfræðileg kynfræðsla nauðsynleg.

Við vitum að sumt fólk er að gera tilraunir með að færa málbeitingu sína í átt til kynhlutleysis og þær tilraunir verða ekki stöðvaðar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þess vegna skiptir máli að fræða fólk um hlutverk og eðli málfræðilegs kyns í tungumálinu og benda á hvers þau þurfa að gæta sem vilja breyta máli sínu í þessa átt. Sú umræða má ekki verða tabú frekar en hin venjulega kynfræðsla. Fræðslan er nefnilega ekki áróður fyrir kynhlutlausu máli – ekki frekar en venjuleg kynfræðsla er áróður fyrir kynlífi. Hún getur einmitt stuðlað að því að fólk fari varlega í slíkum tilraunum með mál sitt eða jafnvel guggni á þeim, rétt eins og venjuleg kynfræðsla getur leitt til þess að unglingar fari varlega í kynlífi eða bíði með tilraunir til kynlífs.

En málfræðileg kynfræðsla þarf að fjalla um miklu fleira en hlutlaust kyn fornafna, töluorða og lýsingarorða. Nú hefur verið viðurkennt í íslenskum lögum að til sé fólk sem hvorki telur sig karlkyns né kvenkyns og tungumálið þarf að taka á því. Það hefur verið gert með nýjum orðum eins og fornafninu hán, nafnorðunum bur, stálp, kvár o.fl., og mikilvægt er að kynna þessi orð og notkun þeirra. Sum þeirra sem skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar vilja láta fornöfn og lýsingarorð sem um þau eru höfð vera í hvorugkyni og því þarf að venjast. Bent hefur verið á að í stað orða sem vísa í kyn eins og strákur og stelpa er oft heppilegra að nota orð án kynvísunar eins og börn eða krakkar. Margt fleira mætti taka fyrir í hinni málfræðilegu kynfræðslu.

Í áttina en ekki alla leið

Í viðtali í Morgunblaðinu um kynhlutlaust mál segir menningar- og viðskiptaráðherra: „Það er til að mynda, í núverandi mál­stefnu RÚV, ekki fjallað um kynhlutlausa málið“. Það er alveg rétt, enda væri það óeðlilegt ef þetta væri nefnt þar. Það er ekki fjallað um nein einstök málfarsleg atriði í málstefnunni – hún er almennur rammi. Í henni segir að Ríkisútvarpið hafi „fyrst og fremst málrækt að leiðarljósi í málstefnu sinni“ en „Undir málrækt fellur öll meðvituð og skipuleg viðleitni til að laga tungumál að nýjum aðstæðum með því að mynda ný orð af innlendum stofni eða laga erlend orð að beygingum og hljóðkerfi þess. Málrækt getur líka náð til annarra tilrauna til þess að gera málið hæfara til að þjóna hlutverki sínu í samfélaginu“.

Með breytingum á málbeitingu í átt til kynhlutleysis er einmitt verið að „laga tungumál að nýjum aðstæðum“ og „gera málið hæfara til að þjóna hlutverki sínu í samfélaginu“. Ráðherrann segir líka: „Þú get­ur notað það, kyn­hlut­laust mál, að ein­hverju leyti án þess að fara alla leið.“ Þetta er hárrétt og einmitt það sem málið snýst um – að hnika málbeitingu í átt til kynhlutleysis. Það er hægt að gera með ýmsu móti innan ramma hefðbundins máls án þess að gera einhverjar róttækar breytingar á málkerfinu. Ég veit ekki til að neinum detti í hug að það sé hægt að gera málið fullkomlega kynhlutlaust en það skiptir samt máli að stefna í þá átt – t.d. með því að tala um tónlistarfólk eins og ráðherra segist gera, frekar en tónlistarmenn. Norðfólk er strámaður.

Að hafa ekki roð við eða eiga ekki roð í

Í gær var hér spurt um orðasambandið eiga ekki roð í sem fyrirspyrjandi sagðist hafa vanist í myndinni hafa ekki roð við. Það er alveg rétt að síðarnefnda gerðin er mun eldri – í elsta dæmi um sambandið í Ritmálssafni Árnastofnunar er reyndar notuð sögnin standa, eins og Jón G. Friðjónsson bendir á í Merg málsins. Það dæmi er úr þýðingu eftir séra Snorra Björnsson á Húsafelli frá seinni hluta 18. aldar: „En það stoðar ekki fljóð / enginn roð við honum stóð.“ En elsta dæmi um myndina hafa ekki roð við er í Smásögum Magnúsar Stephensen frá 1820: „þótt dável smakkaðist Pétri tárið jafnaðarlega, hafði hann ekki roð við.“ Sambandið verður þó ekki algengt fyrr en fer að líða á tuttugustu öld, einkum á síðasta þriðjungi hennar.

En um það leyti fara einnig að koma fram tilbrigði í orðasambandinu eins og fram kemur hjá Jóni G. Friðjónssyni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2007: „Orðatiltækið hafa ekki roð við einhverjum 'vera hvergi nærri eins góður í einhverju og einhver; standa einhverjum langt að baki' vísar til hunda sem slást um (togast á um) fiskroð og annar hefur ekki við hinum. Vísunin hlýtur að vera gagnsæ í hugum flestra en hún fer fyrir ofan garð og neðan ef ekki er valin rétt forsetning […].“ Þarna er Jón að vísa til dæma þar sem forsetningin í er notuð í stað við. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1980: „Eastwood karlinn er einnig í essinu sínu sem hinn fámáli, ódrepandi karlpeningur sem enginn hefur roð í.“

Iðulega er það þó ekki bara forsetningin sem breytist, heldur einnig sögnin – eiga kemur í stað hafa. Elsta dæmi um það er í Tímanum 1983: „KR-ingar, sem nú nálgast óðum fyrstu deildina, áttu aldrei roð í Valsmenn.“ Nokkur næstu dæmi eru einnig úr Tímanum en fljótlega fylgja fleiri blöð á eftir. Í Þjóðviljanum 1984 segir: „enduðu svo yfirleitt með því að reyna að gefa háar sendingar á Jón Oddsson og Ingólf Ingólfsson, sem áttu ekki roð í hávaxna miðverði IBK.“ Í Helgarpóstinum 1984 segir: „Rush átti ekki roð í KR-vörnina.“ Í Morgunblaðinu 1987 segir: „Keppinautar Helgu áttu ekki roð í hana í þetta skipti.“ Í Fréttum 1988 segir: „Ég held að Eyjastrákarnir bíði lægri hlut úr viðureigninni, þeir eiga ekkert roð í þá japönsku.“

Það er auðvitað rétt sem Jón G. Friðjónsson segir að vísunin í orðasambandinu „fer fyrir ofan garð og neðan ef ekki er valin rétt forsetning“. Hins vegar held ég að það sé alls ekki rétt að vísunin sé „gagnsæ í hugum flestra“. Ég held að fæstir málnotendur hafi séð hunda togast á um fiskroð og sú vísun skipti engu máli fyrir skilning þeirra á orðasambandinu – enda hefði það varla breyst ef svo hefði verið. Enda er það einmitt eðlileg þróun fastra orðasambanda – þau eru gagnsæ í upphafi en fara smátt og smátt að lifa sjálfstæðu lífi og tengslin við upprunann dofna eða rofna algerlega. Fyrir nútíma málnotendum er hafa ekki roð við bara orðasamband með ákveðna merkingu sem þarf að læra, óháð vísun, og eins hægt að segja eiga ekki roð í.

En þótt rofin tengsl við uppruna leiði til þess að sambandið gat breyst skýra þau ekki að það skyldi breytast. Á því kann ég svo sem enga skýringu en hugsanlegt er að áhrif frá eiga séns í sem hefur sömu merkingu spili þar inn í. Hvað sem því líður er ljóst að orðasambandið hefur breyst – langalgengasta mynd þess í Risamálheildinni er sú þar sem bæði sögn og forsetning breytist, eiga ekki roð í. Um hana eru rúm sjö hundruð dæmi en dæmin um eldri myndina, hafa ekki roð við, rúmlega þrjú hundruð, og dæmin þar sem aðeins forsetningin breytist, hafa ekki roð í, rúmlega hundrað. Vegna aldurs og tíðni myndanna eiga/hafa ekki roð í er engin ástæða til annars en telja þær góðar og gildar við hlið eldri myndarinnar hafa ekki roð við.

Að neita fyrir

Í Málvöndunarþættinum sá ég að verið var að gera athugasemd við orðalagið „neita fyrir mistök“ í Facebookfærslu sem DV tók upp. Það er ekki einsdæmi – þetta orðalag hefur verið tekið fyrir í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu, fyrst 2013: „Ósiður í sókn: „að neita fyrir e-ð“. Hreinn óþarfi, því hægt er að neita því, þverneita því, þræta fyrir það, þvertaka fyrir það og synja fyrir það – vilji maður ekki játa það.“ Árið 2016 sagði svo í sama dálki: „Að neita merkir að segja nei við e-u – eða hafna e-u: neita (til)boði. Ennfremur að þræta fyrir e-ð („Hann neitaði því að hafa borðað allar pönnukökurnar einn“) og þvertaka fyrir e-ð. Að „neita fyrir“ e-ð, sem stundum sést („Reyndu ekki að neita fyrir þetta!“), er líkast til samsláttur.“

Vissulega er neita fyrir ekki mjög gamalt – líklega innan við 40 ára. Elsta dæmi sem ég hef rekist á er í Heimsmynd 1987: „Hún hefur alla tíð neitað fyrir það.“ Í Bæjarins besta 1989 segir „hann gæti því ekki neitað fyrir að sárin væru af manna völdum“ og í sama blaði sama ár segir „Jón Friðgeir kvaðst ekki geta neitað fyrir að þetta væri rétt“. En annars fer þetta ekki að sjást fyrr en eftir aldamót. Í Orðlaus 2002 segir: „Fyrstu viðbrögð hans verða líklega þau að neita fyrir þetta.“ Í sama blaði 2004 segir: „Pollard neitaði fyrir að njósna um Bandaríkin.“ Í DV 2004 segir: „Hann reyndar neitaði fyrir það í samtali við blaðamann eftir leikinn.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Hann sýnir ekki góða fyrirmynd með því að neita fyrir lítið umferðarlagabrot.“

En þar með er ekki öll sagan sögð. Auk grunnsagnarinnar neita eru til samsetningarnar harðneita og þverneita sem merkja það sama – að viðbættri áherslu. Sambandið harðneita fyrir er álíka gamalt og neita fyrir – elsta dæmið er í Vikunni 1988: „Gvendur harðneitaði fyrir að hann hefði neinar syndsamlegar hugsanir í huga.“ En þverneita fyrir er miklu eldra. Í Heimskringlu 1941 segir: „Eg get ekki þverneitað fyrir það.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Hauptmann þverneitaði fyrir allt.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1963 segir: „þeir höfðu ekkert látið frá sér fara, sem ekki var hægt að þverneita fyrir.“ Í Dagblaðinu 1979 segir: „Unglingarnir játuðu fyrir honum sömu lexíuna sem þau svo þverneituðu fyrir að nokkrum tíma liðnum.“

Tíðni sambandsins neita fyrir hefur aukist mjög ört á síðustu árum – í Risamálheildinni er a.m.k. á sjöunda hundrað dæma um það. Ástæðan fyrir því að þverneita ryður þarna brautina eru væntanlega einkum áhrif frá þvertaka fyrir eins og áður er nefnt – það má kalla það samslátt ef fólk vill. En við þetta bætast svo önnur sambönd svipaðrar merkingar sem hafa fyrir og einnig voru nefnd áður, eins og þræta fyrir og synja fyrir. Það er mjög eðlilegt og skiljanlegt að neita verði fyrir áhrifum frá þeim, og ekkert athugavert við það. Engin leið er að halda því fram að það sé „rökrétt“ að nota fyrir með þvertaka, þræta og synja en ekki með neita – það er bara venja sem getur breyst. Og hún er að breytast – fyrir íslensk áhrif, ekki ensk. Það er í góðu lagi.

Strámaður

Hér var í dag spurt um merkingu orðsins strámaður. Það er bein þýðing enska sambandsins straw man sem merkir 'an argument, claim, or opponent that is invented in order to win or create an argument' eða 'röksemd, staðhæfing, eða andstæðingur sem er fundið upp í þeim tilgangi að vinna deilu eða búa til röksemd'. Þetta orð er sem sé notað þegar búinn er til ímyndaður andstæðingur í rökræðum og skoðanir hans síðan sallaðar niður, eða þegar raunverulegum andstæðingum eru gerðar upp skoðanir sem síðan eru hraktar. Oft er það þá gert á þann hátt að hinar tilbúnu skoðanir eru látnar líta út sem eðlilegt framhald af einhverju sem hefur verið haldið fram í rökræðum – þarna er verið að segja hálfsannleik eða beita blekkingum.

Orðið straw man merkir bókstaflega 'brúða eða fuglahræða úr hálmi‘ – straw merkir 'hálmur' eða 'hálmstrá'. Orðið strámaður er gefið í merkingunni 'Straamand' í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, að vísu með spurningarmerki, og dæmi eru um að orðið hafi verið notað í íslensku í þessari merkingu. Í Austra 1900 segir: „Englendingar læddust með mestu varkárni að herbúðunum og fundu þar – strámann(!) á verði fyrir framan tjöldin.“ Í Fálkanum 1951 segir: „Til þess að gera hjátrúarfullum gestum til geðs hefir gistihússtjóri einn í Chicago látið búa sér til „strámann“, sem hann getur gripið til, er svo stendur á að 13 gestir eiga að borða saman. Þetta er brúða í venjulegri mennskri stærð, og heitir Lúðvík XIV.“ En slík dæmi eru sárafá.

Yfirfærð merking sambandsins er þekkt síðan á 19. öld og líkingin er vitanlega augljós – fuglahræðunni er ætlað að blekkja fugla, láta þá halda að um mannveru sé að ræða, rétt eins og  strámaður í rökræðu er búinn til í blekkingarskyni. En blekkingin getur verið á fleiri sviðum en í rökræðum. Önnur skýring á straw man er 'someone, often an imaginary person, who is used to hide an illegal or secret activity' eða 'einhver, oft tilbúin mannvera, sem er notuð til að fela ólöglegar eða leynilegar athafnir'. Þetta er sem sé svipað því sem hefur verið kallað leppur í íslensku og er skýrt 'sá sem að nafninu til er talinn eigandi eða stjórnandi e-s' eða 'handbendi' í Íslenskri orðabók. Flest dæmi frá 20. öld um orðið strámaður í íslensku eru flest af þessu tagi.

Í Austra 1900 segir: „þá er okkur það þó auðsjen huggun að þjer gleymið ekki á meðan að það eru »strámennirnir« íslensku sem hreiðrað hafa um yður í fletinu þar sem þjer liggið nú.“ Í Lögbergi 1904 segir: „Sumir borgarstjórarnir hafa ekki verið annað en málamyndar-borgarstjórar (strámenn).“ Í Austra 1905 segir: „Þessi milliliður, sem í sjálfu sér er lántökunni og lánveitingunni óviðkomandi, er einskonar „strámaður“.“ Í Samvinnunni 1959 segir: „Maður getur losnað við alla ábyrgð og áhættu sjálfur, haft bara „strámenn“, skilurðu.“ Í Tímanum 1980 segir: „Norðmennirnir veiddu hér í landhelgi og fóru í kringum lögin með því að láta einstaka menn hafa hér vetursetu, eða með því að nota íslenska „leppa“ eða „strámenn“.“

En það er ekki fyrr en á þessari öld sem strámaður sést í merkingunni sem vísað er til í fyrstu efnisgrein, 'tilbúin röksemd eða andstæðingur'. Örfá dæmi eru á samfélagsmiðlum frá 2004 og 2005, en elsta dæmið á tímarit.is er í Fréttablaðinu 2006: „Þess í stað eru reist ímynduð vígi orðræðunnar þar sem stjórnmálamaður getur ótruflaður skotið billegum skotum á strámenn.“ Í Lesbók Morgunblaðsins sama ár segir: „Það er ódýrt að gera strámann úr femínískri heimspeki eða heimspeki mismunarins, eins og hún er oft kölluð nú á dögum, með því að skilja hana á þann hátt sem Eyjólfur gerir.“ Í Fréttablaðinu 2010 segir: „Andstæðingar Dawkins eru því gjarnir á að mála skrattann á vegginn; búa til strámann sem þeir síðan ráðast gegn.“

Dæmum um orðið hefur fjölgað mjög að undanförnu, einkum á síðustu tíu árum. Í Risamálheildinni eru rúm þúsund dæmi um strámaður, væntanlega langflest í merkingunni 'tilbúin röksemd eða andstæðingur'. Vitanlega má deila um hversu heppilegt þetta orð sé – mörgum er meinilla við allar slíkar yfirfærslur úr ensku jafnvel þótt orðhlutarnir séu íslenskir. En eins og hér hefur verið sýnt er orðið meira en hundrað ára gamalt í málinu þótt merkingin hafi lengstum verið svolítið önnur en nú. Spurningin er hvort við höfum eitthvert annað orð sem hægt sé að nota fyrir þessa merkingu – þótt náinn skyldleiki sé með merkingartilbrigðunum finnst mér ekki hægt að nota orðið leppur um hana. Þar sem strámaður er greinilega komið í töluverða notkun held ég að rétt sé að mæla með að við höldum okkur við það orð.

Sumarlandið

Eitt algengasta orðið í minningargreinum um þessar mundir er sumarland – sagt er að fólk sé farið í sumarlandið eða til sumarlandsins og sé nú í sumarlandinu. Af rúmum tvö þúsund dæmum um orðið sumarland í Risamálheildinni eru nærri þrír fjórðu, tæplega fimmtán hundruð, úr minningargreinum í Morgunblaðinu, til dæmis þessi: „Nú er hann horfinn okkur í sumarlandið, þar munum við hittast síðar“; „Góða ferð til sumarlandsins bjarta kæri vinur“; og „Ég elska þig og við sjáumst í sumarlandinu.“ Það fór að bera á þessari notkun upp úr aldamótum en hún jókst mikið um 2010 og alveg sérstaklega um 2015. En þrátt fyrir þessa miklu tíðni orðsins er það hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók.

Hins vegar er sumarland flettiorð í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar sem var gefinn út 1963, en þar kemur þessi merking ekki fram heldur er orðið eingöngu þýtt sem 'sommerland' sem merkir 'sumardvalarstaður', 'sumarbústaðaland' eða slíkt. Sú merking kemur til um miðja tuttugustu öld að því er virðist. Í Vísi 1953 segir: „Laxárnar freista margra veiðimanna, og margar fjölskyldur úr Reykjavík eiga sér nú orðið sumarlönd í Borgarfirði.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Þórður telur að ásókn í land undir sumarbústaði í Reykhólasveit muni aukast enda sé þar mikið af fallegum sumarlöndum.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Í mörg sumur hafa þau hjónin komið í sumarlandið okkar með tjaldvagninn sinn og sett sig þar niður í litlu rjóðri.“

En elsta dæmi um orðið á tímarit.is er í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1861: „sumarland allgott fyrir málnytu, en fjall-land óhægt að nota.“ Þarna merkir orðið sem sé 'sumarbeitiland' og þá merkingu hefur það í mörgum af elstu dæmunum, t.d. í Þjóðólfi 1883: „Sumarland rýrt fyrir sauðfé en þénugra fyrir nautpening.“ Einnig er talað um dvalarstaði fugla sem sumarlönd, bæði innanlands og utan: „Myndir þessar eru úr rannsóknarleiðangri Finns Guðmundssonar og fuglafræðinganna brezku, sem dvöldust vikum saman í sumarlöndum heiðagæsarinnar undir Hofsjökli“ segir í Tímanum 1951, og í sama blaði 1961 segir: „Nú voru allar heilbrigðar kríur flognar úr landi – lagðar af stað í ferðina miklu til nýrra sumarlanda langt suður í heimi.“

Ég stóð í þeirri merkingu að nútímamerkingin, 'himnaríki' eða eitthvað slíkt, væri nýleg, og vissulega hefur notkun hennar margfaldast á síðustu árum – en hún er þó fjarri því að vera ný. Þessi merking virðist koma fyrir í kvæði eftir Matthías Jochumsson í Lögbergi 1898: „ávalt sjeð inn góði getur / guðs in dýru sumarlönd.“ Í kvæði sem sagt er frá 17. öld í Verði ljós! 1904 segir: „sýndu oss eilíf sumarlönd / þá sviftir af dauða stríðum.“ Í erfikvæði í Heimskringlu 1910 segir: „Það kent var okkur ungum, þá að bar dauða manns, / að englar bjartir kæmu og tækju sálu hans. / Þeir fluttu’ hana frá vetri á sólrík sumarlönd.“ En þarna er alltaf talað um sumarlönd í fleirtölu og án greinis, sem er frábrugðið þeirri notkun orðsins sem hefur tíðkast lengst af.

Sú notkun mun upphaflega vera komin úr ritum spíritista. Í grein eftir Arthur Conan Doyle í þýðingu Haraldar Níelssonar og Einars H. Kvaran í Ísafold 1916 segir: „Þau staðfesta, að til sé “Sumarland” eða himnaríki og halda því fram, að allir menn eigi að lokum að fá þar hvíld.“ Í grein eftir Einar H. Kvaran í Morgni, tímariti Sálarrannsóknafélags Íslands, segir 1933: „Þá er þriðja sviðið. Það hefur oft í ritum spíritista verið nefnt Sumarlandið.“ Í Morgni 1963 segir: „Hann segir, að fyrst eftir að menn hverfi héðan lifi þeir venjulega um lengri eða skemmri tíma á þeim sviðum sem Grikkir nefndu Hadesarheim,, guðspekingar mundu kalla geðheima, en hann kallar Blekkingaheiminn (the Plane of Illusion). Spíritistar kalla þetta stundum Sumarlandið.“

Þessi notkun orðsins sumarlandið er nokkuð algeng langt fram eftir 20. öld. Í Fuglinum í fjörunni eftir Halldór Laxness frá 1932 segir: „Nú bið ég um að mega kveðja þig einsog ástvin sem er að deya. Þú líður til sumarlandsins fagra.“ Í skáldsögu Halldórs Höll sumarlandsins, frá 1938, segir: „og þó við förum á mis við ýmislegt smávegis í þessum heimi, þá bíður hamíngjan okkar í sumarlandinu þángað sem ástvinir okkar eru farnir á undan okkur.“ Í Degi 1932 segir: „Varpa eg nú þeim kveðjuorðum að moldum þínum og minningu. Má og vera að hljóðnæmt eyra þitt nemi þau orð mín á sumarlandinu sólarmegin.“ Í minningargrein í Viðari 1939 segir: „Í hug mér sé ég hann í sóllýstu sumarlandi, þar sem loftið angar af ilmi unaðslegra blóma.“

En á þremur síðustu áratugum tuttugustu aldar var þessi notkun orðsins sárasjaldgæf að því er virðist – ekki nema eitt og eitt dæmi á stangli á tímarit.is þrátt fyrir að minningargreinum færi fjölgandi. Ef til vill tengist það dalandi gengi spíritismans en tímarit Sálarrannsóknafélagsins, Morgunn, gaf upp öndina 1998 og í síðasta tölublaðinu sem kom út segir: „Nú á síðari árum hafa stöku sinnum heyrst raddir um að spíritisminn sé á undanhaldi á Íslandi.“ Af einhverjum ástæðum fór þetta orðalag svo aftur á flug upp úr aldamótum eins og áður segir, væntanlega alveg óháð spíritismanum, og kemur nú fyrir í eftirmælum flestra sem skrifað er um. Það má segja að það hafi verið komið í sumarlandið en snúið aftur tvíeflt.

Gildisrýr gildi?

Á vef Ríkisútvarpsins sá ég fyrirsögnina „Verður forseti sem leggur áherslu á gildi“. Þetta var haft eftir Katrínu Jakobsdóttur en fleiri forsetaframbjóðendur hafa talað á svipaðan hátt. „Halla hrærð og vísar í íslensku gildin“ var fyrirsögn á mbl.is í upphafi kosningabaráttu Höllu Hrundar Logadóttur, Halla Tómasdóttir hefur birt auglýsingu með fyrirsögninni „5 gildi íslensku þjóðarinnar“, Arnar Þór Jónsson segir „ég byggi mitt líf á kristnum gildum“ og vel má vera að Baldur Þórhallsson, Jón Gnarr og fleiri frambjóðendur hafi rætt um gildi sín eða þjóðarinnar án þess að ég hafi rekist á það í fljótu bragði. Ég minnist þess ekki að þetta orð hafi áður verið svo áberandi í kosningabaráttu og fannst þess vegna forvitnilegt að skoða notkun þess aðeins nánar.

Í framangreindum dæmum merkir gildi 'grundvallarviðmið í hópi eða hjá einstaklingi sem markar afstöðu og athafnir' eins og segir í Íslenskri orðabók. En þótt þessi merking sé svo algeng í nútímamáli að nánast sé hægt að tala um gildi sem tískuorð virðist hún ekki vera gömul, sem marka má af því að hana er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók, ekki í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, og ekki heldur í prentútgáfum Íslenskrar orðabókar. Í vefútgáfu bókarinnar á Snöru er hins vegar búið að bæta við skýringunni sem að framan greinir, með dæmunum kristileg gildi og hafa í heiðri gömul og góð gildi. Tekið er fram að í þessari merkingu sé um fleirtöluorð að ræða en í öðrum merkingum er orðið notað í eintölu.

Í flestum elstu dæmum um þessa notkun orðsins gildi er það notað í þeim orðasamböndum sem nefnd eru í Íslenskri orðabók. Elsta dæmið er í Kirkjublaðinu 1935: „Í trúarbrögðunum hefir ný þekking og gagnrýni valdið mörgum efasemdum og veikt traust margra á gömul gildi.“ Í Tímanum 1944 segir: „Gömul gildi eru sífellt tekin til nýrrar gagnrýni og endurmat þeirra fer fram.“ Í Tímanum 1968 segir: „hafði því opin augu fyrir nýungum, en var um leið fastheldinn á gömul og góð gildi.“ Í Vísi 1980 segir: „Við reynum að leiða fólki fyrir sjónir, hvað hin kristnu gildi eru mikil.“ Í Tímanum 1981 segir: „þessir menn, sem tekið hafa kristileg gildi og snúið þeim upp á pólitík, [...] eru orðnir að staðreynd í bandarísku stjónmálalífi.“

Seinna er svo farið að tala um íslensk gildi – elsta dæmi sem ég finn um þau er í Þjóðviljanum 1980: „Afnám refsinga vegna eignar eða notkunar kannabisefna í einrúmi er samhljóða hefðbundnum íslenskum gildum um persónulegt valfrelsi, frelsi einstaklingsins og réttinum um friðhelgi einkalífsins.“ Í viðtali í Skagablaðinu 1988 segir: „ég er í raun meiri íslendingur í mér en Dani. Íslensku gildin höfða meira til mín, jafn fáránleg og þau eru nú sum hver.“ Í Morgunblaðinu 1990 segir: „Hin gömlu íslensku gildi, gestrisni og nægjusemi, voru alls ráðandi.“ Önnur gildi sem dæmi eru um fram til 1990 eru hefðbundin gildi, lýðræðisleg gildi, borgaraleg gildi, vestræn gildi, kvenleg gildi, siðferðileg gildi, mjúk gildi og fleiri.

Um 1990 tekur notkun orðsins mikið stökk, og þó sérstaklega um aldamótin, og er enn að aukast – dæmi um hana í Risamálheildinni skipta mörgum þúsundum og jafnvel tugum þúsunda. Þótt gildi sé auðvitað gott og gilt íslenskt orð að uppruna er ekki fráleitt að ætla að mikla notkun þess megi að einhverju leyti rekja til áhrifa frá enska orðinu value en þar hefur fleirtalan values líka aðra merkingu en eintalan, þ.e. 'the beliefs people have, especially about what is right and wrong and what is most important in life, that control their behaviour'. Auðvitað er ekkert að því að forsetaframbjóðendur leggi áherslu á gildi – en hætt er við að mikil notkun orðsins valdi því að oft komi það út sem merkingarlaus klisja án nokkurs raunverulegs innihalds.

Að nota og notast við

Hér hefur oftsinnis verið rætt um merkingarbreytingu sem hefur orðið á sambandinu notast við um áhald, aðferð o.fl. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'gera sér að góðu að brúka e-ð (lélegt eða óheppilegt)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er notast við <áhaldið> skýrt 'nota áhaldið (sem heldur lakari kost)'. Aftur á móti er sögnin nota hlutlaus – með notkun hennar er ekki tekin afstaða til þess hversu heppilegt viðkomandi áhald eða aðferð er. En þetta hefur verið að breytast og notast við er nú oft notað í hlutlausri merkingu. Það er óheppilegt vegna þess að oft getur komið sér vel að geta gert þann greinarmun sem var á nota og notast við, og þetta getur oft valdið misskilningi hjá þeim sem hafa alist upp við hefðbundna merkingu notast við.

Það er erfitt að negla nákvæmlega niður hvenær merking notast við fór að breytast, m.a. vegna þess að samhengið dugir ekki alltaf til að sýna ótvírætt hver hugur mælanda eða höfundar er til þess sem um er rætt. Í Morgunblaðinu 2020 segir t.d.: „Hugmyndin var sú fyrst maður var að fara að brugga fyrir norðan að notast við einhverja norðlenska vöru.“ Hefur sambandið notast við hlutlausa merkingu þarna, eða þýðir þetta að norðlenska varan sé talinn síðri kostur en annað? Það er kannski ekki trúlegt. Stundum er þó augljóst að um hlutlausa merkingu er að ræða, eins og í Fréttablaðinu 2020: „Eingöngu er notast við fyrsta flokks efni bæði innan og utandyra.“ Varla er ástæða til að ætla að notkun fyrsta flokks efnis sé eitthvert neyðarbrauð.

Lausleg athugun bendir til þess að notkun sambandsins notast við fari að breytast á níunda áratugnum – þá fara að sjást stöku dæmi þar sem sambandið virðist ekki hafa neina neikvæða vísun. Þessi dæmi eru þó fá framan af, en frá því um aldamót virðist verulegur hluti dæma um notast við hafa hlutlausa merkingu. Forsendan fyrir því að þetta gat breyst er sú sem að framan greinir, þ.e. oft er ekki hægt að átta sig á þeirri merkingu sem notandi sambandsins leggur í það og því hægt að skilja það á annan hátt en lagt var upp með. En þetta er bara forsenda fyrir því að breytingin gat átt sér stað, ekki skýring á því hvers vegna hún varð í raun og veru. Ástæðuna kann ég ekki að skýra – en þótt þetta sé óheppilegt verður því varla snúið við héðan af.