Verðið getur lækkað skart

Í morgun sá ég í frétt á vef Ríkisútvarpsins: „Verð hlutabréfa getur lækkað skart ef margir selja með skammtímagróða í huga.“ Það er ljóst af samhenginu að skart er þarna atviksorð sem merkir ‘snöggt og mikið’ eða eitthvað slíkt. Orðið er hins vegar ekki að finna í neinum orðabókum, og skömmu eftir að umrædd frétt birtist hafði skart verið breytt í skarpt – sem er raunar ekki heldur sjálfstætt flettiorð í orðabókum en er greinilega leitt af hvorugkyni lýsingarorðsins skarpur. Það er alkunna að hvorugkyn lýsingarorða er iðulega notað sem atviksorð án þess að ástæða þyki til að gera það að sjálfstæðri orðabókarflettu vegna þess að merkingin er fullkomlega fyrirsjáanleg út frá lýsingarorðinu.

Það er ekki einsdæmi að myndin skart sjáist í rituðu máli. Slæðing af dæmum má finna á tímarit.is – það elsta sem ég fann er í Harðjaxli laga og réttar 1924: „Ég heilsaði Tryggva svo skart yfir salinn, að þeim, sem á milli okkar var, kendi til.“ Í Lindinni 1957 segir: „þá var kippt svo skart í færið hjá honum að hann fór á hausinn út í vatn.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Þegar líður að þessum árstíma gengur síldin mjög skart á grynningar.“ Í NT 1985 segir: „Það brimaði mjög skart á miðvikudagskvöldið.“ Þetta er sérstaklega algengt með sögnunum hækka og lækka. Í Degi 1999 segir: „Gengið á bönkunum hefur hækkað mjög skart.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Vextir lækkuðu skart í kjölfarið.“ Í Risamálheildinni eru hundruð dæma um skart.

Þessi dæmi eru alltof mörg til að afgreiða þau sem prentvillur – þau sýna að í huga þeirra sem nota skart sem atviksorð er það sjálfstætt orð, án tengsla við skarpur. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt. Klasinn -rpt- er nánast óframberanlegur og einfaldast ævinlega í framburði, þannig að miðsamhljóðið fellur brott eins og algengast er í slíkum tilvikum og framburðurinn verður skart. Það er í raun alveg hliðstætt við það að þegar hvorugkynsendingin -t bætist við stofn lýsingarorða eins og harður og kaldur kemur út hartkalt en ekki *harðt, *kaldt – nema í því tilviki er einföldun klasans viðurkennd í stafsetningu. Raunar getur skart líka verið hvorugkyn af lýsingarorðinu skarður og þá er brottfallið viðurkennt í stafsetningunni.

Í dæmum eins og þessum, þar sem hljóð í stofni fellur ævinlega brott í framburði tiltekinnar orðmyndar, skiptir máli hversu augljós merkingartengsl viðkomandi myndar við stofninn eru í huga málnotenda. Ef þau eru augljós getur brottfallna hljóðið orðið hluti af hugmynd þeirra um myndina og kemur fram í því hvernig hún er rituð, eins og í verpt, af verpa. Séu tengslin hins vegar óskýr eru líkur á að í huga málnotenda verði viðkomandi mynd án brottfallshljóðsins og það endurspeglist þá í rithætti hennar. Lýsingarorðið skarpur hefur nokkur merkingartilbrigði en ekkert þeirra svarar nákvæmlega til þeirrar merkingar sem afleidda atviksorðið skar(p)hefur nema helst ‘beittur, hvass’ þótt vissulega sé stundum talað um skarpa lækkun hækkun.

Þessi merkingartengsl eru þó svo óljós að það er ekkert óeðlilegt að fólk sem heyrir atviksorðið skart notað tengi það ekki við lýsingarorðið skarpur og verði þess vegna ekki hluti af hljóðmynd fólks af orðinu heldur verði til nýtt og sjálfstætt atviksorð – skart. Við það er í raun ekkert að athuga. Orðið skart fellur fullkomlega að málinu, ekki síður en hart og bjart. Vissulega er hægt að koma með þá mótbáru að með því að skrifa orðið án glatist tengslin við uppruna þess, en þau tengsl eru hvort eð er óljós í huga margra og alveg eins má halda því fram að rithátturinn hart sé óheppilegur af því að hann sýni ekki tengslin við harður. Ég legg sem sé til að skart, ritað á þann hátt, sé viðurkennt sem sjálfstætt atviksorð í íslensku.

Mikilvægi umræðu um íslenskukunnáttu á vinnumarkaði

Í athyglisverðri grein eftir formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á vef Vísis í gær er fjallað um fjölgun erlendra hjúkrunarfræðinga á Íslandi og vandamál sem af henni geti hlotist. Þar kemur fram að í Danmörku hafi árið 2023 verið „felld niður krafa um danskt tungumálapróf, bara hjá hjúkrunarfræðingum en ekki öðrum heilbrigðisstéttum. Í kjölfar þeirra ákvörðunar varð bein aukning í tilvikum þar sem öryggi sjúklinga var ógnað vegna tungumálavankunnáttu.“  Í greininni segir einnig: „Hér á landi er ekki gerð krafa um íslenskukunnáttu hjúkrunarfræðinga og eru mörg dæmi þess að það hefur bitnað á þjónustunni til okkar skjólstæðinga.“ Þetta er vitaskuld alvarlegt mál ef rétt er – sem ég hef enga ástæðu til að efast um.

Eins og ég hef áður skrifað um getur verið málefnalegt og eðlilegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu til þeirra sem sinna ákveðnum störfum sem fela í sér málleg samskipti við þjónustuþega. Þetta á einkum við í störfum þar sem mikilvægt er að ekkert fari milli mála – í bókstaflegri merkingu – svo sem i ýmsum störfum í heilbrigðiskerfinu. Slíkar kröfur eiga ekkert skylt við rasisma, en vandinn er hins vegar sá að oft virðast kröfur um tungumálakunnáttu byggjast á einhverju öðru en mikilvægi kunnáttunnar sjálfrar. Áðurnefnd breyting í Danmörku hefur væntanlega verið gerð til að bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum – ólíklegt er að hún byggist á rannsóknum sem sýni að dönskukunnátta skipti minna máli en áður var talið.

Umræðan um kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra er sama marki brennd. Hún sprettur upp í tengslum við ýmss konar óánægju með fjölgun leigubílstjóra og ástandið á leigubílamarkaðnum. Í henni er ýmsu blandað saman og þótt kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra kunni að vera málefnalegar verður ekki annað séð en verið sé að nota þær sem yfirskin til að losna við leigubílstjóra sem þykja óæskilegir af öðrum ástæðum. Þetta dæmi, og niðurfelling dönskuprófs hjúkrunarfræðinga í Danmörku, sýnir hvernig kröfur um tungumálakunnáttu stjórnast stundum af atvinnuástandi í tilteknum starfsgreinum frekar en af hagsmunum og öryggi viðskiptavina og sjúklinga – hvað þá hagsmunum tungumálsins.

Í greininni sem vísað var til í upphafi segir enn fremur: „Á meðan ekki er gerð krafa um íslenskukunnáttu af hálfu yfirvalda, freistast einstaka stofnanir til að ráða hjúkrunarfræðinga af erlendu þjóðerni til starfa áður en þeir geta átt full samskipti við sína skjólstæðinga og fylgja því jafnvel ekki eftir að þeir læri íslensku. Í þjóðfélaginu er iðulega rætt um íslenskukunnáttu ýmissa stétta. Fólk hefur pirrað sig á því að geta t.d. ekki átt samskipti á íslensku á veitingahúsum við starfsfólk og nýverið lýsti innviðaráðherra því yfir að leigubílstjórar ættu að vera skyldugir til að læra íslensku, það yrði gert af tilliti við öryggi farþega. Ég spyr því, af hverju á eitthvað annað að gilda fyrir hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk?“

Þetta er umræða sem mikilvægt er að fari fram hér – málefnaleg umræða, byggð á skýrum rökum, um hvort eðlilegt sé að gera kröfur um íslenskukunnáttu á ýmsum sviðum og til ýmissa starfa – og þá hvaða kröfur, og til hvaða starfa. Slík umræða verður að vera raunsæ og taka mið af því að innflytjendur eru ómissandi á íslenskum vinnumarkaði og halda ýmsum starfsgreinum gangandi, og einnig af því að tungumál lærist ekki á einni nóttu og eðlilegt er að fólk fái aðlögunartíma og því séu sköpuð skilyrði til námsins. En það verður að vera hægt að ræða þetta án þess að umræðan fari strax í skotgrafir og fólki sé ýmist brugðið um rasisma, útlendingahatur og þjóðrembu eða þá skeytingarleysi gagnvart íslenskunni og lítilsvirðingu í garð hennar.

Þiggur þotu af Katörum – eða Köturum

Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í gær segir: „Trump ætlar að þiggja þotu af Katörum.“ Orðið Katörum er þágufall fleirtölu af íbúaheitinu Katari – í Málfarsbankanum segir: „Íbúar í landinu Katar (ef. Katars) nefnast Katarar.“ (Reyndar er katarar einnig til sem heiti á kristnum trúflokki en það skiptir ekki máli í þessu sambandi.) Samkvæmt íslenskum beygingarreglum er eðlilegt og óhjákvæmilegt að a í síðasta atkvæði stofns verði fyrir áhrifum frá u í beygingarendingu og þess vegna fáum við ö í Katörum – það væri óhugsandi að halda a-inu og segja *Katarum. Myndin Katörum er líka sú eina sem er gefin fyrir þágufall fleirtölu í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls – en hún er samt ekki sú eina sem kemur til greina.

Það væri nefnilega líka hugsanlegt að breyta seinna a-inu í stofninum í u og því fyrra í ö og fá Köturum – og sú beyging er reyndar til. Á tímarit.is eru fimm dæmi um Köturum en 18 um Katörum, og í Risamálheildinni rúm 20 um Köturum en tæp 60 um Katörum. Ef við skoðum orð með hliðstæða stofngerð við Katari kemur í ljós að þau breyta nær öll báðum a-unum í stofninum. Þágufall fleirtölu af gatari er göturum, ekki *gatörum, af hatari höturum, ekki *hatörum, af matari möturum, ekki *matörum, o.fl. Þjóðflokksheitið Tatari er þó undantekning – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er vissulega aðeins gefin upp myndin Töturum í þágufalli fleirtölu en á tímarit.is má þó finna á fjórða tug dæma um myndina Tatörum.

Tvímyndir af þessu tagi eru sannarlega ekki einsdæmi. Alþekkt er að þágufall fleirtölu af banani getur verið bæði banönum og bönunum, af sandali bæði sandölum og söndulum, og af Japani bæði Japönum og Jöpunum þótt það síðarnefnda sé vissulega sjaldgæft. Sameiginlegt með öllum þeim orðum þar sem tvímyndir koma fyrir er að þau eru tökuorð – orð af íslenskum stofni virðast aldrei leyfa myndir þar sem aðeins seinna a-ið i stofninum breytist, eins og *gatörum, *hatörum, *matörum. Það má þess vegna halda því fram að myndirnar Köturum, Töturum, Jöpunum, bönunum og söndulum séu í betra samræmi við málkerfið, séu „íslenskulegri“ í vissum skilningi en myndirnar Katörum, Tatörum, Japönum, banönum og sandölum.

Þótt erfitt sé að slá nokkru föstu um þróun tökuorðanna sýnist mér ritmálsdæmi benda til að þau aðlagist beygingakerfinu í skrefum – byrji yfirleitt á því að breyta aðeins seinna a-inu, eins og Katörum, en taki síðar smátt og smátt upp beygingarmynstur íslensku orðanna og þá koma til myndir eins og Köturum. Það er þó misjafnt eftir orðum hversu hratt þetta gerist og jafnvel hvort það gerist yfirleitt – orð eins og Albani verður t.d. aldrei *Ölbunum í þágufalli fleirtölu. Það er samt sem áður ljóst að bæði beygingarmynstrin eiga sér langa hefð í málinu og bæði Katörum og Köturum eru góðar og gildar beygingarmyndir – rétt eins og Tatörum og Töturum, Japönum og Jöpunum, banönum og bönunum, sandölum og söndulum o.s.frv.

Að feðra börn – og mæðra

Það ber sífellt meira á því að merking íslenskra orða hnikist til vegna áhrifa frá ensku. Oft er þá um að ræða orð sem eru orðsifjafræðilega og merkingarlega skyld í íslensku og ensku en merkja ekki alveg það sama, en vegna líkinda orðanna fer merkingarmunurinn fram hjá málnotendum. Eitt slíkt dæmi er sögnin feðra. Hún er gömul í málinu og merkti lengst af 'tilgreina föður að barni' eða 'ákvarða faðerni barns'. Ógiftar konur þurftu að feðra börn sín og stundum þurfti dómsúrskurð til að ákvarða faðerni barns – feðra það. Fyrir kom að ekki tækist að feðra barn þannig að það var ófeðrað, og einnig bar við að börn væru rangfeðruð. Sögnin er líka oft notuð í yfirfærðri merkingu um að 'tilgreina höfund' – feðra kvæði, feðra hugmynd o.fl.

Í seinni tíð er hins vegar algengt að sögnin feðra sé notuð sem samsvörun við ensku sögnina father sem er vissulega orðsifjafræðilega skyld, en merkir hins vegar dálítið annað – 'to become the father of a child by making a woman pregnant', eða 'verða faðir barns með því að gera konu þungaða'. Sú merking var áður tjáð með sögninni geta sem hefur m.a. merkinguna ‚gera konu barn‘ en hefur ekki verið mikið notuð í almennu máli lengi og notkun hennar í ættartölu Jesú Krists í upphafi Mattheusarguðspjalls hefur örugglega vafist fyrir ýmsum: „Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans“ – o.s.frv. Ég man eftir því þegar ég var að læra biblíusögur í barnaskóla að mér fannst þetta mjög undarleg málnotkun.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um þessa nýju merkingu í feðra er í Morgunblaðinu 1976: „Þá á hann ennfremur að hafa feðrað tvíbura og er það einn liður ákærunnar á hendur honum.“ Í Vikunni 1989 segir: „Líffræðilega eru karlar ekki heftir á þennan sama hátt og margir geta feðrað börn langt fram eftir elliárunum.“ Dæmum fjölgar svo á seinni hluta tíunda áratugarins. Í Helgarpóstinum 1996 segir: „Ég hef feðrað fjórtán börn.“ Í Degi-Tímanum 1996: „Svo þótti hann alveg ótrúlega kvensamur og er sagður hafa feðrað fleiri börn en nokkur annar kóngur í Bretlandi fyrr og síðar.“ Í Vikunni 1999 segir: „Alls hefur Quinn feðrað 13 börn en þau voru ekki öll með í för.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Áður hafði hann feðrað stúlkubarn.“

Á sama hátt og sögnin feðra er mynduð af nafnorðinu faðir er vitaskuld hægt að mynda sögnina mæðra af nafnorðinu móðir en eðli málsins samkvæmt hafa verið minni not fyrir hana. Það hefur þó breyst með breyttu fjölskyldumynstri. Í héraðsdómi frá 2015 segir t.d.: „samkvæmt íslenskum lögum er ráð fyrir því gert að eftir að barn fæðist, og hefur verið mæðrað, kunni móðerni þess að vera breytt með ættleiðingu.“ Merking sagnarinnar mæðra er þarna hliðstæð hefðbundinni merkingu sagnarinnar feðra – afleidda nafnorðið mæðrun er í Lögfræðiorðasafni í Íðorðabankanum í merkingunni 'það að ákvarða móðerni barns'. En í samsetningunni staðgöngumæðrun er merkingin hliðstæð nýju merkingunni í feðra, þ.e. 'ganga með/fæða barn'.

Hin nýja merking sagnarinnar feðra virðist smám saman verða algengari þótt eldri merkingin lifi enn góðu lífi. Í fljótu bragði sýnist mér nýja merkingin ekki síst vera notuð þegar um er að ræða sæðisgjafa – „Faðir hans mun hafa feðrað á milli 500 og 1.000 börn þá þrjá áratugi, sem hann vann með sæðisbönkum“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2013. Það eru svo sem ótal dæmi um að orð hafi fleiri en eina merkingu og í þessu tilviki er oftast ljóst af samhenginu um hvora merkinguna er að ræða – í hefðbundinni merkingu eru það t.d. yfirleitt konur (eða dómstólar) sem feðra börn en í nýju merkingunni eru það karlmenn. Samt sem áður gæti nýja notkunin ruglað fólk sem þekkir hana ekki í ríminu og rétt að hafa það í huga ef hún er notuð.

Af handlögnum mönnum – eða handlægnum

Flestum er ljóst að þar sem stafasamböndin gi og gj koma fyrir í rituðu máli er yfirleitt ekki borið fram einhljóð heldur tvíhljóð. Þannig er orðið hagi borið fram eins og það væri skrifað hæji, (ég) segi er borið fram eins og skrifað væri seiji, lögin er borið fram eins og skrifað væri laujin, o.s.frv. Einhljóðið er þarna upprunalegt eins og stafsetningin bendir til en tvíhljóðunin er margra alda gömul hljóðbreyting sem þó hefur ekki náð til alveg allra málnotenda – enn er nokkurt líf í hinum svokallaða skaftfellska einhljóðaframburði þar sem borið er fram langt einhljóð í orðum af þessu tagi. Það er einfalt að gera grein fyrir því hljóðfræðilega umhverfi þar sem tvíhljóðunin varð, en málið er þó flóknara en virðist í fljótu bragði.

Stundum verður tvíhljóðun nefnilega í hljóðumhverfi þar sem hún hefði ekki átt að verða. Þá er um að ræða áhrifsbreytingu frá skyldum orðmyndum þar sem tvíhljóðunin er hljóðrétt. Það er hún t.d. í mörgum myndum sagnarinnar segja – (ég) segi (seiji), (þú) segir (seijir), (við) segjum (seijum), (þau) segja (seija) o.s.frv. Hins vegar ætti ekki að verða tvíhljóðun í boðhættinum segðu því að þar fer ð á eftir g en hvorki i j – en samt sem áður er seigðu hinn venjulegi framburður. Sama er að segja um lýsingarorðið feginn – það er hljóðrétt borið fram feijinn en fleirtalan fegnir er líka borin fram með ei þótt þar fari n á eftir g en hvorki i j. Í spegill er hljóðréttur framburður speigill en ei er líka borið fram í spegli, speglar o.s.frv.

Lýsingarorðið laginn er hljóðrétt borið fram læjinn, en mjög algengt er að tvíhljóðun verði einnig á undan n í afleidda nafnorðinu lagni og það sé borið fram lægni. Í Fjölni 1835 segir t.d.: „ég óskaði mér allrar lægni sem til er.“ Í Nýjum félagsritum 1851 segir: „að læknar velji þá er hæfir eru til þess, bæði að vitsmunum og handlægni.“ En snúnara er að átta sig á því hvernig við förum með orðið laginn og samsetningar af því. Hljóðrétt ætti tvíhljóðun eingöngu að verða í myndunum laginn, lagin, lagið, lagins, laginnar og laginna. Í öðrum myndum, svo sem lagnir, lagna, lagnar, ætti hljóðrétt að bera fram a – nema þar sem beygingarendingin hefst á u. Þar ætti að vera u-hljóðvarp og ö koma í stað a, eins og í lögnum og lögnu.

Vandinn er sá að við höfum ekkert nema ritaða texta til að átta okkur á framburði orða áður fyrr, og vitanlega er hún villandi í þessu tilviki þar sem við skrifum einhljóð þótt við berum fram tvíhljóð. En talsvert má þó finna af dæmum frá ýmsum tímum sem benda til tvíhljóðsframburðar þar sem hann er ekki hljóðréttur. Í Norðanfara 1885 segir: „Menn hafa lengi verið lítt lægnir til að setja sig inn í hugsunarhátt kvenna.“ Í Ægi 1915 segir: „Þeir þykja lægnir fiskimenn.“ Í Norðurlandi 1907 segir: „Þær voru bæði lægnar og einbeittar að koma ár sinni fyrir borð.“ Í Morgunblaðinu 1930 segir: „Nokkrar handfljótar og lægnar stúlkur óskast í vinnu.“ Í Íslendingi 1918 segir: „Skrælingjar þessir eru þolgóðir og lægnir til vinnu.“

Það sem er forvitnilegast í þessu eru þær beygingarmyndir sem ættu hljóðrétt að hafa ö – mynda eins og lögnu(m), handlögnu(m), feitlögnu(m) o.fl. Það er vissulega langalgengast að þessar myndir séu skrifaðar með ö, en á tímarit.is má líka finna töluvert af dæmum með a og æ lagnu(m), handlagnu(m), feitlagnu(m) og lægnu(m), handlægnu(m), feitlægnu(m). Þessar myndir hljóta allar að sýna framburð með æ, líka þær sem eru skrifaðar með a, því að framburður með a á undan u í endingu er útilokaður í íslensku hljóðkerfi. Þetta sýnir því að einhver dæmi eru um að í huga málnotenda séu þessi orð í raun með æ í stofni en ekki aæ tekur ekki u-hljóðvarpi og helst þess vegna þótt beygingarendingin hefjist á u.

En eins og áður segir gefur ritháttur litlar eða villandi upplýsingar um framburð þessara mynda. Ég er nokkuð viss um að myndir eins og lagnir og lagnar eru oft – jafnvel oftast – bornar fram með æ, en er í vafa um framburð mynda þar sem ö er skrifað, bæði í mínu eigin máli og annarra. Mér finnst þær einhvern veginn ekki hljóma alveg eðlilega með ö og gæti alveg eins hugsað mér framburð með æ þótt mér finnist hann eitthvað skrítinn líka. Jafnvel fyndist mér framburðurinn (hand)laugnum með au ekki alveg fráleitur enda tvíhljóðast ö stundum í au, eins og í lög lögin, og þau víxl gætu hugsanlega haft þau áhrif að málnotendum fyndist eiga að vera au þarna. Um það finnast þó engin dæmi í rituðu máli enda varla við því að búast.

Tilheyring – tilheyrsla

Í dag var spurt í „Málspjalli“ um nafnorðið tilheyring sem fyrirspyrjandi hafði rekist á sem þýðingu á belonging á ensku. Í umræðum var bent á að þetta orð er gefið sem samheiti sagnarinnar tilheyra í orðasafninun „Menntunarfræði“ í Íðorðabankanum og skilgreint 'Sú tilfinning einstaklings að vera hluti af hópi og eiga samleið með honum'. Þetta orð virðist í fljótu bragði vera rétt myndað. Viðskeytinu -ing er mjög oft bætt við sagnir til að mynda nafnorð, svo sem breyta breyting, byggja bygging,  greina greining, skýra skýring, þýða þýðing o.m.fl. Viðskeytið -un er reyndar mun oftar notað í þessum tilgangi en það er hins vegar nær eingöngu bundið við þær sagnir sem enda á -aði í þátíð – sem tilheyra gerir ekki.

Það er samt eitthvað við orðið tilheyring sem truflar mig – hugsanlega bara ókunnugleiki, en svo gæti líka verið að merking sagnarinnar tilheyra skipti þarna máli. Sagnir sem -ing er bætt við til að mynda nafnorð lýsa yfirleitt einhverri athöfn og nafnorðin sem um er að ræða tákna yfirleitt verknað, það að gera eitthvað (bygging hússins tók langan tíma, þýðing bókarinnar reyndist snúin) en geta líka oft táknað afurð verknaðarins (þetta er glæsileg bygging, þýðingin er mjög vond) – stundum er þetta aðalmerking orðsins. En sögnin tilheyra lýsir ekki athöfn heldur ástandi. Hér má benda á að þótt til sé (einkum í samsetningum) nafnorðið hæfing af sögninni hæfa getur það ekki tengst ástandsmerkingunni 'vera viðeigandi, við hæfi'.

En það eru til fleiri leiðir til að mynda nafnorð af sögn. Í umræðu var stungið upp á orðinu tilheyrn, en þótt orðið heyrn sé vitanlega til finnst mér það of tengt sögninni heyra í aðalmerkingu sinni, 'nema hljóð með eyrunum', til að það henti í þessari samsetningu. Hins vegar er til orðið tilheyrsla sem kemur m.a. fyrir í Tímariti lögfræðinga 1952 þar sem segir: „Með orðinu tilheyrsla er við það átt, hver hafi eignarréttinn, beinan eða óbeinan, að verðmæti.“ Orðið kemur fyrir í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 sem samsvörun við tilhørsforhold en það er skýrt 'det at være knyttet til noget; det at være del af en gruppe' í Den Danske Ordbog, sem er nokkurn veginn samhljóða skýringunni á tilheyring í Íðorðabankanum.

Viðskeytið -sla gegnir svipuðu hlutverki og -ing og getur líka oft merkt bæði verknað og afurð verknaðarins – fræða fræðslakenna kennsla, vinna vinnsla o.fl. – stundum vísar það þó aðeins til afurðarinnar, eins og reynsla og skýrsla. Það tengist svipuðum sögnum og -ing og nokkur dæmi eru um að bæði viðskeytin tengist sömu sögnum – stundum í sömu merkingu eins og hersla og herðing af herða, en oftar þó í mismunandi merkingu eins og eyðsla og eyðing af eyða, skýrsla og skýring af skýra. Ég hef ekki þá tilfinningu að nafnorð með -sla þurfi endilega að lýsa verknaði eða afurð verknaðar, og mér finnst því tilheyrsla mun betra orð en tilheyring. Vitanlega er -heyrsla líka til í málinu, í samsetningunum bænheyrsla og yfirheyrsla.

Hitt er svo annað mál, sem nefnt var í umræðu um þetta, að ekki er alltaf þörf á eða ástæða til að búa til íslenskt nafnorð til að samsvara tilteknu nafnorði í erlendu máli, oftast ensku – oft er líka hægt, og fer betur, að umorða textann. Við höfum sögnina tilheyra og oft er hægt að nota samband með henni – í staðinn fyrir „eignartilfinning þeirra og tilheyring eykst“ eins og stendur í nýlegri meistararitgerð mætti segja tilfinning þeirra fyrir eign og að tilheyra hóp eykst eða eitthvað slíkt. Þó er þess að gæta að tilheyring / tilheyrsla er fremur íðorð en hluti af almennu máli og þess vegna getur nákvæm samsvörun skipt meira máli en ella. En hvað sem þessu líður sýnir þetta að það er að ýmsu að hyggja þegar smíðuð eru ný íðorð.

Haltu í haldlegginn á mér

Ég var að leita að dæmum um sögnina haldleggja á tímarit.is og rakst þá á nokkur gömul dæmi um myndina haldlegg, sem vissulega gæti verið fyrsta persóna eintölu í framsöguhætti nútíðar af haldleggja (ég haldlegg) en hafði greinilega setningarstöðu nafnorðs. Í Lögbergi 1913 segir: „Þar stóð ungfrú Margrét; hún studdist við haldlegg Alains og beygði sig út yfir freyðandi hylinn.“ Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Eru göng grafin þar inn í brekkuna […] svo víð, að smeygja má haldlegg inn í þau.“ Í Fálkanum 1951 segir: „Hann þrýsti haldlegg Marian fast að sér.“ Í Tímanum 1951 segir: „Hann tók um haldlegg Denise.“ Í Sunnudagsblaðinu 1960 segir: „Hún rétti fram haldlegginn og klappaði á kollinn á honum eins og hann væri lítill krakki.“

Af þessum dæmum er vitanlega ljóst að myndin haldlegg stendur þarna fyrir handlegg, og fleiri beygingarmyndir orðsins með þessum rithætti má finna. Í Þjóðviljanum 1973 segir: „það er svolítið annar haldleggur.“ Í Lögbergi 1944 segir: „hann lagði haldlegginn á herðar hennar.“ Í Vikunni 1960 segir: „Hún sýndi honum visna haldleggi sína og fætur.“ Í Eyjafréttum 2021 segir: „Ég festist einu sinni í spilinu en stýrimaðurinn náði að bjarga mér áður en haldleggurinn fór í spilið.“ Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „undir haldleggnum hélt hún þó á nótunum yfir „Triston og Isolde.““ Í Heimilistímanum 1980 segir: „Fyrstu sjúkdómseinkenni eru bólga í kirtlum undir haldleggjum.“ Í Tímanum 1941 segir: „það var Sally, sem tók í haldlegginn á honum.“

Alls eru tæplega þrjátíu dæmi um að beygingarmyndir af handleggur séu skrifaðar hald- á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um tuttugu, nær öll af samfélagsmiðlum. Það er ljóst að hér er ekki um prentvillur að ræða, heldur sýnir þetta skilning þeirra sem nota orðið á því – þau tengja fyrri hlutann við sögnina halda en ekki nafnorðið hönd. Það er í sjálfu sér ekki fráleitt frá merkingarlegu sjónarmiði – og frá hljóðfræðilegu sjónarmiði er þetta líka skiljanlegt. Eðlilegt er að samhljóðaklasi eins og ndl einfaldist inni í orði og framburðurinn verði hanleggur og þegar d fellur brott dofna tengslin við hönd. Framburðurinn getur jafnvel orðið halleggur  (með löngu l-i og e.t.v. nefjuðu a-i) og skiljanlegt að sá framburður sé skilinn sem haldleggur.

Nú er ég vitanlega ekki að skrifa þetta til að mæla með þessum framburði eða halda því fram að hann eigi að teljast réttur. Þótt honum hafi brugðið fyrir í meira en öld hefur hann greinilega alltaf verið mjög sjaldgæfur – en samt örugglega útbreiddari en ritmálsdæmi benda til því að væntanlega hefur hann oft orðið fórnarlamb prófarkalesturs. En hér er ekki um málbreytingu að ræða heldur einstaklingsbundinn (mis)skilning á ákveðnu orði og auðvitað væri eðlilegt að leiðrétta þetta og benda á misskilninginn. Mér finnst dæmi af þessu tagi hins vegar skemmtileg því að þau veita okkur innsýn í huga málnotenda og sýna hvernig fólk leitast við að greina og skilja orðin. Þau sýna hugsun og greiningu fremur en fáfræði eins og ætla mætti í fyrstu.

Að ráðska – ráðskun

Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvernig ætti að þýða nafnorðið manipulation á íslensku. Í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi er það þýtt 'stjórnun (einkum með óheiðarlegum brögðum eða baktjaldamakki)' og sögnin manipulate sem nafnorðið er leitt af er þar þýdd 'ráðskast með, hafa áhrif á (mann eða atburðarás) með kænskubrögðum'. Það væri vissulega gagnlegt að hafa íslensk orð sem samsvöruðu ensku orðunum en hins vegar er ekki hlaupið að því að benda á einhver tiltekin nafnorð og sögn sem henti til þess. Í umræðu komu þó fram ýmsar tillögur – launstjórn(un), innræting, þvingun, tilfinningastjórnun, skuggastjórnun, vélun, launfrekja o.fl. fyrir nafnorðið, blekkja, handlanga, klækjastýra, ráðskast með fyrir sögnina.

Mörg þessara orða eru villandi eða of almenns eðlis fyrir þá merkingu sem um er að ræða, og af þeim sem nefnd voru finnst mér einungis launstjórnun og ráðskast með koma til greina. Orðið launstjórnun hefur verið notað áður, í Morgni 1993: „Móðir Hildebrandts er kona sem iðkar launstjórnun, bruggar launráð og egnir til samsæra til að tryggja hagsmuni sína.“ Þetta er úr þýddri grein og út frá samhenginu ekki ólíklegt að launstjórnun sé þarna notað sem þýðing á manipulation. En þetta er eina dæmið sem ég hef fundið um orðið. Það er æskilegt að hægt sé að hafa samsvarandi nafnorð og sögn um manipulation og manipulate, og einfalt væri að mynda sögnina launstjórna – sem ég finn engin dæmi um – út frá nafnorðinu launstjórnun.

Sambandið ráðskast með er þekkt í málinu síðan í upphafi tuttugustu aldar þótt það hafi ekki orðið algengt fyrr en eftir miðja öldina og sérstaklega eftir 1970. Sögnin er langoftast höfð í miðmynd en germyndin ráðska (með eða í) þekkist þó einnig þótt hún sé sjaldgæf: „En nú voru þeir teknir að þreytast á að láta þá stóru ráðska með sig og kröfðust réttar síns í stjórn landsins“ segir t.d. í Vikunni 1970. Samsvarandi nafnorð, ráðskun, er enn sjaldgæfara en er þó til í málinu – „Í því tómarúmi skapast andlegt öryggisleysi, sem gerir einstaklinginn enn útsettari fyrir ráðskun af hálfu kerfisins“ segir t.d. í Læknanemanum 1969 og „Ráðskun stjórnmálaflokka með samtökin eru hættulegt víti sem varast verður“ segir í Stéttabaráttunni 1975.

Orðið launstjórnun er vissulega gagnsætt en mér finnst það samt ekki ná merkingunni í manipulation alveg nógu vel. Ég legg til að germyndin ráðska verði tekin upp sem þýðing á sögninni manipulate. Germyndin er til í málinu eins og áður segir, og kosturinn við að nota hana umfram hina venjulegu þolmynd er sá að vegna þess að hún er fæstum munntöm er hægt að gefa henni sérhæfðri og afmarkaðri merkingu en hún hefur í hinu almenna og algenga sambandi ráðskast með. Það ætti ekki heldur að vera neitt því til fyirstöðu að nota ráðskun sem samsvarandi nafnorð – það hefur ekki heldur fastmótaða merkingu í huga málnotenda og þau fáu dæmi sem finnast um það falla ágætlega að merkingu orðsins manipulation.

Við ötlum að gera þetta

Í útvarpsþáttum um Kristmann Guðmundsson um daginn var rifjuð upp vísa sem þeir ortu í sameiningu Kristmann og Jóhannes úr Kötlum, sem byrjaði: „Lít ég einn, sem list kann, / löngum hafa þær kysst hann / – Kristmann.“ Kristmann botnaði samstundis: „Einkum þó vér ötlum / að þær fari úr pjötlum / í Kötlum.“ Þarna er rímbundin orðmyndin ötlum sem sjálfsagt kemur mörgum ókunnuglega fyrir sjónir enda er hún sjaldséð og líklega einnig sjaldheyrð í seinni tíð, en var vel þekkt áður fyrr. Þau sem þekkja hana ekki átta sig þó e.t.v. á því af samhenginu að þarna væri í venjulegu máli ætlum, en það liggur ekki í augum uppi hvernig ætlum verður ötlum – þótt stafirnir æ og ö standi saman í stafrófinu eru hljóðin æ og ö gerólík.

Til að skilja þetta þarf að átta sig á því að tvíhljóðið æ () missir oft seinni hlutann (í-hlutann) þegar það er stutt og eftir stendur þá einhljóðið a. Þetta gerðist snemma í sögninni ætla – í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld segir Björn Karel Þórólfsson að sögnin hafi þá þegar, á 14.-15. öld, „fengið hina nýíslensku talmálsmynd atla“. Þessi mynd er algeng í ritum fram undir lok nítjándu aldar en frekar sjaldséð eftir það – hefur væntanlega orðið fyrir barðinu á málhreinsun og samræmdri stafsetningu á seinni hluta aldarinnar. Í töluðu máli hélst hún þó áfram og er líklega algengasta framburðarmynd sagnarinnar enn í dag þótt við tökum sjaldnast eftir henni vegna þess hve hljóðskynjun okkar er mótuð af stafsetningunni.

En einmitt vegna áhrifa stafsetningarinnar er lítill vafi á því að í huga okkar er sögnin ætla með æ þrátt fyrir að við berum hana iðulega fram með a – við teljum okkur sem sé vera að segja ætla þótt við segjum í raun atla. Slíkra áhrifa gætti aftur á móti mun síður eða ekki fyrir daga samræmdrar stafsetningar og þess vegna er engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að í huga þeirra sem heyrðu atla fyrr á öldum hafi sögnin verið með a en ekki æ. En sögn með a í stofni fær ö í þess stað þegar beygingarending hefst á sérhljóði (u-hljóðvarp), eins og (ég) afla – (við) öflum, og sama gerðist með ætla eins og kemur fram hjá Birni Karel Þórólfssyni í áðurnefndri bók: „Hinar nýju myndir með a, (ö) koma oft fyrir á 16. öld: eg atlade […]; þeir øtludu […].“

Það er því ekki um það að ræða að ætlum breytist beinlínis í ötlum, heldur breytist grunnmyndin ætla í atla og fyrsta persóna fleirtölu er svo búin til með almennum reglum út frá þeirri mynd, og verður (við) ötlum. Þessi mynd heyrist eitthvað enn í töluðu máli en þó sennilega mun sjaldar en fyrir nokkrum áratugum. Tvíhljóðið æ einhljóðast samt ekkert síður en áður, og ekkert síður í ætlum en í öðrum myndum sagnarinnar, en vegna þess að í huga flestra er sögnin væntanlega með æ en ekki a þrátt fyrir framburð með a verður ekkert u-hljóðvarp og við fáum (við) atlum frekar en ötlum. Hugsanlegt er þó að ötlum komi meira fyrir í máli barna sem stafsetning hefur enn ekki haft áhrif á, en um það er ekkert hægt að segja með vissu.

Málefnalegar kröfur um íslenskukunnáttu

Í „Bítinu“ á Bylgjunni í morgun var viðtal við Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra um ýmis verkefni ráðuneytis hans. Fyrirsögn upptöku af viðtalinu á vef Vísis er „Ætlar að vinda ofan af dellunni á leigubílamarkaði“ en á vefnum birtist einnig frétt unnin upp úr viðtalinu með fyrirsögninni „Ráðherra vill að leigubílsstjórar tali íslensku“. Vissulega lagði ráðherrann áherslu á þetta en tæpast er þó hægt að segja að það hafi verið aðalatriði viðtalsins sem fjallaði að verulegu leyti um innviðauppbyggingu og nýtt frumvarp ráðherra um leigubifreiðaakstur, þar sem íslenskukunnátta er reyndar ekki nefnd. En væntanlega er fyrirsögnin valin vegna þess að hún vekur athygli á viðkvæmu máli sem vitað er að skiptar skoðanir eru um.

Vitanlega geta oft verið málefnalegar ástæður fyrir kröfum um íslenskukunnáttu í ýmiss konar afgreiðslu- og þjónustustörfum – þar á meðal leigubílaakstri þótt ég sjái svo sem ekki að þörf fyrir íslenskukunnáttu sé meiri þar en á ýmsum öðrum sviðum þar sem ekkert hefur verið minnst á tungumálakröfur. En það væri t.d. ómálefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu til að gangast undir meirapróf vegna þess að það próf veitir réttindi til ýmiss konar annars aksturs en með farþega. Í Reglugerð um ökuskírteini nr. 830/211 segir hins vegar í 16. grein: „Verklegt próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni skal fara fram á íslensku.“ Það kann að vera að þessu hafi ekki verið framfylgt frekar en ýmsum öðrum reglum, en eðlilegt er að gera það.

Ráðherrann segir: „Ég óska engum þess að búa á Íslandi án þess að tala íslensku. […] Það er grundvallaratriði að tala tungumálið sem talað er í því ríki sem þú býrð í. […] Þú lendir alltaf úti á hliðarlínunni og ert ekki fullur þátttakandi í því samfélagi sem þú ert í.“ Undir þetta má sannarlega taka – það er mjög mikilvægt að sem flest af því fólki sem hér býr skilji og tali íslensku. Það er mikilvægt fyrir fólkið sjálft, fyrir Íslendinga, fyrir samfélagið, og fyrir íslenskuna. En eitt er að telja íslenskukunnáttu æskilega og mikilvæga og annað að gera um hana ófrávíkjanlegar kröfur, og það er grundvallaratriði að skortur á íslenskukunnáttu sé ekki notaður sem yfirskin til að bægja burt fólki sem þykir óæskilegt af einhverjum öðrum ástæðum.

Þetta er ekki sagt að ástæðulausu. Inn í umræður um kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra blandast nefnilega iðulega óskyld atriði – í viðtalinu við innviðaráðherra í morgun var t.d. vísað í fréttir um að kaffihúsi leigubílstjóra í eigu Isavia á Keflavíkurflugvelli hefði verið „breytt í bænahús“. Þegar Birgir Þórarinsson hugðist leggja fram frumvarp um íslenskukunnáttu leigubílstjóra í fyrra sagði Morgunblaðið frá fjölmörgum kvörtunum um erlenda leigubílstjóra: „Hafa þær lotið að því að margir hverjir rati ekki um svæðin sem þeir aka um, [og] gjaldtaka hafi verið óheyrileg.“ Vitanlega kemur þetta íslenskukunnáttu ekkert við. Það er ekkert að því að gera kröfur um íslenskukunnáttu, en þær mega ekki byggjast á ómálefnalegum ástæðum.