Gagnsemi orðflokkagreiningar

Þótt ég hafi skrifað hér pistil um gagnsleysi orðflokkagreiningar í gær táknar það alls ekki að ég telji þekkingu á orðflokkum og eðli þeirra fánýta. Það er mikilvægt að öðlast þekkingu á tungumálinu og skilning á eðli þess og notkun – en hvorugt fæst með hefðbundinni orðflokkagreiningu. Við kunnum nefnilega öll að greina orð í flokka og lærðum það á máltökuskeiði, og beitum kunnáttunni í allri málnotkun okkar – við notum nafnorð á ákveðinn hátt, sagnir á annan hátt, o.s.frv. Þetta gætum við ekki nema vegna þess að í huga okkar, í málkerfi okkar, eru þessi orð greind í flokka. En það táknar ekki að sú greining sé meðvituð og orðflokkagreining gengur einmitt út á að gera okkur meðvituð um þessa ómeðvituðu flokkun.

Eða ætti að ganga út á það, ef hún er stunduð á annað borð. En stundum byggist hefðbundna greiningin á einhverjum reglum sem eru andstæðar hinni ómeðvituðu flokkun okkar – ýmist vegna þess að hegðun orða hefur breyst eða vegna þess að greiningin hefur aldrei verið rétt. Gott dæmi um það er orðið þannig sem venjulega hefur verið greint sem atviksorð þótt það sé reyndar einnig flokkað sem lýsingarorð í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er nefnilega löng hefð fyrir því að nota þetta orð eins og það væri lýsingarorð – láta það standa með nafnorði, eins og þannig fólk. Sama gildir um orðin svona og svoleiðis sem einnig er venja að flokka sem atviksorð en standa iðulega með nafnorði – svona fólk, svoleiðis fólk.

Orðflokkagreining sem heldur áfram að greina þannig sem atviksorð í samböndum eins og þannig fólk er því ekki að endurspegla málkunnáttu okkar og gera hana meðvitaða, heldur er orðin flokkunarfræði sem í besta falli er gagnslaus en hætta er á að rugli fólk í ríminu. Sama gildir um orðflokkagreiningu sem greinir gær sem atviksorð þótt öll skynsamleg rök hnígi að því að það sé nafnorð. Besta dæmið um greiningu í fullkomnu ósamræmi við hegðun er orðið sem sem var greint sem tilvísunarfornafn þegar ég lærði orðflokkagreiningu, eins og löngum bæði fyrr og síðar – allt þar til Höskuldur Þráinsson sýndi fram á það 1980 að orðið væri tilvísunartenging enda hagar það sér ekki á nokkurn hátt eins og fornafn.

Það er sjálfsagt að kenna um orðflokka, en sú kennsla ætti að byggjast á skoðun og skilningi á því hvernig orðin eru notuð. Það er eðlilegt að byrja á almennri lýsingu á einstökum orðflokkum, dæmigerðu hlutverki þeirra og hegðun, og sýna dæmi um það. En í staðinn fyrir að leggja áherslu á að geta hengt merkimiða á hvert einasta orð má síðan skoða valin dæmi þar sem greiningarviðmið rekast á. Þótt orðið þannig hafi t.d. iðulega setningarstöðu lýsingarorðs eins og áður segir beygist það vissulega ekki eins og lýsingarorð. Orðið gaman hefur beygingu og setningarstöðu nafnorðs en hagar sér að sumu leyti eins og lýsingarorð. Orðið ýmis er greint sem óákveðið fornafn en hagar sér að mörgu leyti eins og lýsingarorð.

Fjölmörg fleiri dæmi mætti nefna þar sem flokkun er ekki ótvíræð en gefur tilefni til vangaveltna og umræðna. Ég er sannfærður um að kennsla af þessu tagi, þar sem nemendur væru látnir skoða einstök orð og hegðun þeirra frá ýmsum sjónarhornum – beygingu, setningarstöðu, og merkingu – væri bæði margfalt gagnlegri og óendanlega miklu skemmtilegri en steindauð flokkunarfræði.