Gagnsleysi orðflokkagreiningar

Ég hef áður, bæði hér og í bók minni Alls konar íslenska, sagt frá einu mesta áfalli unglingsára minna – þegar ég gataði á (í raun skítléttri) málfræðispurningu á landsprófi. Spurningin var: „Hvers vegna er rangt mál að segja: Þannig mönnum er ekki treystandi?“ Þetta vissi ég ekki – reyndi að vísu að klóra í bakkann með því að benda á að það færi betur á því að segja slíkum mönnum er ekki treystandi en það var auðvitað ekki svarið. Svarið er vitanlega: Þetta er rangt vegna þess að þannig er atviksorð og atviksorð standa með lýsingarorðum en ekki með nafnorðum. Vegna þess að þið hafið væntanlega flest lært orðflokkagreiningu þykist ég vita að þið hefðuð ekki verið í vandræðum með þetta.

Nei, djók. Ég stórefast um að mörg ykkar hefðu getað svarað þessu enda er þannig mönnum er ekki treystandi eðlilegt mál okkar flestra og hefur tíðkast síðan á 19. öld. Það er fráleitt að telja þetta rangt mál þótt það væri gert fyrir hálfri öld. En auðvitað hefði ég samt átt að geta svarað spurningunni. Ég vissi nefnilega mætavel að þannig væri atviksorð og raunar held ég að ég hafi kunnað orðflokkagreiningu upp á tíu – og meira að segja þótt hún skemmtileg, ólíkt flestum skólasystkinum mínum. En ég var líka nörd. Samt sem áður dugði sú kunnátta mér skammt til að svara þessari spurningu, þótt lykillinn að svarinu lægi einmitt í því að vita hvaða orðflokkur þannig væri.

En ástæðan fyrir því að þessi kunnátta dugði mér ekki til að svara spurningunni lá í því hvernig orðflokkagreiningin var kennd. Okkur var kennt að hengja merkimiða á orðin – þetta er nafnorð, þetta er sögn, þetta er atviksorð o.s.frv. – án þess að hugsa mikið um hvers vegna eitthvað væri nafnorð eða sögn eða atviksorð, og hvernig við gætum nýtt þessa kunnáttu. Vissulega var nefnt að nafnorð væru „heiti einhvers, svo sem veru, hlutar, hugmyndar, verknaðar“, sagnir greindu frá „athöfn eða breytingu á ástandi“ svo að vitnað sé í Íslenska málfræði Björns Guðfinnssonar – og atviksorðin voru svo ruslakista, merkimiði sem var hengdur á orð sem virtust ekki passa í neinn þeirra flokka sem skilgreindir höfðu verið.

Þessar þumalputtareglur dugðu samt ekki alltaf, og í mörgum tilvikum þurfti einfaldlega að læra flokk tiltekinna orða sem stundum var eiginlega alveg andstæður almennri skynsemi. Orðið gær var t.d. flokkað sem atviksorð og er það enn í öllum orðabókum, sýnist mér. Samt sem áður er augljóst að það hlýtur að vera nafnorð – stendur á eftir forsetningu, í gær, hliðstætt við í dag, í morgun, í kvöld o.s.frv. Eina ástæðan fyrir því að það er ekki flokkað sem nafnorð virðist vera sú að það kemur aðeins fyrir í einni beygingarmynd, í sambandinu í gær. En þannig er það með fjölda nafnorða. Engum dettur í hug að flokka takteinum og boðstólum sem atviksorð þótt þau komi aðeins fyrir í samböndunum á takteinum og á boðstólum.

Sem sé: Ég kunni mína orðflokkagreiningu, og vissi að þannig væri atviksorð – en ég hafði ekki lært að hagnýta mér þessa kunnáttu. Hún var mér gagnslaus þegar á reyndi. Vissulega segir Björn Guðfinnsson: „Atviksorð standa einkum með sögnum, lýsingarorðum og öðrum atviksorðum til frekari ákvörðunar.“ En einhvern veginn hafði lítil áhersla verið lögð á þetta, og þar að auki segir þarna „einkum“ – það segir ekki að þau geti ekki staðið með nafnorðum. Nú veit ég auðvitað ekkert um það hvernig orðflokkagreining er kennd í dag eða hversu mikil áhersla er lögð á hana. En ég hef samt grun um að hún sé iðulega kennd sem flokkunarfræði án tengsla við tilgang eða raunverulega málnotkun.

Það er leiðinlegt, tilgangslaust og ekki til annars fallið en hrekja nemendur frá íslenskunni.