„Rétt“ og „rangt“ á seinni hluta 19. aldar

Viðmið okkar um „rétt“ og „rangt“ mál, sem í seinni tíð eru stundum kölluð „íslenskur málstaðall“, mótuðust að miklu leyti á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. Einn áhrifamesti maðurinn í þeirri mótun var Halldór Kr. Friðriksson sem var aðalíslenskukennari Lærða skólans (nú Menntaskólans í Reykjavík) í nærri hálfa öld, frá 1848 til 1895. Hann skrifaði fyrstu kennslubókina í íslenskri málfræði sem gefin var út, Íslenzka málmyndalýsingu, 1857. Það er athyglisvert að sitthvað sem þar er nefnt sem venjulegt mál þykir nú rangt, og einnig eru nefndar athugasemdalaust ýmsar tvímyndir í beygingu þar sem önnur þykir nú röng. Nokkur dæmi um hvort tveggja eru talin hér á eftir.

Þarna er t.d. sagt að eignarfall eintölu af vindur sé ýmist vinds, sem sé sjaldgæft, eða vindar. Nú er vinds venjulega myndin en „Eignarfallsmyndunum vindar og vindarins bregður fyrir en þær eru sjaldséðar“ segir í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Einnig segir: „Mörg eru þau karlkennd nöfn, sem ýmist hafa s eða ar í eig. eint. […], t.a.m. […] lækur, eig. læks og lækjar; vefur, eig. vefs og vefjar, o.s.frv.“ Oft er rifjað upp þegar umsjónarmaður þáttarins „Daglegt mál“ í útvarpinu sagði af sér árið 1980 eftir að honum varð á að segja í þættinum að eignarfallið af lækur væri læks; og í umfjöllun um eignarfall orðsins vefur sagði Gísli Jónsson 1998: „Niðurstaðan er skýr: Eignarfallið af vefur er vefjar, ekki ?vefs.“

Í umfjöllun um víxl e og a í orðinu ketill segir: „Á sama hátt beygðist og til forna Egill (þiggj. Agli).“ Þágufallið Agli var sem sé horfið úr málinu á þessum tíma en var síðar endurvakið. Einnig segir: „Þegar greinirinn er skeyttur aftan við faðir, verður eig. eint. föðursins.“ Í Málfarsbankanum segir aftur á móti: „Eignarfall eintölu er t.d. ekki „föðurs“, með greini „föðursins“, eins og halda mætti út frá algengustu beygingarflokkunum heldur föður, með greini föðurins.“ Um orðið segir að það sé „óreglulegt í eig. eint., en það er þar fjár; þó er myndin fjes til, en miklu óvanalegri“. Sú mynd er samt ekki fordæmd eins og nú; í Málfarsbankanum segir: „Eignarfallið er ekki „fés“, með greini „fésins“ […].“

Í umfjöllun um kvenkynsorð er bent á að -ar og -ir sé í sumum orðum haft jöfnum höndum sem ending nefnifalls fleirtölu, „t.a.m. grein, greinir og greinar; skál, skálir og skálar“. Um kvenkynsorð sem enda á -i í öllum föllum, svo sem réttvísi, skynsemi, gleði, reiði o.s.frv., segir: „Þegar þess konar orð eru skeytt saman við önnur orð, er opt skotið s inn á milli til hljóðfegurðar, t.a.m. rjettvísisverk, skynsemis-orð […].“ Á 20. öld var oft amast við s í slíkum orðum. Þá segir: „Sum eru þau nöfn, sem nú að minnsta kosti eru hvorugkyns í eint., en kvenkyns í fleirt., t.a.m. […] eng-ið (áður eng) – engjar […].“ Kynskipti milli eintölu og fleirtölu þykja nú yfirleitt röng, sbr. það sem segir í Málfarsbankanum um fótur og fingur.

Því fer samt fjarri að Halldór viðurkenni allar breytingar sem orðið höfðu frá fornmáli. Hann nefnir t.d. aðeins beyginguna læknir um lækni, í fleirtölu læknar, en ekki beyginguna læknir í þolfalli eintölu og læknirar í nefnifalli fleirtölu sem var mjög algeng og líklega mun algengari á hans tíma. Hann nefnir ekki heldur aðra beygingu á frændsemisorðunum bróðir, systir og dóttir en nú þykir rétt, þótt lengi hafi tíðkast að hafa þessi orð eins í öllum föllum eintölu. Hann segir líka „hönd er óreglulegt í þiggj. eint., þar sem það er hendi“ en nefnir ekki tilbrigði eins og hönd í þágufalli eða hendi í nefnifalli og þolfalli sem hvort tveggja var til á hans dögum. Hann nefnir aðeins viðurkennda beygingu á ær og kýr; o.s.frv.

Þrátt fyrir þetta sýna dæmin hér að framan að jafnvel harðir málhreinsunarmenn á seinni hluta 19. aldar, eins og Halldór Kr. Friðriksson, viðurkenndu – eða gerðu ekki athugasemdir við – ýmsar breytingar sem höfðu orðið frá fornu máli og nú eru taldar rangar en aðeins eldri myndin talin rétt í hverju tilviki. Það táknar auðvitað ekki endilega að tekist hafi að hrekja „nýjungarnar“ úr málinu – flestar lifa enn góðu lífi þrátt fyrir að vera taldar „rangt mál“, nema þágufallið Egli. Því má spyrja hvernig og hvers vegna það hafi gerst, að íhaldssamari og einstrengingslegri afstaða hafi verið tekin til ýmissa málbreytinga þegar kom fram á 20. öld.