Sífreri málfarslegra viðmiða

Þótt vissulega hafi verið rekin hörð málhreinsunarstefna í Lærða skólanum á seinni hluta 19. aldar þarf að hafa í huga að nemendur Halldórs Kr. Friðrikssonar og annarra málhreinsunarmanna þar voru komnir af barnsaldri og margir hverjir harðfullorðnir. Því má gera ráð fyrir að málkerfi þeirra hafi verið fullmótað og ekki auðvelt að breyta því. En jafnframt má ætla að þeir hafi haft nægan þroska til að geta lagt sjálfstætt mat á mál og málbreytingar og tekið afstöðu til þeirra. Kennarar hafi því getað rökrætt málfarsefni við þá í stað þess að kveða einfaldlega upp órökstudda Salómonsdóma, þótt vissulega sé óvíst hvort og þá að hvaða marki það var gert.

Á þessum tíma voru barnaskólar fáir og fámennir og skólatíminn stuttur, en með lögum um fræðsluskyldu allra 10-14 ára barna 1907 varð grundvallarbreyting. Skyndilega „náði hin opinbera stefna í málfarsefnum, um rétt mál og rangt, til allra barna á mótunarskeiði“ segir Kjartan G. Ottósson í bókinni Íslensk málhreinsun og heldur áfram: „Jafnframt virðist svo sem málstefnan hafi tekið nokkrum blæbrigðabreytingum um leið og hún beindist að öðrum aldurshópi en áður. Stefnan virðist hafa verið einfölduð og löguð að þroska nemenda með því að talað var meira og afdráttarlausara um rétt mál og rangt. Meira hefur verið farið að reyna að breyta talmáli nemenda, en áður var öll megináherslan á ritmálinu.“

Þarna náðist sem sé til mun yngri málnotenda en áður – barna sem ekki voru komin með fullmótað málkerfi, voru enn á máltökuskeiði að einhverju leyti. Þess vegna var auðveldara – eða a.m.k. talið auðveldara – að breyta máli þeirra en skólapiltanna í Lærða skólanum. Þar að auki var málstefnunni nú beint til allra barna á landinu, ekki bara fámenns úrvals mun eldra fólks. Því hefur ekki þótt ástæða til að gera ráð fyrir að börnin hefðu sjálfstæða skoðun á málinu eða gætu rökrætt það. Þess vegna hefur þótt fært að ganga mun lengra en áður – hafna öllum tilbrigðum og kalla undantekningarlaust eitt rétt en annað rangt. Ekki er ólíklegt að þetta hafi tengst ungmennafélagsanda og þjóðernisstefnu sem var áberandi í upphafi aldarinnar.

Kennslubækur sem notaðar voru meginhluta 20. aldar eru flestar í þessum anda. Þeirra þekktust og áhrifamest er bók Björns Guðfinnssonar sem upphaflega kom út 1937 og hét þá Íslenzk málfræði handa skólum og útvarpi en var margsinnis endurútgefin undir svolítið mismunandi heitum. Eiríkur Hreinn Finnbogason endurskoðaði hana verulega fyrir 5. útgáfu 1958 sem hét fyrst Íslenzk málfræði handa framhaldsskólum og síðar Íslensk málfræði handa grunnskólum og framhaldsskólum. Sú útgáfa var margsinnis endurprentuð, síðast 1999 að því er virðist, og hefur því væntanlega verið notuð fram á þessa öld – og er kannski enn. A.m.k. má búast við að flestir Íslendingar sem komnir eru yfir miðjan aldur hafi notað hana.

Bók Björns, og þó enn frekar endurskoðun Eiríks Hreins, er yfirleitt mjög afdráttarlaus og gefur engan kost á tilbrigðum – rétt er rétt og rangt er rangt, eitt er rétt og allt annað rangt. Sú afstaða mótaði vitanlega viðhorf margra kynslóða til tungumálsins og hefur í marga áratugi endurspeglast mjög víða og gerir það að verulegu leyti enn í dag – í kennslu og kennslubókum, í samræmdum prófum, í málfarsþáttum í fjölmiðlum, í athugasemdum við málfar sem skrifaðar eru á vefmiðlum og samfélagsmiðlum (sem flestar eru skrifaðar af fólki komnu vel yfir miðjan aldur) – og í handbókum og uppflettiritum um málfar, svo sem Handbók um íslensku og Málfarsbankanum.

Við sitjum sem sé enn uppi með stefnu í málfarsefnum og afstöðu til tilbrigða í máli sem mótaðist í byrjun 20. aldar og miðaðist við börn á síðari hluta máltökuskeiðs. Þessi stefna hefur verið alhæfð og látin ná til barna og fullorðinna, ritmáls og talmáls. Og þarna er ekki bara um að ræða afstöðu til tilbrigða í máli almennt, heldur til einstakra tilbrigða. Það er dálítið eins og ýmis atriði málsins hafi verið fryst í byrjun 20. aldar, þrátt fyrir að þjóðfélagið hafi gerbreyst á öllum sviðum á þessum tíma. Það er mjög brýnt að losa um þennan sífrera, breyta þessari afstöðu og þessum viðmiðum. Of langt bil milli viðmiðanna og eðlilegs máls almennings skaðar íslenskuna.