Semjum nýjan málstaðal

Það er ljóst að þau viðmið sem enn eru notuð um „rétt“ mál og „rangt“ eru í mjög mörgum tilvikum úrelt. Í bók minni Alls konar íslenska fer ég yfir 50 málbrigði sem eru eða hafa verið talin „röng“ þrátt fyrir að þau hljóti að teljast „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu, „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“. En það er hægara sagt en gert að breyta þessum viðmiðum. Til þess vantar okkur tæki og vettvang, en ekki síður forystu og vald, vilja og kjark. Upplagt tækifæri til breytinga á viðmiðunum gafst þó þegar Íslenskri málnefnd var falið að endurskoða íslenska málstefnu „til samræmis við breytta tíma“.

Þessari endurskoðun er lokið og fyrir ári, í september 2021, samþykkti stjórn Íslenskrar málnefndar nýja íslenska málstefnu fyrir árin 2021-2030. Þetta er á margan hátt framsækið plagg þar sem lýst er skýrum vilja til að endurskoða viðmið um „rétt“ mál og „rangt“. Þar segir m.a.: „Kjarni íslenskrar málstefnu er jákvætt viðhorf til íslenskrar tungu með málrækt að leiðarljósi. Það felur í sér vilja til að varðveita tungumálið en um leið að íslenska sé löguð meðvitað og skipulega að nýjum aðstæðum sem hefur í för með sér að viðmið um það sem telst gott mál eða málstaðall hlýtur að taka breytingum. Það felur einnig í sér að tungumálið þjóni samskiptahlutverki sínu og að rækta margbreytileika þess.“

Í stefnunni er vakin athygli á hættunni sem felst í því að málstaðallinn fjarlægist venjulegt mál: „Viðmið um viðeigandi málsnið og rétt mál, sem kallað hefur verið íslenskur málstaðall, hafa ekki breyst í samræmi við breytingar í íslensku samfélagi á undanförnum áratugum. Standi málstaðallinn í stað leiðir það til þess að bilið milli staðalsins og málnotkunar almennings breikkar og það gæti hæglega leitt til þess að almenningur, einkum unga fólkið, finni frekar samsömun í öðrum málum en íslensku.“ Jafnframt er bent á að „vegna þess að tungumálið er í stöðugri þróun hlýtur málstaðallinn einnig að vera það þrátt fyrir að hann sé í eðli sínu íhaldssamari en daglegt mál.“

Miðað við þetta hefði mátt vænta þess að stjórn Íslenskrar málnefndar léti ekki hér við sitja, heldur yndi sér í að endurskoða málstaðalinn. En ekkert bólar á því enn, þótt ár sé liðið síðan stjórnin samþykkti endurskoðaða málstefnu. Þess vegna held ég að ekki sé eftir neinu að bíða að stofna áhugahóp um endurskoðun málstaðalsins – hann er ekki opinbert gagn og því þarf ekki atbeina stjórnvalda. Áhugahópurinn gæti t.d. verið skipaður fólki frá Íslenskri málnefnd; málræktarsviði Árnastofnunar; háskólakennurum í íslenskri málfræði; Samtökum móðurmálskennara; Menntamálastofnun; Ríkisútvarpinu; Blaðamannafélaginu; Rithöfundasambandinu; og fleiri áhugasömum.

Fyrsta verk hópsins yrði að skilgreina verkefnið – hvað er málstaðall, á hverju á hann að byggjast, og hvernig viljum við að hann verði notaður? Síðan þarf að safna dæmum sem taka þarf afstöðu til, svo sem atriðum sem nefnd eru í Málfarsbankanum, dæmum sem rædd hafa verið í ýmsum málfarsþáttum og málfarshópum, og ýmsum öðrum þar sem ástæða þykir til að festa ákveðin viðmið í sessi. Þá þarf að taka rökstudda og frjálslynda afstöðu til álitamála, m.a. umdeildra og erfiðra mála eins og kynhlutleysis, tillits til ákveðinna þjóðfélagshópa, sjónarmiða og viðhorfa, o.fl., og ekki hika við að leyfa tilbrigði. Að lokum þarf að skrifa nýjan staðal og birta hann.

Mikilvægt er að kynna endurskoðaðan málstaðal vel og hvetja til þess að honum sé fylgt í skólum, fjölmiðlum o.v. En það er ekki nóg – endurskoðaður málstaðall krefst breytinga á kennaramenntun, kennsluefni, kennsluaðferðum og prófum, sem og handbókum og uppflettiritum, á pappír og neti. En hann krefst ekki síst breytinga á hugarfari – aukins umburðarlyndis gagnvart tilbrigðum í máli og skilnings á að þótt eitt sé rétt þarf annað ekki að vera rangt. Málstaðallinn þarf svo að vera í stöðugri endurskoðun. En sjálfsagt er þetta óraunhæft. Kannski sitjum við uppi með úreltan málstaðal, sífellt fjarlægari venjulegu máli, langt fram eftir öldinni. Það sakar samt ekki að láta sig dreyma.