Bæði skærin

Á mínu heimili, eins og líklega flestum öðrum, eru til skæri. Ekki bara ein skæri, heldur önnur líka, og af því að skæri er fleirtöluorð eru það tvenn skæri, ekki *tvö skæri. Allt í lagi með það – ég ræð vel við það. Nú vildi svo til um daginn að önnur skærin týndust, og skömmu síðar hin einnig. Það var orðið neyðarástand á heimilinu eins og fólk getur ímyndað sér þannig að ég fór að leita að skærunum og fann þau að lokum þar sem þau höfðu lent til hliðar við skúffu í eldhúsinu.

Ég fór sigri hrósandi til konunnar minnar til að segja frá þessu afreki mínu – en þá varð ég kjaftstopp og vissi ekkert hvað ég ætti að segja. „Ég fann bæði skærin!“ Nei, það gengur ekki – það má ekki nota bæði með fleirtöluorðum. „Ég fann hvortveggja skærin!“ Nei, fjandakornið – það get ég ekki með nokkru móti sagt, þótt ég viti að það er „rétta“ aðferðin til að segja þetta. „Ég fann fyrst önnur skærin, og svo hin!“ Já, en það er bara ekki rétt lýsing á staðreyndum því að skærin fundust samtímis.

Svo að ég lét bara verkin tala og otaði skærunum framan í frúna til að sýna hvað ég hefði verið fundvís. En það er samt eiginlega engin lausn. Það gengur auðvitað ekki að hafa enga leið til að segja jafn einfaldan hlut og að tvenn skæri hafi fundist. Hvernig á að fara að þessu? Getur einhver sagt hvortveggja skærin? Truflar bæði skærin venjulegt fólk?