Gaman að því

Um daginn skrifaði ég um orðin svoleiðis, svona og þannig og benti á að þótt þau hafi til skamms tíma verið flokkuð sem atviksorð standa þau mjög oft í setningafræðilegri stöðu lýsingarorðs (eða fornafns). En þetta er ekkert einsdæmi. Orðið gaman er flokkað sem nafnorð í öllum orðabókum, og hagar sér auðvitað oftast eins og venjuleg nafnorð gera. Við segjum ég hafði gaman af þessu eins og ég hafði skemmtun af þessu; lesa sér til gamans eins og lesa sér til skemmtunar; gamanið fór að grána eins og skemmtunin fór að súrna; ég sagði þetta í gamni eins og ég sagði þetta í gríni; o.s.frv. En stundum hagar gaman sér öðruvísi en búast má við af nafnorði.

Á eftir það er … getur komið hvort heldur er nafnorð eða lýsingarorð – við getum sagt það er leikur að lesa og það er gaman að lesa, en líka það er skemmtilegt að lesa. Hér er leikur ótvírætt nafnorð en skemmtilegt ótvírætt lýsingarorð. En ef við látum áhersluorð fylgja kemur í ljós að það er hægt að láta atviksorð standa með gaman, rétt eins og með skemmtilegt – en alls ekki með leikur. Við getum sagt það er mjög gaman að lesa og það er mjög skemmtilegt að lesa, en alls ekki *það er mjög leikur að lesa – það er alveg út í hött. Og sama gildir um önnur atviksorð – það er hægt að segja ákaflega gaman, rosalega gaman, ógeðslega gaman o.s.frv.

Atviksorð standa sem ákvæðisorð með lýsingarorðum en yfirleitt ekki með nafnorðum, og því er að sjá sem gaman hagi sér eins og lýsingarorð í setningum á við það er gaman að lesa. Þá er spurningin: Eigum við að segja að gaman sé alltaf nafnorð en hagi sér stundum eins og lýsingarorð – eða eigum við að segja að gaman sé að upplagi nafnorð en geti líka verið lýsingarorð við ákveðnar aðstæður? Það er ekkert einsdæmi að sama orðið sé talið til mismunandi orðflokka eftir setningafræðilegri stöðu. Forsetningar eru greindar sem atviksorð ef þær missa fallorð sitt, lýsingarháttur þátíðar er sagnmynd en verður oft að lýsingarorði, og fleiri dæmi mætti nefna.

Það er auðvitað ljóst að gaman væri mjög ódæmigert lýsingarorð – það hvorki stigbreytist né beygist í kynjum. Við segjum ekki *gamön (eða *gömun) í kvenkyni og *gamant í hvorugkyni, og ekki heldur *gamnari í miðstigi og *gamnastur í efsta stigi. En þetta væri samt ekki einsdæmi um lýsingarorð. Sama gildir um svoleiðis, svona og þannig ef þau eru greind sem lýsingarorð við vissar aðstæður – en líka um ótvíræð lýsingarorð eins og þau sem enda á sérhljóði, oftast -a (andvaka, samferða o.s.frv.) en líka -i (hugsi, þurfi, og lýsingarhætti nútíðar eins og æpandi).

Við gætum e.t.v. reynt að segja að vegna þess að mjög getur staðið með gaman í það er gaman að lesa sé eðlilegt að greina gaman sem lýsingarorð þar, sem og í öðrum setningum þar sem hægt er að setja skemmtilegt (eða eitthvert annað lýsingarorð) í staðinn. En vandinn er sá að það dugir ekki. Það er nefnilega líka hægt að hafa mjög með gaman í setningum þar sem alls ekki er hægt að setja lýsingarorð í staðinn, eins og ég hef mjög gaman af lestri. Það er útilokað að segja *ég hef mjög skemmtilegt af lestri – hins vegar er hægt að setja nafnorð í staðinn og segja ég hef skemmtun af lestri – en ekki *mjög skemmtun, heldur mikla skemmtun.

Ekki nóg með það. Þótt vissulega sé stundum hægt að setja gaman í stað lýsingarorðs eins og sýnt er hér að framan er það einungis við sérstakar kringumstæður. Við getum sagt þetta er mjög skemmtilegt og þetta er mjög gaman, en bara barnið / blaðið er mjög skemmtilegt, alls ekki *barnið/ blaðið er mjög gaman. Það virðist eingöngu vera hægt að nota gaman í slíkum setningum þegar frumlagið er þess eðlis að sagnfyllingin þarf ekki að samræmast því – en hér er fyrir löngu komið út í alltof flókin og tæknileg atriði fyrir þennan vettvang. Ég hallast samt að því að eðlilegt sé að segja að gaman sé alltaf nafnorð en afbrigðilegt að því leyti að það geti tekið með sér atviksorð sem ákvæðisorð – án þess að það geri það að lýsingarorði.

Ég á ekki von á að mörgum endist þolinmæði til að lesa þessa langloku, og það er í góðu lagi. En tilgangurinn er ekki að leysa neitt vandamál eða svara spurningum, heldur vekja athygli á sérviskulegri hegðun þessa algenga og hversdagslega orðs, gaman. Það leynir á sér.