hnjá(a)

Nýlega rakst ég á setninguna „hún hnjár boltann í þverslána“ í knattspyrnulýsingu á vefmiðli. Ég hnaut um orðið hnjár sem ég man ekki eftir að hafa séð áður – en er augljóslega sögn miðað við setningafræðilega stöðu, og vel skiljanleg af samhenginu. Nafnháttur sagnarinnar er væntanlega hnjá – sagnir sem hafa á í stofni hafa yfirleitt enga sérstaka nafnháttarendingu, sbr. spá, , , sjá o.fl. En ef nafnhátturinn er hnjá mætti reyndar búast við því að nútíðin væri einhvern veginn öðruvísi en hnjár – t.d. *hnjáir, sbr. spáir, eða *hnjær, sbr. fær og nær, eða *hnér, sbr. sér. Ég finn samt engin dæmi um þær orðmyndir – og þetta tiltekna dæmi, og annað um myndina hnjáði, eru raunar einu dæmin sem ég finn um myndir sem virðast leiddar af nafnhættinum hnjá.

Hins vegar fann ég fáein dæmi á netinu um myndirnar hnjáar og hnjáaði sem ættu að vera af nafnhættinum hnjáa. Báðir nafnhættir, hnjá og hnjáa, gætu vel staðist. Endingarleysi nafnhátta með á í stofni má skýra með hljóðfræðilegum aðstæðum í málinu fyrir mörgum öldum. En þær hljóðfræðilegu aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi og þess vegna er ekkert óeðlilegt að nýjar sagnir sem koma inn í málið og hafa á í stofni bæti við sig nafnháttarendingunni -a eins og allar aðrar nýjar sagnir. Nafnhátturinn hnjá væri því myndaður með hliðsjón af sögnum sem fyrir eru í málinu, en nafnhátturinn hnjáa út frá þeim reglum sem gilda í nútímamáli. Hvort tveggja er í góðu lagi.

Myndin hnjá- kemur aðeins fyrir í þágufalli og eignarfalli fleirtölu af orðinu hnéhnjám og hnjáa. Í öllum föllum eintölu er notuð myndin hné og vegna þess að aðeins annað hnéð er notað til að hnjá(a) hefði e.t.v. mátt búast við því að sú stofnmynd væri notuð í orðmynduninni. Það hefur reyndar verið gert – á netinu má finna nafnháttinn hnéa og myndir eins og hnéar og hnéaði. Einnig má finna dæmi um myndirnar hnéum og hnéa í þágufalli og eignarfalli fleirtölu af hné. Þessar myndir falla mun síður að málkerfinu – röðin éa er hvergi til nema í þágufalli og eignarfalli orðsins hlé (hléum og hléa). Þess vegna eru myndirnar hnjá og hnjáa heppilegri en hnéa.

Þótt sögnin hnjá(a) hafi komið mér spánskt fyrir sjónir sé ég í fljótu bragði ekki annað en hún sé gagnleg viðbót við orðaforða málsins og geti alveg samræmst reglum þess. Hvernig ætti annars að orða það þegar leikmaður notar hnéð til að breyta stefnu boltans – eða rekur hnéð í annan leikmann? Er ekki bara fínt að hafa sérstaka sögn til að tjá þá merkingu frekar en nota einhverja langloku?