Hertari aðgerðir

Á þessum tímum þegar sífellt er verið að grípa til einhverra aðgerða í baráttunni við kórónuveiruna heyrir maður oft talað um hertari aðgerðir – í miðstigi. Það má halda því fram að miðstigið sé þarna óþarft vegna þess að það felist í grunnmerkingu orðsins – nóg sé að segja hertar aðgerðir. Sá munur er á merkingu lýsingarorðsins harður og lýsingarorðsins (eða lýsingarháttarins) hertur að hið fyrrnefnda felur ekki í sér breytingu á ástandi en hið síðarnefnda gerir það.

Hér spilar líka inn í að þegar sífellt er verið að herða aðgerðir finnst fólki það kannski kalla enn frekar á miðstigið – um daginn var gripið til hertra aðgerða, og nú á að grípa til enn hertari aðgerða. Það má líka halda því fram að þetta geti að einhverju leyti farið eftir því við hvað er miðað – ef miðað er við eðlilegt ástand má segja að aðgerðirnar séu hertari en þær sem síðast var gripið til, en ef miðað er við núverandi ástand eru þær bara hertar frá því.

En samt: Það er varla hægt að segja að það sé rangt að tala um hertari aðgerðir en miðstigið er þarna óþarft – merkingin skilar sér alveg í frumstiginu. Það er samt sem áður ekkert undarlegt að fólk noti miðstig þarna – við erum vön því að nota miðstig einmitt til að tákna aukningu á því sem í orðinu felst, eins þarna er um að ræða, og hyllumst því til að bæta miðstigsendingunni við þótt hún sé strangt tekið óþörf.

Á vissan hátt má segja að þetta sé hliðstætt því þegar talað er um hæstlaunuðustu störfin eða fólkið – þar er efsta stigið komið fram í fyrri hluta orðsins, en af því að við erum vön að tákna það með endingu aftast í orðinu finnst okkur hún þurfa að koma líka.