Tilbrigði og stéttaskipting

Tilbrigði í máli hafa verið heldur illa séð á Íslandi síðan á 19. öld. Þar sem mismunandi málvenjur hafa verið uppi hefur verið lögð áhersla á að hampa einni þeirra sem réttri en segja hinar „rangt mál“. Þetta gildir á flestum sviðum málsins – í beygingum, fallstjórn, orðaröð, setningagerð og merkingu orða. Dæmin eru svo mörg og svo vel þekkt að óþarfi er að tilgreina þau hér. Eina svið málsins sem hefur sloppið að mestu við þessa samræmingaráráttu er framburður. Vissulega lagði Björn Guðfinnsson fram tillögur að samræmingu framburðar um miðja síðustu öld en þeim var ekki hrundið í framkvæmd, þótt ómögulegt sé að segja hvað hefði orðið ef Birni hefði enst aldur til að fylgja þeim eftir.

Þótt óneitanlega hafi tíðkast að gera grín að ýmsum framburðartilbrigðum hafa þau sjaldnast verið talin beinlínis röng. Sennilega stafar þetta af því að tilbrigðin tengdust flest tilteknum landsvæðum og fólk greip til varna fyrir sitt hérað. Þau fáu tilbrigði sem hafa leyfst á öðrum sviðum, svo sem í beygingu og merkingu, hafa flest verið af þessu tagi – tiltekin beyging eða merking orðs tengist ákveðnu landsvæði og er þess vegna frekar umborin. Einu framburðartilbrigði, „flámælinu“ svokallaða, var þó reynt að útrýma skipulega – með ýmsum aðferðum sem sumar hverjar þættu ekki við hæfi nú. En það var einmitt ekki bundið einu tilteknu landsvæði heldur kom upp á nokkrum stöðum á landinu – og sum þeirra landsvæða voru ekki hátt skrifuð meðal þeirra sem réðu mestu í menntun og menningarlífi.

Fólk sem ræður yfir tungumálinu ræður yfir þjóðfélaginu og andstaðan við tilbrigði er í grunninn pólitík. Hún beinist gegn máli þeirra sem eiga undir högg að sækja, þeirra sem eru ekki í valdastöðum í þjóðfélaginu. Þess vegna eru landshlutabundin tilbrigði viðurkennd og jafnvel hampað – þau eiga sér þingmenn. En málbrigði sem einkum eru bundin við ungt fólk og fólk sem er lítið menntað, af erlendum uppruna, eða stendur af einhverjum sökum höllum fæti í þjóðfélaginu eiga sér enga þingmenn. Þess vegna eru þau fordæmd og voru iðulega – þótt það sjáist sem betur fer sjaldan í seinni tíð – tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort, og höfuðborgarsvæðið.

Með þessu er ég hvorki að segja að öll málvöndun sé af hinu illa né að fólk sem amast við tilbrigðum í máli sé meðvitað að reyna að halda öðrum niðri. Því fer fjarri. Þvert á móti er ég sannfærður um að flestum sem gera athugasemdir við málfar og beita sér gegn málbreytingum gengur gott eitt til og vilja fyrst og fremst vernda og varðveita íslenskuna. En andstaða við tilbrigði í máli er ekki rétta aðferðin til þess. Sú andstaða fletur og geldir málið, auk þess sem hún ýtir undir málfarslega mismunun og stéttaskiptingu. Í rannsóknum undanfarinna áratuga hafa komið fram skýrar vísbendingar um tengsl ákveðinna fordæmdra málbrigða hjá börnum við menntun og þjóðfélagsstöðu foreldra. Við þurfum að vinna gegn því í stað þess að ýta undir það.