Úrslit Skólahreystis

Í dag var hér vakin athygli á því að orðið hreysti hefði verið notað í hvorugkyni í frétt á vef Ríkisútvarpsins. Þar segir: „Og á hverjum einasta fasa í minni endurhæfingu er manneskja sem er í andlega hreystinu líka“ og „Inga áttaði sig á því að það var ekki nóg að huga að líkamlegu hreysti heldur þurfti að huga að því andlega líka“. Orðið hreysti er upphaflega – og venjulega – kvenkynsorð en orð með þessa stofngerð gæti út af fyrir sig eins verið hvorugkynsorð. Orðið háreysti sem hefur sömu stofngerð og er myndað með i-hljóðvarpi af raust á sambærilegan hátt og hreysti af hraust(ur) er frá fornu fari til bæði í kvenkyni og hvorugkyni þótt eingöngu kvenkynið sé gefið upp í Íslenskri nútímamálsorðabók enda líklega yfirgnæfandi í nútímamáli.

Kvenkynsorðið hreysti er eins í öllum föllum eintölu – fleirtala er ekki notuð af merkingarlegum ástæðum. Í hvorugkyni fá orð af þessu tagi -s-endingu í eignarfalli en eru eins í nefnifalli, þolfalli og þágufalli. Þar af leiðir að mjög oft er ekki hægt að sjá hvort orðið er í kvenkyni eða hvorugkyni. Það gildir t.d. um setningar eins og „Dugnaður og hreysti ásamt ódrepandi seiglu eru þar ofarlega á blaði“ í Morgunblaðinu 2020, „Hún vekur hvarvetna athygli fyrir geislandi fegurð og hreysti“ í Fréttablaðinu 2020, „Útivera stuðlar að betri heilsu; lýðheilsu, geðheilbrigði og hreysti“ í Fréttablaðinu 2021, „Því er ætlað að efla hreysti, lífsfyllingu, félagsleg tengsl og virkni fólks á þriðja æviskeiði“ í Fréttablaðinu 2022, o.s.frv.

Til að hægt sé að sjá í hvaða kyni orðið er haft þarf það því að vera í eignarfalli, með greini, eða taka með sér ákvæðisorð – lýsingarorð eða fornafn. Fáein dæmi um að þessi atriði beri vitni um hvorugkyn má finna á tímarit.is. Í Morgunblaðinu 1947 segir: „Aðalhlutverkið leikur hinn karlmannlegi og djarfi Massimo Derotti, sem vegna afl[s] og hreystis er nefndur Ítalski Tarzan.“ Í Foringjanum 1976 segir: „Það er keppt bæði í verklegum og bóklegum greinum, auk líkamlegs hreystis.“ Í Víkurfréttum 1994 segir: „Sigrún, sem sjálf er hreystið uppmálað, hvetur fólk til að auka hreyfinguna og borða rétt.“ Í Degi 1999 segir: „Við sáum fyrir okkur ungan, lífsglaðan og hugljúfan mann sem einkenndist af miklu líkamlegu hreysti og keppnisanda.“

Í umræðum var nefnt að hvorugkynsbeyging hefði verið algeng í heiti keppninnar „Skólahreysti“ sem sýnd hefur verið í sjónvarpi undanfarin ár. Í DV 2007 segir: „Það er nóg um að vera á Skjá einum í kvöld þegar fram fara úrslit Skólahreystis á slaginu 20.00.“ Í Velferð 2007 segir: „Síðan gátu börn skemmt sér í hoppikastala og þrautabraut í anda Skólahreystis.“ Í Vesturbæjarblaðinu 2017 segir: „Landsbankinn er nýr bakhjarl Skólahreystis.“ Í Víkurfréttum 2018 segir: „Nánari upplýsingar og myndir má finna á heimasíðu Skólahreystis og Facebook.“ Í Mosfellingi 2018 segir: „Vinsældir Skólahreystis hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár.“ Alls eru tæp 60 dæmi um eignarfallið Skólahreystis á tímarit.is og rúm 60 í Risamálheildinni.

Í dæmum af þessu tagi, þar sem nafnorð (úrslit, anda, bakhjarl, heimasíðu, vinsældir) tekur með sér annað nafnorð í eignarfalli, virðist það trufla málnotendur ef ekki sést að um eignarfall er að ræða. Það sést ekki í kvenkyni vegna þess að öll föllin eru eins, og þess vegna er tilhneiging til að bæta eignarfallsendingu hvorugkyns við. Dæmi um kvenkynseignarfall eru samt mun fleiri, og sé litið fram hjá samsetningunni Skólahreysti er hvorugkynsbeyging orðsins hreysti sjaldgæf. Þó er trúlegt að hún sé algengari en hægt er að sýna fram á, því að líklegt er að sum dæmi sem gætu verið kvenkyn séu í raun og veru hvorugkyn í huga höfunda sinna. En þótt hvorugkynið breiddist út væri það saklaust enda væri það ekkert óeðlileg eins og áður segir.

Hvernig spyrjum við um ástæðu?

Íslenskan hefur þrjár meginaðferðir til að spyrja um ástæðu einhvers – orðasamböndin (forsetningarliðina) af hverju og hvers vegna, og spurnaratviksorðið hví. Af orðasamböndunum eru til ýmis tilbrigði svo sem af hvaða ástæðu og vegna hvers en þau eru svo sjaldgæf að þau skipta ekki máli. Í fornu máli kemur eingöngu hví fyrir – orðasamböndin koma ekki til fyrr en á síðari öldum. Um miðja 19. öld er hlutfall af hverju um það bil helmingur af heildartíðni þessara þriggja spurnaraðferða samkvæmt tímarit.is en hvers vegna og hví eru um fjórðungur hvort fyrir sig. Á næstu áratugum eykst tíðni hvers vegna smátt og smátt, einkum á kostnað af hverju, en hví er nokkuð stöðugt milli 20 og 25% fram um 1930 þegar dæmum fer að fækka.

Um miðja 20. öld er hlutfall hvers vegna orðið um tveir þriðju af heildinni en af hverju og hví á bilinu 15-20% hvort. Eftir það lætur hví hins vegar hratt undan síga og er komið niður í 4% af heildinni um síðustu aldamót. Hlutfall af hverju hefur hækkað að sama skapi og af hverju og hvers vegna eru hvort um sig rétt tæpur helmingur af heildinni á þessari öld. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá þessari öld sést hvernig þessi þróun heldur áfram. Þar er hlutfall af hverju tæplega ¾ af heildinni, hlutfall hvers vegna rétt tæplega fjórðungur, en hlutfall hví ekki nema rúm tvö prósent. Í textum af samfélagsmiðlum er munurinn enn meiri – þar er af hverju (mjög oft skrifað afhverju) 85,5% af heildinni, hvers vegna 12,5% og hví aðeins 2%.

Ég hef á tilfinningunni að flestum fullorðnum þyki spurnarorðið hví frekar formlegt og ég held t.d. að ég noti það aldrei nokkurn tíma, ekki heldur í ritmáli. En hér var í dag bent á að hví væri orðið algengt í máli ungs fólks og þess getið til að það stafaði af áhrifum enska orðsins why. Það er svolítið erfitt að meta þetta en textar af samfélagsmiðlum endurspegla þó fyrst og fremst óformlegt málfar ungs fólks og því er helst að miða við þá. Vegna eðlis þessara texta er hlutfall spurnarorða mjög hátt þar í samanburði við aðra texta og dæmin um hví því býsna mörg, hálft ellefta þúsund. Hlutfallið er vissulega lágt, aðeins um 2% eins og áður segir, en þó nokkurn veginn það sama og í formlegri textum – ólíkt því sem búast mætti við.

Miðað við hvað hví er – eða var – formlegt orð og hvernig tíðni þess hefur farið ört lækkandi undanfarna áratugi mætti nefnilega búast við að hlutfall þess væri mun lægra í óformlegu máli samfélagsmiðla. Þótt hví hafi verið á hraðri niðurleið undanfarna áratugi eiga ensk áhrif því e.t.v. eftir að framlengja líf þess eitthvað. Vitaskuld eiga hví og why sér sameiginlegan uppruna þannig að það er ekki eins og þarna sé um eitthvert aðskotaorð að ræða, en það er óvanalegt að ensk áhrif verði til þess að efla gamalt orð sem tilheyrði formlegu málsniði og auka notkun þess í óformlegu máli. En að öðru leyti er niðurstaðan sú að notkun af hverju sé orðin langsamlega algengasta aðferðin til að spyrja um ástæðu en hvers vegna og einkum hví séu á hraðri niðurleið.

Rotinn fiskur

Í frétt á Vísi í dag er sagt frá flugfarþega sem hafði „með sér um borð rotinn fisk“. Vitnað er í frétt Guardian þar sem segir: „A passenger reportedly brought rotten fish on to the plane.“ Nú eru íslenska orðið rotinn og enska orðið rotten orðsifjafræðilega náskyld, og enska orðið m.a.s. talið eiga sér norrænar rætur. Þau eru líka náskyld merkingarlega, en þó er nokkur munur á. Enska orðið er skýrt 'decayed', eða 'skemmt, brotið niður', en það íslenska er skýrt 'sem rotnun er í, sem hefur rotnað, rotnaður' í Íslenskri nútímamálsorðabók og sögnin rotna aftur skýrð 'brotna niður og verða að jarðvegi'. Það sem skilur á milli er sem sé 'verða að jarðvegi' sem er mikilvægur þáttur í skilgreiningu íslenska orðsins en ekki nefndur í því enska.

Sögnin rotna og lýsingarorðið rotinn eru notuð um fullkomið niðurbrot á lífrænu efni – gróðri, ávöxtum, hræjum dýra, líkum fólks o.fl. Í Norðurlandi 1910 segir: „Ef haustlaufinu er safnað og það látið rotna í haugum, verður úr því góður áburður.“ Í Gimlungi 1911 segir: „Öll gróðurmold myndast fyrir áhrif bakteríanna, sem koma jurtum og öllum lífrænum efnum til að rotna.“ Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Hræ af búsmala liggja hvarvetna í hrönnum og rotna.“ Í Vísi 1943 segir: „Nokkur lík rak nú á land og fóru skipbrotsmenn bónarveg að Márum og báðu þess, að mega grafa líkin, en Márar svöruðu því til, að hræ hunda létu þeir að jafnaði rotna undir berum himni.“ Í Frjáls Palestína 1993 segir: „Nú rotna ávextir á trjám og grænmeti í görðum.“

Aftur á móti hafa þessi orð yfirleitt ekki verið notuð um skemmdir á matvælum – þá eru fremur notuð orð eins og skemmt eða úldið eða fúlnað skemmt kjöt, úldinn fiskur, fúlnuð mjólk. En áðurnefnt dæmi um rotinn fisk er þó ekki einsdæmi. Örfá dæmi, rúmlega 10 samtals, um rotið kjöt og rotinn fisk má finna á tímarit.is, t.d. „Ef hreinlæti er ábótavant rotnar kjötið áður en það meyrnar“ í Frey 1986 og „stór hluti flatts fisks í gámunum hafi verið rotinn“ í Þjóðviljanum 1991. Í Risamálheildinni eru um 20 dæmi um þessi sambönd. Lausleg athugun bendir til þess að þau séu langflest úr þýddum fréttum og verið sé að þýða enska lýsingarorðið rotten – ég hef flett nokkrum dæmanna upp og gengið úr skugga um að þannig er í pottinn búið.

Þetta er sem sé dæmi um það sem stundum er kallað falsvinur, „orð sem hefur aðra merkingu í erlendu máli en búast má við miðað við merkingu sams konar orðs í öðru máli“ eins og segir í Íslenskri orðabók. Vissulega er merkingarmunurinn þarna ekki mikill og stundum getur verið óljóst hvort rotna á við, eins og t.d. í Búnaðarritinu 1901: „Skrokkar af veikum dýrum og sjálfdauðum rotna jafnan miklu fyr en af þeim, sem slátrað er heilbrigðum“ – þarna er spurning hvort verið er að tala um hræ eða matvæli. Þótt þessi merkingarmunur á rotna og úldna eða skemmast sé kannski ekki stórmál finnst mér æskilegt að halda í hann og rétt er að nefna að í áðurnefndri frétt Vísis segir líka: „Þeir hafi fundið hinn úldna fisk umvafinn dagblaðapappír.“

Hvað þarf gamla fólkið að bíða lengi?

Í morgun var hér spurt út í fyrirsögnina „Hvað þarf gamla fólkið að bíða lengi?“ á mbl.is – hvers vegna hún væri ekki frekar „Hve lengi þarf gamla fólkið að bíða?“. Báðar setningarnar eru fullkomlega eðlileg íslenska en það er ekki undarlegt að fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli verði hugsi þegar það sér setningu af þessu tagi. Þarna er nefnilega um að ræða setningagerð sem þekkist ekki í skyldum málum svo að ég viti, en er eðlileg og algeng í íslensku. Þar er atviksorð sem er ákvæðisorð með lýsingarorði eða öðru atviksorði rifið frá því og látið standa fremst í setningu. Í þessu tilviki er um að ræða spurnarorðið hvað (sem stendur sem atviksorð þarna þótt það sé venjulega spurnarfornafn) en ýmis önnur atviksorð geta hagað sér á sama hátt.

Þar er einkum um að ræða atviksorð sem eru löng og hafa sterka áherslumerkingu. Við segjum þetta er óskaplega leiðinlegt þar sem atviksorðið óskaplega er ákvæðisorð með lýsingarorðinu leiðinlegt, leggur áherslu á hversu leiðinlegt þetta sé. En við getum líka haft atviksorðið fremst í setningu og sagt óskaplega er þetta leiðinlegt – í sömu merkingu, þótt e.t.v. sé áherslan enn sterkari þarna. Á ensku er hægt að segja this is terribly boring en alveg útilokað að slíta atviksorðið frá lýsingarorðinu og segja *terribly is this boring eða *terribly this is boring. Á dönsku er hægt að segja det er forfærdeligt kedeligt en ekki *forfærdeligt er det kedeligt, og  á þýsku er hægt að segja das ist schrecklich langweilig en ekki *schrecklich ist das langweilig.

Á sama hátt getum við sagt bæði í gær var rosalega gaman og rosalega var gaman í gær, þetta er ferlega fúlt og ferlega er þetta fúlt, ég þekkti ótrúlega margt fólk á tónleikunum og ótrúlega þekkti ég margt fólk á tónleikunum, o.s.frv. En stutt atviksorð, eins og mjög, er yfirleitt ekki hægt að slíta frá lýsingarorðinu sem þau standa með í nútímamáli – við getum ekki sagt *mjög er þetta leiðinlegt eða *mjög var gaman í gær. Þetta var aftur á móti hægt í fornu máli – „Mjög var Auður þá elligömul“ segir t.d. í Grettis sögu. En það er örugglega misjafnt hvað málnotendum finnst ganga í þessu efni. Mér finnst t.d. hæpið að slíta verulega frá lýsingarorði, en finn þó nokkur dæmi um það – í DV 1986 segir t.d.: „Verulega er þetta bagalegt fyrir Jakob.“

Svo að komið sé aftur að upphaflegu spurningunni er það rétt að búast mætti við hve(rsu) lengi þarf gamla fólkið að bíða? þar sem spurnaratviksorðið hve eða hversu er ákvæðisorð með atviksorðinu lengi, og spurnarliðurinn í heild, hve(rsu) lengi, stendur fremst í setningu. Það er ekki hægt að slíta slíkan lið sundur – * hve(rsu) þarf gamla fólkið að bíða lengi? er alveg útilokað. En ef hvað er notað í stað hve(rsu) gengur þetta vel. Á sama hátt er hægt að nota mikið í stað mjög fremst í setningu og segja eins og Lilli klifurmús, Mikið er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám og Mikið held ég að þær séu góðar þótt útilokað sé að segja *Mjög er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám og *Mjög held ég að þær séu góðar.

Misskilningur og rangfærslur um „ný-íslensku“

Á laugardaginn var birtist í DV greinin „Ný-íslenskan og hættur hennar“ eftir Sigmund Erni Rúnarsson. Megintilgangur greinarinnar er að andmæla breytingum á íslensku í átt til kynhlutleysis þótt Sigmundur viðurkenni að „vissulega megi gagnrýna íslenska tungu fyrir að hafa verið full til karllæg í gegnum tíðina – og er þar líklega varlega að orði komist“. Vitanlega er Sigmundi frjálst að hafa sína skoðun á þessu og engin ástæða til að gera athugasemd við það. Hins vegar er eðlilegt að ætlast til að hann haldi sig við staðreyndir í umfjöllun sinni en á því er nokkur misbrestur. Meðal þess sem hann nefnir er „bannfæring karlkynsins“, að verið sé „að fækka kynjum í móðurmálinu“, „gera orð útlæg“ og breyta reglum um vísun persónufornafna.

Frasar eins og „bannfæring karlkynsins“ og „að fækka kynjum í móðurmálinu“ eru alveg út í hött. Auðvitað er ekki verið að bannfæra karlkynið, hvað þá fækka málfræðilegum kynjum – þau eru og verða þrjú. Málið snýst bara um að nota karlkyn í vísun til karla, kvenkyn í vísun til kvenna og hvorugkyn í vísun til kvára og kynjablandaðs hóps, sem og í almennri vísun þegar kyn fólks sem vísað er til er óþekkt. Þetta síðastnefnda er breyting, og Sigmundur er einn margra sem vilja halda í karlkynið sem „hlutlaust“ kyn, og það er auðvitað í góðu lagi. Ég á hins vegar ómögulegt með að sjá hvernig einhver „bannfæring karlkynsins“ felst í áðurnefndri breytingu, eða hvernig verið er að „fækka kynjum í móðurmálinu“ með henni. Það er rugl.

Það er ekki heldur verið að „gera orð útlæg“ þótt leitast sé við að nota önnur orð en maður og samsetningar af því í vísun til kynjablandaðra hópa, vegna þess hversu tengt karlmönnum orðið er í huga málnotenda, og nota frekar orð eins og manneskja og man og samsetningar með -fólk. Það er auðvitað í góðu lagi að vilja halda í orðið maður í almennri vísun en það er fráleitt halda því fram að stefnt sé að því að gera það „útlægt“ – það er vitanlega notað áfram í merkingunni ‚karlmaður‘ sem það hefur alltaf haft, auk almennu merkingarinnar. Einu orðin sem hafa verið gerð útlæg úr málinu eru niðurlægjandi orð eins og negri, kynvillingur, fáviti og önnur slík sem ég vona að við séum flest sammála um að séu ekki við hæfi í nútímanum.

Það er líka villandi að segja: „Persónufornöfn vísa ekki lengur til málfræðilegra persóna eins og reglur hafa kveðið á um. Og kenndar hafa verið í skólum.“ Þær „reglur“ eru tilbúningur að hluta og taka ekki tillit til þess að vísun fornafna hefur alla tíð getað verið bæði málfræðileg, innan tungumálsins, og þá er málfræðilegt samræmi notað, eða merkingarleg, út fyrir tungumálið, og þá er merkingarlegt samræmi notað. Við könnumst auðvitað öll við að notað sé hvorugkynið þau í vísun til karlkynsorða eins og foreldrar og krakkar – slík merkingarleg sambeyging á sér langa hefð í málinu og er t.d. algeng í einkabréfum frá seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. eins og Guðrún Þórhallsdóttir hefur  sýnt fram á.

Saman við þetta er svo blandað alls óskyldum hlutum eins og þeim undarlegu fullyrðingum að „orðin klikkað og geðveikt virðast hafa leyst svo að segja öll önnur lýsingarorð af hólmi“ sem er fjarri sanni, og „Fjölbreytni tungumálsins er að víkja fyrir einsleitni“ sem engin rök eru fyrir. Svo er óskiljanlegt að segja „Er vilji til þess á meðal þjóðarinnar að láta réttritun lönd og leið?“ og „Eru gamlar stafsetningarreglur kannski bara barn síns tíma?“. Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi verið amast við stafsetningarreglum nýlega. Sigmundur Ernir vill íslenskunni vitanlega vel, og engin ástæða til að gera lítið úr því. En jafnvel vel meint skrif verða að byggja á staðreyndum ef þau eiga að koma að gagni – annars geta þau verið til bölvunar.

Málfarsviðmið í íslenskum skáldsögum

Í nýlegu útvarpsviðtali við Þórdísi Gísladóttur rithöfund kom fram að hún væri „mjög meðvituð um hve ólík hefðbundin bókmenntaíslenska sé talmáli. „Ég held að við þurfum aðeins að slaka meira á í íslenskum bókmenntum og taka aðeins nútímann inn,“ segir hún. „Ef þú ert að skrifa samtímabókmenntir allavega, þá þarftu aðeins að hugsa um að vera í samtímanum.““ Ég tók þessi ummæli upp hér í gær og tengdi þau við þá skoðun sem ég hef lengi haldið fram, að ýmis viðmið í íslenskum málstaðli séu úrelt og löngu kominn tími á að endurskoða málstaðalinn og færa hann nær máli almennings. Málfarsviðmið sem eru fjarri máli því máli sem er talað í landinu valda rofi milli ritmáls og talmáls sem er stórhættulegt íslenskunni til lengdar.

Í umræðum var bent á að talmál og slangur hefði iðulega verið notað í íslenskum bókmenntum – með misjöfnum árangri – en úreltist stundum fljótt og yrði ankannalegt. Elsta dæmið um þetta er líklega Vögguvísa eftir Elías Mar frá 1950 þar sem málfar persóna einkenndist af slangri og margs konar „málvillum“. Fleiri tegundir frávika má nefna – Sigríður Hagalín Björnsdóttir lætur persónu í nýrri bók sinni Deus tala án þess að nota viðtengingarhátt, og Fríða Ísberg sagði í viðtali um skáldsöguna Merkingu frá 2021: „Að sama skapi lét ég Tristan tala á sérstakan hátt til að sjá hvort það hefði áhrif á samkennd gagnvart honum. Yrði hann settur skör lægra, myndi hann strax verða fordæmdur af því hann segir einhvern meginn en ekki einhvern veginn?“

Ég hef lesið einar átta íslenskar skáldsögur sem komu út fyrir jólin. Þær eru mjög ólíkar að efni, efnistökum, málfari og stíl, en eitt eiga þær þó sameiginlegt: Í þeim er undantekningarlítið eða undantekningarlaust farið eftir þeim viðmiðum um „rétt“ mál sem hafa verið viðtekin og viðurkennd undanfarna áratugi – frá því snemma á tuttugustu öld. Þetta gildir ekki bara um texta bókarhöfunda, heldur líka um það sem persónum bókanna er lagt í munn. Nú vitum við að mér langar er eðlilegt mál allnokkurs hluta þjóðarinnar. Sama gildir um ég vill, og mörgu ungu fólki er líka eðlilegt að segja það var hrint mér. Ég man samt ekki eftir því að ein einasta persóna í þeim bókum sem ég hef lesið að undanförnu – eða áður – hafi talað á þennan hátt.

Í þeim dæmum sem hér hafa verið nefnd um frávik frá málstaðlinum í skáldsögum, og öðrum dæmum sem ég man eftir, þjóna frávikin ákveðnum tilgangi – þau einkenna persónuna, flokka hana, setja hana jafnvel „skör lægra“ en ella eins og Fríða Ísberg sagði. Hvernig stendur á því að persónur í bókunum fá ekki að tala eðlilega og hversdagslega íslensku á jafnréttisgrundvelli? Af hverju fá ekki sumar persónur að segja mig langar og ég vil en aðrar mér langar og ég vill án þess að það þurfi að lesa eitthvað í það, annað en að við tölum ekki öll eins? Ég veit ekki hvort þetta er þáttur í því sem Þórdís var að fara, en mér finnst þetta a.m.k. mikilvæg spurning: Af hverju geta ekki einu sinni persónur í bókum slitið sig frá aldargömlum viðmiðum?

Nýjar sagnmyndir?

Í gær var spurt hér út í myndina hefurður sem fyrirspyrjandi hafði séð – og fleiri hliðstæðar – þar sem búast mætti við hefurðu í þýddri bók frá 1974. Ég hef aldrei tekið eftir þessu áður en við nánari athugun kemur í ljós að töluvert af dæmum má finna um myndir af þessu tagi. Það elsta sem ég rakst á í fljótu bragði er „Hvað ætlarður þjer þá að gera?“ í Vestra 1904. Í Morgunblaðinu 1918 segir: „Hvað viltur sagði John Francis.“ Í Lögbergi 1923 segir: „hefurður nokkra hugmynd um hvað mikið hann varðar mig?“ Í Morgunblaðinu 1974 segir: „Geturður gefið þér tíma til að hafa áhugamál utan starfsins?“ Eitt og eitt slíkt dæmi gæti verið prentvilla, en dæmin á tímarit.is skipta hundruðum þannig að hér er greinilega eitthvað meira á ferðum.

Í flestum þessum dæmum er um spurningar að ræða, en einnig er nokkuð af dæmum um fullyrðingarsetningar þar sem annar liður en frumlag fer á undan sögn, t.d. „viljirðu hana ekki, þá geturður farið“ í Þjóðviljanum 1948, „kannski hefurður rétt fyrir þér“ í Þjóðviljanum 1973, „Síðan geturður hirt dótið þitt og farið heim“ í Tímanum 1970, o.fl. En ekki nóg með það – einnig má finna ýmis dæmi um að -r sé bætt við boðháttarmyndir sagna sem einnig enda á -ðu (eða -du eða -tu eftir stofngerð), t.d. „Farður hægar, Haukur“ í Dvöl 1935, „Láttur nú sjá, að þú hafir lært að stjórna skapi þínu“ í Sunnudagsblaði Tímans 1973, „Nei, komdur sæll og blessaður“ í Foringjanum 1975, „Ég ílendist hér austur frá, vertur viss“ í Vikunni 1974, o.m.fl.

Eins og sjá má í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru myndir af þessu tagi talsvert algengar í óformlegu máli á 21. öld, og þar koma ýmsar sagnir við sögu. Nefna má „Veistur hvað aðföng til landbúnaðarins kosta í gjaldeyri?“ á Málefnin.com 2013, „Vertur góður sonur eða dóttir“ á Twitter 2015, „Hafður samband við næsta byggingarverktaka!“ á Bland.is 2007, „Gerður þetta bara sjálf“ á Málefnin.com 2013, „Farður til heimilislæknisins þíns og láttu líta á þetta“ á Hugi.is 2007, „Komdur á facebook“ á Twitter 2015, „Talaður við fagfólk og reyndu að slaka á“ á Bland.is 2003, „Láttur endilega kíkja á þig“ á Bland.is 2013, „Kallaður mig crazy“ á Bland.is 2014, „Finndur þér öruggari og hraðvirkari vafra“ á Málefnin.com 2005, o.m.fl.

Í fljótu bragði virðist þetta mjög undarleg breyting. Viðbótin -ðu (eða ­-du eða -tu) í spurnar- og boðháttarmyndum er komin af annarrar persónu fornafninu þú og þar á því ekkert -r heima. Forsendan fyrir því að -r sé bætt við hlýtur því að vera að tengsl -ðu við þú í huga málnotenda hafi dofnað. Það er svo sem ekki óhugsandi því að þarna er bæði skipt um samhljóð og sérhljóð, ð sett í stað þ og u í stað ú, og þótt þar sé vissulega um lík hljóð að ræða er hugsanlegt að einhverjir málnotendur átti sig ekki á tengslunum og -ðu sé fyrir þeim eins og hver önnur sagnending, án tengsla við þú. En þótt þetta hugsanlega tengslarof sé nauðsynleg forsenda fyrir -r-viðbótinni er það ekki nægjanleg forsenda – skýrir sem sé ekki hvers vegna -r er bætt við.

Án þess að ég viti það með vissu held ég að þessar -r-myndir hljóti á einhvern hátt að eiga rætur í þeirri hugmynd – eða tilfinningu – eða vitneskju – málnotenda að stundum eigi að skrifa r í lok orða eða orðhluta þótt það heyrist ekki í framburði. Það er alkunna að í samsettum orðum er oft á reiki hvort r á að vera á skilum samsetningarliða eða ekki og sú óvissa leiðir oft til þess að málnotendur skrifa r þar sem það á ekki að vera – þekkt dæmi um það er mánaða(r)mót. Ég efast um (án þess að geta fullyrt nokkuð um það) að framangreindar sagnmyndir séu bornar fram með -r í lokin þótt það sé skrifað en r-ið sýnir hins vegar hugmyndir þeirra sem skrifa það um gerð þessara sagnmynda – þau skilja þær þannig að þær eigi að enda á -ður frekar en -ðu.

Þótt það hvarfli ekki að mér að um ensk áhrif sé að ræða væri freistandi að reyna að tengja þetta -r-innskot við það sem á ensku heitir linking r eða intrusive r. Þetta er þekkt fyrirbæri í ensku sem felst í því að r-hljóði er skotið inn milli sérhljóða til að forðast svokallað hljóðgap (hiatus). Í sumum tilvikum á þetta r sér sögulegar rætur og er táknað í stafsetningu en aðeins borið fram ef sérhljóð fer á eftir og þá er talað um linking r, en í öðrum tilvikum er því skotið inn án þess að það eigi sér aðrar forsendur en hljóðfræðilegar, og þá er það kallað intrusive r. En í íslensku sagnmyndunum kemur -r fram óháð því hvort eftirfarandi orð hefst á sérhljóði, auk þess sem óvíst er að það sé yfirleitt borið fram eins og áður segir. Það er því væntanlega annars eðlis.

Að lokum má spyrja hvort þetta sé dæmi um málbreytingu sem sé í gangi og að breiðast út, en ég efast um að svo sé. Eins og hér hefur komið fram eru dæmi um þetta allt frá upphafi 20. aldar en það er athyglisvert að stór hluti dæma um hefurður og geturður sem eru langalgengustu myndirnar af þessu tagi á tímarit.is er frá níunda áratug síðustu aldar – dæmum um -r-myndir í formlegu máli virðist hafa fækkað talsvert á seinni árum. Fjöldi dæma af samfélagsmiðlum sýnir vissulega að þessar myndir eru sprelllifandi en ég hef á tilfinningunni að þarna sé fremur um að ræða afleiðingar af samspili breyttrar skynjunar einstakra málnotenda á viðbótinni -ðu og óvissu um ritun r í lok orða en raunverulega málbreytingu. En þetta eru bara getgátur.

Enska í strætó, einu sinni enn

Áðan fór ég aldrei þessu vant í strætó þar sem ég tók meðfylgjandi mynd. Hún sýnir upplýsingamiða sem eru eingöngu á ensku. Á öðrum þeirra eru meira að segja mikilvægar öryggisupplýsingar. Ég hef margoft áður kvartað undan þessu við Strætó á undanförnum fimm árum og ýmist verið lofað bót og betrun eða ekki fengið nein svör. Það væri auðvitað sáralítið mál að útbúa miða með þessum upplýsingum á íslensku. Það er sjálfsagt að hafa þarna upplýsingar á ensku en það er hins vegar forkastanlegt og óafsakanlegt að þær skulu ekki vera á íslensku líka, sérstaklega þar sem um öryggisupplýsingar er að ræða. Þetta er líka í hrópandi ósamræmi við málstefnu Reykjavíkurborgar þótt hún taki strangt tekið ekki til Strætó.


Ég gerði eina tilraunina enn til að skrifa Strætó um þetta en á ekki von á því miðað við fyrri reynslu að það skili árangri. Einhverjum kann að finnast þetta smáatriði sem ekki sé ástæða til að gera veður út af en mér finnst þetta grafalvarlegt mál. Annaðhvort taka stjórnendur Strætó ekki eftir því að þetta er eingöngu á ensku eða hugsa ekki út í að það sé eitthvað athugavert við það – eða þeim er bara alveg sama. Hver sem skýringin er finnst mér þetta vera dapurlegt dæmi um undirlægjuhátt okkar og meðvitundarleysi gagnvart enskunni. Það er þeim mun verra sem þetta er fyrirtæki í opinberri eigu – ég veit að verktakar aka fyrir Strætó á ýmsum leiðum en það ætti að vera einfalt að setja þeim skilyrði um að hafa upplýsingar í vögnum á íslensku.

Þvoð

Í Málvöndunarþættinum sá ég vitnað í dæmi um lýsingarháttinn þvoð af sögninni þvo, og þótti ekki til fyrirmyndar. Það er vitanlega rétt að hefðbundinn lýsingarháttur sagnarinnar er þvegið, en þar með er ekki sagt að þvoð sé alveg út í hött. Þessi sögn er nefnilega ein þeirra sagna sem hafa breytt um beygingu og er ekki lengur sterk eins og hún var í fornu máli en þar beygðist hún í kennimyndum þvá þó þógum þvegið. Í nafnhættinum hefur breyst í vo eins og í flestum öðrum orðum með , og út frá þessum nýja nafnhætti hefur orðið til veika þátíðin þvoði. Nútíðin er aftur á móti ekki veika myndin þvoi eins og búast mætti við (nema í viðtengingarhætti) heldur ennþá þvæ, þar sem æ er i-hljóðvarp af hinu forna á í nafnhættinum.

Sterka myndin þvegið hefur líka haldist í lýsingarhætti þátíðar – og þó. Áður fyrr var myndin þvoð nefnilega algeng, og jafnvel aðalmyndin. Í Íslenzkum rjettritunarreglum sem hinn mikli málhreinsunarmaður Halldór Kr. Friðriksson gaf út 1859 eru myndirnar þvegið og þveginn nefndar sem dæmi um að bera skuli fram ei þótt ritað sé e, en í neðanmálsgrein við þessar myndir segir: „Líka er sagt þvoð, þvoður.“ Í Íslenzkri málmyndalýsingu sama höfundar frá 1861 er veika beygingin, þ. á m. lýsingarhátturinn þvoð, gefin sem aðalbeyging en í neðanmálsgrein kemur fram að sögnin beygist líka sterkt: „þvo, jeg þvæ, þó, þvægi, þvegið.“ Það er því ljóst að lýsingarhátturinn þvoð hefur verið mjög algengur á seinni hluta 19. aldar – og fram á þá 20.

Í Islandsk grammatik eftir Valtý Guðmundsson frá 1922 er bæði sterka og veika beygingin sýnd, en í neðanmálsgrein við þá sterku segir „Ogsaa (og hyppigst) svagt“, þ.e. „Einnig (og venjulega) veik“. En á þeim hundrað árum sem síðan eru liðin hefur myndin þvoð verið hrakin úr málinu að mestu. Engin dæmi eru um hana á tímarit.is þannig að trúlegt er að hún hafi einkum verið bundin við talmál – Jón G. Friðjónsson segir í Morgunblaðinu 2007: „Veika myndin þvoð er kunn úr talmáli en ekki styðst hún við málvenju.“ Vissulega hefur þessi mynd verið sjaldgæf síðustu áratugi, en hefur þó örugglega aldrei horfið alveg úr málinu – í Risamálheildinni eru tæp 50 dæmi um hana, öll af samfélagsmiðlum. Málvenjan er því sennilega órofin.

Þær sterku sagnir sem hafa orðið veikar á undanförnum öldum hafa flestar gengið alla leið, þ.e. allar myndir þeirra fara eftir hefðbundnu beygingarmynstri veikra sagna. Í mörgum tilvikum lifir sterki lýsingarhátturinn þó enn í sértækri merkingu – þótt bjargað, falið og hjálpað sé venjulegur lýsingarháttur sagnanna bjarga, fela og hjálpa eru myndirnar borgið, fólgið og hólpinn notaðar í ákveðnum orðasamböndum. Í samræmi við það mætti búast við að þvoð væri hinn venjulegi lýsingarháttur af þvo en þvegið væri notað í einhverjum orðasamböndum – en þannig er það ekki. Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með myndinni þvoð en hún er ekki óeðlileg og á sér langa hefð í málinu – mér finnst sjálfsagt að sýna henni umburðarlyndi.

Hvað er íslenskt orð?

Í morgun var hér spurt hvort computer says no væri íslenska. Þetta er þekktur frasi sem á uppruna sinn í gamanþáttunum Little Britain frá því upp úr aldamótum og fólk bregður oft fyrir sig þótt annars sé verið að tala íslensku. Í fljótu bragði kann það að virðast fráleitt að spyrja hvort þetta sé íslenska – þetta er setning sem er tekin í heilu lagi úr ensku og öll orðin ensk. En þetta er samt gagnleg spurning því að hún knýr mann til að velta því fyrir sér hvernig við skilgreinum íslensku og íslensk orð. Hvaða skilyrði þarf orð eða orðasamband að uppfylla til að geta talist íslenska? Ef hægt er að rekja orð til frumnorrænu er það ótvírætt íslenska, en hvað með öll þau orð sem hafa bæst í málið frá upphafi Íslandsbyggðar? Er ekkert þeirra íslenska?

Auðvitað væri fráleitt að neita öllum þeim orðum um að teljast íslensk og engum dettur það í hug. Fjölmörg tökuorð almennt hafa lagað sig algerlega að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – orð eins og prestur, sápa, bíll og ótalmörg fleiri. Aðlögun dugir þó ekki alltaf til – orð eins og rúta þótti til skamms tíma vafasamt vegna uppruna síns þótt það falli alveg að málinu. Hins vegar njóta ýmis tökuorð fullrar viðurkenningar enda þótt þau hafi ekki lagað sig fullkomlega að íslensku málkerfi – orð eins og biskup „ætti“ t.d. að hafa nefnifallsendingu og vera *biskupur og nafnið Jón „ætti“ að vera *Jónn. Orð eins og bíó, partí, mótor og lager falla ekki fullkomlega að íslensku hljóðkerfi en varla er samt hægt að neita þeim um þegnrétt í málinu.

En ný orð koma ekki eingöngu úr erlendum málum. Það er sífellt verið að búa til nýyrði sem sum hver eiga sér beinar erlendar fyrirmyndir en önnur ekki. Stundum eiga þessi orð sér enga ættingja í málinu – eru bara hljóðastrengur sem er gefin ákveðin merking. Nýlegt dæmi um það er orðið kvár sem kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 árið 2020 og er notað um kynsegin fólk, hliðstætt orðunum karl og kona. En oftast eru þessi nýyrði þó leidd af orðum sem fyrir eru í málinu með afleiðslu eða samsetningu – dæmi um það eru orðin hittingur og fagn sem hér var nýlega fjallað um. Þótt íslenskur uppruni þessara orða sé ótvíræður dugir það samt ekki endilega til að málnotendur sætti sig við þau – en þau hljóta samt að teljast íslenska.

Um þetta mætti skrifa langt mál en ég legg til að við setjum okkur eftirfarandi viðmið: Frumforsenda fyrir því að hugsanlegt sé að telja eitthvert orð eða orðasamband íslenskt er að það sé notað í setningarlegu samhengi með orðum sem eru ótvírætt íslensk. Það þýðir að computer says no getur ekki talist íslenska vegna þess að það er heil setning þar sem öll orðin eru ensk. Aftur á móti gætu orð eins og næs, kúl, kósí, beila, ókei, tsjilla, fótósjoppa og fjölmörg fleiri talist íslenska samkvæmt þessu viðmiði þótt þau falli misvel að málkerfinu – og líka orð eins og aksjúalí og beisiklí sem nýlega voru hér til umræðu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru öll þessi orð iðulega notuð í íslenskum setningum innan um íslensk orð.

Ég legg áherslu á að þótt notkun í íslensku setningarsamhengi sé að mínu mati forsenda fyrir því að hægt sé að telja orð íslenskt þýðir það ekki að slík notkun geri orðið sjálfkrafa íslenskt. Þar þarf fleira að koma til, a.m.k. nokkur hefð – orðið þarf að vera komið í töluverða notkun í íslensku samhengi (og svo má auðvitað deila um hvað „töluverð notkun“ sé). Mörgum gæti líka fundist eðlilegt að gera kröfu um einhverja lágmarksaðlögun að málkerfinu en erfitt gæti reynst að ná samstöðu um viðmið í því efni. Og svo getur málkerfið líka breyst. Íslensk orð hafa fram undir þetta ekki byrjað á tsj-, en hugsanlega má segja að tilkoma framburðar eins og tsjald á orðinu tjald geri það að verkum að orðið tsjilla brjóti ekki endilega hljóðskipunarreglur málsins.

Ég held sem sé að það sé borin von að við getum svarað því í eitt skipti fyrir öll þannig að öllum líki hvort eitthvert tiltekið orð sé íslenskt eða ekki. Og ég held líka að það sé í góðu lagi. Á endanum er það málsamfélagið sem sker úr um þetta – ef málnotendur vilja nota eitthvert orð í íslensku gera þeir það og kæra sig kollótta um hvort það er kallað íslenskt eða ekki. Hér má rifja upp það sem Halldór Halldórsson prófessor sagði í skilgreiningu á réttu máli í Stíganda 1943: „Það mætti því segja, að það eitt sé rétt mál, sem hlotið hefir þá viðurkenningu að vera rétt mál.“ Skilgreining á íslensku orði er þá: „Það mætti því segja að það eitt sé íslenskt orð sem hlotið hefur þá viðurkenningu að vera íslenskt orð.“ Ég held að við komumst ekki mikið lengra.