Bankasýslan greiðir söluráðgjöfum fyrir aðkomu sína

Ég hef að mestu leyti forðast að skrifa hér um afturbeygingu – ekki vegna þess að um hana sé ekkert að segja eða reglur um hana séu svo ljósar að þær þurfi ekki að ræða. Þvert á móti – þær reglur eru fjarri því að vera einfaldar og ráðast af samspili beygingarlegra, setningafræðilegra og merkingarlegra þátta, auk þess sem málnotendur hafa oft mismunandi skoðanir á einstökum setningum. Þetta er því sannarlega verðugt umfjöllunarefni en kannski ekki heppilegt fyrir þennan vettvang því að það krefst oft flókinna útskýringa sem geta orðið torskildar öðrum en þeim sem hafa meiri kunnáttu í setningafræði en hægt er að ætlast til af almennum málnotendum. Ég stenst þó ekki mátið að fjalla um setningu í frétt í Heimildinni í gær:

„Bankasýsla ríkisins ætlar ekki að taka ákvörðun um [hvort hún greiði söluráðgjöfum valkvæða þóknun fyrir aðkomu sína að sölu á hlut í Íslandsbanka fyrir rúmum tveimur árum] fyrr en athugun Fjármálaeftirlitsins á þætti þeirra í söluferlinu liggur fyrir.“ Af samhengi er ljóst að afturbeygða eignarfornafnið sína vísar til andlagsins söluráðgjöfum, og sama máli gegnir um persónufornafnið þeirra. Þessi setning var til umræðu í Málvöndunarþættinum þar sem málshefjandi taldi afturbeygingu ranglega notaða í „fyrir aðkomu sína“ – það væri eins og vísað væri til frumlagsins hún þannig að verið væri að ræða um þóknun til Bankasýslunnar sjálfrar en þar sem svo væri ekki ætti að standa þarna „fyrir aðkomu þeirra“ – söluráðgjafanna.

Málið snýst sem sé um það hvort afturbeygingin hljóti að vísa til frumlagsins þarna, eins og vissulega er langalgengast, eða hvort hún geti vísað til andlagsins. Um slíka vísun eru ýmis dæmi að fornu og nýju. Í Grettis sögu segir: „Grettir þakkaði honum fyrir heilræði sín.“ Í Þórarins þætti ofsa segir: „Eyjólfur kvaðst þakka konungi fyrir gjafar sínar og vinmæli.“ Í báðum tilvikum er ljóst að afturbeygingin vísar til andlags, honum í fyrri setningunni en konungi í þeirri seinni – Grettir er ekki að þakka fyrir eigin heilræði og Eyjólfur ekki að þakka fyrir eigin gjafir. Þetta eru alveg hliðstæðar setningar og „hún greiði söluráðgjöfum valkvæða þóknun fyrir aðkomu sína“ – af merkingarlegum ástæðum er ljóst að vísað er til andlags, ekki frumlags.

Í nútímamáli má finna fjölda sambærilegra dæma með sögninni greiða. Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Einnig neituðu hjónin að greiða þeim fyrir vinnu sína.“ Í frétt á vef Ríkisútvarpsins 2012 segir: „Kröfuhafar greiða slitastjórn fyrir störf sín.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Hún hvetur fólk til að styðja við bakið á listamönnum og greiða þeim fyrir störf sín og listaverk.“ Í Bændablaðinu 2021 segir: „Skattgreiðendur eru þegar að greiða bændum fyrir framleiðslu sína.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Ríkið greiðir björgunarsveitunum fyrir störf sín við eldgosið í Geldingadölum.“ Í öllum þessum tilvikum er ljóst af merkingu og samhengi að afturbeygingin vísar til andlags – undirstrikaða liðarins í setningunum – en ekki til frumlags.

Það er sem sé ekkert athugavert við að láta afturbeygingu vísa til andlags eins og gert er í áðurnefndri frétt Heimildarinnar. Hitt er rétt að afturbeygingin er þarna valkvæð (sem hún er aldrei þegar vísað er til frumlags) – í stað afturbeygða eignarfornafnsins má eins nota persónufornafn. Það má líka halda því fram að í sumum tilvikum geti verið heppilegra að nota persónufornafn til að forðast misskilning – í setningum eins og „Ákærði kvaðst hafa rétt piltinum dótið sitt“ í héraðsdómi frá 2007 er óljóst hvort ákærði eða pilturinn á dótið. Í umræddri frétt hefur þeirra í næstu setningu líka sömu vísun og sína og það getur verið ruglandi. En það breytir því ekki að setningin í frétt Heimildarinnar er í fullu samræmi við málkerfið.