Kynslóð

Í fornu máli merkir nafnorðið kynslóð yfirleitt 'ætt, ættkvísl'. Í Gylfaginningu segir: „Kona hans hét Frigg Fjörgynsdóttir og af þeirra ætt er sú kynslóð komin er vér köllum ása ættir.“ Í Egils sögu segir: „Frá börnum Þorsteins er komin kynslóð mikil og margt stórmenni.“ Þessi merking er líklega alveg horfin en kom fyrir allt fram á seinni hluta tuttugustu aldar – „Af þessu fólki hefur komið kjarnmikil kynslóð“ segir t.d. í Morgunblaðinu 1969. En merkingin hefur breyst – í Íslenskri orðabók er orðið skýrt annars vegar 'ættliður' og sú merking er gömul, a.m.k. síðan á 16. öld – og hins vegar 'sá hluti samfélagsþegna sem er á líkum aldri'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'hópur manna, dýra eða jurta á svipuðum aldri'.

En „á líkum / svipuðum aldri“ er auðvitað mjög lausleg skilgreining og í nýlegu innleggi hér var lýst þeirri tilfinningu að merking orðsins hefði breyst á undanförnum áratugum, frá því að vísa til u.þ.b. þrjátíu ára niður í tíu ár eða svo. Ég er samt ekki viss um að merkingin hafi breyst og held frekar að breytingin felist í því að merkingin ‚ættliður‘ sem var algeng áður fyrr sé minna notuð en áður – eins og m.a. má ráða af því að hennar er ekki getið í Íslenskri nútímamálsorðabók. Hún kemur t.d. fram í Tímanum 1954: „Hér hafa fjórar kynslóðir ættar minna búið, og börn mín verða fimmta kynslóðin.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „En foreldrar mínir, og foreldrar þeirra, og ættfeður mínir um margar kynslóðir, voru bændafólk.“

En oft hefur orðið ekki beinlínis merkinguna 'ættliður' heldur vísar til skiptingar samfélagsins í aldurshópa sem hver spannar dæmigerðan tíma eins ættliðar – u.þ.b. þrjátíu ár. Í Skírni 1911 segir: „Það er talið svo, að ætíð séu þrjár kynslóðir manna uppi í senn: gamalmennin, sem eru að lúka dagsverkinu, eða hafa lokið því; miðaldramennirnir, sem eru önnum kafnir við aðalstörf lífs síns, og æskan, sem er að búa sig til verka.“ Á tuttugustu öld var svo farið að gefa ýmsum aldurshópum sérstök nöfn og kenna þá ýmist við þann tíma þegar hópurinn var að alast upp  og mótast eða við einhverja eiginleika hópsins – talað um aldamótakynslóð, kreppukynslóð, lýðveldiskynslóð, eftirstríðskynslóð, bítlakynslóð, 68-kynslóð, hippakynslóð o.s.frv.

Þarna spannar hver kynslóð mun styttri tíma en þrjátíu ár. Í sumum tilvikum er mjög stutt á milli kynslóða og sama fólkið gæti oft talist til fleiri en einnar, t.d. lýðveldiskynslóðarinnar og eftirstríðskynslóðarinnar, eða 68-kynslóðarinnar og hippakynslóðarinnar. Samt sem áður eru ákveðin atriði talin – með réttu eða röngu – einkenna hverja kynslóð en vitanlega eru þar miklar einfaldanir og alhæfingar. Á seinustu árum hafa bæst við fjölmörg kynslóðaheiti sem skarast meira eða minna – X-kynslóðin, Y-kynslóðin, krúttkynslóðin, þúsaldarkynslóðin, klámkynslóðin, snjallsímakynslóðin, tölvukynslóðin, lýðræðiskynslóðin, gullkynslóðin o.m.fl. Í raun og veru er tímavíddin að miklu leyti horfin úr orðinu kynslóð en vísað til einkenna hópsins þess í stað.