Samsettar sagnir

Í Málvöndunarþættinum á Facebook hefur einhvern tíma verið minnst á sögnin haldleggja sem mörgum finnst ekki fara vel í málinu. Samsettar sagnir af þessu tagi, með nafnorð sem fyrri lið, eru ekki ýkja margar þótt sumar eigi sér vissulega hefð. En í þessu tilviki finnst mörgum sögnin óþörf vegna þess að hefð er fyrir því að nota sambandið leggja hald á. Það er tæpast mikið einfaldara eða fljótlegra eða fallegra að segja Lögreglan haldlagði efnið en Lögreglan lagði hald á efnið. En hvers vegna verður svona sögn þá til?

Í íslensku er ekki til „forsetningarþolmynd“ eins og í ensku. Þar er hægt að segja The incident was much talked about, en við getum ekki sagt *Atburðurinn var mjög talaður um, heldur verðum að segja Atburðurinn var mjög umtalaður – þ.e., búa til samsettan lýsingarhátt þar sem forsetningunni er skeytt framan við lýsingarhátt sagnarinnar. En sögnin *umtala er ekki til – engum dettur í hug að segja *Ég umtalaði atburðinn. Það er sem sé ekkert sjálfgefið að samsettur lýsingarháttur eigi sér samsvarandi nafnhátt.

Líklegt er að í því dæmi sem hér um ræðir hafi lýsingarhátturinn haldlagður orðið til fyrst, t.d. vegna þess að blaðamenn voru ekki sáttir við að meginatriði fréttar kæmi síðast í setningu, eins og í Lögreglan lagði hald á þrjú kíló af kókaíni. Hér felst fréttin ekki í því hver lagði hald á efnið – það er nokkuð sjálfgefið – heldur hvað lagt var hald á. Þess vegna er eðlilegt að nota þolmynd, en það er ekki hægt að segja *Þrjú kíló af kókaíni var lagt hald á.

Auðvitað er hægt að búa til þolmyndina Lagt var hald á þrjú kíló af kókaíni en eftir sem áður kemur aðalatriðið síðast en ekki fyrst. Við þessar aðstæður er ekki óeðlilegt að samsettur lýsingarháttur verði til, og sagt sé Þrjú kíló af kókaíni voru haldlögð. Lýsingarhátturinn getur líka stundum komið í stað heillar aukasetningar – hægt er að segja Einnig verður boðinn upp haldlagður varningur í stað varningur sem lagt hefur verið hald á.

Mér finnst trúlegt að sögnin haldleggja hafi síðan orðið til út frá þessum lýsingarhætti. Elstu dæmi bæði um nafnháttinn og lýsingarháttinn á tímarit.is eru að vísu frá svipuðum tíma (kringum 1980) og gefa ekki skýra vísbendingu um þetta. Hins vegar er ljóst að notkun lýsingarháttarins breiddist mun fyrr og hraðar út en nafnháttarins og annarra ótvíræðra sagnmynda. Lýsingarhátturinn nær flugi á síðasta áratug 20. aldar en sagnmyndirnar ekki fyrr en á fyrsta áratug þessarar.

Það er sem sé hægt að færa góð rök fyrir því að lýsingarhátturinn haldlagður sé eðlileg og gagnleg viðbót við íslenskan orðaforða. Hins vegar er engin brýn þörf á sögninni haldleggja – frekar en sögninni *umtala – þótt ekki sé þar með sagt að hún sé ranglega mynduð eða hana ætti að forðast. Það verður hver að gera upp við sig.