Breytingar á frumlagsfalli

Eins og flestir vita hefur lengi verið barist hatrammlega gegn hinni svokölluðu „þágufallssýki“ og hún talin hin verstu málspjöll. Þessi „sýki“ felst í því að notað er þágufall á frumlag nokkurra sagna sem áður tóku með sér þolfalls- eða nefnifallsfrumlag. Þetta eru einkum sagnirnar langa, vanta og hlakka, en einnig dreyma, kvíða og nokkrar fleiri – sumar sjaldgæfar. Einnig bregður fyrir svonefndri nefnifallshneigð þar sem notað er nefnifall í stað þolfalls sem áður var – t.d. sagt Báturinn rak á land í stað Bátinn rak á land og Ég dreymdi í stað Mig dreymdi.

En það er engin ný bóla að sagnir breyti um frumlagsfall. Sögnin vænta, sem nú hefur alltaf nefnifallsfrumlag, tók til skamms tíma iðulega með sér þolfall – Mig væntir. Sama máli gegnir um vona – á tímarit.is eru dæmin um Mig vonar eldri en dæmi um Ég vona. Jónas Hallgrímsson skrifar Mig vonar í Fjölni, og Konráð Gíslason skrifar Mig væntir í sama riti. Hvorugur þeirra hefur þótt sérstakur bögubósi í meðferð móðurmálsins – eftir Sigurði Nordal prófessor er haft: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“

Fleiri dæmi má nefna. Á 19. öld tóku sagnirnar fækka og fjölga yfirleitt nefnifallsfrumlag. Dæmi um það má sjá í Fjölni 1839, þar sem segir „fólkið hafi ekki gjetað aukist, síðan það fór að fækka á 14. öld“ og „hjáleigur eru lagðar í eiði, til þess að ríma um heimajarðir, so að heimabændur fjölga“. Þessar sagnir taka nú ævinlega þágufallsfrumlag – við segjum fólkinu fækkar, bændum fjölgar. Samt dettur engum í hug að kalla það „þágufallssýki“.

Þarna eru fjórar sagnir – fjölga, fækka, vona og vænta – þar sem frumlagsfall hefur verið á reiki. Tvær þær fyrrnefndu taka nú þágufall í stað nefnifalls áður, en tvær þær síðarnefndu taka nú ævinlega nefnifall í stað þolfallsins sem þær tóku iðulega með sér áður. Þetta eru algengar sagnir, rétt eins og þær sem tengdar eru við „þágufallssýki“. Samt dettur engum í hug að halda því fram að breytingar á frumlagsfalli þessara sagna hafi spillt málinu á einhvern hátt. Af hverju ætti „þágufallssýkin“ þá að gera það?