Rétt mál – málstaðall

Á fyrri árum mínum í kennslu fékk ég stundum, einkum frá eldri nemendum, spurningar á við „Er nú búið að leyfa þetta?“, yfirleitt bornar fram með hneykslun í röddinni. Ég man svo sem ekki glöggt um hvað verið var að spyrja, en ég man hins vegar eftir því hverju ég svaraði því að það var alltaf það sama: að ég vissi ekki hver ætti að leyfa það sem spurt var um – nú eða banna það, ef því væri að skipta. Margir virtust halda að til væri – eða ætti að vera – eitthvert yfirvald, kannski Íslensk málnefnd, sem gæti leyft og bannað tiltekið málfar eftir smekk og geðþótta.

Í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum sem menntamálaráðherra skipaði og skilaði áliti 1986 var sett fram skilgreining á réttu máli og röngu: „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. En jafnframt er bent á að þrátt fyrir þetta geti verið ástæða til að gera upp á milli málvenja, og það sé „í samræmi við meginstefnuna í málvernd að reyna að sporna gegn nýjum málsiðum með því að benda á að þeir séu ekki í samræmi við gildandi málvenjur“. Ég er fullkomlega sáttur við að nota málvenjuna til að dæma um rétt og rangt, og sé raunar ekki annað hugsanlegt viðmið.

En þrátt fyrir þetta viðmið liggur í loftinu óopinber staðall um það hvað megi segja, eða a.m.k. skrifa. Samkvæmt honum á ekki að skrifa mér langar heldur mig langar, ekki við hvorn annan heldur hvor við annan, ekki hjá sitthvorri heldur sinn hjá hvorri, ekki ef hann sé heima heldur ef hann er heima, ekki eins og mamma sín heldur eins og mamma hennar, ekki vegna lagningu heldur vegna lagningar, ekki það var hrint mér heldur mér var hrint, ekki rétta upp hendi heldur rétta upp hönd, ekki ég er ekki að skilja þetta heldur ég skil þetta ekki, ekki báðir tónleikarnir heldur – ja, hvað? Hvorir tveggja tónleikarnir? Hvorirtveggju tónleikarnir? Hver segir það eiginlega?

Það er enginn vafi á því að fyrra afbrigðið í hverri tvennd, það sem á ekki að skrifa, er málvenja margra – í sumum tilvikum örugglega meirihluta þjóðarinnar. Þess vegna er þetta allt saman rétt mál, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem áður var vitnað til. En þrátt fyrir að um sé að ræða útbreiddar málbreytingar, í sumum tilvikum áratuga eða jafnvel aldar gamlar, er samt ekki „búið að leyfa þetta“, í þeim skilningi að það sé komið inn í hinn óopinbera staðal, og ég býst við að margir í þessum hópi telji þetta hinar örgustu málvillur.

Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að við eigum að taka áðurnefndar málbreytingar í sátt. Þær eru engin málspjöll – hrófla ekki við grundvelli málkerfisins og torvelda ekki skilning. Í stað þess að verja kröftum okkar í baráttu gegn þeim eigum við að einbeita okkur að því sem raunverulega skiptir máli fyrir framtíð íslenskunnar – að tryggja að hún sé nothæf, og notuð, á öllum sviðum. En ég veit auðvitað að mörgum finnst það undansláttur, uppgjöf og tilræði við íslenskuna að viðurkenna þessar breytingar. Og það er eðlilegt – skilgreining margra á réttu máli er nefnilega þessi: „Rétt mál er það sem mér var kennt að væri rétt mál.“