Mikilvægi íslensku í umhverfi barna

Ég heyrði í gær sagt frá frístundaheimili í grónu hverfi hér í borginni þar sem meginhluti starfsfólks er ekki íslenskumælandi og talar við börnin á ensku. Þetta leiðir til þess að börnin tala að einhverju leyti ensku sín á milli. Ég tek fram að ég hef þessa sögu ekki frá fyrstu hendi og hef ekki sannreynt hana. Við skulum þess vegna ganga út frá því að þetta sé ekki svona en huga samt að því hvaða afleiðingar það gæti haft ef slíkar aðstæður kæmu upp.

Eins og Elín Þöll Þórðardóttir prófessor í talmeinafræði benti á í nýlegu viðtali er talið að „til að eiga mögu­leika á að til­einka sér ís­lensku þurfi tví­tyngd börn að verja 50% af vöku­tíma sín­um í ís­lensku mál­um­hverfi“. Ef einhver börn á umræddu frístundaheimili væru frá heimilum þar sem íslenska er ekki heimilismál kæmust þau því hvergi í kynni við íslensku nema í skólanum. En í viðtalinu var bent á að skóladagurinn á Íslandi nær því ekki að vera 50% vökustunda. Með þessu móti værum við því að ala upp börn sem ekki næðu móðurmálsfærni í íslensku, þrátt fyrir að hafa kannski búið hér alla ævi.

Og það er alls ekki víst að börnin næðu móðurmálsfærni í nokkru öðru máli heldur. Þau eru hluta dagsins í skólanum þar sem íslenska er notuð, en síðan á frístundaheimili þar sem aðallega er talað við þau á ensku, og tíminn sem þau hafa með foreldrum sínum þegar þau koma heim er einfaldlega ekki nógu langur til að byggja upp móðurmálsfærni í heimilismálinu, auk þess sem trúlegt er að þau eyði talsverðum hluta hans í enskum málheimi – sjónvarpi, tölvuleikjum o.s.frv. Rannsóknir sýna að móðurmálsfærni í einhverju tungumáli er forsenda fyrir því að læra önnur mál vel – en skiptir líka miklu máli fyrir margs konar kunnáttu og þroska s.s. tilfinningagreind, verkgreind o.fl.

Það skiptir þess vegna gífurlegu máli að sjá til þess að börn sem alast upp á Íslandi hafi sem mesta íslensku í umhverfi sínu. Mörg börn verja umtalsverðum hluta vökustunda sinna á frístundaheimilum og það er mjög alvarlegt mál ef samskipti þar fara ekki fram á íslensku að mestu leyti. Þess vegna verður að tryggja að starfsfólk á slíkum heimilum sé íslenskumælandi. Ég veit að það er auðvelt að túlka þetta sem útlendingaandúð eða -hræðslu en það er ekki það sem málið snýst um. Og eins og útskýrt er hér að framan snýst það ekki heldur um framtíð íslenskunnar þótt hún sé vissulega mikilvæg.

Þetta snýst nefnilega fyrst og fremst um velferð barna – að þau fái tækifæri til að öðlast móðurmálsfærni í tungumálinu sem er notað í samfélaginu í stað þess að vaxa upp án raunverulegs móðurmáls og vera dæmd til að detta út úr skólakerfinu og sitja föst í láglaunastörfum án þess að vera virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Slíkar aðstæður eru gróðrarstía fyrir stéttaskiptingu, lýðskrum, rasisma og hvers kyns fordóma.