Kynusli
Eins og við vitum öll hefur íslenska þrjú kyn í fallorðum – karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn. Við erum vön því og finnst það eðlilegt, vegna þess að við tengjum þetta við líffræðilegt kyn. Líffræðileg kyn hafa að vísu fram undir þetta bara verið talin tvö, karlkyn og kvenkyn, en við sættum okkur við að það sé til eitthvert þriðja gildi, eitthvað hlutlaust – hvorugkyn, hvorugt kynið.
Þessi tenging við líffræðilega kynið getur valdið því að okkur finnst oft að tungumál sem hafa færri kyn en íslenska séu á einhvern hátt ófullkomin – mál eins og danska með sitt samkyn í nafnorðum í stað karlkyns og kvenkyns, að ekki sé talað um ensku og finnsku með aðeins eitt kyn í nafnorðum (sem jafngildir því að hafa ekkert kyn). En þessi tungumál virðast komast vel af þrátt fyrir þessa kynjafátækt. Og tilfellið er að kyn í tungumálum eru mjög mismörg, allt frá engu sem er langalgengast upp í 20. Hvernig má það vera?
Málið er að kyn í tungumáli er málfræðileg flokkun en ekki líffræðileg. Vissulega eru sterk tengsl milli málfræðilegs og líffræðilegs kyns í mörgum tungumálum, þ. á m. íslensku, en þau eru alls ekki algild eins og alþekkt er. Það eru til hvorugkynsorð eins og fljóð og sprund sem vísa til kvenna, og hvorugkynsorðið skáld hefur svo sterka tengingu við karlmenn að nauðsynlegt hefur þótt að mynda orðin skáldkona og kvenskáld til að vísa til kvenna.
Sama máli gegnir um ýmiss konar aðra málfræðilega flokkun sem hefur tengsl við efnisheiminn – þau tengsl eru sjaldnast alveg föst. Við segjum t.d. að eintala sé notuð til að vísa til eins en fleirtala vísi til fleiri en eins. Samt þekkjum við öll orð eins og buxur og skæri sem vísa til eins hlutar og eru ekki til í eintölu. Orð eins og fólk og fjöldi eru eintöluorð en vísa vitanlega til fleiri en eins. Svo mætti lengi telja.
Því fer fjarri að kynin í íslensku séu öll jafnvæg. Á undanförnum árum hefur andstæðan markað : ómarkað oft verið notuð til að lýsa venslum innan málkerfisins. Ómarkað merkir þá hlutlaust, það sem er sjálfgefið, en markað er það sem er notað við einhverjar sérstakar aðstæður – það er eitthvað sem kallar á notkun þess. Hvorugkynið heitir á latínu neutrum, neuter á ensku, og það merkir 'hlutlaust'.
Það mætti því búast við að hvorugkynið væri ómarkað kyn í íslensku. Á það reynir t.d. þegar vísa þarf til bæði karlkyns- og kvenkynsorða með einu fornafni, eða þegar lýsingarorð í stöðu sagnfyllingar á við bæði karlkyns- og kvenkynsorð. Þá er vissulega oftast notað hvorugkyn – Jón og Gunna eru komin (en ekki komnir eða komnar). Þau eru skemmtileg. Þetta er samt ekki alveg einfalt, sérstaklega þegar um safnheiti er að ræða, en ég get ekki farið út í það hér.
En þarna er um að ræða málfræðileg vensl og vísun innan setninga eða milli setninga. Öðru máli gegnir um vísun út fyrir tungumálið – þegar vísað er til blandaðs hóps karla og kvenna án þess að þau hafi verið nefnd. Þar er yfirleitt notað karlkyn og við segjum Enginn má yfirgefa húsið og Allir tapa á verðbólgunni án þess að meina að það séu bara karlmenn í þeim hópi. Í þessu felst ekki nein karlremba eða útilokun kvenna – svona virkar tungumálið bara. En hvers vegna notum við ekki hvorugkyn og segjum Öll eru mætt?
Fyrir því eru sögulegar ástæður. Í indóevrópska frummálinu voru tvö kyn – annað var notað um lífverur en hitt um dauða hluti. Hið fyrrnefnda mætti svo sem kalla samkyn en það er sögulega séð fyrirrennari karlkyns, í þeim skilningi að karlkynsbeygingu má hljóðsögulega rekja til þess. Það eru eingöngu lífverur sem geta verið gerendur í setningum og vegna þess að nefnifall var fall gerandans voru það eingöngu karlkynsorð sem höfðu sérstaka nefnifallsmynd.
Hvorugkynsorðin gátu ekki táknað gerendur og þurftu því ekki á nefnifalli að halda. Þegar tengsl milli merkingar og setningagerðar breyttust og hvorugkynsorð fóru að geta staðið í stöðu sem krafðist nefnifalls urðu þau að koma sér upp nefnifallsmynd, og það var gert með því að taka þolfallsmyndina og láta hana líka þjóna sem nefnifall. Þetta er ástæðan fyrir því að hvorugkynsorð eru alltaf eins í nefnifalli og þolfalli, bæði í eintölu og fleirtölu.
Kvenkyn þróaðist síðan úr hvorugkyninu, en þótt kvenkyn væri komið til fékk það ekki jafnstöðu við karlkynið. Hið gamla samkyn, sem nú var orðið karlkyn af því að kvenkyn var komið til, hélt ýmsum samkynshlutverkum sínum, t.d. því að geta vísað til blandaðs hóps en ekki bara karla. Þess vegna segjum við enn Allir eru mættir og frá málfræðilegu sjónarmiði er ekkert athugavert við það, þótt verið sé að vísa bæði til karla og kvenna.
En málfræðin stjórnar ekki upplifun fólks, og þótt kynbeyging og flokkun orða í kyn sé í grunninn málfræðilegs eðlis verður ekki fram hjá því litið að hún hefur mjög sterk tengsl við líffræðilegt kyn í huga fólks. Ef mörg, bæði konur og þau sem skilgreina sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns, upplifa það þannig að þau séu á einhvern hátt sniðgengnin með notkun karlkyns í slíkum dæmum, þá finnst mér eðlilegt að velta fyrir sér hvort og hvernig sé hægt að bregðast við því.
Tungumál breytast, líka íslenska. Það er ekkert því til fyrirstöðu að segja Öll eru mætt. Mörg hafa mælt með því. Hópur kvenna innan kirkjunnar hefur t.d. um tíma beitt sér fyrir því að breyta málnotkun í kirkjulegum athöfnum og ritum þannig að málið höfði betur til kvenna. Þetta er það sem hefur verið kallað „mál beggja kynja“. Mér finnst vel hægt að segja t.d. Mörg telja að …, Sum segja að … o.fl. Annað er erfiðara – mér finnst ekki hljóma vel að segja Ýmis vona að ….
Og sumt er alveg ómögulegt. Í staðinn fyrir Enginn vill að … er tæpast hægt að segja Ekkert vill að …. Það er samt hægt að snúa sig út úr þessu með því að nota fleirtöluna: Engin vilja að …. Ég sé ekki að það séu nein málspjöll þótt þetta breytist. Það er ekki verið að koma með neitt nýtt inn í málið – hvorugkynið er til. Þetta er ekki beinlínis breyting á málinu, heldur á notkun þess.
Það er aftur á móti snúnara að fást við karlkynsnafnorð, sambeygingu með þeim og vísun til þeirra. Mjög mörg starfsheiti, þjóðaheiti o.s.frv. eru karlkyns. Kennari er karlkynsorð, málfræðingur er karlkynsorð, Íslendingur er karlkynsorð, Akureyringur er karlkynsorð, o.s.frv. Við höfum þrjá kosti með slík orð. Einn er að búa til hvorugkynsorð í staðinn. Það er ekki einfalt, m.a. vegna þess að við höfum enga beygingarendingu sem gefi hvorugkyn ótvírætt til kynna eins og –ur og –i tákna (oftast) karlkyn og –a táknar (oftast) kvenkyn. En hvorugkynið er endingarlaust – nema veika beygingin, sem er eiginlega frátekin fyrir orð um líffæri og líkamshluta.
Annar kostur væri að halda orðunum óbreyttum en breyta tilvísun og sambeygingu. Þá gætum við t.d. sagt Ég hitti tvo kennara/Akureyringa áðan. Þau voru hress, þ.e. vísað til karlkynsorðanna kennari og Akureyringur með fornafni í hvorugkyni, ef um fólk af fleiri en einu kyni væri að ræða. Þetta er vel hægt, vegna þess að vísun persónufornafna getur ýmist verið innan málsins eða út fyrir það, og ef við notum þau getum við sagt að við séum ekki að vísa í orðið kennari eða Akureyringur í setningunni á undan, heldur í hópinn sem um er að ræða.
En það versnar í því þegar við förum að skoða sambeygingu innan setningar. Það er eiginlega alveg ómögulegt að segja Bæði kennararnir eru hress eða eitthvað í þá átt, og þar væri raunverulega verið að misþyrma málkerfinu finnst mér. Í sumum tilvikum er hægt að nota eignarfallssamband í stað þess að láta fornafnið samræmast nafnorðinu – segja Sumar/Sum kennaranna eru hressar/ hress. Þriðji kosturinn er svo að halda þessu óbreyttu – segja að í þessu tilviki sé um málfræðilega flokkun að ræða sem ekki þurfi að tengja við líffræðilegt kyn. Ég hef enga góða lausn á þessu sem trúlegt er að öllum líki.
En mér finnst sjálfsagt að fólk velti því fyrir sér hvort og hvernig hægt sé að draga úr karllægni tungumálsins, og prófi sig áfram með það. Líf íslenskunnar veltur á því að málnotendur tengi sig við hana, finnist hún vera sitt mál. Þess vegna þarf hún að breytast og endurnýja sig til að þjóna þörfum samfélagsins á hverjum tíma, eins og hún hefur alltaf gert. En það er staðreynd að í þeirri íslensku sem við höfum flest alist upp við er karlkyn ómarkað. Það er hluti af málkerfi okkar flestra og við breytum því ekki svo glatt, og mér finnst ekki hægt að ætlast til þess að fólk geri það.
Aðalatriðið í þessu er umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Þau sem vilja hafna karlkyni sem ómörkuðu kyni þurfa að hafa í huga að við erum flest alin upp við að karlkynið hafi þetta hlutverk, og í þeirri málnotkun felst engin karlremba. Þau sem vilja halda í karlkynið sem ómarkað kyn þurfa að sýna því skilning að ýmsum finnst karlkynið eingöngu vísa til karlmanna og þar með vera útilokandi. Málið þolir alveg að mismunandi málvenjur séu í gangi samtímis.