Yfirlit um kennslu

Kennsla við Háskóla Íslands

Ég hef kennt við Háskóla Íslands frá ársbyrjun 1981 - stundakennslu fyrstu fimm árin, en sem fastur kennari frá 1986. Alls hef ég kennt hátt í 90 námskeið eða námskeiðshluta í almennum málvísindum, íslensku B.A., íslensku M.Paed., íslenskri málfræði cand.mag./M.A. og máltækni M.A. Auðvitað hef ég kennt mörg þessara námskeiða oftar en einu sinni með litlum breytingum, en alls eru þetta meira en 30 mismunandi námskeið.

Ég hef kennt almenn inngangsfræði málvísinda og byrjendanámskeið í hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingar- og orðmyndunarfræði, setningafræði og merkingarfræði. Þá hef ég kennt á framhaldsnámskeiðum á B.A.-stigi í öllum þessum greinum nema merkingarfræði. Einnig hef ég kennt inngangsnámskeið um aðferðir og vinnubrögð, svo og námskeið sem teljast til kennaranáms í íslensku; Meðferð ritaðs máls og Málfræði í framhaldsskólum. Auk þess hef ég kennt námskeið um tölvur og tungumál. Á meistarastigi hef ég kennt hljóðkerfisfræði, beygingar- og orðmyndunarfræði og samtímalega og sögulega setningafræði, gagnamálfræði og ýmis námskeið á sviði máltækni. Auk þessa hef ég haft umsjón með fjölmörgum B.A.-ritgerðum og allnokkrum meistaraprófsritgerðum (M.A. og M.Paed.), og setið í doktorsnefndum.

Ég var upphafsmaður að sérstöku kennaranámi í íslensku haustið 1988, sem þróaðist svo yfir í M.Paed.-nám tveimur árum síðar. Ég kenndi ný námskeið í því námi, m.a. „Málfræði í framhaldsskólum“ 1988-1989.

Ég var brautryðjandi á sviði fjarkennslu innan íslenskuskorar haustið 1999 og kenndi allmörg námskeið í fjarkennslu næstu árin. Ég hef einnig flutt nokkur erindi um fjarkennslu og aðferðir við hana (Fjarkennsla - hvað þarf til?, Fjarkennsla í íslensku við Háskóla Íslands og Fjarkennsla á Hugvísindasviði).

Ég beitti mér fyrir upptöku 90e diplómanáms í hagnýtri íslensku haustið 2000 og mótaði þar m.a. og kenndi nýtt námskeið í textagerð.

Ég stóð fyrir upptöku þverfaglegs meistaranáms í máltækni (tungutækni) haustið 2002, en frá 2007 hefur það verið rekið í samvinnu við Háskólann í Reykjavík.

Ég hef tekið mikinn þátt í umræðum um menntun íslenskukennara og skrifað um það mál greinar í Skímu, Morgunblaðið og víðar og flutt erindi á ráðstefnum. Frá 2012 hef ég verið fulltrúi Hugvísindasviðs í þverfaglegri námsstjórn um menntun framhaldsskólakennara.

Frá vormisseri 2014 hef ég gert tilraunir með breytta kennsluhætti í tveimur námskeiðum. Í öðru þeirra, Málkerfið - hljóð og orð, notaði ég vendikennslu - tók alla fyrirlestra upp fyrir fram og fækkaði kennslustundum um helming. Í hinu námskeiðinu, Tölvur og tungumál, fléttaði ég opið netnámskeið (Corpus linguistics) frá Lancaster University inn í kennsluna.

Greinar um kennslumál

Erindi um kennslumál