Yfirlit um kennslu

Kennsla við Háskóla Íslands

Ég kenndi við Háskóla Íslands frá ársbyrjun 1981 - stundakennslu fyrstu fimm árin, en sem fastur kennari frá 1986. Alls kenndi ég rúmlega 90 námskeið eða námskeiðshluta í almennum málvísindum, íslensku B.A., íslensku M.Paed., íslenskri málfræði cand.mag./M.A. og máltækni M.A. Auðvitað kenndi ég mörg þessara námskeiða oftar en einu sinni með litlum breytingum, en alls eru þetta meira en 30 mismunandi námskeið.

Ég hef kennt almenn inngangsfræði málvísinda og byrjendanámskeið í hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingar- og orðmyndunarfræði, setningafræði og merkingarfræði. Þá hef ég kennt á framhaldsnámskeiðum á B.A.-stigi í öllum þessum greinum nema merkingarfræði. Einnig hef ég kennt inngangsnámskeið um aðferðir og vinnubrögð, svo og námskeið sem teljast til kennaranáms í íslensku; Meðferð ritaðs máls og Málfræði í framhaldsskólum. Auk þess hef ég kennt námskeið um tölvur og tungumál.

Á meistarastigi hef ég kennt hljóðkerfisfræði, beygingar- og orðmyndunarfræði og samtímalega og sögulega setningafræði, gagnamálfræði og ýmis námskeið á sviði máltækni.

Auk þessa hef ég haft umsjón með fjölmörgum B.A.-ritgerðum og allnokkrum meistaraprófsritgerðum (M.A. og M.Paed.), og setið í doktorsnefndum.

Nýbreytni og frumkvæði í kennslu

  • Ég beitti mér fyrir upptöku sérstaks kennaranáms í íslensku haustið 1988, sem þróaðist svo yfir í M.Paed.-nám fáum árum síðar. Ég kenndi ný námskeið í því námi, m.a. „Málfræði í framhaldsskólum“ 1988-1989.
  • Ég tók þátt í tilraun með fjarkennslu innan íslenskuskorar HÍ haustið 1999 að frumkvæði Páls Skúlasonar og Rögnvaldar Ólafssonar og innleiddi þar ýmsar nýjungar. Ég stóð síðan sem skorarformaður fyrir mikilli aukningu fjarkennslu í íslenskuskor 2006 – en stóð jafnframt að því að leggja hana niður tveim árum síðar vegna skorts á stuðningi háskólayfirvalda.
  • Ég beitti mér fyrir upptöku 90e diplómanáms í hagnýtri íslensku haustið 2000 og mótaði þar m.a. og kenndi nýtt námskeið í textagerð.
  • Ég var upphafsmaður þverfaglegs meistaranáms í máltækni (sem þá nefndist tungutækni) haustið 2002 og kenndi ný námskeið í því námi. Ég stóð svo fyrir endurvakningu þess náms í samvinnu við Háskólann í Reykjavík haustið 2007.
  • Ég tók upp vendikennslu í námskeiðinu Málkerfið - hljóð og orð vorið 2014 - tók alla fyrirlestra upp fyrir fram og fækkaði kennslustundum um helming.
  • Ég fléttaði  opið netnámskeið (Corpus linguistics) frá Lancaster University inn í kennsluna í námskeiðinu, Tölvur og tungumál vorið 2014 (og síðar).
  • Ég tók mikinn þátt í umræðum um menntun íslenskukennara og skrifaði um það mál greinar í Skímu, Morgunblaðið og víðar og flutti erindi á ráðstefnum.
  • Haustið 2016 var mér veitt árleg viðurkenning Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til kennslu.

Kennsluaðferðir

Ég kenndi lengst af á svipaðan hátt – með fyrirlestrum, en hvatti alltaf nemendur til að grípa fram í og spyrja spurninga og ýtt undir umræður í tímum, án þess að vera með sérstaka umræðutíma. Fyrstu árin skrifaði ég fyrirlestra frá orði til orðs en las þá samt aldrei, heldur talaði út frá þeim og hafði þá kannski fyrst og fremst til öryggis – þeir sáu mér fyrir þeirri tilfinningu að ég væri með nóg efni fyrir tímann. Ég hafði yfirleitt það viðmið að fara með 8 handskrifaðar síður inn í tíma – þá taldi ég nokkuð öruggt að ég yrði ekki uppiskroppa með efni. Ég held að þegar ég var að kenna nýtt efni hafi ég skrifað fyrirlestra frá orði til orðs fyrstu 20 árin eða svo.

Framan af notaði ég töfluna mikið og inn á milli stundum glærur af gömlu gerðinni, þ.e. á myndvarpa – þá oftast ljósrit úr bókum eða greinum. Oft ljósritaði ég líka efni, t.d. töflur eða dæmi, og dreifði til nemenda. Hins vegar samdi ég yfirleitt ekki dreifiblöð sjálfur framan af. Haustið 1991 var ég að kenna strembið fræðilegt námskeið þar sem lesefnið var þykk bók á ensku. Ég sá að nemendur réðu varla við hana og tók það til bragðs að gera ítarlegan útdrátt og staðfærslu fyrir hvern kafla, og ljósritaði þetta og dreifði til nemenda. Þetta efni setti ég svo á netið haustið 1995 þegar ég hafði lært að útbúa vefsíður. Upp frá því lagði ég áherslu á að setja sem mest af efni á netið – auðvitað upplýsingar um markmið, lesefni, námsmat o.fl., en einnig glærur, verkefni, og stundum handrit fyrirlestra. Þetta efni var öllum opið framan af, meðan ég setti það beint á heimasíðu mína.

Vorið 1999 tók ég svo PowerPoint í notkun og útbjó glærur fyrir öll námskeið sem ég kenndi, bæði þau sem ég hafði kennt áður og ný námskeið. Fyrstu þrjú árin eða svo prentaði ég út gömlu plastglærurnar og notaði á myndvarpa vegna þess að á þessum tíma voru skjávarpar ekki komnir nema í fáeinar stofur. Við þetta hætti ég töfluskriftum að mestu, þótt ég tæki auðvitað eitt og eitt skýringardæmi á töflunni. En þetta tengdist líka fjarkennslunni sem ég byrjaði á um svipað leyti. Í henni voru oft notaðar upptökur þar sem fjarnemar sáu aðeins það sem var á tölvuskjánum og því var óheppilegt að nota töfluna mikið – þar að auki skrifa ég alltaf verr og verr. En við þessa breytingu hætti ég líka að skrifa fyrirlestra frá orði til orðs, jafnvel þótt ég væri að kenna nýtt efni, en talaði þess í stað út frá glærunum og reyndi yfirleitt að hafa þær nokkuð ítarlegar.

Með fjarkennslunni 1999 tók ég svo upp kennsluumhverfið WebCT og setti allt mitt efni þar inn til vors 2002. Það hafði þann ókost að efnið var lokað öðrum en þeim sem voru skráðir í viðkomandi námskeið – og annar ókostur er reyndar sá að talsvert af þessu efni er nú glatað. Í fjarkennslunni tók ég upp ýmsar nýjungar. Ein var sú að setja handrit fyrirlestra í heild á vefinn sem ég gerði í einu námskeiði. Það efni varð síðar stofninn í kennsluefni mitt í ritun. Önnur nýjung var rauntímaspjall við fjarnema inni í WebCT eitt kvöld í viku. Þriðja nýjungin var svo „talglærur“ – að taka upp fyrirlestra og tengja þá við PowerPoint-glærur. Ég held að ég hafi verið einn af þeim fyrstu sem gerði þetta við HÍ. Talglærurnar voru eingöngu opnar fjarnemum og mæltust vel fyrir þótt hljóðgæði væru takmörkuð vegna þess að reynt var að hafa skrárnar sem minnstar því að flestir voru með hægvirkar tengingar í þá daga.

Haustið 2005 kom ég aftur til kennslu að loknu árs rannsóknaleyfi og fór þá að nota Ugluna í öllum námskeiðum og gerði það síðan – hins vegar hef ég aldrei notað Moodle. Einnig fór ég þá að taka upp tímana í flestum mínum námskeiðum með eMission og gerði það oftast síðan – þó ekki tíma í vendikennslunámskeiðinu mínu (sjá á eftir). Ég reyndi að hafa allt mitt efni á Uglu, a.m.k. glærur og verkefni, upptökur þegar þær eru til staðar, og stundum eitthvað af lesefni eða krækjur í efni á netinu. Glærur setti ég alltaf inn fyrir fram. Síðustu fjögur árin hafði ég flest mín námskeið opin öllum á Uglu og finnst að þannig eigi það að vera.

Mesta breytingin á kennslu minni varð þegar ég tók upp vendikennslu í námskeiðinu Málkerfið – hljóð og orð vorið 2014. Ég tek þó fram að það er ekki eins og ég hafi skipt algerlega yfir í vendikennslu – það var bara eitt námskeið sem ég kenndi þannig. Ég hafði reyndar lengi hugsað mér að gera slíka tilraun og byrjað aðeins á því í einu námskeiði fimm árum fyrr, en guggnaði fljótlega á því vegna tímaskorts. En haustið 2013 var ég ekkert að kenna vegna þess að ég átti inni yfirvinnu sem deildin mín hafði ekki efni á að borga mér. Þá ákvað ég að nýta nóvembermánuð til að undirbúa vendikennsluna – ganga frá glærum og kennsluefni, semja verkefni, og síðast en ekki síst – taka upp fyrirlestra.

Ég tók upp fyrirlestra heima hjá mér með eMission – alls 48, hvern að meðaltali hálftíma að lengd. Ég hafði reyndar hugsað mér að hafa fyrirlestrana styttri og veit núna að það þykir ekki skynsamlegt að hafa þá svona langa, en efnið bara lagðist þannig. Nemendur geta líka gert hlé þegar þeim sýnist þannig að ég hef ekki séð þetta sem stórt vandamál – og svo er líka hægt að spila fyrirlestrana á tvöföldum hraða ef því er að skipta. En þetta hefði ekki verið hægt nema af því að ég gerþekkti efnið og hafði kennt það margoft áður, átti megnið af glærunum, og hafði skrifað kennsluefni sem dekkaði það sem farið er yfir í námskeiðinu. Í raun og veru er lítill munur á þessum upptökum og talglærunum sem ég notaði um aldamótin, nema í eMission-upptökunum var ég ekki bundinn við glærurnar, heldur gat líka sýnt forrit, síður á netinu o.fl.

Nemendur áttu að hlusta á fjóra fyrirlestra í viku, samtals tæpa tvo klukkutíma. Ég fækkaði svo tímum í stofu um helming þannig að ég hitti nemendur aðeins einu sinni í viku, tvo tíma í senn, í stað tvisvar í viku eins og venjulega í 10e námskeiðum. Þennan tíma notaði ég þá til að fara yfir flókin atriði, svara spurningum, fara yfir síðasta heimaverkefni, o.fl. Einn kostur við vendikennsluna sem ég hafði ekki áttað mig á fyrir fram er sá að það er aldrei neitt stress að komast yfir efnið. Það er búið. Þess vegna getur maður verið miklu afslappaðri í tímum. Iðulega lét ég nemendur skipta sér í hópa í seinni tímanum og byrja að vinna næsta heimaverkefni. Ég gekk þá á milli hópanna og leiðbeindi þeim eftir þörfum. Síðan samdi ég fjölvalspróf sem tengjast fyrirlestrunum og lesefninu. Nemendur áttu að taka fjögur slík próf á viku.

Önnur tilraun sem ég gerði vorið 2014 fólst í því að nýta vefnámskeið (MOOC) frá erlendum háskóla inn í mitt eigið námskeið. Kennslumálanefnd Háskólans auglýsti haustið 2013 eftir þátttakendum í slíka tilraun, í framhaldi af vinnu starfshóps rektors um MOOC-námskeið sem ég sat m.a. í og skilaði áliti vorið 2013. Það vildi svo heppilega til að á vormisseri 2014 var haldið námskeið í „Corpus linguistics“ við háskólann í Lancaster á Englandi. Efni námskeiðsins skaraðist að verulegu leyti við námskeiðið Tölvur og tungumál sem ég kenndi nokkrum sinnum og var einmitt á dagskrá þetta vor. Kennari MOOC-námskeiðsins var Tony McEnery sem er m.a. höfundur bókar sem ég hafði notað í mínu námskeiði.

Ég ákvað því að gera tilraun með að flétta þetta námskeið inn í mitt námskeið og sendi nemendum tölvupóst milli jóla og nýárs 2013 um að skrá sig í MOOC-námskeiðið. Það hófst í lok janúar og stóð í 8 vikur. Meðan á því stóð fækkaði ég tímum í stofu um helming en hafði fulla kennslu í einhverjar vikur á undan og eftir. Ég lagði fyrir nemendur að horfa á alla fyrirlestra í námskeiðinu, taka fjölvalspróf, og taka þátt í spjallþráðum sem boðið var upp á þar sem aðstoðarkennarar svöruðu fyrirspurnum. Nemendur virtust vera nokkuð sáttir við þetta. Ég endurtók þetta svo vorið 2016, með því fráviki að þá var námskeiðið „Corpus linguistics“ ekki í gangi þótt það væri opið. Eini munurinn var sá að þá gátu nemendur ekki tekið þátt í spjallþráðum eða leitað upplýsinga hjá aðstoðarkennurum.

Ég lagði alltaf mikla áherslu á verkefnavinnu nemenda og var venjulega með vikuleg verkefni í flestum námskeiðum sem ég kenndi, a.m.k. grunnnámskeiðum. Reynslan sýnir að nemendur tileinka sér efnið ekki almennilega nema á þann hátt. Oftast giltu þessi verkefni eitthvað til námsmats, en venjulega þó ekki mikið. Í kennslukönnunum fékk ég oft athugasemdir frá nemendum um að verkefnin væru alltof tímafrek miðað við hvað þau gildi lítið. Ég svaraði því alltaf til að verkefnin væru hluti af kennslunni – ekki bara aðferð til að finna einhverja tölu til að hengja á nemendur og kalla einkunn. Ég fékk líka stundum athugasemdir við að fyrirmælin í verkefnunum væru ekki nógu skýr – það væri ekki nógu ljóst til hvers væri ætlast. Stundum átti þetta rétt á sér, en oft sagði ég nemendum samt að svona ætti þetta að vera. Þeir ættu að þurfa að leggja eitthvað á sig til að átta sig á hvað þeir ættu að gera.

Það er líka misjafnt hvernig farið var yfir verkefnin. Ég samdi alltaf ítarleg úrlausnarblöð ef mögulegt var, og hvatti nemendur til að bera eigin úrlausn saman við þau. Stundum voru verkefnin auðvitað þess eðlis að þetta var ekki hægt. Ef ég var með stóran nemendahóp, einkum ef ég var ekki með aðstoðarmann, lét ég oft nægja að renna lauslega yfir úrlausnir nemenda og athuga hvort þeir hefðu glímt við alla þætti verkefnisins. Ef þeir hefðu gert það fengu þeir stig fyrir það, óháð því hvort þeir leystu verkefnið rétt. Vissulega hefði verið betra að geta veitt hverjum og einum ítarlega endurgjöf, en það hefði orðið mjög tímafrekt og leitt til þess að verkefnin yrðu mun færri. Ég tel, og sagði nemendum það, að ef þeir nýti sér úrlausnarblöðin vel læri þeir meira á verkefnunum en endurgjöfinni og þess vegna sé betra fyrir þá að fá mörg verkefni sem ekki er farið ítarlega yfir en færri verkefni sem farið er vandlega yfir.

Þátttaka í nefndum og stjórnum sem tengjast kennslu

  • Kennaramenntunarnefnd Háskólans 1988-1992, undir forystu Andra Ísakssonar og síðar Jóns Torfa Jónassonar.
  • Nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins um lesskilning og orðaforða 1989, undir formennsku Guðna Olgeirssonar.
  • Verkefnisstjórn hagnýtra námsbrauta 1999, undir formennsku Páls Jenssonar.
  • Nefnd Heimspekideildar um fjarkennslu, 2004.
  • Starfshópur til að undirbúa drög að stefnu Háskólans um upplýsingatækni og fjarkennslu, 2006-2007.
  • Verkefnishópur um skipulag náms á Menntavísindasviði, 2007-2008.
  • Námsstjórn um menntun framhaldsskólakennara, 2012-2015.
  • Starfshópur rektors um vefstudda kennslu og nám, 2012-2013.
  • Stjórn Samtaka móðurmálskennara 1984-1986 og 2010-2012 og í ritnefnd Skímu 1994-1997.

Greinar um kennslumál

Erindi um kennslumál