Háskólinn, fullveldið og tungan
Það fer vel á því að rætt sé um íslenskuna og stöðu hennar þegar aldarafmælis fullveldisins er minnst. Allt frá upphafi frelsisbaráttu Íslendinga á 19. öld var áhersla lögð á tungumálið og mikilvægi þess fyrir íslenskt þjóðerni og þjóðarvitund – land, þjóð og tunga hefur lengi verið órjúfanleg þrenning í huga margra Íslendinga. Sérstakt tungumál var frumforsenda þess að Íslendingar litu á sig sem sérstaka þjóð og fóru að krefjast sjálfstæðis á 19. öldinni. Víða í Evrópu voru þjóðríki í nútímaskilningi að verða til á 19. öld og þá lentu iðulega innan sama ríkis hópar og þjóðarbrot sem töluðu mismunandi tungumál. Til að tryggja einingu ríkisins lögðu stjórnvöld oft áherslu á eitt ríkismál og bönnuðu jafnvel notkun annarra tungumála.
En afstaða danskra stjórnvalda var gerólík – þau virðast aldrei hafa gert miklar tilraunir til að þröngva dönsku upp á Íslendinga. Öfugt við marga aðra minnihlutahópa innan ríkja þurftu Íslendingar ekki að berjast sérstaklega fyrir því að fá að nota móðurmál sitt á flestum sviðum. Íslenskan var hins vegar sameiningartákn, réttlæting Íslendinga fyrir sérstöðu sinni og ekki síst notuð til að leiða þeim sjálfum fyrir sjónir hver sú sérstaða væri. Víða í Evrópu var tungan vígvöllur baráttunnar – á Íslandi var hún vopnið.
Þegar farið var að ræða um fullveldi og sjálfstæði Íslands í upphafi 20. aldar var tungan enn mikilvæg röksemd. Það má t.d. sjá í greinargerð íslensku fulltrúanna í sambandslaganefndinni 1918 þar sem segir:
Íslenzka þjóðin hefur ein allra germanskra þjóða varðveitt hina fornu tungu, er um öll Norðurlönd gekk fyrir 900-1000 árum, svo lítið breytta, að hver íslenzkur maður skilur enn í dag og getur hagnýtt sér til hlítar bókmenntafjársjóði hinnar fornu menningar vorrar og annarra Norðurlandaþjóða. Með tungunni hefur sérstakt þjóðerni, sérstakir siðir og sérstök menning varðveitzt. Og með tungunni hefur einnig meðvitundin um sérstöðu landsins gagnvart frændþjóðum vorum ávallt lifað með þjóðinni. Þessi atriði, sérstök tunga og sérstök menning, teljum vér skapa oss sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfstæðis.
Þegar Ísland fékk fullveldi fyrir hundrað árum má segja að hlutverki íslenskunnar í sjálfstæðisbaráttunni hafi lokið – og þó. Það er nefnilega til annars konar fullveldi en það stjórnarfarslega fullveldi sem við öðluðumst fyrir einni öld. Það er menningarlegt fullveldi, sem virðist fyrst nefnt á prenti í grein sem birtist í fréttablaðinu Skildi í Vestmannaeyjum á fimm ára afmæli fullveldisins, 1. desember 1923, en þar segir:
Mörg þjóð hefir orðið að fórna blóði sinna bestu sona til þess að öðlast stjórnarfarslegt fullveldi. Svo mikils virði hefir það verið þeim. Þó er andlegt menningarlegt fullveldi engu minna virði.
Menningarlegt fullveldi er vandmeðfarið hugtak vegna þess að skilgreining þess er ekki skýr – enn óskýrari en skilgreining stjórnarfarslegs fullveldis sem er þó nógu óljós. Það er þó ljóst að flestir sem nota hugtakið telja tungumálið grunnþátt og forsendu menningarlegs fullveldis eins og kom m.a. skýrt fram í umræðum um Kanasjónvarpið svokallaða á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar.
Í bæklingnum Íslenzk menningarhelgi sem Þórhallur Vilmundarson prófessor samdi 1964 leggur hann áherslu á nauðsyn þess „að standa trúan vörð um tungu okkar og önnur arftekin þjóðarverðmæti, sem greina okkur frá öðrum þjóðum og ein veita okkur sjálfstætt, jákvætt gildi í samfélagi þjóðanna“ og gæta þannig íslenskrar menningarhelgi. „[…] íslenzk tunga og þjóðleg menningarverðmæti eru einangrunarfyrirbæri í þeim skilningi, að þau væru ekki til, ef þjóðin hefði ekki fengið að lifa lífi sínu í þessu landi án þess að verða fyrir of stríðum erlendum áhrifum“, segir Þórhallur.
Tungumálið skapar sérstakan menningarheim sem bæði bægir frá áhrifum annarra menningarheima og torveldar aðgang okkar að öðrum menningarheimum. En á síðustu árum hafa vissulega orðið gífurlegar þjóðfélagsbreytingar sem gætu stuðlað að því að rýra menningarlegt fullveldi landsins. Þau áhrif koma í gegnum þá menningu og menningarheima sem fólk kemst nú í nánari snertingu við en áður, en áhrifin á tungumálið gætu þó reynst afdrifaríkust.
Eins og áður segir er skilgreiningin á menningarlegu fullveldi ekki á hreinu og því er erfitt að segja hvenær og hvernig það glatast. Þótt svo færi að Íslendingar legðu íslensku af, eða hún yrði ekki nothæf nema á afmörkuðum sviðum, þarf það ekki að leiða sjálfkrafa til þess að menningarlegt fullveldi glatist. Ég geri t.d. ráð fyrir að Írar telji sig menningarlega fullvalda þjóð þótt flestir þeirra noti ensku í öllu daglegu lífi. Vitanlega felst menningarlegt fullveldi ekki í einangrunarstefnu og það er út af fyrir sig ekki sjálfgefið að það drægi úr menningarstarfsemi og nýsköpun á sviði menningar þótt hér væri töluð enska í stað íslensku.
En íslensk menning á ensku yrði síður aðgreind frá menningu annarra þjóða, og vegna þess hve samfélagið er fámennt hætta á að það yrði aðallega þiggjandi á sviði menningar, ef þeirri vörn sem tungumálið veitir yrði kippt brott. Það er nefnilega hreint ekki sjálfgefið að 340 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að ýmsar samfélags- og tæknibreytingar síðustu 5-10 ára valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum. Við því þarf að bregðast, ekki síst af hálfu Háskólans, því að þrátt fyrir alþjóðavæðingu og tækniframfarir er íslenskan enn óendanlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, og fyrir einstaklingana sem eiga hana að móðurmáli. Fyrir því eru fleiri ástæður en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.
Í sérhverju tungumáli felast menningarverðmæti. Sérhvert tungumál er einstakt á einhvern hátt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi eru frábrugðin öllum öðrum tungumálum, merkingarblæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er (og slík gögn eru forgengileg eins og sannaðist átakanlega í Brasilíu fyrir fáum dögum), verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.
Sérhvert tungumál er líka merkilegt og einstakt frá fræðilegu sjónarmiði vegna þess að það getur hjálpað okkur að komast að einhverju um eðli mannlegs máls. Íslenska er t.d. viðfangsefni fræðimanna víða um heim og dæmi úr íslensku eru notuð í kennslu í miklum fjölda erlendra háskóla. Ástæðan er ekki síst sú að íslenskan er náskyld ensku og lík henni á margan hátt, þannig að auðvelt er að bera málin saman og láta sérkenni íslenskunnar í beygingum og setningagerð varpa ljósi á eðli mismunar málanna og ýmissa fyrirbæra í þeim.
Íslenskan er líka tenging okkar við sögu og menningu þjóðarinnar fyrr á tímum. Við njótum þeirra forréttinda umfram flestar aðrar þjóðir að geta tiltölulega auðveldlega lesið texta allar götur frá upphafi ritaldar fyrir 900 árum, án þess að þeir séu þýddir á nútímamál. Ef íslenskan breytist mjög mikið, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Völuspá og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kaldaljós, og meira að segja Arnald og Yrsu. Þar með væri hið margrómaða samhengi í íslenskum bókmenntum og menningu fokið út í veður og vind.
Vitanlega er íslenskan ekki síður félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikilvægasta samskiptatæki okkar við annað fólk. Þess vegna má hún ekki staðna heldur þarf að vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hún verður að þola tilbrigði í framburði, beygingum og setningagerð, og að ný orð komi inn í málið og gömul orð fái nýja merkingu. Hún má ekki verða einkaeign ákveðinna hópa, og það má ekki nota hana og tilbrigði í beitingu hennar til að mismuna fólki eða flokka það á nokkurn hátt. „Sannmentaður maður elskar þjóðerni sitt og tungu, enn hann miklast ekki af þjóðerni sínu, fyrirlítur ekki aðrar þjóðir nje þykist upp yfir þær hafinn,“ sagði Björn M. Ólsen rektor í fyrstu setningarræðu Háskóla Íslands 1911.
En síðast en ekki síst er íslenskan útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar. Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði, móðurmál okkar, er hluti af okkur sjálfum, einkaeign okkar jafnframt því að vera sameign alls málsamfélagsins og í vissum skilningi alls mannkyns. Þetta hljómar eins og þversögn – og er þversögn. Það er ekki einfalt að umgangast málið þannig að öll þessi hlutverk þess séu höfð í heiðri.
Það er samt það sem við þurfum að reyna að gera og það byggist á umburðarlyndi, virðingu og tillitssemi. Við þurfum að nota tungumálið þannig að það misbjóði engum. Það má ekki vera þannig að einhverjum hópum í samfélaginu finnist íslenskan ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við.
Það er því ekki að ástæðulausu að Háskóli Íslands, helsta vísinda- og menntastofnun landsins, hefur sett sér málstefnu þar sem lögð er áhersla á að íslenska sé sjálfgefið talmál og ritmál skólans, í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu, og sérstaka ástæðu þurfi til að bregða út af því. Og fullyrða má að Háskólinn hafi allt frá upphafi gegnt lykilhlutverki í því að viðhalda menningarlegu fullveldi Íslands. Eina nýja deildin sem varð til um leið og Háskólinn var Heimspekideild, eina deildin sem hafði ekki það hlutverk að mennta embættismenn heldur áttu íslensk fræði, rannsóknir á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu, að vera í öndvegi. Háskólinn er eina menntastofnun landsins þar sem íslenska er kennd sem sérstök grein, allt til æðstu prófgráðu.
Ein meginbreytingin við það að æðri menntun fluttist inn í landið var sú að kennslan fór fram á íslensku, þótt vissulega hafi meginhluti lesefnis í mörgum deildum skólans lengi verið á erlendum málum. Þetta hefur skipt miklu máli fyrir íslenskuna því að margir kennarar skólans hafa verið brautryðjendur í því að rita um fræði sín á íslensku. Ef þeir hefðu ekki átt kost á akademísku starfi á Íslandi er óvíst, og raunar ólíklegt, að margir þeirra hefðu lagt slík skrif fyrir sig. Það hefði getað haft þau áhrif að ýmis fræðasvið lægju óbætt hjá garði og ekki væru til vísindarit, fræðsluefni fyrir almenning eða kennsluefni á íslensku á þeim sviðum.
Staða íslenskunnar innan Háskólans hefur óneitanlega breyst talsvert á síðustu árum og námskeiðum sem eru kennd á ensku hefur smátt og smátt farið fjölgandi. Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur eðlilegrar og nauðsynlegrar þátttöku skólans í alþjóðlegu háskólastarfi. Erlendum stúdentum hefur fjölgað mikið, bæði skiptinemum og þeim sem stefna á gráðu frá skólanum, og á síðustu árum hefur erlendum kennurum einnig fjölgað. Það er líka þáttur í akademískri þjálfun stúdenta að gera þeim kleift að fjalla um viðfangsefni sín á alþjóðlegu fræðimáli, sem er enska en ekki íslenska hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Þessi þróun má hins vegar ekki leiða til þess að heilu greinarnar verði eingöngu kenndar á ensku. Eitt meginhlutverk Háskólans er að þjóna íslensku samfélagi – stuðla að „miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls“ eins og segir í lögum um háskóla. Raunar held ég að færa megi rök að því skólinn leiki stærra hlutverk í samfélagi sínu en nokkur annar háskóli í heiminum. Í fyrstu setningarræðu skólans tók Björn M. Ólsen fram að auk þeirra meginhlutverka að vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun þyrfti skólinn „að veita mönnum þá undirbúningsmentun, sem þeim er nauðsynleg, til þess að þeir geti tekist á hendur ýms embætti eða sýslanir í þjóðfjelaginu“ – úti um allt land, á öllum sviðum þjóðlífsins. Það er grundvallaratriði að þetta fólk geti talað um fræði sín og viðfangsefni við almenning – á máli sem fólk skilur. Það getur reynst þrautin þyngri ef fólkið hefur ekki fengið neina æfingu í því í námi sínu vegna þess að allt lesefni og öll kennsla hafi verið á ensku.
Jarðvísindafólk við Háskólann og Veðurstofuna er tíðir gestir í fjölmiðlum til að tala um hugsanleg eldgos í Öræfajökli, Kötlu og víðar, og þetta fólk fer einnig austur í Öræfasveit og undir Eyjafjöll til að ræða við heimafólk og útskýra stöðuna. Ég veit alveg hvað sigketill er, og kvikuhólf, og sprengigos, og jökulhlaup, og ég er ekki í vafa um að Öræfingar og Eyfellingar vita það líka. En ég hef ekki hugmynd um hvað neitt af þessu er á ensku, þannig að það er eins gott að Magnús Tumi og Páll Einarsson og Kristín á Veðurstofunni og öll hin eru ekki í neinum vandræðum með að útskýra stöðuna með hjálp þessara orða og margra fleiri íslenskra íðorða sem við þekkjum öll.
En ef öll jarðvísindakennsla við skólann færi fram á ensku er ekkert víst að þau hefðu þessi orð á valdi sínu – og það er ekki einu sinni víst að sum orðin væru til, vegna þess að fjöldi kennara við Háskólann hefur unnið mikið starf við að íslenska orðaforða fræðigreina sinna. Þannig gera þau fræðifólki á sínu sviði kleift að tala um fræði sín á íslensku – ekki bara þeim sem hafa lært við skólann, heldur líka þeim sem hafa numið sín fræði erlendis. Þetta er gott dæmi um mikilvægi þess að Háskólinn leggi rækt við íslenskuna – leggi sitt af mörkum til þess að hún sé nothæf, og notuð, á öllum sviðum, svo vitnað sé í íslenska málstefnu og málstefnu Háskólans.
En til að íslenskan lifi og geti þjónað margslungnu hlutverki sínu um ókomin ár er nauðsynlegt að efla hana og styrkja, og þá er aftur komið að fullveldisafmælinu og hlutverki Háskólans í varðveislu menningarlegs fullveldis. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi þingsályktun um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Þar er ríkisstjórninni m.a. falið að „undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni“. Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar segir: „Fjármögnuð verður aðgerðaáætlun um máltækni þannig að íslensk tunga verði gjaldgeng í stafrænum heimi.“
Fyrir tæpum mánuði undirritaði mennta- og menningarmálaráðherra samning við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um að verða miðstöð íslenskrar máltækni og sjá um framkvæmd aðgerðaáætlunar í máltækni næstu fimm ár. Að Almannarómi stendur breiðfylking rannsóknarstofnana og hagsmunaaðila – Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík, Árnastofnun, Samtök atvinnulífsins og ýmis fyrirtæki í upplýsingatækni og fleiri greinum, Öryrkjabandalagið og Blindrafélagið, og fleiri.
Það er viðurkennt meðal fræðimanna að viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst viðhorf ungu kynslóðarinnar, sé það sem skiptir mestu um framtíðarhorfur málsins. Það eru ýmsar vísbendingar um að ungir Íslendingar líti ekki á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfsmynd sinni og þau sem eldri eru og hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Ungt fólk nú á dögum vill geta lært, búið og starfað erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kynslóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.
Með aðgerðaáætlun í máltækni er stigið stórt skref til að tryggja við getum notað íslenskuna áfram – ekki bara í öllum þeim mikilvægu hlutverkum sem ég taldi upp áðan, heldur einnig í samskiptum okkar við tölvur og hvers kyns tölvustýrð tæki í þeim stafræna heimi gervigreindar sem við erum á hraðri leið inn í. Það er ein helsta forsendan fyrir því að börnin okkar og barnabörnin geti og vilji nota íslensku áfram. Þetta má ekki vera einkamál greina eins og íslensku og tölvunarfræði, heldur verður að vera samvinnuverkefni allra fræðasviða, því að tungumálið varðar okkur öll og er hluti af okkur öllum. Það er mikilvægasta fullveldismálið að við getum áfram notað íslensku á öllum sviðum og þar verður Háskóli Íslands að vera í forystu.