Breytingar frá fornu máli
Því er oft haldið fram að íslenska hafi breyst mjög lítið frá tíma elstu varðveittra texta til dagsins í dag. Þegar við lesum útgáfur íslenskra fornbókmennta verður ekki betur séð en þessi skoðun eigi við rök að styðjast; auðvitað er alltaf eitthvað um orð sem við skiljum ekki, en í grundvallaratriðum má samt segja að við getum lesið venjulega forna sögutexta. Þegar komið er út í lagamál og þvíumlíkt getur róðurinn að vísu farið að þyngjast. En hér er tvennt sem blekkir, og lætur okkur halda að munurinn sé minni en hann raunverulega er.
Eitt er það að hljóðkerfi málsins hefur breyst mjög verulega. Bæði standa einstakir stafir nú í mörgum tilvikum fyrir annað hljóðgildi en að fornu; þá táknaði á t.d. langt a, é táknaði langt e o.s.frv.; og eins hefur hljóðgildi ákveðinna tákna breyst í ákveðnum samböndum. Þannig táknar stafurinn f nú sama hljóð og b ef hann stendur á undan l og n, í orðum eins og hefla og nafn, en að fornu táknaði hann sama hljóð og v í þessum samböndum, eins og hann gerir enn á undan r, ð og sérhljóðum, í orðum eins og hafrar, lifði og hafa.
Þessar breytingar á hljóðkerfinu, og fjölmargar aðrar, koma ekki fram í stafsetningunni – íslensk stafsetning endurspeglar í raun hljóðkerfi 13. aldar frekar en hljóðkerfi nútímamáls. Þess vegna gerum við okkur ekki grein fyrir breytingunum þegar við lesum útgáfur fornra texta, en þær myndu þó nægja til þess, að við gætum tæplega eða ekki skilið forníslensku ef við heyrðum hana talaða, né heldur myndu fornmenn skilja okkur.
Annað atriði sem skiptir ekki minna máli er það að hugmyndir flestra um fornmálið eru ekki komnar beint úr handritum, heldur úr útgáfum sem ýmist nota svonefnda „samræmda stafsetningu forna“ eða nútímastafsetningu. Og þessar útgáfur eru frábrugðnar handritunum sjálfum í veigamiklum atriðum. Í fyrsta lagi var ekki til að fornu neitt sem kallast má „samræmd stafsetning“ í nútímaskilningi. Ritháttur er með ýmsu móti og það krefst oft töluverðrar útsjónarsemi og þekkingar að komast í gegnum útgáfur þar sem texta handritanna er fylgt staf fyrir staf.
Í öðru lagi „leiðrétta“ útgefendur iðulega málfar handritanna. Í formála útgáfu Hins íslenska fornritafélags á Egils sögu Skallagrímssonar segir útgefandi t.d. að fyrir utan það að samræma stafsetningu hafi hann leiðrétt „bersýnilegar pennavillur og smáúrfellingar nauðsynlegra orða“. En þarna er iðulega leiðrétt eftir reglum nútímamáls frekar en reglum fornmáls. Það verður t.d. ekki betur séð en það hafi verið fullkomlega eðlilegt í fornu máli – a.m.k. ritmáli, en um talmálið vitum við auðvitað ekki – að sleppa persónufornöfnum eins og ég, hann og hún, víða þar sem okkur finnst þau nauðsynleg.
Í slíkum tilvikum skjóta útgefendur fornöfnunum oft inn, þótt þau séu ekki í handriti. En vegna þess að slíkar setningar eru algengar í fornum textum virðist hæpið að álykta að alltaf sé um að ræða pennaglöp eða brot á reglu – líklegra er að reglur fornmáls hafi einfaldlega verið aðrar en reglur nútímamáls að þessu leyti. Ef svo er, verða þessar breytingar útgefenda auðvitað til þess að hinn raunverulegi munur fornmáls og nútímamáls minnkar í augum okkar.
Þar við bætist að hinar „bersýnilegu pennavillur“ sem áður voru nefndar felast oft í því sem nú væri kallað „málvillur“, t.d. „rangri“ fallbeygingu. Í Reykjabók, einu helsta og elsta handrit Njálu, frá því um 1300 eða litlu síðar, er t.d. að finna orðmyndina föðurs, með s í endann, sem nú er talin röng – en í útgáfum er þessu yfirleitt breytt athugasemdalaust í föður. Það er ljóst að slíkar breytingar, þótt smávægilegar virðist og jafnvel sjálfsagðar í fljótu bragði, hafa mikil áhrif í þá átt að láta okkur halda að fornmálið hafi verið miklu „betra“ eða „hreinna“ mál en það var í raun og veru.
Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr gildi fornmálsins á einhvern hátt eða rýra álit okkar á því. Ég er bara að benda á að á öllum tímum hafa verið margs konar tilbrigði í málinu. Flestar nýjungar hafa væntanlega verið álitnar einhvers konar „villur“ þegar þær komu upp, og sumar þeirra hafa horfið aftur úr málinu, en aðrar hafa náð yfirhöndinni og teljast nú eðlilegt og rétt mál.