Okkar íslenska og hinna
Okkur hættir til að halda sú íslenska sem við erum sjálf alin upp við, hvert og eitt, sé betri og réttari en sú sem fólk af öðru landshorni eða á öðrum aldri talar, og okkur hættir til að telja að annað en það sem við þekkjum sjálf eða erum vönust sé rangt.
Fyrir allmörgum árum átti ég tal við aldraðan mann fyrir norðan, og barst tal okkar að málfari manna. Viðmælandi minn tók að býsnast yfir því hvað mál unglinga í Reykjavík væri orðið spillt; t.d. segðu þeir nú mér langar, mér vantar og annað eftir því. Ekki mótmælti ég því, en spurði á móti hvort honum fyndist þá í lagi að tala um að hitta læknirinn. Hann varð hvumsa við, en sagðist ekki vita betur en það væri fullkomlega eðlilegt og rétt mál. Ég sagði honum þá að það mætti ekki á milli sjá hvor villan þætti verri í setningunni Mér langar að hitta læknirinn. Hann þagnaði um stund, en kvað svo upp úr með það að seinni villan væri miklu minni, því að hún væri norðlenska.