Íslenska og útlendingar
Í gær sagði Ríkisútvarpið frá athyglisverðum úrskurði kærunefndar jafnréttismála um að „sendibílastöð megi gera kröfu um að bílstjórar sem aki fyrir hluthafa stöðvarinnar geti gert sig skiljanlega á íslensku og skilji tungumálið“. Það „orkar ekki tvímælis að mati kærunefndarinnar að kröfur um tungumálakunnáttu geta í ýmsum tilvikum talist lögmætar, enda þótt þær komi að einhverju marki niður á einstaklingum sem eru af erlendum þjóðernisuppruna og búa þar með hugsanlega ekki yfir íslenskukunnáttu“. En þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið mál.
Það er lífsnauðsyn fyrir íslenskuna að hún sé notuð á Íslandi þar sem mögulegt er. En við verðum að hafa í huga að þjóðfélagið er orðið fjölmenningarlegt og á Íslandi býr fjöldi fólks sem ekki skilur íslensku, að ekki sé talað um alla ferðamennina sem hingað koma. Auðvitað er óhjákvæmilegt, eðlilegt og sjálfsagt að koma til móts við þetta fólk með notkun ensku (og annarra erlendra tungumála) þar sem við á – enskan á fullan rétt á sér á Íslandi, samhliða íslenskunni á mörgum sviðum. En hún má ekki koma í stað íslensku eða ryðja henni burt.
Ég veit um fólk sem hefur búið hér í 10-15 ár og talar enn ekki íslensku þótt það skilji hana kannski þokkalega. Þetta er fólk sem er hér af ýmsum ástæðum en er langflest komið til að vinna, vegna þess að getum ekki mannað öll nauðsynleg störf eða viljum ekki vinna þau. Því hefur verið spáð að þörf sé á verulegum innflutningi vinnuafls á næstu árum, og vonandi sjáum við sóma okkar í því að taka við fleiri flóttamönnum og hælisleitendum – enda erum við alltof fá.
En ef innflytjendur verða 15-20% landsmanna innan fárra ára eins og búast má við segir það sig sjálft að það hefur áhrif á stöðu íslenskunnar sem til skamms tíma var einráð á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þessi breytta staða skapar spennu milli íslensku og ensku. Því er oft haldið fram að allir Íslendingar kunni ensku og þótt það sé sannarlega ofmælt er samt enginn vandi að búa í íslensku þjóðfélagi árum og jafnvel áratugum saman án þess að kunna íslensku því að enskan er alls staðar.
Það er auðvitað gott fyrir þá sem hingað koma, en ber í sér hættu fyrir íslenskuna. Það þýðir að þrýstingurinn á að læra málið er ekki alltaf mjög mikill, a.m.k. ekki fyrir fólk í fullri vinnu sem það hefur nóg með að sinna. Við höfum ekki heldur staðið okkur nógu vel í að auðvelda fólki að læra málið. Við þurfum einhvern veginn að finna leið sem tekur tillit til útlendinga og gerir þeim kleift að bjarga sér í samfélaginu, án þess að íslenskan verði ævinlega víkjandi. Þetta er ekki einfalt, en þetta þarf að ræða – sem er sjaldan gert.
En þótt fólk geti búið í þjóðfélaginu til langframa án íslenskukunnáttu felur það ekki í sér fulla þátttöku. Þetta fólk tekur yfirleitt lítinn þátt í félags- og stjórnmálum, það sækir sér sjaldan langskólamenntun, og þótt sumt af því komi hámenntað til landsins á það erfitt með að fá menntun sína viðurkennda. Ef fólk úr þessum hópi ætlar sér að taka fullan þátt í þjóðfélaginu fær það iðulega á sig gagnrýni vegna ófullkominnar íslenskukunnáttu eins og t.d. Nichole Leigh Mosty fékk að finna.
Sú hætta er fyrir hendi að íslenskan verði notuð, meðvitað eða ómeðvitað, til að búa til lagskipt þjóðfélag – annars vegar menntað fólk sem talar íslensku samkvæmt viðurkenndum málstaðli og ræður öllu í þjóðfélaginu, meðal annars í krafti málfarslegra yfirburða, og hins vegar fólk af erlendum uppruna, jafnvel aðra og þriðju kynslóð innflytjenda, sem hefur ekki gott vald á íslensku og kemst hvergi áfram en situr eftir í láglaunastörfum, áhrifalaust um umhverfi sitt og framtíð. Það er alveg hugsanlegt að til séu atvinnurekendur sem kæra sig ekkert um að erlent starfsfólk þeirra læri íslensku því að þá gæti það farið að gera meiri kröfur, áttað sig betur á réttindum sínum o.s.frv.
Ég legg áherslu á að ég er alls ekki að amast við fjölgun útlendinga – öðru nær. Við þurfum á þeim að halda til fullrar þátttöku í þjóðfélaginu – til að halda uppi því vestræna velferðar- og menningarþjóðfélagi sem við viljum búa í – og við megum ekki nota tungumálið til að halda þeim niðri. En barátta fyrir íslenskunni má aldrei snúast upp í þjóðrembing og hana má aldrei nota til þess að útiloka fólk á ómálefnalegan hátt eða gera með einhverju móti lítið úr því.
Við þurfum að átta okkur á hættunni á því að við séum að búa til tvær þjóðir í landinu – „okkur“, sem tölum góða íslensku og sitjum að bestu bitunum hvað varðar völd, áhrif, menntun, tekjur o.s.frv. – og svo „hina“, þá sem tala ófullkomna eða enga íslensku og sitja fastir í láglaunastörfunum, áhrifalausir á öllum sviðum þjóðfélagsins. Fyrir utan þann skaða sem þetta veldur fólkinu sem í því lendir er þetta stórhættulegt fyrir lýðræðið og býr til jarðveg fyrir lýðskrum og öfgastefnur.
Þetta er ekki einfalt mál – að halda íslenskunni á lofti, halda því til streitu að hún sé nothæf og notuð á öllum sviðum, en jafnframt gæta þess að íslenskukunnátta og -færni sé aldrei notuð til að mismuna fólki. Það er brýnt að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu og móti stefnu í þessum málum, eins og mennta- og menningarmálaráðherra hefur talað fyrir. En það er líka brýnt að við, fólkið í landinu, áttum okkur á vandanum og veltum fyrir okkur hvernig eigi að taka á málinu. Þess vegna þurfum við að ræða þetta – „taka umræðuna“ eins og nú er sagt.
En ekki á forsendum útlendingaandúðar og -hræðslu, heldur á jákvæðum nótum. Eins og segir í áðurnefndum úrskurði getur verið nauðsynlegt gera kröfur um íslenskukunnáttu „til að tryggja skilvirk samskipti við viðskiptavini, þar á meðal í störfum í þjónustugeiranum“, en við þurfum að auðvelda útlendingum að læra íslensku og nota hana á öllum sviðum, og við þurfum að vera jákvæð gagnvart allri íslenskunotkun, þótt framburður sé ekki fullkominn, beygingar vanti stundum og setningagerðin sé óhefðbundin. Íslenska er alls konar.