Staða íslenskunnar
Á síðustu dögum hafa tveir fésbókarvinir haft samband við mig hvor í sínu lagi og beðið mig að hitta sig til að ræða um lesskilning, orðaforða og stöðu íslenskunnar. Þetta eru konur sem ég þekki frá fornu fari og vinna báðar með börnum og unglingum, önnur talmeinafræðingur og hin framhaldsskólakennari.
Báðar höfðu svipaða sögu að segja - þeim finnst hafa orðið miklar breytingar á fáum árum. Börn komi inn í leikskólana með minni orðaforða og lélegri málþroska á ýmsan hátt, og orðaforði og ritfærni framhaldsskólanema fari minnkandi. Báðar hafa miklar áhyggjur af þróuninni og eru fullar áhuga á að gera eitthvað til að bæta stöðuna, og spurðu mig hvað væri til ráða.
Því miður varð fátt um svör. Ég kann engar töfralausnir frekar en aðrir. Það er svo sem auðvelt að slá um sig með almennum heilræðum eins og ég og aðrir hafa oft gert - tala við börn og unglinga, lesa fyrir þau og með þeim, virkja sköpunarmátt þeirra í stað þess að drepa hann niður, gera íslenskuna áhugaverða og spennandi í þeirra augum, endurskoða námsefni og kennsluaðferðir, o.s.frv.
Þetta er allt gott og blessað, en hvernig á að útfæra það? Þetta gerist ekki nema með markvissu samstarfi foreldra, skóla, stjórnvalda og samfélagsins alls. Við þurfum að átta okkur á hvað er í húfi - hvað það skiptir miklu máli að unga fólkið finni hjá sér áhuga, vilja og þörf til að nota íslensku. Ef okkur tekst ekki að skapa jákvætt viðhorf til málsins hjá börnum og unglingum skiptir engu máli hvað við gerum að öðru leyti.
Það versta er skeytingarleysi í garð íslenskunnar. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt hún sé höfð á eftir ensku á skiltum í Leifsstöð. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt auglýsingar í búðargluggum séu eingöngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt fyrirtæki sendi starfsmönnum tölvupóst sem er eingöngu á ensku. En það sýnir, meðvitað eða ómeðvitað, ákveðið viðhorf til íslenskunnar - viðhorf sem smitar út frá sér og gerir meiri skaða en við áttum okkur á í fljótu bragði.