Mikilvægi háskólakennslu á íslensku
Það er ekki að ástæðulausu að Háskóli Íslands, helsta vísinda- og menntastofnun landsins, hefur sett sér málstefnu þar sem lögð er áhersla á að íslenska sé sjálfgefið talmál og ritmál skólans, í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu, og sérstaka ástæðu þurfi til að bregða út af því. Fullyrða má að Háskólinn hafi allt frá upphafi gegnt lykilhlutverki í því að viðhalda menningarlegu fullveldi Íslands. Eina nýja deildin sem varð til um leið og Háskólinn var Heimspekideild, eina deildin sem hafði ekki það hlutverk að mennta embættismenn heldur áttu íslensk fræði – rannsóknir á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu – að vera í öndvegi. Háskólinn er eina menntastofnun landsins þar sem íslenska er kennd sem sérstök grein, allt til æðstu prófgráðu.
Ein meginbreytingin við það að æðri menntun fluttist inn í landið var sú að kennslan fór fram á íslensku, þótt vissulega hafi meginhluti lesefnis í mörgum deildum skólans lengi verið á erlendum málum. Þetta hefur skipt miklu máli fyrir íslenskuna því að margir kennarar skólans hafa verið brautryðjendur í því að rita um fræði sín á íslensku. Ef þeir hefðu ekki átt kost á akademísku starfi á Íslandi er óvíst, og raunar ólíklegt, að margir þeirra hefðu lagt slík skrif fyrir sig. Það hefði getað haft þau áhrif að ýmis fræðasvið lægju óbætt hjá garði og ekki væru til vísindarit, fræðsluefni fyrir almenning eða kennsluefni á íslensku á þeim sviðum.
Staða íslenskunnar innan Háskólans hefur óneitanlega breyst talsvert á síðustu árum og námskeiðum sem eru kennd á ensku hefur smátt og smátt farið fjölgandi. Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur eðlilegrar og nauðsynlegrar þátttöku skólans í alþjóðlegu háskólastarfi. Erlendum stúdentum hefur fjölgað mikið, bæði skiptinemum og þeim sem stefna á gráðu frá skólanum, og á síðustu árum hefur erlendum kennurum einnig fjölgað. Það er líka þáttur í akademískri þjálfun stúdenta að gera þeim kleift að fjalla um viðfangsefni sín á alþjóðlegu fræðimáli, sem er enska en ekki íslenska hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Þessi þróun má hins vegar ekki leiða til þess að heilu greinarnar verði eingöngu kenndar á ensku. Eitt meginhlutverk Háskólans er að þjóna íslensku samfélagi – stuðla að „miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls“ eins og segir í lögum um háskóla. Raunar held ég að færa megi rök að því skólinn leiki stærra hlutverk í samfélagi sínu en nokkur annar háskóli í heiminum. Í fyrstu setningarræðu skólans tók Björn M. Ólsen fram að auk þeirra meginhlutverka að vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun þyrfti skólinn „að veita mönnum þá undirbúningsmentun, sem þeim er nauðsynleg, til þess að þeir geti tekist á hendur ýms embætti eða sýslanir í þjóðfjelaginu“ – úti um allt land, á öllum sviðum þjóðlífsins. Það er grundvallaratriði að þetta fólk geti talað um fræði sín og viðfangsefni við almenning – á máli sem fólk skilur. Það getur reynst þrautin þyngri ef fólkið hefur ekki fengið neina æfingu í því í námi sínu vegna þess að allt lesefni og öll kennsla hafi verið á ensku.
Jarðvísindafólk við Háskólann og Veðurstofuna er tíðir gestir í fjölmiðlum til að tala um hugsanleg eldgos í Öræfajökli, Kötlu, á Reykjanesskaga og víðar, og þetta fólk fer einnig austur í Öræfasveit og undir Eyjafjöll og suður í Grindavík til að ræða við heimafólk og útskýra stöðuna. Ég veit alveg hvað sigketill er, og kvikuhólf, og sprengigos, og jökulhlaup, og ég er ekki í vafa um að Öræfingar og Eyfellingar og Grindvíkingar vita það líka. En ég hef ekki hugmynd um hvað neitt af þessu er á ensku, þannig að það er eins gott að Magnús Tumi og Páll Einarsson og Kristín á Veðurstofunni og öll hin eru ekki í neinum vandræðum með að útskýra stöðuna með hjálp þessara orða og margra fleiri íslenskra íðorða sem við þekkjum öll.
En ef öll jarðvísindakennsla við skólann færi fram á ensku er ekkert víst að þau hefðu þessi orð á valdi sínu – og það er ekki einu sinni víst að sum orðin væru til, vegna þess að fjöldi kennara við Háskólann hefur unnið mikið starf við að íslenska orðaforða fræðigreina sinna. Þannig gera þau fræðifólki á sínu sviði kleift að tala um fræði sín á íslensku – ekki bara þeim sem hafa lært við skólann, heldur líka þeim sem hafa numið sín fræði erlendis. Þetta er gott dæmi um mikilvægi þess að Háskólinn leggi rækt við íslenskuna – leggi sitt af mörkum til þess að hún sé nothæf, og notuð, á öllum sviðum, svo vitnað sé í íslenska málstefnu og málstefnu Háskólans.