Hagaðu þér!
Sögnin haga sér hefur fram undir þetta þurft að hafa með sér einhverja nánari lýsingu – haga sér vel / illa / eins og kjáni o.s.frv. En á seinustu árum hefur borið eitthvað á því að hún sé notuð án nokkurrar viðbótar og sagt Hagaðu þér! eða eitthvað slíkt. Elsta dæmi um þetta sem ég hef rekist á er um 20 ára gamalt. Það er nokkuð ljóst að þetta er fyrir áhrif frá ensku þar sem sögnin behave er notuð á þennan hátt.
Skipunin Hagaðu þér! merkir 'hagaðu þér vel'. Það má því segja að merking sagnarinnar hafi breyst (hjá þeim sem nota hana svona) frá því að vera hlutlaus og merkja hvers kyns hegðun – sem þarf þá að skilgreina nánar með vel, illa eða einhverju öðru – yfir í að vera jákvæð og merkja góða hegðun. En þrátt fyrir það er enn hægt að ná fram neikvæðri merkingu með því að bæta illa við – Mamma bað mig að haga mér en ég hagaði mér samt illa.
Sem sé: Það er sjálfgefið að jákvæða merkingin sé innifalin í sögninni og þess vegna þarf enga viðbót (vel eða eitthvað annað) til að tjá hana. Sé einhverju bætt við sögnina, t.d. neikvæðu atviksorði eins og illa, verður merking hennar hlutlaus. Við getum líkt þessu við það að þegar við skrifum tölu hærri en 0 þurfum við ekki að hafa + á undan og skrifa t.d. +15 – það er sjálfgefið. Sé talan lægri en 0 þarf aftur á móti að hafa – á undan, –15.