Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu?
Við sem eigum íslensku að móðurmáli erum ekki í vandræðum með að þekkja hana þegar við heyrum hana talaða eða sjáum hana á prenti, en málið vandast ef við eigum að skilgreina tunguna. Fram á síðustu öld hefði dugað að segja: „Íslenska er það tungumál sem er talað á Íslandi“, því að tæpast voru önnur tungumál töluð í landinu nema hjá fáeinum dönskum kaupmönnum og embættismönnum.
Nú eru aðstæður gerbreyttar og fjölmörg tungumál töluð á Íslandi, þótt íslenska sé vitaskuld ennþá móðurmál yfirgnæfandi meirihluta íbúanna. Ef skilgreining af þessu tagi er notuð verður því að minnsta kosti að breyta orðalaginu og segja: „Íslenska er það tungumál sem langflestir íbúar Íslands eiga að móðurmáli“. (Athugið að hér er sagt „íbúar Íslands“ en ekki „Íslendingar“, vegna þess að skilgreining þess hver sé Íslendingur er ekki síður snúin en skilgreining tungumálsins.)
Það má líka hugsa sér að skilgreina íslensku út frá ákveðnum formseinkennum í hljóðafari, beygingum og setningagerð. Til dæmis má segja að íslenska sé tungumál þar sem tiltekin málhljóð eru notuð (og telja þau upp) og tilteknar reglur gilda um það hvernig þau geta raðast saman; þar sem fallorð hafa þrjú kyn, tvær tölur og fjögur föll, og sagnir beygjast í persónum tölum, tíðum og háttum; þar sem sögn í persónuhætti er yfirleitt ekki aftar en annar liður í setningu; og svo framvegis. Hvert þessara atriða um sig getur átt við fleiri mál en íslensku, en þegar þau koma öll saman fáum við lýsingu sem fellur væntanlega ekki að neinu öðru máli. En skilgreining af þessu tagi er flókin og vandmeðfarin.
Væntanlega liggur þó beinast við skilgreina íslensku út frá uppruna, segja að hún sé indóevrópskt mál, nánar til tekið norðurgermanskt, og enn nánar vesturnorrænt. Það er svo álitamál hvenær íslenska hafi orðið til. Tæpast er hægt að segja að það hafi verið þegar við landnám – eðlilegra er að segja að íslenska verði til sem sérstakt tungumál þegar einhver tiltekinn munur er orðinn á því máli sem talað er á Íslandi og málinu í Noregi.
Það er hins vegar útilokað að tímasetja tilurð íslensku – í þessum skilningi – nákvæmlega. Bæði skortir okkur heimildir um það hversu mikill munurinn var á hverjum tíma, og eins er skilgreiningaratriði hversu mikill hann þarf að vera til að réttlætanlegt sé að tala um íslensku sem sérstakt tungumál – frekar en sem norska mállýsku. Munurinn á máli og mállýsku er raunar sérstakt viðfangsefni sem ekki verður leyst á einfaldan hátt.
Skilgreining tungumáls er að einhverju leyti háð tíma og ytri aðstæðum. Hvað ef íslenskan breytist verulega í framtíðinni? Hættir hún þá að vera íslenska? Fyrir rúmum 40 árum fór ég á fyrirlestur sem Jón Helgason prófessor flutti í Háskóla Íslands – fyrirlesturinn var kynntur þannig að Jón spjallaði um það sem honum dytti í hug. Þá nefndi hann að nú stefndi í það að íslenska hyrfi af landinu og bara yrði eftir reykvíska – sem væri gott, því að þá hefði viðfangsefni hans bæði upphaf og endi.
Þetta var auðvitað sagt í hálfkæringi eins og Jóns var von og vísa, en spurningin er samt gild. Íslenska nútímans er talsvert frábrugðin íslensku Sturlungaaldar á ýmsan hátt – hljóðkerfið er gerbreytt, fjöldi nafnorða hefur breytt um beygingarflokk og beygingarflokkar runnið saman, talsverðar breytingar hafa orðið á sagnendingum, ýmislegt í setningagerð hefur breyst, og merking margra orða er nú önnur en hún var – en við erum þó ekki í vafa um að þetta sé sama tungumálið.
Enska er enn skilgreind sem vesturgermanskt mál, enda þótt hún hafi tekið upp aragrúa orða og orðstofna af rómönskum toga (úr latínu og frönsku). Sú enska sem töluð var fyrir þúsund árum er að flestu leyti ólík enskunni nú á dögum – hljóðafar, beygingar, setningagerð og orðaforði hefur gerbreyst, og enginn enskumælandi maður getur lesið þúsund ára gamla enska texta án verulegs náms og þjálfunar. En málið er samt enn kallað enska.
Það sem skiptir hér meginmáli er óslitin söguleg þróun. Á nokkrum öldum eða heilu árþúsundi getur innri gerð tungumáls gerbreyst, og sömuleiðis ytri aðstæður þess. En breytingarnar gerast ekki eins og hendi sé veifað – sáralítil breyting verður frá ári til árs, en þegar litið er til áratuga og alda eru breytingarnar augljósar. Út frá þessu má spyrja: Hvaða tungumál verður talað á Íslandi eftir hundrað ár? Því er vitaskuld ógerlegt að svara með nokkurri vissu. Það verður örugglega talsvert frábrugðið því máli sem við tölum nú.
En ef þróunin verður óslitin næstu öld verður þetta örugglega íslenska. Hún kann að hafa tekið upp mikinn fjölda enskra orða, hún kann að hafa misst eitthvað af beygingum, setningagerðin kann að hafa tekið breytingum, og það kann að vera að þeir sem þá verða ungir eigi í erfiðleikum með að lesa það sem við skrifum nú – en það verður samt engin ástæða til að kalla þetta neitt annað en íslensku. Öðru máli gegnir ef þjóðin tæki sig saman um það einhvern daginn að skipta um tungumál og fara til dæmis að tala ensku. Þá væri ekki lengur um óslitna þróun að ræða.
Hugsanleg skilgreining á íslensku væri því á þessa leið: Indóevrópskt (vesturnorrænt) tungumál, beygingamál sem hefur tekið minni breytingum frá fornnorrænu en önnur norræn mál, aðaltungumálið og opinbert tungumál á Íslandi og móðurmál meginhluta íbúa landsins.