Eðlileg þróun
Iðulega les ég á samfélagsmiðlum að ýmsir málfræðingar, þ. á m. ég, telji allar málbreytingar „eðlilega þróun“ og vilji þess vegna ekki gera neitt til að sporna við þeim – fagni þeim jafnvel. Þetta er oft sagt í hæðnis- eða hneykslunartón og haft til marks um að álit umræddra málfræðinga sé að engu hafandi, þeir hafi gefist upp í baráttunni við „málvillur“ og hvers kyns hroðvirkni og skjóti sér þess vegna á bak við einhverjar fræðikenningar. Látum svo vera í bili en komum að því síðar. En hvað merkir það að einhver málbreyting sé „eðlileg þróun“?
Margar málbreytingar – kannski flestar – eiga rætur í máltöku barna. Börn tileinka sér ekki málið með því að læra reglur sem aðrir hafa sett fram. Þau búa sér til sínar eigin reglur með því að greina – ósjálfrátt og ómeðvitað – málið sem þau heyra í kringum sig. Þessar reglur nota þau síðan til að mynda eigin orð og setningar. En þótt börnin séu ótrúlega glúrnir greinendur hafa þau ekki mikið að byggja á í upphafi, og þess vegna verða reglur þeirra óhjákvæmilega oft rangar þannig að útkoman verður önnur en í máli fullorðinna.
En börnin festa sig ekki í upphaflegum reglum, heldur endurskoða þær aftur og aftur, eftir því sem þau fá meiri gögn til að byggja á. Smátt og smátt læra þau líka undantekningar frá reglunum – beygingu orða sem fylgja ekki venjulegum mynstrum, sjaldgæfar setningagerðir o.s.frv. Það kemur samt alltaf fyrir að endanlegar reglur barnanna skila ekki nákvæmlega sömu útkomu og reglur foreldranna, eða þau tileinka sér ekki allar undantekningar frá reglunum. Það leiðir af eðli máltökunnar og gerist í öllum tungumálum. Það er eðlileg þróun.
Börnin vaxa svo upp og skila málinu þannig breyttu til næstu kynslóðar þannig að breytingin breiðist út. En þótt slík þróun sé eðlileg og óhjákvæmileg geta mjög miklar eða hraðar breytingar dregið úr hæfi málsins til að sinna hlutverki sínu sem samskiptatæki milli fólks og menningarmiðlari milli kynslóða. Þess vegna er almennt séð æskilegt að grundvallaratriði málkerfisins séu sæmilega stöðug. En það er nauðsynlegt að leggja mat á málbreytingar út frá þessu – átta sig á hvaða breytingar gætu hugsanlega raskað málkerfinu og gert málið að verra tæki og láta hinar í friði.
Málfræðingar hafa – eða ættu að hafa – betri forsendur en aðrir til að leggja slíkt mat á málbreytingar, og afstöðu málfræðinga til málbreytinga hefur stundum verið líkt við afstöðu jarðfræðinga til eldgosa. Þeir fagna þeim ekki endilega en þau verða þeim ómetanleg uppspretta þekkingar og sú þekking gerir þeim m.a. kleift að spá betur fyrir um gos og auka þannig öryggi fólks. Þótt málfræðingar fagni ekki endilega málbreytingum eða telji þær æskilegar í sjálfu sér gera þær þeim kleift að átta sig betur á eðli tungumálsins.
Þessi aukna þekking á eðli tungumálsins skilar sér m.a. í því að unnt er meta betur hvers konar breytingar gætu raskað grundvelli málkerfisins og hvort einhver merki sjáist um slíkar breytingar. Á þeim grundvelli er síðan hægt að meta hvort og hvernig ástæða sé til að reyna að hægja á einhverjum breytingum eða stöðva þær. Eðlileg þróun þarf nefnilega ekki alltaf að vera æskileg.