Sérhljóðsbrottfall í áherslulausum atkvæðum
Í íslensku gildir sú meginregla um tvíkvæð ósamsett orð að áherslulausa sérhljóðið í öðru atkvæði fellur brott ef beygingarending orðsins hefst á sérhljóði. Þetta á einkum við orð með viðskeytum eins og -all, -ill og -ull, en einnig ýmis fleiri. Þannig segjum við hamar, hamar-s, en hamr-i, hamr-ar, hamr-a, hömr-um; jökul-l, jökul-s, en jökl-i, jökl-ar, jökl-a, jökl-um; hefil-l, hefil-s, en hefl-i, hefl-ar, hefl-a, hefl-um; höfuð, höfuð-s, en höfð-i, höfð-um, höfð-a; gaman, gaman-s, en gamn-i; o.s.frv.
Þetta brottfall getur síðan leitt til ýmissa annarra hljóðbreytinga í orðunum. Þegar a-ið í seinna atkvæðinu fellur brott í þágufalli fleirtölu af hamar leiðir það til þess að fyrra a-ið breytist í ö, hömrum, vegna þess að u-ið í endingunni er þá í næsta atkvæði á eftir. Þegar u-ið fellur brott í seinna atkvæði jökull lenda k og l saman og þá kemur fram svokallaður aðblástur (h-hljóð). Þegar i fellur brott í seinna atkvæði hefill koma f (v) og l saman og þá breytist önghljóð í lokhljóð – v verður b. Ýmis fleiri dæmi mætti nefna.
Brottfallsreglan er þó ekki undantekningarlaus. Áður fyrr voru það aðeins sérhljóðin a, i og u sem gátu komið fyrir í áherslulausum atkvæðum, og það eru einu hljóðin sem þetta brottfall verkar á. Nú eru í málinu ýmis tökuorð sem hafa önnur sérhljóð í áherslulausum atkvæðum ósamsettra orða, og þau hljóð falla ekki brott þótt ending hefjist á sérhljóði. Fleirtala orðsins mótor er þannig mótor-ar, ekki *mótr-ar, fleirtala orðsins lager er lager-ar, ekki *lagr-ar, þágufall eintölu af korter er korter-i, ekki *kortr-i, og svo mætti lengi telja.
En undantekningarnar eru fleiri. Fleirtalan af bikar er ekki *bikr-ar eins og búast mætti við, heldur bikar-ar, þágufallið af gjöful-l er ekki *gjöfl-an, heldur gjöful-an, þágufall nafnanna Gunnar og Kjartan er Gunnar-i og Kjartan-i, o.fl. Í sumum tilvikum virðist þágufallsendingunni -i sleppt og þágufall haft eins og þolfallið til að forðast myndir þar sem brottfall ætti að verða. Þannig er þágufallið af pipar alltaf pipar, ekki *pipr-i, og þágufall nafnanna Hugin-n og Munin-n er Hugin og Munin, ekki *Hugn-i og *Munn-i.
Það er ekki alltaf auðvelt að skýra þessar undantekningar. Þó er ljóst að brottfallið verður miklu síður í tökuorðum – það á við um mótor, lager, korter, bikar, pipar og mörg fleiri. Einnig er sennilegt að brottfall verði síður í sjaldgæfari orðum en algengum, þótt ýmis dæmi séu vissulega um brottfall í sjaldgæfum orðum. Einhver tilhneiging virðist líka vera til að forðast brottfall ef það ylli samhljóðabreytingum í stofni, eins og það myndi gera í orðum eins og gjöfull, hugull, spurull o.fl.
Brottfall verður samt oft þótt það valdi samhljóðabreytingum, eins og dæmi voru nefnd um hér að framan. En þegar Orðanefnd rafmagnsverkfræðinga var að velta fyrir sér þýðingu orðsins dynamo höfðu komið fram tvær tillögur – rafall og rafali. Nefndin ákvað að mæla fremur með veiku myndinni rafali þótt sterka myndin rafall væri algengari. Ástæðan var sú að nefndin vildi komast hjá þeirra hljóðbreytingu sem verður í beygingu rafall, þar sem b kemur í stað v í myndum þar sem brottfall verður og framburðurinn yrði því rabli sem þótti óæskilegt.