Örvhent og rétthent

Í Facebook-hópnum Málspjall var nýlega spurt um það hvort „ekki væri tímabært að finna betri orð en rétthentur/örvhentur“. Þarna er komið inn á umræðu sem oft verður mjög viðkvæm og erfið: Eigum við að amast við orðum sem eru gamalgróin í málinu en fela í sér einhvers konar fordóma eða mismunun, a.m.k. að mati einhverra? Er eitthvað athugavert við orðið örvhentur (eða örvhendur)? Það var áður örvendur og er talið hafa merkt eitthvað í átt við 'sem snýr burt, snýr öfugt'. En málnotendur virðast snemma hafa tengt seinni hluta orðsins við hönd og þá kemur h inn í það.

Nú má auðvitað segja að það sé neikvætt að snúa öfugt, en þar eð sá uppruni liggur ekki í augum uppi er ólíklegt að hann trufli venjulega málnotendur. Það er frekar rétthentur (rétthendur) sem er vandræðaorðið í þessu sambandi. Þótt við vitum kannski ekki hvað örv- merkir erum við ekki í vafa um merkingu orðsins rétt — og við erum alin upp í þeirri trú að það sem ekki er rétt hljóti að vera rangt, ekki síst í málfarslegum efnum. Þess vegna drögum við þá ályktun að þau sem ekki eru rétthent hljóti að vera „ranghent“.

Það er vel þekkt að áður fyrr var örvhent fólk beitt margvíslegu misrétti, svo að ekki sé sagt harðræði — börnum var t.d. iðulega meinað að skrifa með vinstri hendi og hún jafnvel bundin aftur á bak til að hindra notkun hennar og venja börnin við að nota hægri höndina. Ég held varla að örvhent fólk sé látið gjalda þess á nokkurn hátt núorðið — veit t.d. ekki til þess að börnum sé strítt á því að vera örvhent þótt ég geti ekki fullyrt um það. Er þá einhver ástæða til að láta orðfærið trufla sig?

Við getum auðvitað vitnað í orðabókarskýringar, t.d. í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem örvhentur er skýrt 'sem beitir fyrir sig vinstri hönd frekar en þeirri hægri' og rétthentur 'sem beitir fyrir sig hægri hönd frekar en þeirri vinstri' og sagt að þetta sé merking orðanna í nútímamáli — uppruni þeirra, merking einstakra orðhluta, eða aukamerkingar sem einhverjir málnotendur kunni að lesa úr þeim komi málinu ekki við. Það sé endalaust hægt að finna orð sem einhverjum finnist óviðeigandi eða meiðandi og ekki hægt að elta ólar við slíkt.

Eftir sem áður kann það vissulega að hafa áhrif á fólk ef það skynjar það svo að tungumálið dæmi einhverja meðfædda og ósjálfráða hegðun þess ranga, vegna þess að það er ekki rétthent og andstæðan rétt-rangt er svo inngróin í okkur. Við viljum ekki að tungumálið mismuni fólki eða jaðarsetji það, viljum ekki að minnihlutahópum finnist tungumálið setja sig á einhvern hátt skör lægra en meirihlutann. Það er alveg hægt að hugsa sér önnur orð í stað rétthentur og örvhentur — orðin hægrihentur og vinstrihentur hafa t.d. svolítið verið notuð (einnig hægrhentur og vinstrhentur).

Ég ætla ekki að taka ákveðna afstöðu í þessu máli. Mér fyndist vissulega eftirsjá að gamalgrónum orðum eins og örvhentur og rétthentur, og mér finnst „málhreinsun“ af þessu tagi almennt varasöm, en hins vegar skil ég vel ef örvhentu fólki finnst þessi orð truflandi eða óþægileg. Aðalatriðið er eins og jafnan, að sýna tillitssemi og umburðarlyndi — að fólk skilji afstöðu annarra og sýni henni virðingu í stað þess að gera lítið úr henni og kalla hana ofurviðkvæmni, íhaldssemi, pólitíska rétthugsun og öðrum slíkum nöfnum sem sjást of oft í málfarslegri umræðu.