Posted on Færðu inn athugasemd

Löggilt gamalmenni

Af því að ég verð bráðum 67 ára fór ég að skoða aðeins orðalagið löggilt gamalmenni. Þetta orðalag virðist ekki vera mjög gamalt. Elstu dæmin á tímarit.is eru frá 1981 en allt frá þeim tíma eru allnokkur dæmi um það frá hverju ári. Ég veit ekki hvort einhver sérstök ástæða hefur verið fyrir uppkomu þess á þessum tíma – hvort einhverjar lagabreytingar kunna að liggja þar að baki.

Langoftast virðist átt við 67 ára aldur sem er almennur ellilífeyris- og eftirlaunaaldur en þó eru dæmi um annað: „Sjálfur er ég tæplega 63 ára og telst orðið löggilt gamalmenni“; „hann stendur á sextugu, en „samkvæmt lögum er ég orðinn löggilt gamalmenni“, segir Guðmundur“. Í þessum tilvikum voru mælendur komnir á eftirlaun samkvæmt sérstökum reglum, þótt þeir væru ekki orðnir 67 ára.

Þetta orðalag er líklega oftast notað í hálfkæringi eða biturð eins og ýmis dæmi á tímarit.is sýna: „„Á næsta ári verð ég löggilt gamalmenni,“ sagði Kristinn og hló“; „Eftir að við erum orðin „löggilt gamalmenni“, eins og fólk segir stundum í hálfkæringi þegar það fær rétt til ellilauna“; „samkvæmt lögum er ég orðinn löggilt gamalmenni“, segir Guðmundur og brosir“; „Þeir, sem ekki eru orðnir „löggilt gamalmenni“ eins og það var svo biturlega orðað af þátttakendum á námskeiðinu“; o.fl. Mjög oft er þetta líka haft innan gæsalappa og iðulega tekið fram að fólk hafi notað það um sjálft sig.