Skjáumst!

Haustið 2020 birti DV stuttan pistil eftir ritstjórann, Tobbu Marinós, undir fyrirsögninni „Nýyrðin sem veiran hefur alið af sér – Smitbit og faðmflótti“. Þar voru talin upp „alls kyns undarleg nýyrði eins og smitbit (samviskubit yfir að hafa smitast), smitskömm, sóttkvíði, margmennisskömm, faraldursþreyta, faðmflótti, samkomusýki, Sóttólfur, bannbugun, skjáumst og kófið“. Klykkt var út með því að segja: „Spurning hvað landsmenn þurfa að muna þessi orðskrípi lengi“. Mörg þessara orða hafa vissulega orðið til á tíma covid-19 en ekki öll – a.m.k. ekki skjáumst.

Í Fréttablaðinu stóð nefnilega 16 árum fyrr, haustið 2004: „„Skjáumst“ er kveðja sem er að skjóta upp kollinum hér á landi vegna mikillar aukningar í rafrænum samskiptum. Fólk segir þá ekki „sjáumst“ heldur „skjáumst“ og vísar til þess að það muni hittast fyrir framan sitthvorn tölvuskjáinn. Þetta er hrikalega ópersónuleg og leiðinleg kveðja sem á vonandi ekki eftir að síast inn í hið fallega tungumál okkar.“ En jafnvel þá var orðið ekki nýtt. Elsta dæmi sem ég hef fundið er í Alþýðublaðinu 1995, þar sem segir: „Við skjáumst þótt síðar verði …“ Orðið er nú skráð á Nýyrðavef Árnastofnunar.

Það er hins vegar ljóst að aðstæður undanfarin ár hafa valdið því að notkun orðsins hefur margfaldast. Hvers kyns fundir og kennsla hefur farið fram gegnum netið í stað þess að vera augliti til auglitis. Orðið skjáumst er auðvitað eins konar afleiðsla eða útúrsnúningur úr kveðjunni sjáumst vegna hljóðlíkingar við orðið skjár. Fólki finnst ekki hægt að nota sjáumst þegar það sér ekki hvert annað nema á skjá og þá hefur einhver dottið niður á þennan augljósa blending úr skjár og sjáumst. E.t.v. liggur þetta líka svo beint við að það gæti hafa komið upp hjá fleiri en einum, án beinna tengsla.

Svo geta auðvitað verið skiptar skoðanir um hversu gott þetta orð sé. Í Fréttablaðinu 2004 var það talið „hrikalega ópersónuleg og leiðinleg kveðja“ og í DV 2020 var það flokkað sem „orðskrípi“. Orð af þessu tagi þar sem tvö orð eru brædd saman eru stundum kölluð sambreiskingar og slík orðmyndun á sér vissulega ekki mikla hefð í íslensku. Um hana eru hins vegar þekkt dæmi í ýmsum málum, t.d. ensku – meðal þeirra þekktustu eru líklega brunch sem er sambreiskingur úr breakfast og lunch og smog sem er sambreiskingur úr smoke og fog.

Kveðjan sjáumst sem liggur að baki skjáumst er vitanlega beygingarmynd (fyrsta persóna fleirtölu í miðmynd) af sögninni sjá. Kveðjan skjáumst er hins vegar ekki leidd af neinni sögn, heldur mynduð með hliðsjón af sjáumst. En í slíkum tilvikum má oft búast við „öfugri orðmyndun“ – í stað þess að aðrar beygingarmyndir séu leiddar af stofni eru þær búnar til út frá einni beygingarmynd, með hliðsjón af öðrum orðum. Um þetta má finna einstöku dæmi á netinu: „Þurfum að heyrast/skjást fljótlega“ og „Þegar þið eruð komin inn á fundinn skuluð þið endilega prófa að tala og kveikja á myndavélinni ykkar, skjá aðra og skjást!“

Það er alveg hugsanlegt að skjá þróist upp í að verða fullburða íslensk sögn sem beygist í persónum, tölum, háttum, tíðum og myndum. Það væri hægt að segja við skjáðumst lengi í gær, þið skjáist kannski á morgun, þau hafa skjáðst á hverjum degi í vikunni, o.s.frv. En í ljósi þess að skjáumst er aðallega notað sem kveðja er þetta kannski ekki mjög líklegt. Aðalatriðið er að skjáumst er smellið orð sem fellur að málinu, myndað úr íslensku hráefni, og myndun þess er skemmtilegur leikur með tungumálið. Það er ekkert við það að athuga að segja skjáumst!