Málið hefur alltaf verið að breytast
Eins og ég skrifaði hér um í gær er bæði vonlaust og vitlaust að reyna að berja niður málbreytingar sem hafa komið upp fyrir nokkrum áratugum, eru orðnar útbreiddar og nokkrar kynslóðir hafa tileinkað sér á máltökuskeiði. En það þýðir ekki að það eigi að láta allar málbreytingar sem upp koma afskiptalausar. Í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum frá 1986 segir að það sé „í samræmi við meginstefnuna í málvernd að reyna að sporna gegn nýjum málsiðum með því að benda á að þeir séu ekki í samræmi við gildandi málvenjur“.
Þetta tek ég fyllilega undir, og sjái ég í fjölmiðlum örla á einhverri breytingu sem ég tel að ekki sé orðin útbreidd skrifa ég stundum greinarhöfundi til að benda á að brugðið hafi verið út af málhefð – og fæ undantekningarlaust þakkir fyrir. Það er mun líklegra til árangurs en að vekja opinbera athygli á „villunni“ á Facebook og jafnvel hneykslast á henni eða hæðast að höfundinum eins og kemur fyrir. Slíkar aðferðir eru aðeins til að skemmta skrattanum. Hins vegar dytti mér aldrei í hug að skrifa út af „þágufallssýki“ eða öðrum áratuga gömlum og útbreiddum tilbrigðum.
Það er alkunna að við viljum að málið haldist eins og það var frá því að við tileinkuðum okkur það á máltökuskeiði og fram undir tvítugt – eða eins og okkur var kennt að það ætti að vera. Fólk eins og ég sem er komið yfir miðjan aldur getur fundið ýmislegt í máli samtímans sem víkur frá því sem það ólst upp við – og finnst það oft merki um að málinu sé að hnigna. En fæst gerum við okkur grein fyrir því að málið sem við tileinkuðum okkur á síðustu öld, t.d. kringum 1960 eins og ég, var í fjölmörgum atriðum frábrugðið því sem var fyrr á öldinni.
Meðal orða sem ég hef fjallað um í pistlum mínum og hafa nú ýmist aðra merkingu eða aðra setningafræðilega eiginleika en þau höfðu fyrr á öldinni eða á 19. öld eru meðvirkur, spá í, gluggakista, byrla, fljúga, forða og versla. Þótt ég þykist vera sæmilega að mér um íslenskt mál vissi ég ekki um þær breytingar sem hafa orðið á þessum orðum og finnst því ólíklegt að venjulegir málnotendur sem ekki eru að hugsa um málfræði og málbreytingar dags daglega hafi áttað sig á þeim. En í öllum tilvikum er þarna um að ræða breytingar sem eru fullkomlega viðurkenndar og aldrei amast við svo að ég viti.
Þetta er samt aðeins brot af þeim breytingum sem ég veit um, og það sem ég veit um er örugglega aðeins brot af því sem raunverulega leynist þarna. Og hér er ég aðeins að tala um breytingar á síðustu öld eða rúmlega það – ef farið er allt aftur til fornmáls eru breytingarnar miklu meiri. Málið er nefnilega alltaf og hefur alltaf verið að breytast. Það er eðlilegt og nauðsynlegt – lifandi mál þarf að vera í stöðugri endurnýjun til að þjóna samfélaginu á hverjum tíma.
Það er samt sem áður æskilegt að breytingarnar verði ekki of örar. En besta leiðin til að hægja á þeim er ekki að berjast gegn þeim, nema þá þeim sem rétt örlar á og hafa ekki náð fótfestu. Besta leiðin er að nota málið sem mest, tala við börn og lesa fyrir þau þannig að þau verði öruggir málnotendur með sterka málkennd. Óöryggi í málnotkun og veik málkennd leiðir til örari málbreytinga.