Sveigjanlegar kröfur um íslenskukunnáttu

Gúrkutíðin er í hámarki um þessar mundir og kannski skýrir það að hluta þá athygli sem skoðanaskipti okkar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur hafa fengið í vefmiðlum. Eins og viðbúið var hefur sú athygli einkum beinst að ágreiningi okkar um það hvort starfsauglýsing háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins samræmist lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011. Ég taldi og tel svo ekki vera, og því miður hefur ráðherra kosið að svara rökum mínum ekki málefnalega en tala þess í stað um „dæmigert kerfissvar“ – þótt mér sé ekki ljóst fyrir hvaða kerfi ég ætti að vera fulltrúi. Ekki fyrir hefðbundna íslenska málvöndunarstefnu, svo mikið er víst.

En vegna þessarar áherslu vefmiðla á ágreining okkar Áslaugar Örnu hefur sú staðreynd fallið í skuggann að við erum í raun algerlega sammála um meginatriði málsins – að það er mikilvægt að auðvelda fólki sem ekki á íslensku að móðurmáli að sinna þeim störfum sem það hefur menntun og hæfileika til, og gera því kleift að taka sem mestan þátt í samfélaginu. Það er mikilvægt bæði fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir íslenskt samfélag að nýta sem best þann mannauð sem við höfum í landinu, óháð uppruna fólks og móðurmáli. Þetta getur þýtt að við þurfum að endurskoða bæði lög og reglur um íslenskukunnáttu, og einnig viðhorf okkar sjálfra til stöðu íslensku og ensku í málsamfélaginu.

Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls eru vissulega ekki nema ellefu ára gömul. En á þeim ellefu árum hefur gífurlega margt breyst og samfélagið orðið mun fjölmenningarlegra. Erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi hefur t.d. fjölgað úr 20.500 árið 2011 í 55 þúsund í ár, eða um 170%, og ekkert bendir til annars en sú þróun haldi áfram og innflytjendur verði sífellt hærra hlutfall af íbúum landsins. Þessi þróun leiðir vissulega til stóraukinnar enskunotkunar í landinu og þrýstings á íslenskuna. En það er hreint ekki sjálfgefið að réttu viðbrögðin við því séu að halda fast í afdráttarlausar kröfur um íslenskukunnáttu á ýmsum sviðum – þvert á móti.

Athugasemdir mínar við áðurnefnda auglýsingu ráðuneytisins voru fyrst og fremst til þess ætlaðar að vekja umræðu um þessi mál. Í stað afdráttarlausra krafna um íslenskukunnáttu þarf að skoða hvert starf og leggja málefnalegt mat á hvort og hvers konar íslenskukunnátta sé nauðsynleg til að sinna starfinu. Þegar samskipti við almenning eru stór hluti starfsins er eðlilegt að gera kröfur um góða íslenskukunnáttu. En í starfi eins og því sem auglýst var, þar sem verksviðið er meðferð og miðlun tölulegra gagna, getur verið nægilegt að gera kröfu um sæmilegan skilning á málinu en ekki um færni í tjáningu. Mér finnst eðlilegt að lögin gefi slíkt svigrúm og sé ekki að það myndi skaða íslenskuna á nokkurn hátt.

Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið, og raunar ólíklegt, að ófrávíkjanlegar kröfur um fullkomna íslensku séu málinu til góðs, þegar til lengri tíma er litið. Þær geta leitt til þess að færri innflytjendur hafi áhuga á að læra íslenskuna og nota hana, en fái í staðinn neikvætt viðhorf til hennar. Þær geta leitt til þess að lægra hlutfall af íbúum landsins noti málið, sem veikir það óhjákvæmilega. Þær geta líka orðið til þess að bægja íslenskunni frá ákveðnum sviðum, t.d. nýrri tækni þar sem íslenskan orðaforða og íslenska umræðuhefð skortir. Þær geta orðið til þess að íslenskan staðni, verði elítumál sem klýfur þjóðina í stað þess að sameina hana. Þess vegna held ég að meiri sveigjanleiki sé skynsamlegur.