Íðorð og önnur orð
Orðið hönd er í Íslenskri nútímamálsorðabók skýrt 'líkamshlutinn í framhaldi af handlegg, framan við úlnlið' en handleggur er 'annar tveggja útlima manns (apa o.fl.) út frá öxl að úlnlið eða hönd'. Þetta er skýr munur, en við vitum þó vel að í daglegu tali er annað orðið iðulega notað í stað beggja. Við tölum um að rétta upp hönd þótt það sé ekki hægt án þess að handleggurinn fylgi með, og við tölum um að missa handlegginn þótt höndin fylgi þar óhjákvæmilega. Í fréttum af Guðmundi Felix Grétarssyni er ýmist talað um að hendur eða handleggir hafi verið grædd á hann þótt um hvort tveggja sé að ræða.
Það má vissulega halda því fram að þarna sé um ónákvæma orðanotkun að ræða, en það kemur ekki að sök – samhengið, og þekking okkar á mannslíkamanum, dugir til þess að við skiljum þetta eins og til var ætlast. Við ákveðnar aðstæður skiptir þó máli að hafa eitt orð sem vísar sameiginlega til handar og handleggs og hefur alveg skýra og ótvíræða merkingu. Þetta á einkum við í læknisfræðilegu samhengi, og í Íðorðasafni lækna í Íðorðabankanum eru gefin tvö íðorð, samheiti, sem þjóna þessum tilgangi – axlarlimur og orðasambandið efri útlimur.
Um íðorð gilda að ýmsu leyti aðrar reglur en um orð í almennu máli. Það er t.d. algert aukaatriði hvort íðorð eru falleg (hvernig sem á að meta það) þótt fegurð spilli vitanlega aldrei. Það er ekki heldur aðalatriði að íðorð séu stutt eða lipur þótt það sé vissulega til bóta. Það er æskilegt að íðorð séu gagnsæ en ekki nauðsynlegt. En íðorð þurfa að vera mynduð samkvæmt almennum orðmyndunarreglum málsins, þau þurfa að hafa skýra og ótvíræða merkingu, og ef þau eru hluti af ákveðnu kerfi þurfa þau að vera mynduð á sama hátt og önnur sambærileg orð innan kerfisins (sbr. t.d. að orð sem tákna lagarmál enda öll á lítri).
Ég nefndi hér áður orðið axlarlimur sem ég geri varla ráð fyrir að þið þekkið enda er það ekki í neinum almennum orðabókum. Íðorð eru nefnilega bundin við ákveðið samhengi og oft lítið sem ekkert notuð í almennu máli, og þar af leiðandi lítið þekkt meðal almennings. En þetta er ekki eina orðið sem stungið hefur verið upp á í þessari merkingu. Um tíma var orðið griplimur notað í læknisfræðilegu samhengi, og á tímarit.is má finna allnokkur dæmi um það frá síðustu 40 árum, langflest úr Læknablaðinu. Þetta er gagnsætt orð og gott sem slíkt, en það komst á flakk og þótti fáránlegt og það var óspart gert gys að því.
Þetta kemur glöggt fram í grein sem Jóhann Heiðar Jóhannsson, formaður orðanefndar Læknafélagsins, skrifaði í Læknablaðið 1997: „Undirritaður hefur einungis óljósa minningu um það hvenær hann komst fyrst í kynni við heitið griplimur, en andúðin sem það vakti er enn nánast áþreifanleg. Apar og óæðri dýr máttu svo sem hanga á griplimum sínum í trjánum, en menn réttu ekki hver öðrum griplimina! Þó er heitið sem slíkt ágætt sem kerfisheiti til að nota um útlim (L: extremitas) sem getur gripið, á sama hátt og heitið ganglimur lýsir útlim sem nota má til gangs.“
Orðið griplimur er ekki lengur í Íðorðasafni lækna þótt læknar noti það eitthvað enn ef marka má greinar í Læknablaðinu. Þetta var orð sem aldrei var ætlað til notkunar í almennu máli en með því að taka það úr samhengi sínu og gera gys að því var komið slíku óorði á þetta gagnsæja orð að það var ekki lengur nothæft sem íðorð. Þetta er gott dæmi um það hvernig hægt er að eyðileggja orð sem þjóna ágætlega þeim tilgangi sem þeim var ætlaður með því að slíta þau úr samhengi, misskilja og rangtúlka.