Posted on Færðu inn athugasemd

Íðorð og önnur orð

Orðið hönd er í Íslenskri nútímamálsorðabók skýrt 'líkamshlutinn í framhaldi af handlegg, framan við úlnlið' en handleggur er 'annar tveggja útlima manns (apa o.fl.) út frá öxl að úlnlið eða hönd'. Þetta er skýr munur, en við vitum þó vel að í daglegu tali er annað orðið iðulega notað í stað beggja. Við tölum um að rétta upp hönd þótt það sé ekki hægt án þess að handleggurinn fylgi með, og við tölum um að missa handlegginn þótt höndin fylgi þar óhjákvæmilega. Í fréttum af Guðmundi Felix Grétarssyni er ýmist talað um að hendur eða handleggir hafi verið grædd á hann þótt um hvort tveggja sé að ræða.

Það má vissulega halda því fram að þarna sé um ónákvæma orðanotkun að ræða, en það kemur ekki að sök – samhengið, og þekking okkar á mannslíkamanum, dugir til þess að við skiljum þetta eins og til var ætlast. Við ákveðnar aðstæður skiptir þó máli að hafa eitt orð sem vísar sameiginlega til handar og handleggs og hefur alveg skýra og ótvíræða merkingu. Þetta á einkum við í læknisfræðilegu samhengi, og í Íðorðasafni lækna í Íðorðabankanum eru gefin tvö íðorð, samheiti, sem þjóna þessum tilgangi – axlarlimur og orðasambandið efri útlimur.

Um íðorð gilda að ýmsu leyti aðrar reglur en um orð í almennu máli. Það er t.d. algert aukaatriði hvort íðorð eru falleg (hvernig sem á að meta það) þótt fegurð spilli vitanlega aldrei. Það er ekki heldur aðalatriði að íðorð séu stutt eða lipur þótt það sé vissulega til bóta. Það er æskilegt að íðorð séu gagnsæ en ekki nauðsynlegt. En íðorð þurfa að vera mynduð samkvæmt almennum orðmyndunarreglum málsins, þau þurfa að hafa skýra og ótvíræða merkingu, og ef þau eru hluti af ákveðnu kerfi þurfa þau að vera mynduð á sama hátt og önnur sambærileg orð innan kerfisins (sbr. t.d. að orð sem tákna lagarmál enda öll á lítri).

Ég nefndi hér áður orðið axlarlimur sem ég geri varla ráð fyrir að þið þekkið enda er það ekki í neinum almennum orðabókum. Íðorð eru nefnilega bundin við ákveðið samhengi og oft lítið sem ekkert notuð í almennu máli, og þar af leiðandi lítið þekkt meðal almennings. En þetta er ekki eina orðið sem stungið hefur verið upp á í þessari merkingu. Um tíma var orðið griplimur notað í læknisfræðilegu samhengi, og á tímarit.is má finna allnokkur dæmi um það frá síðustu 40 árum, langflest úr Læknablaðinu. Þetta er gagnsætt orð og gott sem slíkt, en það komst á flakk og þótti fáránlegt og það var óspart gert gys að því.

Þetta kemur glöggt fram í grein sem Jóhann Heiðar Jóhannsson, formaður orðanefndar Læknafélagsins, skrifaði í Læknablaðið 1997: „Undirritaður hefur einungis óljósa minningu um það hvenær hann komst fyrst í kynni við heitið griplimur, en andúðin sem það vakti er enn nánast áþreifanleg. Apar og óæðri dýr máttu svo sem hanga á griplimum sínum í trjánum, en menn réttu ekki hver öðrum griplimina! Þó er heitið sem slíkt ágætt sem kerfisheiti til að nota um útlim (L: extremitas) sem getur gripið, á sama hátt og heitið ganglimur lýsir útlim sem nota má til gangs.“

Orðið griplimur er ekki lengur í Íðorðasafni lækna þótt læknar noti það eitthvað enn ef marka má greinar í Læknablaðinu. Þetta var orð sem aldrei var ætlað til notkunar í almennu máli en með því að taka það úr samhengi sínu og gera gys að því var komið slíku óorði á þetta gagnsæja orð að það var ekki lengur nothæft sem íðorð. Þetta er gott dæmi um það hvernig hægt er að eyðileggja orð sem þjóna ágætlega þeim tilgangi sem þeim var ætlaður með því að slíta þau úr samhengi, misskilja og rangtúlka.

Posted on Færðu inn athugasemd

Leghafar og aðrir -hafar

Undanfarna daga hef ég séð á nokkrum stöðum á Facebook ótrúlegar umræður um orðið leghafi. Mörgum finnst þetta ljótt orð og um það er vitanlega þýðingarlaust að ræða, að öðru leyti en því að minna á að það tekur yfirleitt alltaf nokkurn tíma að venjast nýjum orðum. En þetta orð er a.m.k. rétt myndað og gagnsætt – -hafi merkir yfirleitt 'sem hefur eitthvað' og leghafi vísar því til fólks sem hefur leg. Annað orð sem stundum er notað er legberi og um það gildir allt hið sama og um leghafi.

misskilningur er áberandi í umræðunni að orðið leghafi sé samheiti við kona og eigi jafnvel að leysa það orð af hólmi vegna einhvers pólitísks rétttrúnaðar. En það er fjarri sanni. Það eru ekki allar konur með leg. Sumar hafa undirgengist legnám og aðrar eru fæddar án legs, þ. á m. transkonur. Hins vegar er til fólk sem skilgreinir sig ekki sem konur en er samt með leg. Það getur verið kynsegin fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karl né konu, og einnig transkarlar sem ekki hafa farið í legnám.

Því er ljóst að leghafar geta verið kvenkyns, karlkyns og hvorugt, þ.e. skilgreint sig utan kynjatvíhyggju. Af þeirri ástæðu er fráleitt að halda því fram að þessu orði sé ætlað að koma, eða geti komið, í stað orðsins kona. Orðið leghafi er í raun íðorð, einkum ætlað til nota í læknisfræðilegu samhengi en ekki í almennu máli. Orðið var t.d. notað í vetur í tengslum við frumvarp heilbrigðisráðherra um skimunarskrá. Þar er m.a. fjallað um skimanir fyrir leghálskrabbameini. Það segir sig sjálft að slík skimun tekur til fólks með leg, óháð kyni.

Þetta er því gagnlegt orð, en einungis í ákveðnu og þröngu samhengi og yfirleitt um hóp, tæpast um einstaklinga. En af einhverjum ástæðum virðist sumt fólk ekki skilja þetta, eða ekki vilja skilja. Þess í stað verða til langir þræðir af hneykslun þar sem fólk talar um hvað þetta sé óþarft og fáránlegt orð, og margar konur segja að þær vilji alls ekki nota það – eða láta nota það um sig. Vitanlega ræður fólk sjálft hvaða orð það notar en hæpið er að fólk geti hafnað því að um það séu notuð tiltekin íðorð sem ekki eru annað en skilgreining.

Í umræðunni hefur líka verið spurt hvers vegna ekki séu notuð sambærileg orð um karlmenn – ég hef séð orð eins og punghafi, eistnahafi, tittlingshafi, blöðruhálskirtilshafi og fleiri. Við því er það að segja að væntanlega hefur ekki verið þörf á þessum orðum hingað til, en auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að nota þau ef þörf krefur. Þau eiga það sameiginlegt með leghafi að þau geta vísað til fólks af fleiri en einu kyni. Ef teknar væru upp skimanir fyrir eistnakrabbameini eða krabbameini í blöðruhálskirtli væru viðkomandi orð gagnleg.

Orðin leghafi og legberi hafa verið notuð í greinum þar sem ráðist er á transfólk eða hæðst að því, og merking þeirra og notkun þar skrumskæld. Ég ætla ekki þeim sem amast við þessum orðum að vilja taka undir þá afstöðu sem fram kemur í þessum greinum, en með því að fordæma orðin er fólk samt að leggja lóð á vogarskálar þeirrar transfóbíu sem því miður virðist fara vaxandi. Gefum þessum orðum þegnrétt í málinu – þau hvorki spilla íslenskunni né smætta konur eins og stundum er haldið fram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Sveigjanlegar kröfur um íslenskukunnáttu

Gúrkutíðin er í hámarki um þessar mundir og kannski skýrir það að hluta þá athygli sem skoðanaskipti okkar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur hafa fengið í vefmiðlum. Eins og viðbúið var hefur sú athygli einkum beinst að ágreiningi okkar um það hvort starfsauglýsing háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins samræmist lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011. Ég taldi og tel svo ekki vera, og því miður hefur ráðherra kosið að svara rökum mínum ekki málefnalega en tala þess í stað um „dæmigert kerfissvar“ – þótt mér sé ekki ljóst fyrir hvaða kerfi ég ætti að vera fulltrúi. Ekki fyrir hefðbundna íslenska málvöndunarstefnu, svo mikið er víst.

En vegna þessarar áherslu vefmiðla á ágreining okkar Áslaugar Örnu hefur sú staðreynd fallið í skuggann að við erum í raun algerlega sammála um meginatriði málsins – að það er mikilvægt að auðvelda fólki sem ekki á íslensku að móðurmáli að sinna þeim störfum sem það hefur menntun og hæfileika til, og gera því kleift að taka sem mestan þátt í samfélaginu. Það er mikilvægt bæði fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir íslenskt samfélag að nýta sem best þann mannauð sem við höfum í landinu, óháð uppruna fólks og móðurmáli. Þetta getur þýtt að við þurfum að endurskoða bæði lög og reglur um íslenskukunnáttu, og einnig viðhorf okkar sjálfra til stöðu íslensku og ensku í málsamfélaginu.

Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls eru vissulega ekki nema ellefu ára gömul. En á þeim ellefu árum hefur gífurlega margt breyst og samfélagið orðið mun fjölmenningarlegra. Erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi hefur t.d. fjölgað úr 20.500 árið 2011 í 55 þúsund í ár, eða um 170%, og ekkert bendir til annars en sú þróun haldi áfram og innflytjendur verði sífellt hærra hlutfall af íbúum landsins. Þessi þróun leiðir vissulega til stóraukinnar enskunotkunar í landinu og þrýstings á íslenskuna. En það er hreint ekki sjálfgefið að réttu viðbrögðin við því séu að halda fast í afdráttarlausar kröfur um íslenskukunnáttu á ýmsum sviðum – þvert á móti.

Athugasemdir mínar við áðurnefnda auglýsingu ráðuneytisins voru fyrst og fremst til þess ætlaðar að vekja umræðu um þessi mál. Í stað afdráttarlausra krafna um íslenskukunnáttu þarf að skoða hvert starf og leggja málefnalegt mat á hvort og hvers konar íslenskukunnátta sé nauðsynleg til að sinna starfinu. Þegar samskipti við almenning eru stór hluti starfsins er eðlilegt að gera kröfur um góða íslenskukunnáttu. En í starfi eins og því sem auglýst var, þar sem verksviðið er meðferð og miðlun tölulegra gagna, getur verið nægilegt að gera kröfu um sæmilegan skilning á málinu en ekki um færni í tjáningu. Mér finnst eðlilegt að lögin gefi slíkt svigrúm og sé ekki að það myndi skaða íslenskuna á nokkurn hátt.

Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið, og raunar ólíklegt, að ófrávíkjanlegar kröfur um fullkomna íslensku séu málinu til góðs, þegar til lengri tíma er litið. Þær geta leitt til þess að færri innflytjendur hafi áhuga á að læra íslenskuna og nota hana, en fái í staðinn neikvætt viðhorf til hennar. Þær geta leitt til þess að lægra hlutfall af íbúum landsins noti málið, sem veikir það óhjákvæmilega. Þær geta líka orðið til þess að bægja íslenskunni frá ákveðnum sviðum, t.d. nýrri tækni þar sem íslenskan orðaforða og íslenska umræðuhefð skortir. Þær geta orðið til þess að íslenskan staðni, verði elítumál sem klýfur þjóðina í stað þess að sameina hana. Þess vegna held ég að meiri sveigjanleiki sé skynsamlegur.