Að senda póst á – eða til
Fyrirsögnin „Skólameistari senti frá sér póst á alla“ var nýlega sett inn í Facebook-hópinn Málspjall til að vekja athygli á því að þar er notuð hin óhefðbundna þátíð senti sem ég hef skrifað um og engin ástæða er til að amast við. En ekki hefði verið minni ástæða til að vekja athygli á því að sögnin senda tekur þarna með sér forsetninguna á. Það er svo algengt að við tökum ekki eftir því en í raun má kalla það nýjung. Á tímarit.is eru nánast engin dæmi um senda póst á fyrr en um aldamót og sárafá dæmi um senda bréf á. Á síðustu tveim áratugum eru aftur á móti fleiri hundruð dæmi um þessi sambönd á hverju ári.
Sögnin senda er ein svonefndra tveggja andlaga sagna – sagna sem taka, eða geta tekið með sér, tvö andlög, tvo nafnliði eins og senda sýslumanninum ábyrgðarbréf og gefa safninu bækur. Oft er hægt að nota forsetningarlið með til í stað annars andlagsins – segja senda ábyrgðarbréf til sýslumannsins. Sagnir eru þó ólíkar hvað þetta varðar og með sögnum eins og gefa er þetta sjaldnast hægt – við getum ekki sagt *gefa bókina til hennar heldur aðeins gefa henni bókina. Þegar viðtakandinn er ekki mannvera heldur félag eða stofnun er þó stundum hægt að nota forsetningarlið – gefa peninga til fátækra.
Í nýlegri BA-ritgerð Iðunnar Kristínardóttur er sýnt fram á að „því bókstaflegri flutning sem tveggja andlaga sögn felur í sér því algengari er til-formgerðin með henni“ auk þess sem „til-formgerðin er algengari þegar andlag til táknar ekki ótvíræða viðtakendur eins og tiltekna einstaklinga eða hópa“ – sbr. gefa peninga til fátækra hér að framan. Með sögnum eins og senda er vitaskuld oft um bókstaflegan flutning að ræða og því gengur oftast að nota til með þeim. En eins og sést í fyrirsögninni sem vitnað var til í upphafi er forsetningin sem senda tekur með sér ekki alltaf til í seinni tíð.
Í þeim sárafáu dæmum um senda á sem eru eldri en aldarfjórðungs gömul eða svo er yfirleitt ekki verið að senda til ákveðins viðtakanda. Í Austra 1887 segir t.d.: „ef leiðin er viss, geta menn sent bréf á bæi í veg fyrir póstinn“. Í Austra 1971 segir: „Hannibal sendi bréf á stofnfundinn og bað þá er þar sætu aldrei þrífast.“ Í Dagblaðinu 1976 segir: „Það eina sem Barnaverndarnefnd gerði var að senda bréf á dvalarstað barnsins um kyrrsetningu þess.“ Í Vikunni 1983 segir: „Ef þig langar til að hafa samband við Bubba eða Magnús skaltu senda bréf á eftirfarandi heimilisfang.“
En um aldamót verður sprenging í notkun á með senda eins og áður segir. Fljótlegt er að ganga úr skugga um hvað veldur því: Tilkoma tölvupósts. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Tölvumálum 1995 þar sem segir: „Áskrift að póstlistanum er hægt að panta með því að senda tölvupóst á netfangið list-proc@ismennt.is.“ Alla tíð síðan vísa langflest dæmi um senda póst á og senda bréf á– og vitanlega öll um senda tölvupóst á – til tölvupósts, og á er margfalt algengari en til í þessari merkingu. Það sem sent er á er oftast netfang, en einnig hópar eins og í fyrirsögninni sem vísað var til í upphafi – sjaldnast einstaklingar.
En hvers vegna er forsetningin á notuð frekar en til þegar um tölvupóst er að ræða? Það hlýtur að sýna einhverja tilfinningu málnotenda fyrir því að sendingin sé annars eðlis en þegar til er notuð. Í tölvupósti er auðvitað ekki um að ræða bókstaflegan flutning á einhverju efnislegu, en líklega skiptir ekki minna máli að viðtakandinn sem tilgreindur er með sögninni er sjaldnast einstaklingur heldur netfang eða hópur eins og áður segir – sem er hliðstætt hinum örfáu eldri dæmum sem finnast um senda á. Líklega má því segja að þessi notkun senda á sé ekki nýjung en ytri aðstæður valdi því að tíðnin hefur margfaldast. Vissulega má tengja þetta enskum áhrifum eins og Jón G. Friðjónsson hefur gert en rótin er samt íslensk.
Mér sýnist sá merkingarmunur vera á á og til í þessu samhengi að á vísi til stefnu en til til ákvörðunarstaðar eða viðtakanda. Þegar ég sendi póst á er ég fremur að tilgreina stefnuna en viðtakandann. Þetta á sér hliðstæðu í íþróttamáli – svipaður munur er á senda bolta á og senda bolta til. Með sögninni gefa, sem venjulega tekur ekki með sér forsetningarlið eins og áður segir, er líka hægt að tala um gefa bolta á og gefa bolta til. Ég held að í öllum þessum tilvikum sé merkingarmunur á á og til, þótt hann sé vissulega ekki mikill og oftast sé hægt að setja annað sambandið í stað hins.
Þetta er skemmtilegt dæmi um það hvernig tæknibreytingar valda stórfelldri aukningu á notkun tiltekinnar setningagerðar sem hefur lengi verið til í málinu.