Flíkin klæjar mig
Í Facebook-hópnum Málspjall var í gær spurt um nýstárlega notkun sagnarinnar klæja. Hún er venjulega notuð með aukafallsfrumlagi, án andlags – mig (eða mér) klæjar. Ef ástæðu eða staðsetningar kláðans er getið er það í forsetningarlið, ekki andlagi, t.d. mig klæjar undan peysunni, mig klæjar í nefið / á nefinu. En fyrirspyrjandi hafði séð dæmi um að ástæða kláðans væri höfð sem frumlag í nefnifalli – flíkin klæjar. Þessa notkun hef ég ekki séð áður og hún hefur ekki tíðkast, þótt einhverjir sem tóku þátt í umræðunni hafi kannast við slík dæmi og örfá finnist á netinu, svo sem „Það er reyndar ullargarn en það klæjar ekki“ og „Túristarnir sjúkir í íslensku ullina, hef og mun ekki skilja það, því hún klæjar“.
En sögnin klæja hefur ekki alltaf verið notuð á sama hátt og nú. Staðsetning kláðans var áður stundum tjáð með þolfallsandlagi. „Ef mann klæar hökuna, á hann að smakka nýnæmi“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. „Klæjaði mann lófann, fékk maður gjöf“ segir í Ritsafni Ólafar frá Hlöðum. Staðsetningin var líka oft tjáð með nefnifalli en þolandi kláðans hafður í þolfalli eða þágufalli. „Klæjar mér túngan“ segir í þulu frá 17. öld í safni Ólafs Davíðssonar. „Kyrrir, knapar mínir, og klæja mig nú lófar“ segir í leikriti eftir Matthías Jochumsson. Öll þessi dæmi er að finna í Ritmálssafni Árnastofnunar. Það er athyglisvert að í mörgum elstu dæmanna er frumlagið í þágufalli þótt nú sé kennt að það eigi að vera í þolfalli.
Í öllum þessum dæmum vísaði andlagið til staðsetningar kláðans en ástæða hans hefur yfirleitt ekki verið tjáð með andlagi, og dæmin sem nefnd voru í upphafi virðast því vera nýjung í málinu. En kannski ættu þau ekki að koma á óvart. Í umræðunni var bent á hliðstæðu í sögninni kitla sem er merkingarlega ekki ýkja langt frá klæja. Vissulega er kitla oftast notuð með þolfallsfrumlagi, mig kitlar, en einnig er hægt að hafa hana með nefnifallsfrumlagi sem vísar til ástæðunnar og þolandinn kemur þá fram sem þolfallsandlag – flíkin kitlar mig. Með hliðsjón af þessu er ekkert undarlegt að málnotendur dragi þá ályktun að til dæma eins og mig klæjar (undan flíkinni) svari flíkin klæjar mig.
Sögnin klæja er venjulega áhrifslaus (tekur ekki með sér andlag) en væri með þessu breytt í áhrifssögn með þolfallsandlagi. Það er vissulega nýjung, en á sér ýmis fordæmi. Nýlega hefur sögnin streyma t.d. breyst á þennan hátt. Hún var til skamms tíma áhrifslaus – áin streymir, en það er enginn sem *streymir ánni. En nú tölum við hiklaust um að streyma viðburðum og segjum við streymum tónleikunum á netinu. Eldra dæmi er hægt að taka af sögninni fljúga. Þar til fyrir einni öld var hún áhrifslaus – fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn *flaug fuglum eða *flaug örvum eða neinu öðru. En með tilkomu flugvéla skapaðist þörf fyrir geranda með þessari sögn og þá var farið að segja Lindbergh flaug flugvélinni og annað slíkt.
Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með nýjunginni flíkin klæjar (mig) og vissulega er hægt að amast við henni á þeirri forsendu að hún sé ekki (orðin) málvenja og hljóti því að teljast „rangt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu. En þessi hegðun klæja á sér samt skýra fyrirmynd í kitla og breytingin á sér augljósar hliðstæður í sögnum eins og streyma og fljúga. Það má þess vegna líka líta á þetta sem skemmtilega og frjóa nýsköpun sem engin ástæða sé til að ergja sig yfir.