Íslenska kostar – ætlum við að borga?
Í þessum hópi hefur verið lögð mikil áhersla á að íslenska sé notuð á öllum sviðum á Íslandi, og það sé mikilvægt að fólk sem býr hér og starfar læri íslensku. Það er mikilvægt fyrir fólkið sjálft til að auðvelda því virka þátttöku í samfélaginu, það er mikilvægt fyrir okkur sem eigum íslensku að móðurmáli til að samskipti okkar við fólk sem hingað flyst verði sem greiðust, það er mikilvægt fyrir lýðræðislegt þjóðfélag til að koma í veg fyrir einangrun stórra hópa og tvískiptingu samfélagsins, og það er mikilvægt fyrir íslenskuna til að hún geti verið burðarás þess fjölmenningarlega samfélags sem við búum í – og viljum vonandi flest hver búa í.
En þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið mál. Það verður að gæta þess vel að gera ekki óbilgjarnar kröfur um íslenskukunnáttu. Það tekur tíma að læra nýtt mál og geta verið ýmsar gildar ástæður fyrir því að fólk á erfitt með að læra íslensku eða lærir hana ekki. Það er sjálfsagt að hvetja fólk til að læra íslensku en við megum ekki undir neinum kringumstæðum sýna fólki ókurteisi vegna þess eins að það kunni ekki málið eða láta ófullkomna íslenskukunnáttu fólks hafa áhrif á framkomu okkar við það. Skortur á íslenskukunnáttu má ekki valda því að fólki finnist það vera óvelkomið. Við vitum að það er því miður stutt í rasisma og útlendingaandúð hjá sumum.
Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að gera miklar kröfur til fyrirtækja um að nota íslensku í auglýsingum, vefsíðum og hvers kyns markaðsstarfi, og til atvinnurekenda um að auðvelda starfsfólki sínu að læra íslensku og styðja það til þess – bjóða upp á íslenskukennslu í vinnutíma, greiða fyrir íslenskunámskeið o.s.frv. Vitanlega eykur þetta kostnað við að ráða erlent starfsfólk og ýmis fyrirtæki, t.d. í ferðaþjónustu þar sem erlent starfsfólk er yfirgnæfandi, munu auðvitað segja að Ísland sé nógu dýrt nú þegar og kostnaður við íslenskukennslu muni velta út í verðlagið og fæla fólk frá. Það er sjálfsagt satt og rétt.
En það liggur alveg fyrir að það fylgir því kostnaður að halda uppi sjálfstæðu tungumáli. Við höfum hingað til verið nokkuð sammála um að það sé þess virði – enda hefur ekkert kallað á annað og við höfum vart átt annan kost. En alþjóðavæðing og breytt samfélagsgerð veldur því að nú er komið að því að taka afstöðu: Teljum við mikilvægt að íslenska sé áfram aðaltungumál samfélagsins? Ef við neitum því, eða ypptum öxlum, getum við verið róleg og þurfum ekkert að gera – þá heldur enskan áfram hægt og bítandi að leggja samfélagið undir sig. En ef við svörum játandi þurfum við að vera tilbúin til að greiða þann kostnað sem því fylgir og grípa til aðgerða – strax.
Ég óttast hins vegar að þarna muni hljóð og mynd ekki fara saman, eins og nú er sagt. Bæði stjórnvöld og almenningur muni segja: Auðvitað viljum við halda áfram að tala íslensku, og gera það sem þarf til þess. En svo gerist ekkert. Við þurfum að átta okkur á því að ábyrgðin er okkar allra. Stjórnvalda, atvinnulífsins, og okkar, almennra málnotenda.