Rótfesta í stað aðlögunar
Á undanförnum árum hefur mikið verið talað um nauðsyn aðlögunar innflytjenda að íslensku samfélagi og gerðar hafa verið sérstakar aðlögunaráætlanir á því sviði. En orðið aðlögun er ekki endilega heppilegt. Úr því má lesa það viðhorf að innflytjendur skuli laga sig í einu og öllu að íslensku samfélagi og íslenskum siðum. En fólk á ekki að þurfa að fórna öllum sínum venjum og gildum við það að setjast að í íslensku samfélagi. Það er ekki til þess fallið að auðvelda fólki að setjast hér að eða gera fólk ánægt með búsetu hér. Innflytjendur og siðir þeirra geta – og hafa – auðgað íslenskt samfélag á margan hátt. Það sem skiptir máli er að ná samkomulagi þannig að fólk með ólíkan bakgrunn, siði og venjur búi hér í sátt og samlyndi.
Í stað þess að tala um aðlögun innflytjenda er því mun vænlegra að tala um rótfestu og rótfestingu þeirra, og í staðinn fyrir aðlögunaráætlun má þá tala um rótfestuáætlun. Við viljum ekki endilega að innflytjendur lagi sig að íslensku samfélagi á allan hátt, en við viljum að þeir festi rætur í því og auðgi það, á sama hátt og ýmsar jurtir af erlendum uppruna hafa fest rætur í íslenskri mold og auðgað íslenskt gróðurfar. Eins og jurtirnar verða þá að þola íslenskan jarðveg og íslenskt veðurfar verða innflytjendur að vera sáttir við íslenskt samfélag án þess endilega að laga sig að því í einu og öllu. Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir lögfræðingur hefur stungið upp á þessu orðalagi og mér finnst það fara mjög vel.