Brúðkaup, kynvilla, örvhendi – og eldhús
Svissneski málfræðingurinn Ferdinand de Saussure lagði áherslu á að tengslin milli tákna málsins – orðanna – og þess sem þau vísa til væru tilviljanakennd og ættu sér engar röklegar forsendur. Það er ekkert í hljóða- eða bókstafaröðunum h-e-s-t-u-r og h-ú-s sem segir að þær hljóti að merkja það sem þær gera í íslensku – við bara lærum merkingu þessara hljóðaraða þegar við tileinkum okkur málið, hvort sem það er á máltökuskeiði eða síðar. Þetta er augljóst og óumdeilt hvað varðar grunnorð málsins, orð sem aðeins hafa að geyma eina rót. En málið vandast þegar við skoðum samsett orð, eins og t.d. h-e-s-t-h-ú-s. Þar getum við brotið orðið upp í tvo hluta, hest- og -hús, og tengt þá við sjálfstæð orð sem við þekkjum, hestur og hús.
Þarna eru tengsl hljóðaraðar og merkingar ekki lengur fullkomlega tilviljanakennd þótt þau séu það í grunnorðunum – við getum haldið því fram að merking orðsins hesthús sé rökrétt og óhjákvæmileg afleiðing af merkingu orðanna hestur og hús. Þetta er hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar sem hún hefur fram yfir ýmis grannmál þar sem samsett orð hafa iðulega að geyma gríska eða latneska stofna sem hafa enga merkingu fyrir fólki. Það er samt rétt að benda á að þótt við þekkjum hluta samsetts orðs úr öðrum orðum og getum tengt það við þau dugir það okkur ekki endilega til að átta okkur fullkomlega á merkingu samsetta orðsins. Hún er nefnilega alls ekki alltaf – og kannski sjaldnast – summa eða fall af merkingu orðhlutanna.
Þótt við þekkjum báða hluta orðsins útihús úr atviksorðinu úti og nafnorðinu hús þurfum við samt að læra sérstaklega að orðið merkir 'önnur hús en íbúðarhús á sveitabæ, t.d. fjós og fjárhús' – ekkert í orðinu sjálfu gefur vísbendingu um þá merkingu. Stundum gefur það m.a.s. kolranga niðurstöðu að tengja orð við upprunann. Í orðinu eldhús felast t.d. bæði eldur og hús, en nú á tímum er sjaldnast eldað yfir opnum eldi, og eldhúsið er ekki sérstakt hús eins og eitt sinn var, heldur herbergi eða svæði í húsi. Orðið hefur haldist þótt eðli fyrirbærisins hafi gerbreyst. Þetta truflar okkur ekkert – við lærum orðið sem heiti á þessu tiltekna herbergi eða svæði og erum venjulega ekkert að tengja það við orðhlutana enda er það oftast borið fram án h – eldús.
Ég nefni þetta vegna þess að nýlega var hér til umræðu hvort orðið brúðkaup væri nothæft eða viðeigandi í samtímanum. Orðið brúður merkir 'kona sem er að ganga í hjónaband' og brúðkaup merkir upphaflega „hjúskaparsamning eða það að brúður var mundi keypt“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Nú finnst okkur vitanlega fjarri lagi að karlar kaupi sér konur, og einnig var því velt upp hvort orðið gæti átt við þegar tveir karlmenn gengju í hjónaband – þar er engin brúður í framangreindri merkingu. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'athöfn og veisla í tilefni þess að tveir einstaklingar eru gefnir saman í hjónaband' – þar er það sem sé ekki tengt á nokkurn hátt við orðhlutana brúð- og -kaup. Í þessu tilviki eigum við tvo kosti.
Við getum litið á orðabókarskýringuna og sagt: „Þetta er það sem orðið merkir í samtímanum. Orðhlutarnir benda vissulega til annars en það skiptir ekki máli – við lítum bara á orðið í heild en lítum fram hjá merkingu einstakra hluta þess, rétt eins og við gerum með eldhús og ótalmörg önnur orð.“ En svo getum við líka sagt: „Það er augljóst hverjir hlutar þessa orðs eru, brúður og kaup, og það liggur beint við að tengja orðið við þau orð. Þess vegna er brúðkaup ótækt orð – það gefur til kynna að konur séu keyptar í einhverjum skilningi, og það útilokar hjónaband tveggja karlmanna.“ Það er ekki hægt að segja að annað þessara sjónarmiða sé ótvírætt rétt en hitt rangt, eða annað eigi alltaf við en hitt aldrei. Það fer eftir því um hvers konar orð er að ræða.
Ef bókstafleg eða upprunaleg merking orðanna felur í sér einhvers konar viðhorf eða gildismat getur verið heppilegt eða nauðsynlegt að skipta þeim út. Það hefði mátt halda því fram að orðið kynvilla merkti einfaldlega 'samkynhneigð' og þótt villa merki 'eitthvað rangt' sé ástæðulaust að skilja það bókstaflegum skilningi í þessari samsetningu, nú þegar viðhorf hafi breyst. En það hefði aldrei gengið. Til þess er tengingin við orðið villa of sterk í huga málnotenda, og orðið of tengt fordómum og gildismati. Svipað má segja um orð eins og vanskapaður, fóstureyðing og mörg fleiri. Öðru máli gegnir um orð eins og eldhús. Það felur ekki í sér neins konar gildismat eða viðhorf og því fylgja engir fordómar og þess vegna truflar það okkur ekki.
En þarna geta verið ýmis markatilvik og fólk er misjafnlega viðkvæmt. Hér hefur t.d. verið skrifað áður um andstæðuna örvhent – rétthent. Við erum alin upp við að það sem ekki er rétt hljóti að vera rangt, og þess vegna sé í einhverjum skilningi rangt að vera örvhentur – og þannig var vissulega litið á þetta áður fyrr og reynt að venja börn við að nota frekar hægri höndina. En truflar þetta fólk eitthvað núorðið? Ég veit það ekki, en endurtek að „aðalatriðið er eins og jafnan, að sýna tillitssemi og umburðarlyndi – að fólk skilji afstöðu annarra og sýni henni virðingu í stað þess að gera lítið úr henni og kalla hana ofurviðkvæmni, íhaldssemi, pólitíska rétthugsun og öðrum slíkum nöfnum sem sjást of oft í málfarslegri umræðu.“