Smellur

Í gær sá ég á mbl.is fyrirsögnina „Elín Hall og GDRN með nýjan smell“. Mér fannst þetta svolítið skrítið vegna þess að ég hef talið að smellur merkti 'vinsælt dægurlag' eins og það er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók. Umrætt lag kom hins vegar út í gær og er því tæpast orðið vinsælt enn, þótt það sé vissulega líklegt til vinsælda og það réttlæti e.t.v. þessa orðanotkun. En í framhaldi af þessu fór ég að rifja upp þegar orðið smellur, sem vitanlega er gamalt í málinu, a.m.k. frá fyrri hluta 18. aldar, var tekið upp í þeirri merkingu sem hér um ræðir. Sú merking virðist reyndar ekki vera að fullu viðurkennd enn eins og marka má af því að þótt skýringuna ‚vinsælt dægurlag‘ sé einnig að finna í Íslenskri orðabók er hún þar merkt „óforml.“

Á síðasta þriðjungi tuttugustu aldar var enska orðið hit eða hit song smám saman að lauma sér inn í íslensku. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Vísi 1962, þar sem Sigfús Halldórsson er spurður: „Getum við ekki átt von á fleiri „hit“-lögum frá þér á næstunni?“ Annað dæmi frá sjöunda áratugnum er í Alþýðublaðinu 1969: „Á plötunni eru gömlu „hit“ lögin hans og Lady Madonna og Lovely Rita eftir J. Lennon og McCartney.“ En annars fór orðið ekki að sjást að ráði fyrr en um 1973 og breiddist mjög ört út á seinni hluta áttunda áratugarins og framan af þeim níunda. Á tímarit.is eru rúm 300 dæmi um orðið, flest fyrir 1985. Orðið er oftast skrifað með bandstriki, hit-lag, en þó stundum hitlag, og iðulega gæsalappir um það eða fyrri hlutann.

Landslagið í dægurtónlist á Íslandi snöggbreyttist þegar Rás tvö tók til starfa 1. desember 1983. Skyndilega var margfalt meira talað um dægurtónlist á opinberum vettvangi en áður hafði verið. Á þessum tíma var málsnið talmiðla þó enn býsna formlegt og t.d. var skrifað nákvæmt handrit að öllum þáttum Rásar tvö. Starfsfólki þar virðist hafa þótt æskilegt að halda erlendum slettum í lágmarki og e.t.v. hafa hlustendur líka gert athugasemdir við þær. Í DV skrifar Gunnar nokkur þann 19. júlí 1984: „Nú hafa útvarpsmenn rásar 2 auglýst eftir nýyrði yfir orðið Hit-song, þ.e. lag sem slær í gegn. Ekki ætla ég að koma meö tillögu en vil eindregið lýsa stuðningi mínum við tillöguna: smellur.“ Ekki kemur fram frá hverjum þessi tillaga hafi verið.

Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga reyndist alger smellur. Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun orðsins er í plötudómum NT hálfum mánuði fyrr, 4. júlí 1984: „Þá er búið að renna svona yfir plötuna og niðurstaðan er þessi að mér finnst tilfinnanlega vanta fleiri sterka smelli (hit-lög).“ Fjölda dæma um orðið má svo finna í ýmsum fjölmiðlum strax í júlí og ágúst þetta sumar – og orðið hit-lag hætti næstum alveg að sjást. Í DV 7. september skrifar Gunnar Salvarsson: „Fjölmargir keppast nú við að böggla saman nýyrðum enda talsverð eftirspum eftir slíkum orðum, einkum í útvarpsþáttum. Sumt af þessum nýju orðum hefur lukkast vel, annað miður. Smellur er til dæmis fínt orð yfir vinsælt dægurlag sem enskir kalla „hit“.“

Á þessum tíma var Rás tvö eina útvarpsstöðin sem sem sendi út dægurtónlist og hafði því mikil áhrif, og ýmislegt má nefna sem sýnir hve fljótt orðið sló í gegn. Strax í september kom út platan „Á slaginu – 12 smellir“ sem „er meiriháttar safnplata með öllum vinsælustu smellunum í dag“. Á dagskrá Fréttaútvarpsins, útvarpsstöðvar sem var rekin (ólögleg) í viku í verkfalli BSRB í október var liðurinn „Smellir – Það allra nýjasta úr poppheiminum“. Í nóvember kom út fyrsta tölublað af nýju unglingablaði sem hét Smellur. Auk þess urðu til samsetningar af orðinu eins og ellismellur um gömul lög sem voru vinsæl á sínum tíma, sumarsmellur, partísmellur, ofursmellur, stórsmellur, poppsmellur, rosasmellur, Eurovisionsmellur o.fl.

Þótt hit-lag hyrfi næstum alveg úr prentmiðlum eftir 1984 hefur það nú verið endurvakið í breyttri mynd – hittari. Elsta dæmi um það er í DV 31. október 1983: „Á plötunni eru 11 pottþétt McCartney-lög hverju öðru betra og syngur Michael Jackson með McCartney 2 HITTARA.“ Örfá dæmi eru um orðið frá næstu árum og kannski hefði það náð fótfestu ef smellur hefði ekki komið fram skömmu síðar. En undir aldamótin komst orðið skyndilega í mikla notkun og nú eru rúm 400 dæmi um það á tímarit.is. Í áratug frá 1997 eru langflest dæmin um orðið í DV og það virðist hafa stuðlað að útbreiðslu þess. Þetta orð fellur í sjálfu sér ágætlega að málinu og ekkert við það að athuga, en það hefur ekki komist inn í orðabækur enn sem komið er.

Þrátt fyrir þennan uppgang orðsins hittari er smellur enn mikið notað, a.m.k. í fjölmiðlum, en ég veit ekki hversu mikið það er notað í daglegu máli og í tónlistargeiranum. Það hefur einnig verið notað um ýmislegt fleira sem hefur slegið í gegn en lög, svo sem leiksýningar, uppistönd o.fl. Kosturinn við orðið er að það er stutt og lipurt í samsetningum en auðvitað var það til í málinu fyrir í annarri merkingu og einhverjum getur fundist það ókostur. En mér finnst þetta skemmtilegt dæmi um nýyrði (eða réttara sagt nýmerkingu) sem var sett fram til höfuðs erlendu orði sem var komið í mikla notkun og sló umsvifalaust í gegn. Slík dæmi eru ekki mörg. Ég sá einmitt um þáttinn Daglegt mál í útvarpinu í júlí og ágúst 1984 og fylgdist með þessu gerast.